30.04.1976
Sameinað þing: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3440 í B-deild Alþingistíðinda. (2830)

247. mál, heimildir Færeyinga til fiskveiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér í upphafi aðeins að segja hér örfá orð. Ég átti alls ekki von á því að hæstv. sjútvrh. sýndi svo litla stjórnmálamennsku í sinni ræðu eins og raun varð á áðan, þrátt fyrir þá staðreynd að hann fór að býsnast yfir því hversu lítil stjórnmálamennska væri til í þeim mönnum sem stæðu gegn samningunum við færeyinga.

Hæstv. ráðh. byrjaði að tala um skýrsluna frá 1972 sem var, eftir því sem hann sagði, jafnalvarleg og margumtöluð „svarta skýrsla“. Ég nenni satt að segja ekki að vera að elta ólar við þetta skítkast hæstv. ráðh. Það er ekki í fyrsta skipti sem hann leikur þennan leik og beinir máli sínu þá fyrst og fremst nú sem hingað til gegn fyrrv. hæstv. sjútvrh., sem hann veit að er nú fjarstaddur, og notar þess vegna tækifærið.

Ég ætla síðan að fara örfáum orðum um þá samninga sem hér liggja fyrir til umr., báða tvo, og tína þá til örfá atriði um hvorn þeirra.

Mér finnst að fyrir löngu sé nóg komið af samningum um fiskveiðar til handa útlendingum í íslenskri fiskveiðilandhelgi, eins og ástandið er á fiskstofnunum nú. Og þó að þessir samningar séu ekki um ákaflega mikið fiskmagn, nema það er nokkurt hjá færeyingum, þá er það mín skoðun að annaðhvort eigum við að halda okkur við það að segja að við höfum ekki afla til skiptanna handa öðrum og hvert það tonn, sem við leyfum útlendingum að veiða, sé frá okkur tekið, það er opinberlega viðurkennd staðreynd, — annaðhvort er að halda sér við þessar röksemdir eða þá hreinlega leggja þær röksemdir frá okkur sem hafa þó dugað okkur best í þeirri baráttu sem við heyjum nú í sambandi við landhelgismálið.

Í samningunum við norðmenn er gert ráð fyrir því að við hér á hv. Alþ. samþykkjum samninginn án þess að þar sé nokkuð tekið til um hversu mikið magn þeir megi veiða, þó að í samningnum standi jafnframt að vísu að við höfum sjálfdæmi um það hversu mikið magn það skuli vera. Þess vegna hefði það verið nauðsynlegt af hálfu stjórnvalda að geta þess í þessari þáltill. hvert magnið átti að vera, nákvæmlega, svo að menn séu ekki að skrifa upp á óútfylltan víxil með því að samþykkja samninginn eins og hann liggur fyrir.

Í samningnum segir m.a. að norðmenn megi fiska hér á tímabilinu frá 15. febr. til 1. des., þ.e.a.s. þeir eiga að fá að stunda þessar veiðar sínar um hávertíðina á skipum sem eru ekki lítil, — þarna er stærðarinnar getið, — þau mega vera allt að 125 fet, og jafnframt er sagt að í sérstökum tilvikum geti verið einnig um að ræða að leyfa öðrum skipum að veiða hér sem væntanlega gætu þá verið stærri. Skip, sem eru 126 fet að lengd, eru liðlega 38 m að lengd. Þetta löng skip eru svona 350–300 tonn, þannig að þarna er alls ekki um nein eimskip að ræða.

Ég verð að segja það sem mína skoðun að mér finnst óviðeigandi að samþykkja þessa samninga, í fyrsta lagi vegna þess að við höfum ekkert af okkar fiski að láta, í öðru lagi vegna þess að norðmenn hafa ekki veitt okkur neinn stuðning í landhelgismálinu, nema síður sé, og engin ástæða fyrir okkur að sýna þeim yfirleitt nokkurn skapaðan hlut í þeim efnum því að stuðningur í landhelgismálinu hefur ekki verið neinn frá norðmönnum í raun hingað til. Í sambandi við samninginn við færeyinga skal ég viðurkenna að ég lít það nokkuð öðrum augum að semja við færeyinga um fiskveiðar við Ísland heldur en aðrar þjóðir vegna þeirrar algeru sérstöðu sem færeyingar hafa. Hins vegar hlýtur að gilda sú sama röksemd gagnvart veiðiheimildum til handa færeyingum eins og fyrir aðrar þjóðir, að við höfum ekkert að láta af fiski nema hann sé þá tekinn frá okkur og með þessum samningi erum við að láta af okkar fiski 17 þús. smálestir. Hæstv. ráðh. fór með nokkrar tölur um það hversu mikið færeyingar hefðu veitt hér undanfarin tvö ár og nefndi þá 1974 og síðar. Ég vil segja það, að ef hæstv. ráðh. hefði nefnt veiðitölur færeyinga frá árunum þar á undan, þá hefði nokkuð annað komið í ljós, vegna þess að þá veiddu færeyingar langtum minna en á árinu 1974, þannig að þessi útkoma, 17 þús. lestir til handa færeyingum, er margfalt meira en þeir veiddu hér um 1970. Um niðurskurð á veiðum færeyinga er því alls ekki að ræða, nema sé miðað við þorsk og þá við veiðar þeirra á þessum fisktegundum allra síðustu ár. Þess vegna finnst mér óeðlilegt að leyfa færeyingum að veiða svona mikið. Mér hefði fundist að þessar tölur hefðu átt að vera lægri, mér hefði fundist að þær hefðu átt að vera mun lægri, vegna þess að þarna er í raun ekki gert ráð fyrir niðurskurði á veiðum til handa færeyingum á sama tíma og það liggur ljóst fyrir að við verðum að skera okkar veiðar niður á þorski sérstaklega og jafnframt á öðrum tegundum ef fara á eftir till. Hafrannsóknastofnunarinnar, þrátt fyrir það, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að við þyrftum aðeins að skerða veiðar okkar á þorski, en gætum aukið afla okkar og sókn okkar í aðrar tegundir. Það er ekki rétt. Eftir því sem þeir segja hjá Hafrannsóknastofnuninni, þá er um ákveðið hámark að ræða um veiðar á karfa og ufsa, og eftir samningana við vestur-þjóðverja er ekki meira eftir af þessu hámarksmagni, sem þeir benda á,en svo að við getum ekki aukið sóknina í þessar tegundir og allra síst ufsann. Það liggur alveg ljóst fyrir. Því geta menn flett upp hvenær svo sem þeir vilja í „svörtu skýrslunni“ þannig að það atriði var rangt ekki síður en mörg önnur í ræðu hæstv. ráðh., því miður.

Það eru einnig önnur atriði sem mér finnast fremur neikvæð í samningsuppkastinu við færeyinga, heldur en þetta sem er þó veigamest og þyngst á metunum, og það er að samkv. samningnum í 1. gr. er þeim leyft að stunda veiðar allt að 4 sjómílum frá grunnlínum og að 6 sjómílum við Grímsey. Þeir fá sem sagt að fara inn fyrir 12 mílna línuna. Auk þess stendur hér að handfæraveiðar skuli heimilaðar að grunnlínu. Þarna er færeyingum leyft að fara inn fyrir 12 mílna línana og mega stunda veiðar hér við Ísland samkv. þessum samningi allt árið.

Það er staðreynd að færeyingar eru ágætir fiskimenn. Þeir hafa verið hér lengi við land við fiskveiðar, og það er vitað mál að veiðar þeirra með linu og fleiri veiðar.færi hafa verið fyrir okkar fiskimönnum viða og um það hafa komið rökstuddar kvartanir frá togaraskipstjórum okkar. Með því að hleypa færeyingum svona nálægt landi án þess að nokkuð sé tekið til um það á hvaða svæðum þeir megi fiska, þeir megi sem sagt fiska hvar sem þeim sýnist utan við þessa línu án þess að um nokkur afmörkuð svæði sé að ræða, þá geta þeir verið innan um okkar menn með línu sína, þó að þar séu íslenskir togarar að veiðum, og getur linan vissulega valdið miklum truflunum á veiði þeirra og hefur gert. Það er ómótmælanleg staðreynd. Mér hefði fundist þess vegna að í þessum samningi hefði þurft að veita þeim veiðiheimildir á ákveðnum, fyrirfram tilteknum svæðum, þannig að menn hefðu þá vitað hvar væri von á veiðum færeyinga við landið.

Í sambandi við kaflann í samningnum sem fjallar um togveiðar, segir að færeyingar megi hafa hér 10 togveiðiskip á veiðum og þessi togveiðiskip megi veiða að 12 mílna linunni, þ.e.a.s. langstærstan hluta ársins mega þeir veiða innan um okkar skip hvar sem et við landið án nokkurra takmarkana eða tilskilinna svæða. Og það, sem mér finnst þó enn alvarlegra, er að þarna er talað um í almennum ákvæðum að þeir megi stunda veiðar með flotvörpu við Ísland. Flotvörpuveiðar íslendinga sjálfra eru takmarkaðar eða stendur til að takmarka þær, að vísu á vitlausum svæðum, vegna þess að hæstv. sjútvrh. treystir sér ekki til að takmarka flotvörpuveiðar fyrir Vestfjörðum, á því svæði þar sem þær eru þó stundaðar mest. Hins vegar gat hann vel fallist á að banna veiðar með flottrolli með suðurströndinni og vestur að Bjargtöngum, en alls ekki lengra, því að þá var hann kominn í það heilaga svæði þeirra vestfirðinga. Þar mátti ekki takmarka neitt. En í þessum samningi má ekki heldur takmarka flotvörpuveiðar færeyinga að því er mér sýnist. Þetta atriði, þó að það sé í augum margra hér kannske ekki stórt, þá sýnist mér það nokkuð stórt.

Í sambandi við samninginn við færeyinga, þar sem tiltekið er aflamagn um 17 þús. tonn, þá er auðvitað, ef af þessum samningi verður sem mér þykir líklegt, nauðsynlegt að hafa nákvæmt eftirlit með þessum veiðum. Það verður að hafa nákvæmt eftirlit með því að færeyingar noti sömu möskvastærð og við sem fer stækkandi og er nú 135 mm, en á að fara í 155 mm eða 160. Það þarf að hafa sams konar eftirlit með veiðum færeyinga varðandi smáfiskaveiðar og hjá okkur. En hver er reynslan af því eftirliti og þeim greinum um það sem settar hafa verið í samninga, t.d. við vestur-þjóðverja? Það hefði verið fróðlegt að spyrja hæstv. ráðh. að því, — ég sé að hér er hæstv. utanrrh. enn í salnum einn allra ráðh., — hversu oft íslensk varðskip eða eftirlitsskip hafi sett menn um borð: þýska togara til þess að kanna hvort þeir væru með löglega möskvastærð í netum sínum. Hversu oft hefur verið farið um borð í þýska togara til þess að kanna hversu mikill hluti af aflanum væri þorskur? Hversu oft hefur verið farið um borð í þýska togara til þess að athuga hversu mikill hluti af aflanum væri smáfiskur? Ég þykist vita svörin við þessum spurningum. Ósköp einfaldlega vil ég leyfa mér að fullyrða að þetta eftirlit hefur ekki verið neitt. Það mætti líka spyrja í þessu sambandi: Hvað hafa þjóðverjar fiskað mikið af þorski til þessa dags? Hver veit það? Það veit enginn. Það er vitað mál að þjóðverjar fiska ekki einungis við Ísland. Í einum og sama túrnum geta þeir farið til Grænlands og fiskað þar. Þeir geta veitt hér við Ísland, á þessum ágætu veiðisvæðum sem hæstv. ríkisstj. útvegaði þeim við Suðausturlandið, og þeir geta einnig sagst vera að fá þorsk á Færeyjabanka á heimleið. Þeir geta sem sagt bókað þann þorsk, sem þeir fá á Íslandsmiðum, á önnur veiðisvæði, og við höfum engin skilyrði til að fylgjast með því, því miður.

Þegar samningurinn við vestur-þjóðverja var til umr. hér í hv. Alþ. 26.–27. nóv. sl., þá sögðu hæstv. ráðh. hver á eftir öðrum, mig minnir að hæstv. utanrrh. hafi m.a. sagt það eða hæstv. dómsmrh., nema báðir hafi gert það, að um leið og vestur-þjóðverjar væru búnir að taka hér 5000 tonn af þorski, þá skyldi öllum veiðum vera hætt, vegna þess að það væri ekki hægt að koma í veg fyrir að einhver þorskur slæddist með þegar verið væri að veiða annan fisk. Þetta sögðu þeir. En þeir vita ekkert um hvað vestur-þjóðverjar eru búnir að fá mikinn þorsk. Og þeir vita heldur ekkert um það og af eðlilegum ástæðum geta þeir ekki vitað um það hvenær þeir verða búnir að fá 5000 tonn. Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið reynt að hafa eftirlit með veiðum þjóðverjanna, og því miður hefur það komið fyrir að þjóðverjarnir hafi sótt inn á alfriðað svæði við Suðausturland, í Berufjarðarál, það alfriðaða svæði sem var sett miklu stærra nú í vetur, en skyndilega og sennilega að beiðni þjóðverja minnkað án þess að tala við einn eða neinn um það efni. Við, sem störfuðum í fiskveiðilaganefnd, lögðum til að þarna yrði sett allstórt friðað svæði sem næði frá eystri kanti Berufjarðaráls og vestur á Papagrunn. Eftir stuttan tíma var þetta svæði allt í einu minnkað stórkostlega. Við lögðum til að þarna yrði friðað svæði eftir að hafa fengið beiðnir um þessa friðun frá þeim mönnum sem fiska aðallega á þessu svæði, þ.e.a.s. frá togaraskipstjórum, öllum togaraskipstjórum á Austurlandi. Þeir báðu sérstaklega um, að þarna yrði friðað. Og það er auðvitað hægt — og auðvitað skjalfest og ótvíræð staðreynd. En það var hæstv. sjútvrh. sem ekki var lengi að kippa þessu af fyrir vini sína, þýskarana.

Ef á að gera slíkan samning eins og þarna er um að ræða við færeyinga, þá þarf að líta eftir þessum hlutum og hafa það eftirlit raunhæft. Ég skal viðurkenna að það er ekki hægt að álasa hæstv. ríkisstj. eins harkalega og þyrfti að gera fyrir slælegt eftirlit í þessum efnum, ósköp einfaldlega vegna þess að Landhelgisgæslan hefur haft allt öðrum málum að sinna. Það skal viðurkennt að eins og stendur er sennilega erfitt að koma því við að líta mikið eftir þessum veiðum. En hitt er eftir sem áður staðreynd, að ég get ekki séð möguleikana á því að finna út hvenær við getum fengið nákvæmar upplýsingar um hvenær þjóðverjar hafa veitt þessi 5000 tonn af þorski.

Hæstv. sjútvrh. sagði m.a. áðan, þegar hann ætlaði að fara að kenna okkur hinum, þessum óbreyttu, eitthvað í stjórnmálamennsku, þ.e.a.s. þegar hann var ekki að kenna okkur alls konar fræði um hina og aðra hluti í sambandi við fiskveiðar og alþjóðamál og halda hér fyrirlestur um loðnu, spærling og sitthvað fleira, — og er það gleðilegt, ef bóksali vestan af Fjörðum er orðinn svona fróður í fiskveiðimálum íslendinga, — en hann vildi einnig kenna okkur stjórnmálamennsku. Hann sagði að það væru litlir stjórnmálamenn, sem neituðu nú að semja við færeyinga, vegna væntanlegra veiða okkar við Grænland þegar þar væri búið að færa út.

Ég verð að lýsa yfir því sem minni skoðun að ég er andvígur því að samþykkja þennan samning við færeyinga eins og hann er. Ég finn á honum marga galla, ég hef þegar nefnt nokkra. En það er einnig mín skoðun c g ég vil lýsa yfir því að þegar við höfum fengið fullt vald yfir okkar fiskimiðum, þegar við ráðum einir yfir okkar 200 mílum, þegar enginn hefur rétt til þess að sækja inn á fiskimið okkar hér við Ísland, þá, þegar við höfum valdið og eigum miðin, þá megum við semja við færeyinga, þá eigum við að gefa þeim leyfi, en ekki eins og á stendur í dag. Þá eigum við að koma til vina okkar og frænda, færeyinga, og bjóða þeim veiðar hér, þar sem við höfum fullan rétt og þeir hafa engar kröfur, það er mín skoðun. En eins og ástandið er núna, þá tel ég það miklu hæpnara, því miður. Þá getum við líka farið að semja við stór-danina sem ráða þá væntanlega Grænlandi. Þá getum við farið að semja við þá um að leyfa færeyingum hér veiðar og kannske einhverjum öðrum í því veldi og fengið í staðinn einhverjar heimildir við Grænland. Það er líka stjórnmálamennska þó að hún sé ekki vestan af Ísafirði.

Ég vil ekki vera að tefja tímann meira, þegar svo er áliðið, í sambandi við þetta mál. En ég vil þó segja að lokum örfá orð í sambandi við það sem kom inn í umr. áðan, þ.e.a.s. í sambandi við veiðar vestur-þjóðverja og það sem er efst á baugi núna í sambandi við þær, þ.e. um frestun eða framlengingu samningsins nú næstu daga. Það var ákveðið í haust, það var ákveðin skoðun stjórnarinnar í haust, þegar farið var að tala um samninga við vestur-þjóðverja að þeir yrðu alls ekki gerðir nema bókun 6 tæki gildi áður. Síðan var fallið frá því og þjóðverjum gefinn 5 mánaða frestur. Þá var jafnframt lýst yfir því af hálfu ráðh., hæstv utanrrh. m.a., að ef bókun 6 hefði ekki tekið gildi eftir 5 mánuði, þá skyldi samningnum frestað, eins og það var orðað, og þjóðverjum meinaðar veiðar. í því sambandi vil ég spyrja hæstv. utanrrh. fyrst hann er hér enn í salnum: Hvenær á að fresta samningnum, og hvort fá þjóðverjar að fara inn á þorskveiðisvæðið fyrir Vestfjörðum eða ekki? Það eru aðeins þessar spurningar tvær.

En það, sem ég vil þó bæta hér við, er um fjarskiptamálin sem hafa verið mikið í fréttum að undanförnu. Mér skilst að loftskeytamönnum þeim sem ekki vildu standa fyrir fjarskipatsambandi við óvinina, — þá á ég auðvitað ekki við færeyinga eða þjóðverja, heldur við erkióvini íslendinga sem hafa ráðist á okkur með hernaðarofbeldi, — þeim hafi nú verið skipað á ný að taka upp fjarskiptasamband við þessa bandita. Og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh. að því, hvort hann líti svo á að það sé brot á alþjóðlegum samningum að hafa ekki fjarskiptasamband eða neita að hafa loftskeytasamband við erlend herskip sem beita okkur hernaðarofbeldi á Íslandsmiðum. Það er skilningur minn á því atriði í þeim samningi sem gildir alltaf við öll venjuleg skilyrði, en fellur að sjálfsögðu úr gildi þegar um hernaðarátök eða ofbeldi er að ræða. Ég vildi þess vegna, auk þess að spyrja hæstv. ráðh, um skoðun hans á þessu máli, skora á hæstv. ríkisstj. að gangast nú fyrir því að það verði ekki haft samband við ofbeldismennina, nema þá kannske í algerum neyðartilvikum, en þeim verði ekki gert þægilegra að stunda ólöglegar veiðar á Íslandsmiðum með því að leyfa þeim að hafa hér samband við land.

Ég sagði víst áðan að ég væri á móti norsku samningunum alfarið og lýsi því yfir að ég mun greiða atkv. á móti þeim. Og ég hef það margt við væntanlega samninga við færeyinga að athuga, eins og ég hef rakið, að ég er andvígur þeim samningum eins og þeir eru, en mun ekki gefa yfirlýsingu að svo stöddu um það hvort ég greiði atkv. beint á móti þeim eða ekki vegna algerrar sérstöðu færeyinga í þessum málum.