03.05.1976
Efri deild: 94. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3450 í B-deild Alþingistíðinda. (2838)

257. mál, jarðalög

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 565 er frv. til jarðalaga sem ég hef leyft mér að leggja fyrir þessa hv. deild. Frv. svipaðrar gerðar hefur verið lagt fyrir hv. Alþ. áður, en náði þá ekki fram að ganga, og hafa nokkrar breytingar verið gerðar á frv. síðan það var hér til meðferðar.

Þetta frv. er til orðið með þeim hætti að á Búnaðarþingi árið 1971 var samþ. ályktun til stjórnar Búnaðarfélags Íslands og búnaðarmálastjóra um að hlutast til um það við landbrh. að hann skipaði n. til að endurskoða eftirtalin lög: Lög um kauprétt á jörðum, nr. 40 frá 15. apríl 1948. Ábúðarlög, nr. 36 frá 29. mars 19&1. Og í þriðja lagi lög um ættaróðul og ættarjarðir. Hlutverk þeirrar n., sem skipa átti, var að semja frv. til nýrra laga um framangreint efni eða breytingar á gildandi lögum. Tilgangur með. þessari endurskoðun var að aðstaða sveitarfélaga og einstaklinga, sem búsettir eru innan þeirra, við að ná og halda landi verði tryggð með sem bestum hætti og ábúðarlögin yrðu gerð einföld og réttlát í framkvæmd.

Hinn 18. ágúst 1971 skipaði landbrh. n. til að endurskoða þessa löggjöf og voru nm. þeir Ásgeir Bjarnason, forseti Sþ., Árni Jónasson erindreki, Sveinbjörn Dagfinnsson núv. ráðuneytisstjóri. Þessi n. skilaði svo frv. því sem á sínum tíma var lagt hér fram og hefur síðan verið endurskoðað.

Í það frv. til jarðalaga, sem hér liggur nú fyrir til 1. umr., er tekið saman efni sem er að finna í fernum lögum, auk þess sem í þessu frv. eru mörg nýmæli sem ekki hafa áður verið í íslenskri löggjöf.

Á undanförnum árum hefur eftirspurn eftir landi til annarra nota en landbúnaðar farið stórvaxandi. Einkum hafa jarðir verið keyptar háu verði þar sem góð aðstaða er til þess að setja niður sumarbústaði eða eftirsóknarverð hlunnindi fylgja jörðum, svo sem veiði. Verð slíkra jarða er þegar orðið það hátt að sjaldnast er viðráðanlegt fyrir bændur að kaupa þær og reynist oft fullerfitt fyrir sveitarfélög þrátt fyrir það að þau eigi lögboðinn forkaupsrétt. Afleiðingin er sú að margar vildisbújarðir hafa verið skákaðar niður, en það hefur torveldað eðlilegan búrekstur á mörgum og hefur föst búseta lagst niður vegna jarðarkaupa til félagssamtaka eða manna sem hafa ekki búskap í huga. Ég vil taka það fram við þessa umr., að ég tel rétt að gefa þéttbýlisbúum og öðrum, sem sækja eftir, kost á landspildum til ræktunar og til útivistarmöguleika og til þess að reisa þar sumardvalarhús. Reynslan hefur hins vegar sýnt að brýn þörf er á að fylgjast með slíkri ráðstöfun lands og hafa áhrif á hvar og hvernig landi er ráðstafað á þann hátt. Að öðrum kosti vofir yfir stórfelld röskun á búsetu fólks á dreifbýlissvæðum umfram það sem þegar er orðið og óeðlilegar verðhækkanir.

Frv. þessu ef að lögum verður, er ætlað að veita byggðarlögum aukið áhrifavald í þessum efnum og styrkja aðstöðu bænda, bændaefna og sveitarfélaga til jarðakaupa, skapa aðstöðu til að fylgjast með ráðstöfun fasteigna og fasteignaréttinda utan skipulagðra þéttbýlissvæða og hafa áhrif á verðlag þeirra.

Þau ákvæði, sem eru í þessu lagafrv. og hafa með vissu hamlandi áhrif á ráðstöfun á jörðum umfram það sem verið hefur, eiga sér hliðstæður í löggjöf nágrannaþjóða okkar. Hafa verið sett lög og reglur um þetta efni í Noregi allt frá 1909 og hafa þau lög verið nýlega endurskoðuð og voru.hert mjög við þá breytingu sem var gerð á þeim lögum 1974 eða 1976. Í Svíþjóð gilda að mörgu leyti svipaðar reglur og í Noregi að því leyti, að óheimilt er að selja bújarðir og lönd án heimildar frá landbrn., og lögð er áhersla á að eignarréttarskipti eigi sér stað fyrst og fremst þannig að kaupandi jarðar muni stunda landbúnað. Danir hafa á síðustu árum endurskoðað löggjöf um bújarðir og land utan þéttbýlissvæða. M.a. hefur þar haft áhrif á dani aðild þeirra að Efnahagsbandalaginu sem þeir telja að muni hafa mjög mikil áhrif á verð á landi og eftirsókn eftir landi hjá þeim.

Nýmæli í þessu frv. eru fyrst og fremst í II. kafla þess og er tilgangur með þeim að koma á fastari skipan en verið hefur um eigendaskipti og aðra ráðstöfun bújarða og lands utan þéttbýlissvæða í því skyni að hagsmuna bænda og annarra dreifbýlisbúa verði betur gætt en veríð hefur, auk þess sem með lagafrv. þessu er stigið skref í þá átt að halda landverði niðri og hindra brask með land. En til þess að slíkt verði sem mest hindrað þarf auk þess, sem mælt er fyrir í þessu frv., að setja ákvæði í skattalög um hvernig gróði, annar en sá sem fæst með eðlilegum verðlagsbreytingum, skuli skattlagður. Er þar sérstaklega átt við önnur lönd en þau sem eru til landbúnaðar ætluð.

Með frv. þessu er verið að færa út í byggðarlögin visst vald, sem þau hafa alls ekki haft, til þess að hafa áhrif á hvernig landið er notað og hafa áhrif á verðlag eigna og umráða. Í frv. er gert ráð fyrir að stofna jarðanefnd og samvinna verði á milli jarðanefndar, sýslunefnda og sveitarstjórna. Hefur þetta verið í athugun. Í frv., sem lagt er fram nú, hefur þetta verið fært í það horf að gera vald sýslunefnda og samstarf við jarðanefnd þar að lútandi meira en gert var ráð fyrir í frv. upphaflega. Auk þess er svo jarðanefnd ætlað að vinna m.a. í bágu landnámsstjórnar og fá samstarf þar um í sambandi við frv.

Auk þess að fylgjast með og hafa áhrif á eigendaskipti lands og verð þess mundi samkv. frv., ef að lögum yrði, verða meiri aðgát höfð en verið hefur um skiptingu jarða sem mörg dæmi eru um að hafi verið gerð án nægilegrar forsjár.

Þá er gert ráð fyrir í frv. að hægt sé að sameina að nýju jarðarhluta sem skipt hefur verið út úr jörðum, og sé nú ekki rekið á þeim. Dæmi eru þess, um sameign á jörðum, þar sem einn sameigandi situr jörðina, að slíkt hafi skapað erfiðleika fyrir bóndann við rekstur og framkvæmdir á jörð. Í frv. þessu er opnuð leið úr slíkum vandræðum. Ráðh. getur heimilað honum að leysa til sín eignarhluta meðeigenda sinna samkvæmt 16. gr. þessa frv.

Í III. kafla frv. þessa er fjallað um forkaupsrétt á jörðum og jarðahlutum. Um það gilda nú lög nr. 40 frá 1948. Þýðingarmikill breyting frá þeim lögum er að leiguliði öðlast fyrst eftir 10 ára búsetu forkaupsrétt á undan sveitarstjórn, en samkv. núgildandi lögum nægir 3 ára búseta til þess að leiguliði hafi forkaupsréttinn á undan sveitarstjórninni. Hér er því um verulega breytingu að ræða frá því sem gildandi lög gera ráð fyrir.

Nýmæli felast í 25. gr. frv. og er hugsað til þess að seljandi og aðili, sem vill kaupa, setji ekki mjög hátt verð á eign sína í því skyni að skáka sveitarstjórn frá, en geri síðan e.t.v. kaup á annan hátt en sveitarstjórn var kynnt þegar forkaupsréttur var boðinn. Þá er frestur sá, sem sveitarstjórn hefur til þess að svara forkaupsrétti, lengdur úr 15 dögum í 4 vikur. Byggist þetta á því að nokkurn tíma getur þurft fyrir sveitarstjórn til þess að athuga kauptilboð og huga að fjármagnsútvegun og fleira vegna áformaðra kaupa. Hygg ég að rétt sé að gefa rýmri frest í þessu skyni en nú er.

Í því, sem ég hef nú sagt, hef ég getið helstu atriða í þessu frv., en vil þó bæta hér við að í V. kafla frv., sem er um Jarðasjóð, er að finna verulegar breytingar frá því sem nú er í lögum um Jarðeignasjóð ríkisins. Jarðasjóður hefur nú rýmri heimildir til að kaupa jarðir en áður. M.a. hefur sjóðurinn samkv. heimild frá 1972 keypt um 20 jarðir af bændum sem ekkert annað blasti við en að yfirgefa jarðir sinar vegna fjárhagserfiðleika þrátt fyrir vilja þeirra til áframhaldandi búsetu.

Herra forseti. Ég hef nú í stuttu máli gert grein fyrir þessu frv. og sé ekki ástæðu til að hafa öllu lengri framsöguræðu að þessu sinni, ekki síst þar sem þetta frv. hefur áður verið flutt hér í hv. d. þó að nokkur breyting hafi orðið á hv. þm. í deildinni. Til þess að hraða fyrir málinu vil ég fara fram á það við hv. landbn. þessarar hv. d. að hún taki upp samstarf við landbn. Nd. til þess að vinna að máli þessu, því að ósk mín er að það nái fram að ganga áður en þingi lýkur nú. Ekki síst finnst mér það mögulegt þar sem þetta mál er hér áður kunnugt og hefur verið allverulega rætt. Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr, verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.