03.05.1976
Efri deild: 94. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3470 í B-deild Alþingistíðinda. (2859)

256. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Sá, sem einu sinni hefur blásið, hann hlýtur að mega blása aftur. Það, sem ég vildi fyrst og fremst gera athugasemd við hjá hv. 12. þm. Reykv., er sú fullyrðing, að Grænmetisverslunin hafi gjörsamlega brugðist hlutverki sínu. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því, að þessi fullyrðing sé rétt, og ég hef enga sannfæringu fyrir því, þó að hæfist hér samkeppni um innflutning, að það mundi breyta mikið kartöflugæðunum. Þær eru misjafnar, kartöflurnar. Það er af ýmsum ástæðum misjafnlega auðvelt að fá góðar kartöflur, og það mun út af fyrir sig ekki breytast þó að fleiri flytji þær inn.

Annað, sem ég vildi nefna, er að kartöflur hafa alltaf verið hér undir mjög ströngu verðlagseftirliti. Innlendar kartöflur eru verðlagðar af Sexmannanefnd, og Sexmannanefnd fylgist mjög nákvæmlega með reikningum Grænmetisverslunarinnar yfir kostnað við flokkun og pökkun og annan rekstrarkostnað verslunarinnar. Það er rétt að Grænmetisverslun landbúnaðarins á ágætt hús yfir sig. Þetta hús er gamalt og ágætt. En ég tel það enga goðgá að þessi viðskipti hafi sæmilega húsnæðisaðstöðu. Það er Grænmetisversluninni nauðsynlegt. Hún hefur lagt í mikinn kostnað við geymslur sem eru því miður kannske varla nógu miklar. Kartöflurnar eru geymdar bæði hér í Reykjavík og þó aðallega úti um land þar sem þær eru framleiddar.

Ég vil ekki bæta miklu meiru við það sem ég sagði hér áðan. Þetta mál þarf athugunar við, og mér finnst að hv. flm. frv. hafi gerst nokkuð fullyrðingasamur í málflutningi sínum. Ég efast stórlega um að sú bót yrði jafnvel á kartöflugæðum með breyttu fyrirkomulagi sem hann væntir. En í engu svaraði hann þeim atriðum sem ég tel aðalatriði þessa máls og aðalorsökina fyrir því að ekki er ástæða til að breyta um, og það eru öryggismálin í sambandi við kartöfluframleiðsluna og sá vilji okkar, sem ég álít að við höfum flestir, að við framleiðum sem mest af hinum nauðsynlegustu neysluvörum sjálfir.