04.05.1976
Neðri deild: 98. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3584 í B-deild Alþingistíðinda. (2952)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Gunnlaugur Finnsson:

Virðulegi forseti. Ég flyt á þskj. 608 brtt. við þetta frv., brtt. sem stendur nokkuð til hliðar við þau efnisatriði sem rædd hafa verið af þeim hv. ræðumönnum sem tekið hafa til máls á undan mér við þessa umr. Brtt. er við 8. gr. l., 2. mgr., og gengur út á lítið innskot í þá grein þar sem gert er ráð fyrir sérstökum ráðstöfunum bar sem mjólkurþörf einstakra byggðarlaga verður aðeins fullnægt með kostnaðarsömum flutningum milli sölusvæða. Ég hef hagað brtt. þannig að hún raski sem minnst tilgangi frv. og efnisatriðum í heild, en er þó að mínu mati býsna mikilvæg og snertir mál sem ég ræddi þegar frv. þetta var til 1. umr. í öndverðum febrúarmánuði s.l.

Ég gerði þá grein fyrir afstöðu minni til frv., og ég vil vísa til þess, sem ég þá sagði, og sé ekki ástæðu til þess að hafa hér uppi langa tölu varðandi þessa brtt. mína, enda tiltölulega lítill tími. Ég gerði þá grein fyrir því að ég líti svo á, að þrátt fyrir þá kosti, sem voru settir í framleiðsluráðslögin, sem ég hygg að séu að stofni til frá árinu 1347, þá kosti að þar var gert ráð fyrir því að það fengist jafnt grundvallarverð fyrir landbúnaðarvörurnar hvar sem er í landinu, þá teldi ég að þá hafi verið gengið út frá því að aðstaða manna til framleiðslu væri líka nokkuð svipuð. Ég hygg að í því tilviki hafi jafnvel orðið nokkur breyting á, og svo mikið er víst að síðan hefur almennt séð býsna mikið vatn runnið til sjávar og í þjóðfélaginu hafa á öðrum sviðum verið gerðar ráðstafanir til þess að menn standi sem jafnastir við sinn atvinnurekstur, bæði að því er snertir verð fyrir vöru sem og kostnað vegna atvinnurekstrarins.

Í þessu tilviki vil ég t.d. benda á það, að það tók margra ára baráttu að fá verðjöfnun á olíu. Það þótti í eina tíð ekki sjálfsagt að olía væri seld sama verði hvar sem vera skal um landið. Það hafði þá feikilega mikil áhrif á afkomu atvinnufyrirtækja sem og einstakra heimila hvort kaupa varð olíuna á hinn dýra verðinu eða á því verði þar sem hún fékkst ódýrust.

Það hefur verið rætt um það árum saman að það væri sanngirnismál að raforka væri seld sama verði hvar sem vera skal á landinu. Þar hefur verið við ramman reip að draga. Söluaðilar olíunnar eða dreifingaraðilar voru aðeins þrír í landinu, en rafveitur í landinu skipta tugum og þar hefur ekki náðst samkomulag né heldur löggjafarvaldið verið reiðubúið til þess að taka af skarið og gera þær ráðstafanir að mönnum yrði tryggð alls staðar raforka á sama verði. Hér er milljónamunur eða meira hjá stórum og sambærilegum fyrirtækjum þar sem raforka er dýrust og þar sem hún er ódýrust.

Fyrir nokkrum árum var mjög mikið rætt um í bændastétt að það bæri að gefa áburðarsöluna frjálsa. Það varð ekki, sem betur fer, vil ég segja. Það skipulag hefur þar gilt að áburður er seldur á jöfnunarverði við hvaða höfn landsins sem vera skal. Áburðurinn er að vísu eitthvað ódýrari látinn á bila í Gufunesi, en það er líka gert ráð fyrir sérstökum flutningastyrk þar sem lengst er að flytja hann með bilum. Mismunurinn á áburði til bænda er tiltölulega lítill. Munurinn er sem nemur mismunandi hafnargjöldum eða mismunandi kostnaði við uppskipun og afhendingu hans.

Hér má svo aftur á móti bera saman olíu annars vegar og rafmagn hins vegar, áburð annars vegar og fóðurbæti hins vegar. Þar eru innflutningsaðilar fjölmargir. Þar er verðið mjög mismunandi, eflaust bæði eftir innflutningsfyrirtækjum sem og þeim stöðum þar sem verslunin fer fram. Ég gat þess við 1. umr. að með því að fara vægt í sakirnar, mjög vægt í sakirnar, þá mætti reikna með milli 150 og 160 þús. kr. mismun á meðalbúi bara á þessari einu rekstrarvöru. Og enda þótt fundið sé vegið meðaltal fyrir þessa grein, fyrir þennan þátt framleiðslukostnaðar, þá sé ég ástæðu til þess að vekja athygli á því að vægi hinnar dýrari vöru er ákaflega lítið því að hún er tiltölulega dýr í þeim héruðum þar sem framleiðslan er lítil, dýrari en þar sem stærstu landbúnaðarhéruðin eru og framleiðslumagnið er mest og notkun fóðurvörunnar mest. Þess vegna vegur þetta háa verð tiltölulega lítið inn á vegið meðaltal í framleiðslukostnaðinum.

Nú var það ekki svo að ég gerði till. um að það yrði farið í þennan endann í bili til þess að jafna þennan kostnað og þar með rekstrarafkomu búanna. Ég geri mér grein fyrir því að ef það verður gert, þá þarf að setja um það nokkuð nákvæmar reglur til þess að koma í veg fyrir misnotkun. Og ég gerði mér ekki vonir um að það yrði hægt að setja slíkar reglur ef þetta frv. ætti fram að ganga nú á þessu þingi. Ég fór hins vegar eingöngu fram á að tekið yrði upp í frv. eitt lítið heimildarákvæði sem þó var býsna þýðingarmikið, ákvæði um að Framleiðsluráði yrði heimilað að styðja að aukinni framleiðslu á þeim svæðum þar sem nú þegar þarf að fullnægja eftirspurninni með kostnaðarsömum flutningum. Ég geng út frá því sem gefnu að þetta yrði siðar til umfjöllunar Framleiðsluráðs, rn. og Stéttarsambandsins til nánari útfærslu. Ég vil geta þess að Stéttarsambandið í sinni umsögn um frv. lagði til að þetta yrði gert, en landbn. sá sér ekki fært að verða við því.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að í slíkri umfjöllun kæmu upp vandasöm mál: Hvenær ætti að taka upp fjárstuðning við ákveðin svæði? Yrði það strax og flytja þarf dýrum flutningum mjólk á milli mjólkursölusvæða, eða yrði það gert þegar um er að ræða alvarlegan árlangan skort? Ég fyrir mitt leyti tel engan vafa leika á um það að hér er um að ræða fyrst og fremst byggðarlög sem eiga í vök að verjast og þar sem ástandið er orðið þannig að árlangur skortur er. Ef það er orðið svo í stærstu héruðum landsins að um skort er að ræða, þá tel ég það mál vera annars eðlis. Þá er það 'orðið spurning um hvort hlutfallið á milli verðlagningar sauðfjárafurða og nautgripaafurða er rétt og það hljóti að leiðréttast eftir þeim leiðum.

Ég hef lýst því áður að ég telji að einhverjar slíkar aðgerðir séu nauðsynlegar, og ég hef sagt að ég tel að í dag sé þetta virk spurning á einum stað á landinu hvað snertir mjólkurframleiðslu, þ.e.a.s. á sölusvæði Mjólkursamlags Ísfirðinga, þar sem stöðugur samdráttur hefur orðið síðasta áratug. Og ég vil sérstaklega vekja athygli á því að þegar við erum að ræða um fjármagn til þessara hluta, þá er gert ráð fyrir því að verðjöfnunargjald komi til á milli mjólkursamlaga þannig að samsvarandi verð fáist. Með sífellt minnkandi framleiðslu verður rekstur slíkrar stöðvar óhagkvæmari með hverjum mjólkurlítranum sem mjólkurframleiðslan dregst saman um. Og það kann að vera spurning hvenær réttlætanlegt sé að reka mjólkurbú. En það má segja að það sé ekki höfuðverkur þeirra sem að því standa, svo lengi sem verðjöfnunargjald er greitt til þess að tryggja bændum að vissu marki verðlagsgrundvallarverð fyrir þá mjólk sem framleidd er. Ég tel þess vegna að það sé skynsamlegt og við verðum að horfast í augu við þá þróun sem hefur átt sér stað, það sé skynsamlegt að gera fyrir fram ráðstafanir til örvunar sem snýr þessari þróun við. Og þarna er spurning um það hvort Alþ. er reiðubúið til þess að standa að byggðarlegum ráðstöfunum í þá átt sem gert er í Noregi, en þar mun vera heimildarákvæði sem eru framkvæmd og þar sem heimild er notuð til þess að greiða hærra gjald á framleiðsluvörur í vissum landshlutum.

Mér þykir leitt að landbn. skuli ekki vera öll stödd hér í kvöld. Ég sakna hér t.d. hv. 1. þm. Suðurl. Og það hefði gjarnan mátt vekja athygli á og spyrja hvort það væri hugsanlegt, ef slík ákvæði ættu ekki heima í framleiðsluráðslögum, að Byggðasjóður vildi taka slíkt upp í sína stefnuskrá. Ég verð að segja, að ef það væri ekki fyrir hendi, þá má segja að það sé sama hvaðan gott kemur. En ég tel að hér sé um mjög veigamikið atriði að ræða, atríði sem ekki þolir þá bið sem áreiðanlega verður við endurskoðun á framleiðsluráðslögunum, þolir ekki að bíða eftir niðurstöðu varðandi verðmyndunarkerfið í heild og önnur þau atriði sem þar verða tekin fyrir.

Ég held að til þess að snúa þessari þróun við sem ég er að tala um ekki að ástæðulausu og er ekki hégómamál, — ég held að þar verði að vísu að koma til fleiri atriði en þau sem ég er að tala um hér. En það er eitt af þeim atriðum sem verða að koma.

Á þessu svæði er enn öll mjólk flutt í mjólkurbrúsum. Þar er ekki tankvæðing komin á. í dag er ekki talið hagkvæmt að reisa minna en 40 kúa fjós. Enginn ungur maður hefst nú handa við slíkt ef hann á að flytja alla sina mjólk í mjólkurbrúsum fram og til baka um erfiða vegi.

Þess vegna þarf að koma til annað atriði. Slík breyting getur ekki átt sér stað nema tekið sé á samgöngumálunum. Þar verður að gera vissar lagfæringar til þess að hægt sé að tryggja nokkurn veginn samgöngur að vetri til og flutning á þessum framleiðsluvörum.

Í þriðja lagi vil ég segja að það þurfi þá tímabundnu staðaruppbót sem ég hef verið að tala um og ég hef óskað eingöngu eftir að Framleiðsluráðinu verði gefin heimild til að taka ákvörðun um ef því sýndist að það væri rétt, og ég tel að það eigi að gera.

Og á fjórða lagi tel ég að það þurfi að koma sérstök lánafyrirgreiðsla til þeirra sem vilja reisa fjós og önnur mannvirki til slíkrar framleiðslu. Það dugar þar ekki að þessi atvinnugrein búi þannig að lánsfé að það þurfi að biða 3 ár eftir því að fá lánafyrirgreiðslu ef viðkomandi aðili ætlar að hefja framkvæmdir. Það dugar ekki, ef ungur maður hyggst stíga það skref og hefur sótt um það á þessu ári, að geta ekki fengið slíka lánafyrirgreiðslu, jafnvel ekki þó að hann hafi sótt um það á s.l. ári, ef hann hefur ekki getað fengið leyfi til þess þá. Og mér er til efs að það mundu margir vera ánægðir með þá möguleika sem fást við atvinnurekstur almennt.

En það er engin hætta á því, eins og stendur, að það reyni á þetta atriði, vegna þess að þeir, sem eru vanir því að flytja mjólk í sínum brúsum, hugsa ekki um hvað langan vinnudag þarf að vinna. Þegar þeir hætta, þá verða engir sem taka við þessari framleiðslu ef þær forsendur verða ekki fyrir hendi sem ég taldi hér upp, fyrstu þrjár. Og ég vil ítreka það, að ég tel að þetta sé ekki aðeins spurning um það hvort sveitir verða byggðar. Þetta er ekki síður, — ég legg á það áherslu, — þetta er ekkert síður öryggisatriði fyrir íbúana í kaupstöðunum og þorpunum. Það er ekki hægt að fullnægja grein framleiðsluráðslaganna um að þessar vörur skuli vera til á markaði nema þessi framleiðsla eigi sér stað.

Það kann vel að vera að það sé hægt að geyma mjólk lengur en gert hefur verið áður. En ég held samt miðað við þá vetur sem við þekkjum, og það hefur sýnt sig til þessa að það hefur ekki verið hægt að hafa þessar vörur á markaði þannig að þær hafi fullnægt eftirspurn, fyrir utan það hvaða áhrif það hefði svo í byggðalegu tilliti. Niðurstaða mín er þess vegna sú, að ég hef ekki fyrir mitt leyti getað unað þeirri niðurstöðu sem n. komst að. Ég tel að málið þoli ekki bið, og ég tel að þessi þáttur sé jafnþýðingarmikill og þeir aðrir þættir sem fram koma í frv. Þess vegna er það mér að meinalausn þó að þetta frv. verði ekki samþ. á þessu vori og bíði haustsins, ef það tekst að koma þá slíku ákvæði inn.