04.05.1976
Neðri deild: 98. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3591 í B-deild Alþingistíðinda. (2954)

127. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið felur frv. þetta í sér nokkrar breytingar á framleiðsluráðslögum og þó fyrst og fremst tvær, eins og greinilega kom fram í ræðu hv. frsm. minni hl. landbn. Aðalbreytingin, sem er meginefni þessa máls, fjallar um mjólkursölu og mjólkurdreifingu og felur það í sér að afnuminn er réttur mjólkurbúa og Mjólkursamsölu til einkasölu á mjólk í smásölu og nær réttur þessara aðila til einkasölu ekki nema til heildsölu.

Það er öllum kunnugt að þetta mál er gamalt ágreiningsefni sem oft hefur verið fjallað um, bæði hér á Alþ. og utan þess á undanförnum árum. Sú hefur orðið raunin í tímans rás að flestir eða nálega allir eru nú orðnir á eitt sáttir um að það sé hyggileg skipan sem þetta frv. gerir ráð fyrir um þetta efni, og er það vel.

Um þá tæknilegu erfiðleika. sem vissulega eru því samfara að færa mjólkursöluna í smásölu hér í Reykjavík t.d. alfarið til kaupmanna frá Mjólkursamsölunni, skal ég lítið ræða. Þeir erfiðleikar eru nokkrir og einmitt af því tilefni hefur verið lengdur sá frestur sem frv. upphaflega gerði ráð fyrir til þess að þessi breyting tæki gildi.

Ég hygg að fá mál hafi verið athuguð af meiri gaumgæfni í landbn. Nd. en einmitt þetta, og ég held að ég megi segja að þeir aðilar, sem n. kvaddi á sinn fund, bæði af hálfu Kaupmannasamtakanna og af hálfu Mjólkursamsölunnar, Framleiðsluráðs og raunar aðrir aðilar, hafi haft fullan skilning á og viljað leggja sig í líma við að sigla fram hjá þeim agnúum sem sumir hafa óttast í sambandi við þessa breytingu. Og það er í fullu samkomulagi við þessa aðila gert að fresturinn til gildistöku er lengdur til 1. febr. n.k.

Ég vil taka það fram út af því sem fram kom hjá hv. 7. þm. Reykv., frsm minni hl. n., að hann óttaðist að þessi breyting hefði í för með sér aukinn dreifingarkostnað á mjólk og mjólkurvörum, þá er, eins og hér hefur raunar komið fram, það mál undir ákvörðunum Sexmannanefndar komið. Ég tel að engin ástæða sé til þess að gera því skóna að svo fari. Kaupmenn, sem sótt hafa á um að fá leyfi til mjólkursölu, hafa jafnan látið í ljós að hagur þeirra í sambandi við sölu á mjólk og mjólkurvörum væri fyrst og fremst fólginn í því að mjólkursalan drægi til sín viðskiptavini og hefði í för með sér aukin viðskipti á öðrum varningi. Og ég held að við verðum að treysta því að þetta sjónarmið verði ráðandi áfram eftir að kaupmenn hafa fengið mjólkursöluna í sinar hendur og Sexmannanefnd geti þannig með góðri samvisku haldið nokkuð í við hækkun dreifingarkostnaðar á mjólk. Ég held þess vegna að þessi ótti sé ástæðulaus og að ekki verði ástæða til að reikna dreifingarkostnað og álagningu á mjólk í smásölu því fyllsta verði sem sala og dreifing þessarar vöru í raun útheimti ef önnur atriði væru ekki reiknuð inn í það dæmi. Að öðru leyti ætla ég ekki að fjalla um þessa breytingu á skipan mála sem er aðalefni þessa frv. En ég vil þó aðeins taka það fram, að svo er málum komið að mér sýnist að það væri mjög óheppilegt og horfði jafnvel til mikilla vandræða ef ekki tækist nú að afgreiða þetta frv., og er ófyrirséð hvað af því leiddi í sambandi við hag og rekstur Mjólkursamsölunnar hér í Reykjavík og þá um leið framtíð þessa máls. Þess vegna tel ég það mjög mikilvægt að nú takist á þessu Alþ. að afgreiða þetta mál og að af fullum krafti verði unnið að því að undirbúa þá breytingu sem hér er um að tefla svo að þeim undirbúningsráðstöfunum, sem nauðsynlega þarf að koma í framkvæmd áður en breytingin tekur gildi, verði lokið fyrir 1. febr. n.k.

Það kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv. að annað aðalefnisatriði þessa frv., sem er þó miklu minna, er fólgið í því að taka verðjöfnunargjöld upp í dreifingarkostnað. Þetta er nýmæli og þetta má segja að sé nokkur breyting frá því, sem er í gildandi lögum. Hins vegar er um miklu minni breytingu að ræða og vafasamt hve mikla breytingu er um að ræða þó að inn í verðjöfnunargjöldin sé tekinn fjármagnskostnaður mjólkurbúa og sláturhúsa eins og raunar hefur hér verið drepið á. Þar er fyrst og fremst um að ræða breytingu á lögum til að taka af tvímæli sem vissulega hafa verið í sambandi við skilning á lögunum og framkvæmd þeirra á undanförnum árum. Þó hefur framkvæmdin með samkomulagi aðila verið með þeim hætti sem frsm. meiri hl. n. lýsti áðan úr þessum ræðustól og þarf ekki að endurtaka. Þar er því ekki um neina meiri háttar breytingu að ræða, aðeins þá breytingu á lagagreininni til þess að taka af tvímæli að heimilt sé að reikna fjármagnskostnaðinn inn í verðjöfnunargjöldin.

Ég held að ekki sé ástæða til þess að bæta við það, sem hæstv. landbrh. sagði í sambandi við e-lið 9. gr. frv. Það held ég að blasi við öllum, að hann er eins og raun er á í frv. fyrir mistök, og það hefur ekki verið meining hæstv. ríkisstj. að frv. færi fram með þeim hætti sem það var hvað þetta snerti.

Ég held einnig að það sé ástæðulaust að gera því skóna af hálfu hv. 7. þm. Reykv. að það hafi verið einhver undirmál í því af hálfu hæstv. ríkisstj. eða hæstv. landbrh. að koma fram þeim breytingum sem felast í þessu frv. í sambandi við verðjöfnunargjöldin áður en n. væri skipuð til þess að fjalla um heildarendurskoðun framleiðsluráðslaga. Eins og hv. þm. er kunnugt er þetta frv. flutt fyrir áramót eða á haustþinginu, en það kom ekki verulega á dagskrá að skipa n. til endurskoðunar á lögunum fyrr en á síðari hluta þessa vetrar, enda þótt þar væri um að ræða að uppfylla fyrirheit sem höfðu verið gefin alllöngu áður. Þess vegna held ég að ástæðulaust sé að gera því skóna að þegar þetta frv. var flutt hafi nokkur undirmál verið með í því efni. Þetta hygg ég að hv. þm. Eðvarð Sigurðsson viðurkenni við nánari íhugun, enda þarf ekki að efa sanngirni hans og réttsýni í málum sem þessum.

Ég held að ég fari ekki frekar út í efnisatriði þessa frv., en ég vil fara örfáum orðum í fyrsta lagi um þá brtt. sem hér liggur fyrir á þskj. 608 frá hv. 4. þm. Vestf. Það var skoðun n. eða a.m.k. yfirgnæfandi meiri hl. landbn. að ekki bæri að taka inn í þetta frv. ný efnisatriði, og það hefur ekki verið gert, frá því að frv. var lagt fram. Þetta tel ég að sé eðlilegt sjónarmið með tilliti til þeirrar heildarendurskoðunar sem stjórnskipaðri n. verður falið að vinna á næstu mánuðum. í öðru lagi var innan n. ágreiningur um efni þeirrar brtt. sem hv. þm. Gunnlaugur Finnsson hefur flutt, og það liggur fyrir að n. sem slík hefur með engu móti viljað ganga inn á að taka hana upp að þessu sinni.

Í sambandi við þessa till. vil ég segja það, að þar er gripið á vandamáli sem eðlilegt er að þm. leiði hugann að. Ef svo er háttað að mjólk skortir árlangt, eins og hv. 4. þm. Vestf. ræddi um, á vissum landssvæðum eða að landbúnaður yfir höfuð er í hættu með það að þurrkast út á tilteknum landssvæðum, þá er um stærra mál að ræða en svo að það verði alfarið leyst í sambandi við verðlagsmál landbúnaðarins. Þar er um þjóðfélagslegt vandamál að tefla sem mér sýnist yfir höfuð að sé mál þjóðfélagsins í heild að leysa, en ekki að leyst verði, a.m.k. ekki alfarið, í sambandi við verðlagningu á búvörum og þar með annað tveggja af bændastéttinni í heild eða af hálfu neytenda með því að veita því inn í verðið. Þetta mál þarf a.m.k. mjög mikillar athugunar við og er eðlilegt að það verði gert með því að gaumgæfa það frekar við endurskoðun laganna, og væntanlega hefur nefndin þá meiri tíma til þess að leita allra úrræða sem hugsanleg eru í þessu efni.

Ég held að það sé ekki ástæða til að fjalla hér um mörg þau efni sem hv. þm. gat um, enda koma þau þessu máli lítt við svo sem vegakerfi, lánveitingar Stofnlánadeildar o.s.frv. Enda þótt allt þetta snerti hag og afkomu bænda á tilteknum svæðum og raunar um landið í heild, þá er það eðli sínu samkv. óskylt lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins og á því varla heima undir þessum dagskrárlið. Ég held þess vegna að það sé mjög eðlileg sú afstaða sem landbn. hefur tekið í þessu efni, og er ástæða til þess að vona og ætla að lausn finnist á vandamálum slíkra byggðarlaga í sambandi við framhaldsmeðferð þessa máls og eftir öðrum leiðum, sem ekki síður sýnast færar.

Hv. þm. Eðvarð Sigurðsson varpaði fsp. í fyrsta lagi til formanns n. og frsm. meiri hl. og til annarra þm. um það hvort núverandi verðlagskerfi landbúnaðarins væri nægileg trygging til þess að jafna kjör bændastéttarinnar innbyrðis. Því fer vitaskuld fjarri að svo sé, enda verð ég að líta svo á, að ekkert verðlagskerfi geti gert það og það væri óeðlilegt, ef verðlagskerfi væri byggt upp með þeim hætti að það tryggði bændum jöfn kjör hvernig svo sem þeir höguðu sínum atvinnurekstri og hvernig svo sem aðstæður þeirra væru að öðru leyti. Ég vil hins vegar taka það fram, að núverandi verðlagskerfi landbúnaðarins er þannig úr garði gert að það hvetur til aukinnar framleiðni bændastéttarinnar. Aukin framleiðni í þessari atvinnugrein eins og öðrum er það sem allir ættu að vilja keppa að og ekki síst þeir sem eru fulltrúar neytenda, því að framleiðni felur það í sér að varan er framleidd með lækkuðum framleiðslukostnaði. Það má segja, að verðlagningarkerfið hvetji til innbyrðis samkeppni bændanna vegna þess að um meðaltalsbústærð er að ræða þar sem kostnaðarliðir og tekjuliðir eru reiknaðir út og sá bóndi, sem getur framleitt sína vöru með meiri hagkvæmni en verðlagsgrundvöllurinn gerir ráð fyrir, hann nær í fyrsta lagi meiri tekjum út úr sínu búi og hans búrekstur verkar í þá átt að lækka framleiðslukostnað vörunnar. Þetta tel ég að vissu leyti verulegan kost við þetta verðlagningarkerfi, og það ætti ekki að varpa því kerfi fyrir róða og að óhugsuðu máli og taka upp annað, a.m.k. meðan ekki er sýnt fram á að annað sé betra.

Ég skal ekki ræða um þetta miklu frekar. En ég trúi því að það hafi verið af heilindum mælt og hef enga ástæðu til þess að ætla annað, sem fram kom hjá hv. 7. þm. Reykv., að hann vildi að hagur bænda yrði með þeim hætti að þeir næðu sambærilegum tekjum við aðrar stéttir, viðmiðunarstéttirnar sem kallaðar eru, og að hann taldi einnig að samstarf ætti að takast sem best á milli neytenda og framleiðenda. Hagsmunir neytenda og framleiðenda fara í flestum greinum saman, og það er full ástæða til þess að vinna þannig að málum og þessi lög, framleiðsluráðslögin, eru einnig byggð upp um samstarf þessara aðila í þjóðfélaginu. Þess vegna held ég að það sé rétt að halda áfram því kerfi sem nú gildir um Sexmannanefnd sem byggð er upp af hálfu framleiðenda annars vegar og neytenda hins vegar. Ég tel að það samstarf sem ákvæðin um Sexmannanefnd geri ráð fyrir, hvetji til og skapi aukinn skilning í milli þessara þjóðfélagshópa og það jafnvel svo að neytendafulltrúarnir í Sexmannanefnd geti ekki síður varið og skýrt verðhækkanir á búvörum en fulltrúar framleiðenda sjálfir. Þetta er mikill kostur og ég tel að þessu kerfi sé rétt að viðhalda fremur en að samningur fari fram á milli framleiðenda og ríkisvaldsins.

Ég skal svo ekki lengja þessa umr. meira. Ég tel að sú mikla vinna, sem landbn. Nd. hefur lagt á þetta mál, hafi orðið til þess að bæta frv. og þær brtt., sem meiri hl. n. flytur á þskj. 555, séu allar verulega til bóta. Ég vænti þess fastlega að frv. nái fram að ganga á þessu Alþingi, því að ef það gerðist ekki, þá væri um mikla óvissu að tefla í sambandi við þær breytingar sem flestir vilja nú ná fram í sambandi við mjólkursöluna. Sú óvissa mundi leiða til vandræða fyrir þá aðila sem þar eiga hlut að máli.