05.05.1976
Sameinað þing: 84. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3659 í B-deild Alþingistíðinda. (2982)

318. mál, utanríkismál

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Aðeins fá ár eru liðin síðan ráðh. tóku að gefa Alþ. reglulega skýrslur um utanríkismál þjóðarinnar. Ég er sannfærður um að það er ósk alls þingheims að þetta verði hefð í þingstörfum, og vil ég því þakka hæstv. utanrrh. fyrir hina ítarlegu skýrslu hans, sem hefur verið lögð fyrir þingið, fyrir að að þessu sinni reyndist unnt að veita allgóðan frest til athugunar fyrir umr, og hæstv. forseta fyrir að finna henni eðlilegan tíma svo seint á þingi.

Slíkar skýrslur um utanríkismál eiga ekki fyrst og fremst að vera saga utanríkismálanna á viðkomandi tímabili. Það er ástæðulaust að færa hana inn í þingtíðindin, hún er skráð á mörgum stöðum. Hins vegar er æskilegt, þegar hæstv. ráðh. getur, að nota slíkar skýrslur til að segja einhver tíðindi, eins og hann t.d. gerði varðandi landhelgismálið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. En alveg sérstaklega er nauðsynlegt að þessar skýrslur séu þann veg samdar að fram komi stefna og skoðanir hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj., þannig að þingið geti um þau mál fjallað. Það skiptir hér langmestu máli. Gott er fyrir okkur að vita að hæstv. utanrrh. hefur skýrar og mjög heilbrigðar skoðanir á málefnum Palestínu-araba og zíonismanum. En það hefði líka verið æskilegt að heyra skoðanir ráðh, um það hver framvinda landhelgismálsins verður, ekki síður en rekja dagsetningar liðinna atburða. Það hefði verið fróðlegt að heyra hugmyndir hans um samband landhelgismálsins og varnarliðsins sem mikið hefur verið rætt í landinu undanfarna mánuði. Það hefði verið fróðlegt að heyra hugmyndir hans um sambúð okkar við Efnahagsbandalag Evrópu nú og í framtíðinni og ýmislegt fleira.

Ég mun innan skamms ræða helstu kafla skýrslunnar, en áður en að því kemur verð ég að beina nokkrum orðum til vinar míns, hv. 3. þm. Reykn., Gils Guðmundssonar, sem sýndi flokki mínum þann sérstaka heiður að blanda honum inn í þessa umr. um utanríkismál. Hann gerði grein fyrir því þegar hv. 9. þm. Reykv. var endurskírður til sósíalismans. Þetta á að hafa gerst úti í Kaupinhafn snemma á árinu þar sem hv. 9. þm. Reykv. sat á jafnaðarmannaráðstefnu, en hv. 3. þm. Reykn. hefur setið einhvers staðar úti í bæ og væntanlega lesið í Land og folk um það sem gerðist á fundinum.

Ekki skal ég draga úr því að það geti snert alþjóðamál hvernig sambúð er á milli jafnaðarmanna og kommúnista. En ég vil minna hv. þm. á að það getur verið ærið mikilvægt fyrir stjórnmálamenn og flokksleiðtoga að kunna fótum sínum forráð þegar þeir hefja samstarf við kommúnistíska flokka. Hv. þm. talaði um „flokkinn minn Alþb.“ Sú var tíðin, að hann stóð í þessum sal og talaði um flokkinn sinn Þjóðvarnarflokk Íslands. Hvað er orðið af Þjóðvarnarflokki Íslands? Ég get fullvissað hv. þm, um að þótt það þurfi að skíra okkur alþfl.-menn með dýfu öðru hverju ætlum við okkur ekki með okkar flokk í spor Þjóðvarnarflokksins. Það get ég líka sagt honum, að ef hann heldur enn vöku sinni í þægilegu þingsætinu vona ég að honum sé það ljóst að Alþb. hefur alls ekki hreinsað sig af kláða kommúnismans og þarf að tvíbaða það áður en von er til þess að það geti orðið verulegur þátttakandi í því að sameina vinstri öfl á Íslandi og hefja hér þróttmikla baráttu fyrir sósíalisma á grundvelli lýðræðis.

Herra forseti. Ég mun ekki fara mörgum orðum um þann kafla skýrslunnar, sem fjallar almennt um alþjóðamál, en vil þrátt fyrir það lýsa ánægju minni með þann kafla. Mér finnst það vera hárrétt hjá hæstv. utanrrh. að byrja slíka skýrslu á almennu yfirliti til þess að betur megi, ef menn vilja, sjá vandamál okkar í ljósi þeirra atburða sem eru að gerast. Ég hef verulega tilhneigingu til þess að líta á detente-málin svipuðum augum og hæstv. ráðh., þótt hitt sé rétt hjá hv. 3. þm. Reykn., að margt annað hefur gerst og er að gerast sem mun teljast til sögulegra tíðinda, þá ekki síst fjörbrot heimsveldisstefnunnar og aukið þjóðfrelsi.

Mér þykir gott að sjá að hæstv. ráðh. fjallar nokkrum orðum um málefni Spáns og Portúgals, og vil ég hvetja til þess að við íslendingar veitum þeim sérstaka athygli. Til þess eru ríkar ástæður því að þessi lönd hafa lengi verið með mestu markaðslöndum okkar og skipta okkur miklu máli, eins og þeir vita sem muna pólitíska atburði og þróun mála síðan fyrir stríð, hvernig örlög spánverja og portúgala hafa verið. Ég tel ástæðu til að íslendingar geri það sem þeir kunna að geta til þess að hvetja til lýðræðislegrar þróunar og þjóðfrelsis í þessum löndum. Ég minni á að okkur ber skylda til að jafna viðskipti okkar við þessi ríki, því að við getum ekki eins og viðskiptum er nú háttað, búist við því að þau geti til lengdar keypt svo mikið af okkur án þess að við kaupum meira á móti. Meðan Portúgal var undir einræðis- og harðstjórn hagfræðiprófessors var haldið fast um pyngjuna og portúgalir áttu gjarnan mikla gjaldeyrissjóði. Þá kom það vandamál ekki upp að þeim væri erfitt að borga öll saltfiskkaupin með hörðum gjaldeyri. En ég hygg að þeir muni eiga allmiklu erfiðara með það í dag, enda má lesa það í venjulegum fréttatímaritum að skortur sé á saltfiski í Portúgal.

Það er gott að heyra að hæstv. utanrrh. lofar eindregnu fylgi við ákvarðanir Sameinuðu þjóðanna í þjóðfrelsismálum, t.d. í Afríku. Eðlilegt skref er að viðurkenna stjórnir sem þar hafa náð völdum, hvort sem mönnum líkar atburðarásin betur eða verr. Í þessu sambandi kemst ég þó ekki hjá að minna á að lítið hefur farið fyrir áminningum til þjóðarinnar frá utanrrn. um að hafa í hávegum viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna á Suður-Afríku, t.d. út af apartheid-stefnu þess lands, sem hefur verið ítrekað hvað eftir annað af Sameinuðu þjóðunum. Mér sýndist, þegar ég leit í tölur nýlega, að vörukaup okkar frá Suður-Afríku væru stöðugt vaxandi. Það má vel deila um hvort þetta viðskiptabann sé skynsamlegt og hvort það kæmi ekki harðast niður á saklausum blökkumönnum ef við hættum að kaupa þaðan ávexti. En ef við ætlum að fylgja stefnu Sameinuðu þjóðanna, þá er hún, að því er mér skilst, þessi. Sama stefna ríkir gagnvart Rhódesíu, en ég hef ekki fundið merki um nein bein viðskipti við það land.

Hæstv. utanrrh. hefur varið lengstum kafla í skýrslu sinni til þess að fjalla um Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og önnur mál skyld þeim samtökum. Þetta er eðlilegt að því leyti að á þeim vettvangi verða íslendingar hvað eftir annað að greiða atkv. um málefni sem snerta ekki aðeins okkur sjálfa, heldur öllu frekar önnur ríki heimsins. Um slíkt geta orðið og hafa orðið deilur og er gott að fá glöggar upplýsingar um gang þeirra mála, en æskilegt hefði verið að fá þær tiltölulega fljótt í kjölfar Allsherjarþingsins, og ekki verður sagt að sá tími, sem þetta mál tekur, sé í samræmi við það hversu fljótt er farið yfir ýmsa síðari efnisþætti skýrslunnar.

Hér hefur þegar verið minnst á skipti íslendinga við Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, og ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að ég skammast mín fyrir þau skipti. Sú var tíðin árum saman að íslendingar smeygðu sér inn hjá Efnahagsstofnuninni í París og gátu fundið þar einhverja tæknistyrki, sem voru ætlaðir fátækum, fáfróðum og ómenntuðum þjóðum, og krækt sér í einhverja peninga. Það virðist aldrei vera hik á íslenskum yfirvöldum ef þau sjá færi á slíkum þjófnaði á alþjóðavettvangi. Það getur vel verið að stjórnendur Þróunarstofnunarinnar líti þeim augum á okkur íslendinga að þeir telji okkur eiga þarna heima. Það getur vel verið að fjármálastjórn okkar, sem nú er öllum augljós sem fylgjast með alþjóðlegum fjármálum, gefi mönnum ástæðu til að ætla að við hljótum að vera algerlega vanþróuð þjóð og þurfum því á slíkri hjálp að halda. Engu að síður ættum við að hafa stolt til þess að troða okkur ekki þarna inn og taka þar mörgum sinnum meira en við leggjum sjálfir fram í alls konar hjálp sem við eigum að geta veitt okkur sjálfir.

Hæstv. ráðh. flutti tiltölulega nýjar fréttir af Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og voru þær góðar svo langt sem þær náðu. Við höfum óttast, og hefur verið full ástæða til þess, að þar kynnu að koma fram ýmis sjónarmið sem ættu eftir að reynast okkur óhagstæð, svo gæti farið að ýmislegt, sem komið var inn í fyrsta heildartextann og snertir hagsmuni okkar, fengi ekki staðist þegar gagnsókn þeirra ríkja, sem hafa öndverða hagsmuni, hæfist. Nú virðast horfur á að þessi ákvæði, sem ég hirði ekki um að telja hér upp því að þau þekkja allir,fái að standa í öðrum heildartextanum og hlýtur það að gefa okkur vaxandi vonir um að það takist að hafa þessi ákvæði inni í hafréttarbálkinum sem vonandi verður árangur þessarar ráðstefnu. Hitt er annað mál, að það virðist ekki vera ljóst hvort svo langt hefur miðað þessum fundum í New York að óhætt sé að gera sér rökstudda von um að málinu ljúki í næsta áfanga, en við það fáum við að sjálfsögðu ekki ráðið.

Landhelgismálin taka ekki mikið rúm í skýrslunni, og það sem um þau er sagt, er fyrst og fremst sögulegt yfirlit. Í gær og í dag hafa gerst allmerkileg tíðindi þegar bresku togararnir hafa siglt burt og fékk þjóðin að heyra í hljóðvarpi um hádegið fagnaðarboðskap um íslenskan sígur í málinu. Ég verð að játa að ég er örlítið vantrúaður á að þessi heimsigling togaraskipstjóranna sé merki um endanlega uppgjöf Bretaveldis, og mér kæmi ekki á óvart þótt málinu væri ekki lokið með þessu. Þrátt fyrir það er ég enn þeirrar skoðunar að í raun og veru höfum við íslendingar fyrir nokkru unnið þann þátt landhelgismálsins sem fram getur farið á miðunum, og við eigum ekki annað eftir en að halda út án þess að verða fyrir nokkru því tjóni eða valda nokkru því tjóni sem ekki verður bætt. Mér virðist að við eigum nú að halda á landhelgismálinu í þeim anda að héðan í frá sé verkefnið ekki að vinna sigurinn, það hefur í raun og veru þegar gerst, og við munum fá það í hafréttarsáttmálanum, þegar hann kemur, — hvernig sá sigur verður, — heldur eigum við nú og héðan í frá að hugsa um hvernig við ætlum að vinna að friðun eftir þennan ófrið. Það hefur oft reynst öllu erfiðara fyrir þjóðir að vinna friðinn heldur en að vinna átökin.

Þegar við sjáum fram á að við hljótum að fá 200 mílurnar og alger yfirráð yfir þeim sjálfir, þannig að það verði ákvörðun okkar ef einhverjir aðrir fá að veiða þar, þá er að hyggja að því, hvað er annað í veði í þessum átökum. Kemur í fyrsta lagi til hugar, að þessi átök hafa borist inn á markaðsmál okkar og það meira en lítið. Þau hafa orðið til þess að við höfum orðið að sæta tollastríði af hálfu Efnahagsbandalags Evrópu og við höfum orðið fyrir stórfelldu fjárhagstjóni af þeim orsökum. Í öðru lagi höfum við haft áhuga á að hafa leyfi til að veiða á nokkrum stöðum nærri öðrum löndum og svo er að heyra á hæstv. sjútvrh. að við höfum enn áhuga á síldveiðum í Norðursjó. Þær eru að vísu í lágmarki eða nærri lágmarki nú, en þær hafa numið um 40 þús. smálestum, sem er mikið magn og mikið verðmæti, og þær eiga vonandi eftir að aukast. Ráðh. hefur skýrt frá því að við séum einnig að semja við kanadamenn um að fá kvóta við strendur þeirra til síld- eða loðnuveiða. Við verðum að hyggja að þessum hliðum málanna, og ég tel að við eigum nú að beina landhelgismálinu sem mest inn á þær brautir að vinna sigurinn, því að við höfum ekkert við 200 mílur að gera ef við getum ekki selt fiskinn sem við veiðum þar og við höfum ekkert við 200 mílur að gera ef við þurfum að lifa áfram í úlfúð og illindum við svo að segja allar nágrannaþjóðir okkar. Það getur orðið erfitt fyrir okkur ef við fáum hvergi að dýfa færi í sjó utan við 200 mílurnar nema e.t.v. á alþjóðlegum svæðum. Það er of snemmt fyrir okkur að fórna öllum möguleikum okkar til að veiða á miðum utan við 200 mílurnar.

Þessum atriðum finnst mér að við ættum að dusta af rykið og hafa þau í huga við meðferð landhelgismálsins héðan í frá. Í því sambandi hefði ég talið að ríkisstj. þyrfti að vita töluvert mikið um viðhorf manna, t.d. í aðalstöðvum Efnahagsbandalagsins í Brüssel, því að það mun í vaxandi mæli verða sá aðili sem við þurfum að snúa okkur að. Landhelgin öll heyrir undir bandalagið sem heild samkv. Rómarsáttmálanum, og ef bretum tekst að undanþiggja 12 eða 50 mílur verður það undanþága frá meginreglunni.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni, en vil láta þessi grundvallarsjónarmið koma fram. Ég hef gagnrýnt meðferð ríkisstj. á þessu máli alveg frá byrjun. Ég tel að það hafi verið lífsnauðsyn fyrir íslendinga að sýna ítrustu hörku í þessu máli framan af, meðan við vorum að sannfæra andstæðinga okkar svo og allar aðrar þjóðir um að við hefðum til að bera þá skapfestu og seiglu að láta ekki beygja okkur og standa við þá útfærslu sem við höfum gert. En þá fannst mér ríkisstj. vera hikandi og sífellt að þreifa fyrir sér eftir einhverjum útleiðum. Nú þarf hins vegar að skoða málið á miklu víðari grundvelli. En hafi ríkisstj. gert það, þá hefur hún haldið því leyndu og ekki skýrt þingi eða stjórnarandstöðu neitt frá þeim málum.

Mér finnst að það sé ekki hægt að ræða um landhelgismálin á Alþ. þennan dag, þar sem breski togaraflotinn er nú flúinn einu sinni enn, hvort sem hann kemur aftur eða ekki, án þess að eitt eða tvö orð séu látin falla í garð landhelgisgæslunnar. Það hafa að vísu átt sér stað leiðinleg skoðanaskipti hér í þinginu s.l. sólarhring um einlægni manna og vilja til að fórna einhverju fyrir landhelgismálið. En ég vona að þau orð séu gleymd og hitt muni reynast rétt, að þjóðin standi öll saman og vilji allt gera sem gera þarf í þessu máli.

Oft eru sögð fögur orð um frammistöðu þeirra manna sem eru á varðskipum okkar, og skal ég engu við það bæta öðru en koma hér á framfæri hugmynd sem ég sá í blaði einu utan af landi, en er að vísu frá öðrum þjóðum fengin. Hún er á þá lund að við ættum að veita áhöfnum þessara skipa einhver heiðursmerki eða minnispeninga fyrir að hafa tekið þátt í þessu stríði á sérstakan hátt. Þótt ég sé alger andstæðingur heiðursmerkja, þá finnst mér að afreksmerki hins íslenska lýðveldis, sem til er samkv. forsetaúrskurði og má veita íslendingum fyrir að bjarga lífi manna, sé mjög vel til fallið og ætti að búa til sérstakan flokk afreksmerkja sem starfsmenn landhelgisgæslunnar fengju. Það yrði vafalaust létt að slá í leiðinni einhverja minjapeninga, sem safnarar geta borgað fyrir, til að greiða kostnaðinn.

Norðurlandaráð og samvinna á Norðurlandavettvangi hafa verið allmikið rædd, og vil ég taka undir þá hugmynd, að ástæða væri til þess að hafa sérstakar umr. um norrænt samstarf a.m.k. einu sinni á ári og þá einhvern tíma í sambandi við þing Norðurlandaráðs.

Þróun, sem verður ár frá ári án þess að við tökum mikið eftir því, stefnir óðfluga í þá átt að Norðurlöndin verði á vissan hátt eins og eitt ríki. Það er verið að sameina fleira og fleira og opna leiðir yfir landamærin, ef ekki brjóta landamærin niður. Við munum áður en langt líður nálgast það að frá sjónamiði einstaklinga og hinna ýmsu samtaka, sem þeir mynda um hagsmuna- og áhugamál sín, eru Norðurlöndin að verða ein heild. Og það er athyglisvert, sem ég veit að aðrar þjóðir munu taka eftir, að við skulum geta gert Norðurlöndin að einu samfélagi sem við öll lifum í, en á sama tíma haldið og ræktað hver sína menningu og sína tungu, og sérstaklega að þetta skuli vera hægt á sama tíma sem norrænu ríkin verða þó að hafa nokkuð ólíka utanríkisstefnu. Þetta virðist vera alger andstæða. En við nánari íhugun hygg ég að menn muni komast að raun um að hér er um stórmerkilega þróun að ræða.

Það má segja að meðferð landhelgismálsins hafi endurspeglað þetta, því að vilji þingfulltrúa í Norðurlandaráði og samúð þeirra með okkur var svo rík að þeir gátu ekki stöðvað sóknina innan þingsins til að gera ályktun um samstöðu með íslendingum. Við höfum glaðst yfir þessu og þetta hefur vakið mikla athygli. En það hefur ekki mikla raunhæfa þýðingu. Þegar spurt var um það í danska þinginu hvað danska stjórnin segði um þetta svaraði utanrrh. eins og góður diplómat að hann hvorki játaði stuðningi við ályktunina né neitaði, þetta væri bara samþykkt sem væri beint til ríkisstjórna Norðurlandanna. Ég veit að í breska utanrrn. hefur meira verið tekið eftir þessu svari heldur en öllum fögru ræðunum á Norðurlandaþinginu sjálfu. Þarna var komið inn á hin eiginlegu utanríkismál og utanríkisstefnu Danmerkur sem ekki er ætlunin að Norðurlandaráð móti, eins og einn danskur þm. mun hafa sagt. Þegar um er að ræða flesk og egg og vopn, þá segir danska utanríkispólitíkin til sín. Á því sviði eru leiðir Norðurlandanna því miður ekki hinar sömu.

Hæstv. ráðh. hefur sett inn í skýrslu sína dálítinn kafla um viðskiptamál, og þar tel ég í raun og veru að mest skorti á að þetta geti kallast tæmandi eða ítarleg skýrsla um utanríkismál íslendinga. Ég tel að sennilega séu hinar hraðvaxandi skuldir okkar í viðskiptum við umheiminn alvarlegasta utanríkisvandamál sem við eigum nú við að stríða. Það er mál þess eðlis, að það hlýtur að koma mjög við allt starf utanríkisþjónustunnar og rn. sjálfs. Nú er mér vel kunnugt um með hvaða hætti meðferð utanríkisviðskipta deilist á milli viðskrn. og utanrrn., og skýrsla hæstv. utanrrh. fjallar eingöngu um þann litla hlut, sem utanrrn. hefur í þessum málum, sem sagt að sjá um pappírsvinnuna og undirskriftina á viðskiptasamningum. Ég ætla ekki að gera hið innra skipulag okkar að umræðuefni, það er allt of mikið mál og ekki ástæða til að vekja það upp nú. En ég vil beina athygli manna að því, að alvarlegasta vandamál íslendinga á sviði utanríkismála í dag fellur þarna á milli skips og bryggju. Það er í höndum tveggja rn. og skal ég ekki segja hvernig samstarfið er, ég vona að það sé í alla staði gott. En það skulum við ekki halda, að þótt lög um stjórnarráð hér á Íslandi skipti málum á milli þessara tveggja rn. og umr. um þessa verkaskiptingu hafi legið niðri í meira en áratug af því að nánir samverkamenn úr sama flokki fóru með þessi rn., þá sé þetta vandamál í sjálfu sér leyst. Eins og ég áður sagði er útilokað annað en vandamál eins og gjaldeyrismál okkar í dag og skuldasöfnun erlendis hljóti að grafa undan öllu trausti, ekki bara á efnahag okkar og endurgreiðslumöguleika heldur á sjálft sjálfstæði okkar. Það er útilokað annað en svona vandamál hljóti að koma við utanrrn. og utanríkisþjónustuna.

Næsti kafli, sem ég mun gera að umræðuefni, snertir öryggismál og er það sá kaflinn þar sem skýrsla ráðh. hafði einna helst fréttir að færa þegar hún kom út, eins og sjá mátti af fjölmiðlum. Það, sem þeim þótti einna nýstárlegast í skýrslunni, voru tölur um hvernig húsbyggingar ganga á Keflavíkurflugvelli. Ekki geri ég lítið úr því. Ég hef á fyrri árum auglýst eftir að hæstv. ráðh. fjallaði nánar um þessi mál, og ég tel það góðra gjalda vert að hann gerir það og segir okkur hvað er um að vera í skiptum okkar við varnarliðið og hvernig þróun þeirra mála er í samræmi við það samkomulag sem gert var skömmu eftir að núv. ríkisstj. var mynduð. Svo virðist sem þar séu mörg verkefni í gangi, og m.a. taka íslendingar nú við fleiri og fleiri störfum af varnarliðsmönnum, ekki aðeins þjónustustörfum, eins og hér voru nefnd, heldur líka störfum eins og rekstri lóranstöðvanna sem eru miðunartæki kjarnorkukafbáta. Er athyglisvert að nú fyrst, 15–20 árum eftir að þessar stöðvar voru byggðar hér á landi, er komin fram till. á þingi um að við gefum út sjókort með lóranlínum svo að við, þessi mikla siglingaþjóð, getum notað þessar stöðvar. Skal ég ekki fjalla frekar um það, því að ég hef ekki tæknilega kunnáttu til að dæma um það hvort þær eru til þess fallnar.

Ég tel að þróun mála í skiptum okkar og varnarliðsins sé skynsamleg og góð. Ég tel að íslendingar eigi stöðugt að taka í sínar hendur fleiri og fleiri störf og miða allt við að við getum — því fyrr, því betra — stjórnað þessum flugvelli við friðsamlegar aðstæður, ef að því kemur og annast allan rekstur hans einir. Fyrir fáum árum e.t.v. fyrir einu ári, var víðs fjarri því að við hefðum getað tekið við þeim rekstri öllum þannig að um væri að ræða sómasamlegan rekstur á stórum alþjóðaflugvelli og einhver mannvirki sem stæðu í sambandi við varnarstöðu landsins.

Ég sé ekkert athugavert við það að íslendingar taki vaxandi þátt í björgunarmálum og tel raunar að björgunarsviðið allt sé eitt af þeim, sem við ættum fljótlega að geta tekið algerlega að okkur.

Ég veit að það er hernaðarleg andstaða hjá ameríkumönnum gegn því. Þeir kunna ekki við að hafa her eða flotasveitir annars staðar án þess að hafa það lið sem þeir þurfa til björgunar. Það verður að yfirvinna, því að engin ástæða er til þess að við íslendingar getum ekki rekið þessa björgunarsveit að öllu leyti nema e.t.v. að standa undir kostnaðinum. Þar sem hún mun vinna fyrir fleiri en okkur ætti að vera hægt að finna einhverja lausn á því máli.

Mér þykir heldur dapurlegt að heyra að það hafi verið gerð 5 ára áætlun um endurbætur á flugvellinum sjálfum til að gera hann hæfari til næturflugs. Ég hef alltaf haldið að þetta væri fyrsta flokks alþjóðlegur flugvöllur og mundu hvaða vélar sem vilja geta lent þar áhyggjulaust. Ef hann er orðinn svo langt á eftir að það þarf 5 ára áætlun til að gera hann — ekki fullkomlega hæfan, heldur „hæfari“ til næturflugs og blindflugs, þá mundi ég vilja athuga hvort það þarf ekki skjótari viðbrögð heldur en hér er gert ráð fyrir. En um það verður ekki dæmt án þess að kynnast málsatvikum.

Síðasti meginkafli skýrslunnar fjallar um utanríkisþjónustuna sjálfa. Þar hafa verið gerðar ýmsar breytingar og virðist mér þær, sem mesta þýðingu hafa, vera skynsamlegar. Ég er fylgjandi því og hef verið um langt árabil að láta embættismenn, sem sitja í rn. hér í Reykjavík, vera sendiherra okkar í ýmsum fjarlægum löndum þar sem við höfum ekki sendiherra með búsetu, frekar en hrúga þeim verkefnum á sendiherra í nágrannalöndum svo að þeir eru mikinn hluta ársins á ferðalögum. Ég tel að með þessu munum við styrkja heimastöðvar utanríkisþjónustunnar, þ.e.a.s. rn. sjálft, með auknum mannafla. Það verða óhjákvæmilega bestu menn og reyndustu sem fá þessi störf, og ég tel að það sé mjög til hins betra að geta styrkt sjálft rn. þannig að það hafi meiri breidd og fleiri reyndum mönnum á að skipa hér heima. Ýmislegt fleira mætti nefna í sambandi við þennan kafla sem ég sé þó ekki ástæðu til.

Ég hef nú farið í gegnum meginkafla skýrslunnar og eins og hv. síðasti ræðumaður staðnæmst öllu frekar við það sem ég hef eitthvað við að athuga, þó ég hafi nefnt sumt af hinu líka.

Ef lítið er á utanríkismálin í heild verð ég því miður að ljúka máli mínu með því að komast að mjög neikvæðri niðurstöðu varðandi þau. Ef við lítum á þróun málanna síðan 1971, sem að ýmsu leyti verður að teljast samfellt tímabil, þá höfum við á þessu tímabili ráðist í tvær stórfelldar aðgerðir á sviði utanríkismála bar sem er útfærsla landhelginnar í 50 og síðan 200 mílur. Við höfum gert þetta við þær aðstæður að við máttum búast við erfiðleikum vegna þess. Og það hefur ekki staðið á þeim. Árangurinn hefur orðið sá, ef lítið er yfir svið utanríkismála í dag, að við eigum því miður í meiri eða minni deilum við langflesta nágranna okkar.

Ef við byrjum á Bandaríkjunum, þessu risaveldi sem við eigum af landfræðilegum ástæðum óhjákvæmilega mikil skipti við, voru þau í tíð vinstri stjórnarinnar dregin á asnaeyrunum með sífelldum yfirlýsingum um stefnu sem síðan var ekki framkvæmd, með því að draga kommúnistíska ráðh. í baknefnd á bak við hæstv. utanrrh. og eyðileggja þannig þá stöðu sem hann á að hafa í samningum við aðrar þjóðir. Ég blanda ekki inn í þetta í sjálfu sér deilunum um það hver stefna okkar á að vera gagnvart Bandaríkjunum. Við vitum vel að við höfum mismunandi skoðanir á því. En við verðum að taka meginákvarðanir í varnarmálum á þann hátt að þegar það er gert, þá verði staðið við það og aðrar þjóðir geti tekið eitthvert mark á stefnuyfirlýsingum ríkisstj. í utanríkismálum. Ég nefni þetta nú vegna þess að ég tel að önugleiki bandaríkjamanna í sambandi við kröfur okkar um að fá frá þeim herskip sé ósköp eðlileg afleiðing af því að þeir séu orðnir þreyttir á framferði okkar og því hvernig við rekum utanríkispólitík. Í þessum efnum legg ég ekki alla sök á hæstv. utanrrh. Það fylgir að vísu utanríkismálum hjá öllum þjóðum að forsrh. hafa mikil afskipti af þeim og ýmsir aðrir ráðh. hafa mikla tilhneigingu til þess að komast inn á það svið líka. Við höfum sannarlega séð dæmi af því versta af því tagi þegar umheiminum er tilkynnt um meiri háttar ákvarðanir í íslenskum utanríkismálum með fréttatilkynningu frá dómsmrn. sem forsrh. a.m.k. hefur aldrei heyrt nefnda og ég veit ekki hvort utanrrh. hefur vitað af áður en hún var send út. Ef menn, sem eru komnir til æðstu valda hér á Íslandi, halda að það sé hægt að reka samskipti við aðrar þjóðir með því að gefa út blaðatilkynningar um það að þær verði að gera svo vel að senda okkur vopn, ef þær ekki geri það strax, þá förum við bara til andstæðinga þeirra, — ef þeir halda að þetta sé leiðin til þess að ná einhverjum árangri í rekstri utanríkismála, þá eru þessir menn á villigötum eða þeir vita ekki hvað þeir gera.

Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstj. hefði átt að ræða ítarlega við Bandaríkin um landhelgismálið snemma eftir að við tókum ákvörðun um 200 mílurnar. Ég er þeirrar skoðunar að við hefðum átt að gera þeim ljóst að við teldum ótvírætt að þeir bæru miklar skyldur gagnvart okkur við fjögurra mílna línuna, þótt deila mætti um það sem er þar fyrir utan, og búa þá undir að þeir gætu blandast inn í málin í sambandi við þá línu. Og það hefði á því stigi átt að færa þegar í tal að okkur kynni að skorta skip til landhelgisgæslunnar því að það var okkur sannarlega ljóst þá þegar. Ef þetta hefði verið gert og síðan hefði verið fylgt mannasiðum í samskiptum þjóða, þá efast ég ekki um að við værum þegar búnir að fá einhver skip sem samkomulag hefði orðið um.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að það kunni góðri lukku að stýra að ætla sér að fá tæki í landhelgisbaráttuna lánuð eða gefin í skyndi. Við erum gjarnir á að fá flugur, íslendingar, og rjúka til að framkvæma þær. Við fengum eina slíka flugu í stríðslokin og vorum búnir að fá hingað tvo hraðbáta sem áttu að gerbreyta landhelgisgæslunni. En þeir höfðu ekki verið hér lengi þegar við sáum hvers kyns var, og þurfti að senda mann til Englands sem með ærinni fyrirhöfn fékk bresku stjórnina til að taka við þessum skipum aftur. Fyrir fáum árum kom það upp að gott mundi vera að fá lánaðar flugvélar fyrir landhelgisgæsluna hjá bandaríkjamönnum, þeir mundu eiga mikið af flugvélum sem þeir notuðu ekki og mundu henta okkur vel. Voru fengnir tveir stórir flugbátar sem eru notaðir til slíkra starfa viða um heim. En reynslan af þeim varð samt sem áður sú, að ég held, að landhelgisgæslan hafi verið þeirri stund fegnust þegar hún losnaði við þá aftur. Því ítreka ég það að í þessum efnum hefði þurft að vera alllangur fyrirvari ef vel hefði átt að takast.

Ef við lítum á sambúð okkar við Evrópu þarf ekki að nefna Stóra-Bretland, bretar hafa sjálfir séð fyrir því. En það er alvarlegt mál að þurfa að standa í illdeilum við Efnahagsbandalag Evrópu þó að okkur sé ekki að skapi sú þróun, sem þar er, og gangi illa að skilja sitt hvað í samtölum við þá embættismenn, sem þar sitja við völd. Fram hjá því verður ekki gengið að Efnahagsbandalagið tekur við rúmlega þriðjungi af öllum útflutningi okkar og við fáum þaðan um 2/3 af innflutningi okkar af ýmsum gildum ástæðum. Við megum búast við því að Spánn og Portúgal tengist Efnahagsbandalaginu á einhvern hátt nánar áður en langt líður svo að þýðing þessa svæðis fyrir okkur sem markaðsvæði og innkaupasvæði mun fara vaxandi. Og það er engin vitglóra í að gera ekki allt sem hægt er til þess að komast að einhverju samkomulagi, því að ekki dugir að snúa sér undan og fara í fýlu þó að okkur líki ekki hvernig þeir koma fram við okkur.

Varðandi löndin austan járntjalds hefur sambúð okkar um langan tíma veríð mjög góð, oft á tíðum betri en margra annarra landa í Vestur-Evrópu. En nú er staðan þannig að austur-þjóðverjar og pólverjar nánast bíða eftir því að fá samninga um veiðiheimildir. Grálúðukvótinn stendur óuppfylltur í framleiðsluáætlun Austur-Þýskalands fyrir þetta ár og þeir eru í mestu vandræðum með það hvernig þeir eigi að fylla kvótann. Sovétríkin hafa án efa einhvern slíkan áhuga, enda hafa þau veitt hér djúpt undan landinu undanfarin ár.

Þarna eru því óleyst vandamál, og Norðurlöndin standa ein, þar sem hægt er að segja að við höfum sæmilega góða sambúð við þau. En þótt þau sýni okkur þá vinsemd að taka afstöðu með okkur sem þau gerðu í Norðurlandaráðinu og hafa gert á fundum norrænu utanrrh., þá vita allir, sem fylgjast með þessum málum, að landhelgismái okkar hefur valdið utanríkispólitík norðmanna og dana stórkostlegum erfiðleikum. Hæstv. sjútvrh. steig upp í munninn á sjálfum sér, svo að ég noti erlenda samlíkingu, með blaðaviðtali sem var birt í Færeyjum og endurprentað í blöðum í Noregi og í voru svívirðingar um norðmenn. Norsk blaðaskrif lýstu hinni mestu undrun og var gefið í skyn í blaði eins og Fiskaren, sem einmitt þeir lesa sem hafa áhuga á málum okkar, að það væri meira en skrýtinn ráðh. sem talaði þannig og það væri mikil vinsemd af utanrrn. í Osló að láta þetta kyrrt liggja. Það verður ekki dregin dul á að þeir töldu að sú spenna, sem við hefðum sett í landhelgismálið, hafi komið þeim í vandræði frá þeirra sjónarmiði. Til er líka það sjónarmið að þeir hafi komið okkur í vandræði með því að vera eins konar dragbítar í málinu, vilja ekki fara eins hratt og við. En við verðum að reyna að skilja fleiri sjónarmið en okkar eigin ef við viljum meta utanríkismál. Við getum ekki búist við því, að við getum fengið að ákveða utanríkisstefnu fyrir Noreg og Danmörk.

Ég hef þannig bent á að skipti okkar við nálega öll grannríki okkar einkennast af deilum, stundum illindum og vandræðum, sem að vísu stafa að verulegu leyti af útfærslu landhelginnar. Ekki má gleyma þeirri orsök. Engu að síður er það hlutverk utanríkisþjónustunnar, utanrrh., ríkisstj. og þjónustunnar allrar, að ná markmiðum þjóðarinnar með eins góðum friði við aðrar þjóðir og hægt er. Og við megum ekki, jafnvel þótt við berjum okkur á brjóst af ættjarðarást, vanmeta það verkefni sem biður okkar þegar líður að því að við erum búnir að vinna stríðið og þurfum að fara að hugsa um að vinna friðinn í landhelgismálunum. Við verðum að koma samskiptum okkar við allar þessar þjóðir í eðlilegt horf, í það horf sem lítil, friðsamleg og óvopnuð þjóð vill hafa skipti sín við umheiminn. Þetta er mikið verkefni.

Ég tel að þessi vandræði séu öll stórum verri vegna þess að oft á tíðum hefur verið klaufalega á þessum málum haldið og hef ég nefnt dæmi þess. En það verður ekki við öllu séð. Atburðarásin hefur verið hröð. Kröfur fólks hér heima hafa verið miklar, tilfinningar hástemmdar, svo að engan veginn hefur verið þægilegt með þetta að fara. Samt sem áður er verkefnið eftir, og það er mikið verkefni.

Ég vil að lokum láta í ljós þá von að stríðíð sé að vinnast endanlega og okkur muni einnig takast að vinna friðinn í landhelgismálinu. En þegar hann er unninn og viðskipti okkar við aðrar þjóðir eru komin í vinsamlegt og gott horf, þá höfum við sterkari undirstöðu undir efnahagslega framtíð heldur en við höfum áður haft. Þá verðum við betur búnir til þess að mæta þeim erfiðleikum sem nú íþyngja okkur, og þá getum við afhent næstu kynslóð stærra Ísland en við tókum við.