10.11.1975
Neðri deild: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

41. mál, söluskattur

Flm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lárusi Jónssyni fyrir að fjalla um þetta frv. hér og leggja a. m. k. sitt af mörkum til þess að það geti orðið um það einhverjar umr.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að frv. felur í sér skerðingu á núverandi tekjum ríkissjóðs, og það er einnig rétt að við höfum ekki bent á hvernig ætti beinlínis að mæta þeim tekjumissi. Ástæðurnar eru einkum tvær. Í fyrsta lagi fáum við ekki séð, ef sú grundvallarhugsun er samþykkt að hið opinbera eigi að vera jöfnunaraðilinn í þessum efnum á einn eða annan hátt, sem mér skilst að flestir, sem um þetta mál hafa fjallað, séu í sjálfu sér sammála um, að ríkið komist hjá að beita á einhvern hátt sínum stjórntækjum, annaðhvort með því að leggja á sérstök gjöld, sem gangi svo í ákveðinn sjóð og deila þeim sjóði síðan út, — og þá er ekki til nema að leggja á sérstakt gjald, sem síðan fari í sjóð, og síðan deila því út, — eða verja núgildandi tekjustofnum í þessu efni.

Við höfum hins vegar, eins og ég sagði í framsöguræðu talið óheppilegt að fara að setja á laggirnar sérstakan sjóð, sérstakt gjald, sérstakt stjórnkerfi, sérstakt stjórnsýsluapparat til þess að leysa þetta vandamál, sem er fyrst og fremst jöfnun framfærslukostnaðarins, þegar að okkar dómi blasir við stjórntæki eins og söluskattur, sem hægt væri að beita í þessum efnum. Ég vona að hv. þm. séu mér sammála um a. m. k. þá grundvallarhugsun að það sé ekki æskilegt að fara að setja upp nýtt apparat, einn sjóðinn enn, eitt embættismannakerfið enn til þess að jafna framfærslukostnað. Ég vona a. m. k. að við séum sammála um þá grundvallarhugsun.

Ef við viljum fara þá leið af einhverju tagi sem hér er lögð til, þá er það ekki kleift ú neinn hátt nema það feli í sér á einhvern hátt tekjuskerðingu fyrir ríkissjóð. Það er alveg rétt. Ef menn segja: Við viljum jafna framfærslukostnaðinn í landinu, geta menn ekki sagt það á neinn hátt nema segja um leið: Það verður annaðhvort að afla ríkissjóði nýrra tekna eða skera þar á. Við höfum verið að gagnrýna og ég gagnrýndi hér í framsöguræðu minni, að þrátt fyrir alla þessa umr. hefur enginn aðili bent á ákveðna aðferð sem hægt væri að hafa í þessu efni. Ég vil þess vegna algerlega vísa til föðurhúsanna ásökunum um óábyrgt tal, einhverjar yfirborðsumr., eitthvert yfirboð gagnvart kjósendum. Ég held að það sé einmitt yfirboð gagnvart kjósendum, ég skal að vísu ekki segja hvort hv. þm. Lárus Jónsson hefur stundað það, vegna þess að ég hef ekki heyrt hann segja það persónulega, en ýmsir aðrir hafa stundað að ræða árum saman um að það beri að jafna þennan framfærslukostnað, án þess að gera neina tilraun til þess að benda á leiðir í þeim efnum. Það er óábyrg stjórnmálaumr.

Ég vona þá að hv. þm. Lárus Jónsson upplýsi það hér á eftir eða síðar hvort hann er okkur sammála um að það beri að jafna þennan framfærslukostnað, ef hann er það hvernig hann vill þá gera það, að hann svari því skýrt og skorinort. Við höfum þá a. m. k. bent á leið. Það má deila um þá leið. Það er alveg hárrétt. Og það er hárrétt, sem hv. þm. bendir á, hún felur í sér nú ákveðið tekjutap fyrir ríkissjóð. Við teljum okkur hins vegar ekki geta fullyrt hvað það tekjutap er mikið, því að til þess þarf töluvert umfangsmikla úttekt sem við teljum okkur ekki hafa gögn eða starfsaðstöðu til þess að framkvæma hjálparlaust, en sem þn. með aðstoð embættismannakerfis gæti framkvæmt. En ég er þeirrar skoðunar að það opinbera stundi það mikla fjárfestingarstarfsemi hér á höfuðborgarsvæðinu nú þegar og á næstu árum að það eitt að draga úr þeirri fjárfestingarstarfsemi gæti meira en komið á móti því tekjutapi sem þarna er. Það er þess vegna ekki um að ræða að þessir fjármunir séu ekki til og það þurfi að skerða tekjur ríkisins án þess að eitthvað annað komi á móti. Það er spurningin um stjórnmálalegt val, það er spurningin um hvers konar byggðastefnu menn vilja reka, hvort menn vilja verja fjármunum ríkisins til þess að jafna framfærslukostnaðinn með því t. d. að minnka söluskattstekjurnar eða hvort menn vilja verja fjármunum ríkisins, svo að maður noti nú þetta fræga dæmi enn einu sinni, í brú yfir Borgarfjörð eða setja milljarða í járnblendiverksmiðju á Grundartanga. (Gripið fram í.) Ég bið nú hv. þm. Jónas Árnason afsökunar á að nefna þetta tvennt í sömu setningunni. En það er hins vegar hvað þessa umr. snertir réttlætanlegt, þarna hefur ríkið fé sem það er að verja til framkvæmda af þessu tagi. Það er svo spurningin um val.

Ég vil þess vegna vísa því algerlega til föðurhúsanna að það sé ekki hægt að fjármagna byggðaaðgerð af þessu tagi. Það er vissulega hægt. En það krefst að vísu að dregið sé úr öðrum framkvæmdum eða þá viðbótartekna sé aflað. Og okkar afstaða mundi vera sú að leggja til að það væri dregið úr framkvæmdum. (LárJ: Af hverju þá að leggja það ekki til í frv.?) Vegna þess, hv. þm., að við töldum óábyrgt, þegar við vissum ekki nákvæmlega hvað upphæðin væri mikil, að tiltaka nákvæmlega í frv. af hvaða framkvæmdum skyldi tekið hve mikið fé. En ég skal með glöðu geði ganga til samstarfs við hv. þm. um það, ef það er það eina sem stendur í vegi fyrir því að hann geti stutt þetta frv. — komi raunhæfar ábendingar um það úr hvaða framkvæmdum eigi að draga, þá skal ég með glöðu geði ganga til samstarfs við hv. þm. um að við getum þá sameiginlega staðið að tillögugerð um það. En ég vona þess vegna að hann útskýri það fyrir mér og öðrum hér á eftir hvort þetta er það eina sem stendur í vegi fyrir því að við getum orðið samferða í þessu efni. Ég ítreka það þess vegna að okkur er fyllilega ljóst að þarna verður val að koma til greina. Við erum reiðubúnir að taka þátta í samstarfi um það val og benda á ákveðnar framkvæmdir. Það hefur þegar verið flutt hér frv., ég held að það sé í þessari deild eða hvort það er þáltill., ég skal ekki alveg fullyrða það, en það mál hefur verið flutt hér inn að fresta t. d. framkvæmdum við Grundartanga. Það er ein leið. Ég er alveg viss um að íbúar landsbyggðarinnar mundu telja það miklu meira hagsmunamál fyrir sig að fá framfærslukostnaðinn jafnaðan heldur en verja millj. í járnblendiverksmiðju við Grundartanga. Þess vegna tel ég að það séu ekki gild rök gegn þessu frv. að koma einfaldlega upp og segja: Peningar eru ekki til. —- Þetta er óábyrgt hjal o. s. frv. Það er hægt að finna leiðir ef menn hafa vilja á annað borð til þess að jafna þennan flutningskostnað.

Hv. ræðumaður Lárus Jónsson, síðasti ræðumaður, vitnaði mikið í nágrannalönd. Það er að vísu rétt, mér er ekki kunnugt um það hvort söluskatti hefur beinlínis verið beitt í nágrannalöndum í þessu efni. En hitt er alkunnugt, að bæði í Noregi og Bretlandi hefur verið beitt lánastarfsemi og skattlagningu þar sem ákveðin svæðaskipting hefur verið lögð til grundvallar, þar sem tilkynnt hefur verið að ákveðin svæði séu þróunarsvæði þar sem ber að stuðla sérstaklega að því að fyrirtæki, atvinnurekstur og almenningur fái betri skilyrði til að efla hag sinnar byggðar heldur en í aðalsvæðunum sem ekki eru talin þurfa á slíkri hjálp að halda. — Þar hefur opinberri skatta- og útlánastarfsemi verið beitt í því skyni. Að því leyti felst engin nýjung í þessu frv., að beita tekjutækjum af þessu tagi í þágu byggðaaðgerða eða að skipta landinu í ákveðin svæði. Það er alþekkt bæði frá Noregi og Bretlandi að beita slíkum aðferðum. Og þótt við færum fyrstir til þess að beita söluskatti í þeim efnum, þá sé ég ekki að það sé nein goðgá og þurfi að vera efnislega röksemd á móti þessu frv. Við gætum í einhverju haft forustu í byggðamálum. Grunnhugsunin, þ. e. a. s. svæðaskiptingin, mismunur eftir byggðavanda á einstökum svæðum í lánastarfsemi og tekjustarfsemi ríkisins er hins vegar alþekkt bæði frá Noregi og Bretlandi.

Innheimtuumdæmin, sem var þriðja meginröksemd hv. ræðumanns Lárusar Jónssonar á móti þessu frv., sé ég ekki að sé heldur gild. Það er mjög einfalt stjórnsýslulegt atriði, þar sem innheimtuumdæmin eru mismunandi í landinu, að innheimta mismunandi söluskatt úr mismunandi umdæmum af söluaðilum í þessum tilteknu umdæmum. Ég sé ekki að það sé gild röksemd á móti þessu frv. Hitt kynni að vera röksemd hjá hv. þm., að byggðarlag öðrum megin við mörkin borgi meiri eða minni söluskatt heldur en byggðarlag hinum megin við mörkin. Það er vissulega alveg rétt. Fram hjá því verður ekki gengið, ef menn á annað borð vilja draga slík mörk. Ég vil benda hv. þm. á það að slík mörk eru dregin á margvíslegan hátt í íslenskri stjórnsýslu. Það er borgað sama gjald fyrir símaþjónustu milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, en hins vegar annars staðar á landinu eru dregin mörk á milli símaumdæma og menn greiða annað verð fyrir. Og það má nefna fjölmörg önnur dæmi um að slík mörk eru dregin. Það er eðli umdæmaskiptingar, af hverju tagi sem er, að slík mörk eru fyrir hendi. Það verður ekki fram hjá því gengið að menn öðrum megin við mörkin búi við önnur skilyrði heldur en menn hinum megin við mörkin. Ég sé ekki að það sé gild röksemd á móti þessu frv., nema hv. þm. vilji halda því fram að það eigi yfir höfuð engin mörk að draga í stjórnsýslu eða skiptingu landsins á annan hátt af þessu tagi.

Hér er bent á leið sem þegar hefur verið farin á mörgum öðrum sviðum í þessu þjóðfélagi. Ég tel þess vegna að þessar þrjár meginröksemdir, sem hv. þm. bar fram, þ. e. a. s. í fyrsta lagi varðandi tekjuöflunina, í öðru lagi varðandi það að leiðir þessum svipaðar hafi ekki verið farnar annars staðar, í þriðja lagi að það feli í sér ákveðin skil, þar sem umdæmismörkin séu dregin, séu ekki gildar tæknilegar röksemdir á móti efni þessa frv., ef hv. þm. Lárus Jónsson er mér sammála um grunnhugsunina. Ég skal að lokum rekja höfuðatriði hennar og væri fróðlegt að fá svör við því eða upplýsingar frá hv. þm. hvort hann er sammála grunnhugsun frv., sem er í fyrsta lagi að það beri að jafna framfærslukostnaðinn milli höfuðborgarsvæðisins og annarra landshluta og í öðru lagi að hið opinbera hljóti að verða milligönguaðili i þeirri jöfnun.

Ef hv. þm. er okkur flm. sammála um þessa grundvallarhugsun, þá þætti mér mjög fróðlegt ef hann vildi benda á einhverjar aðrar leiðir til þess að fara í þessum efnum. Út af fyrir sig er það okkur ekki höfuðatriði að þessi sérstaka leið sé farin, þótt við teljum hana hafa marga kosti og þá fyrst og fremst það hvað hún sé einföld, fljótvirk og stórvirk. Það teljum víð hennar höfuðkosti. Bendi hv. þm. eða aðrir á aðra leið sem þjóni sömu markmiðum, þá erum við reiðubúnir til samstarfs við hann í þessum efnum. Hitt vona ég svo, af því að þessi hv. þm. ræddi töluvert mikið um það sem hann taldi efnislega ábyrgan málflutning í þessum efnum, að hann og aðrir, sem telja sig bera hagsmuni landsbyggðarinnar fyrir brjósti, sem vilja láta íbúa landsbyggðarinnar halda að þeir vilji á raunhæfan hátt jafna aðstöðu þeirra í þessu þjóðfélagi, — þeir beri þá fram, ef þeir eru mótsnúnir þessu frv., aðrar till., sem þjóni sama markmiði og séu jafnraunhæfar, fljótvirkar og stórvirkar eins og þessi leið er.