06.05.1976
Neðri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3732 í B-deild Alþingistíðinda. (3039)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Mér sýnist hvorki mikil né knýjandi ástæða til þess að við flm. þessa frv.förum að setja hér á langar tölur um það, ósköp einfaldlega vegna þess í fyrsta lagi að okkar álit liggur fyrir á þskj. 540, allmikið að vöxtum, og þar kemur fram sú niðurstaða sem að lokum fékkst eftir alllangt starf og ég vil segja að sumu leyti nokkuð erfitt, vegna þess að þetta mál er þannig vaxið að þegar á að setja reglur um veiðisvæði kringum allt landið og reglur um ýmislegt annað varðandi fiskveiðar, þá er það gömul og þekkt staðreynd að skoðanir eru afar skiptar nm allt land, ekki aðeins þannig að um mismunandi skoðanir sé að ræða milli landshluta, heldur einnig milli einstakra verstöðva, einnig skoðanamunur milli hinna ýmsu hópa sem veiða með mismunandi veiðarfærum. Það er t.d. allt annað álit sem þeir hafa, sem veiða með handfærum og línu og með netum, heldur en þeir sem leggja aðallega stund á togveiðar. Og þeir, sem stunda togveiðar, hafa einnig mismunandi álit eftir því hvort um er að ræða aðila sem veiða á minni bátum með trolli eða þá sem stunda togveiðar á stærri skipum, þ.e.a.s. nýjum togurum. Þess vegna er ljóst að næstum er útilokað að gera alla ánægða með nokkurri niðurstöðu, hvernig svo sem hún væri sett saman.

Hlutverk þmn., sem fékk þetta mál til meðferðar, var ekki síst að reyna að samræma þessi sjónarmið og gerast sáttasemjari eða velja milli hinna ýmsu möguleika á þann hátt að sem flestir gætu sætt sig við það samkomulag sem fram kæmi, vegna þess að það er ekki aðeins okkur ljóst að það er erfitt að koma með nokkra endanlega niðurstöðu sem allir geta fellt sig við, heldur einnig þeim sem þurfa að vinna eftir þessum lögum.

Ég vil segja það í upphafi að þegar við þm., sem erum flm. frv., ásamt hv. þm. Steingrími Hermannssyni og hv. þm. Jóni Árm. Héðinssyni, þegar við komum að þessu máli, þá höfðu fulltrúar hinna ýmsu hagsmunahópa unnið í n. í allmarga mánuði, líklega eina 10–11 mánuði, og það, sem þeir höfðu komið sér saman um, leit vissulega allt öðruvísi út heldur en það frv. sem hér er lagt fram og það í mjög mörgum og oft í allveigamiklum atriðum. Þar var ekki síst deilt um það hvað ætti að vera í lögum og hvað í reglugerðum. Og ég vil segja það strax, að mitt sjónarmið í þessu máli var að hafa það í lögum áfram sem hafði verið í lögum og halda því í reglugerðum áfram sem þar hafði áður verið, þ.e.a.s. ég aðhylltist í þessu máli tregðulögmálið eins og svo oft áður, því að í vissum hlutum er óhætt að segja að hæfileg íhaldssemi sé nauðsynleg.

Það er ekki eingöngu vegna þessarar íhaldssemi minnar persónulega að ég tók þessa afstöðu, heldur líka vegna þess að þeir, sem síðan þurfa að vinna eftir þessu frv., þ.e.a.s. skipstjórar á togskipunum, sem hafa þetta á sínu vinnuborði ásamt reglugerðinni, eru vanir því að hafa þetta form á. Þeir eru vanir að fletta upp þessu og lesa það, sem sett er fram, með þessum hætti, og það var ein höfuðástæðan fyrir því að ég vildi hafa þetta svona.

Sömuleiðis voru í þeim drögum, sem þar höfðu verið lögð fram, lagðar til breytingar miklar í sambandi við það hvernig ætti að veita veiðileyfi og ýmislegt annað. Hv. þm. Sverrir Hermannsson, sem var 1. flm. frv. og aðaltalsmaður, hefur gert rækilega grein fyrir ýmsum þessum atriðum svo að ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja um þau.

Frá þeim lögum, sem nú eru í gildi, til þessa frv. eru nokkrar breytingar og þær eru ekki fyrst og fremst í sambandi við breytingar á veiðisvæðum, þ.e.a.s. togveiðitímum, heldur ekki síst breytingar sem fela í sér meira eftirlit og strangari gæslu varðandi það að reynt sé að koma í veg fyrir óhóflegt dráp á smáfiski og hvernig skyldi við því brugðist vegna þeirra upplýsinga sem komið hafa fram um ástand fiskstofnanna. Það var mín skoðun og margra fleiri í þmn. að þar þyrfti að leita þeirra ráða sem best dygðu og yrðu sem fyrst að gagni, og það var að okkar dómi að reyna að koma á einhverri stjórn — eða stjórnun, eins og það heitir víst núna — á fiskveiðarnar í fyrsta lagi og í öðru lagi með því að stækka möskva í botnvörpunni. Við höfum nú um alllangt skeið notað botnvörpur með möskva í poka um 120 mm á stærð horna í milli. Nú höfum við í þessari n. lagt til að þessi möskvi yrði stækkaður verulega, fyrst í 135 mm, sem var raunar búið að ákveða áður, en síðan Í 155 mm, sem er geysilegt stökk ef miðað er við 120 mm möskva. Með þessari aðgerð, ef rétt er að staðið og vel eftir litið, er þegar komið í veg fyrir það að mjög smár fiskur komi upp í vörpunni. Ég sagði nú kannske heldur mikið, að það væri komið í veg fyrir það, þ.e.a.s. það dregur úr því að mjög smár fiskur komi upp í vörpunni. Og það er einmitt þessi mjög smái fiskur, sem er um og undir máli, sem við megum alls ekki veiða nú. Það er kunnugt af þeim skýrslum sem við höfum vitnað í hér oftsinnis að það er aðeins einn árgangur sem er stór í okkar þorskstofni, og það er sá árgangur sem varð þriggja ára nú fyrir nokkrum dögum, mun hafa klakist út í aprílmánuði 1973, og þessi stofn er svo langtum stærri en þeir, sem bæði koma á undan og á eftir, að hann stendur þar hátt upp úr. Þess vegna er, eins og ástandið er hjá okkur á þorskstofninum, hrygningarstærð hans hefur farið ört minnkandi ok er komin niður Í aðeins fjórðung þess sem hún var fyrir 10 árum, það verkefni, sem blasir við okkur núna, að reyna að koma sem stærstum hluta þessa árgangs til kynþroskaaldurs sem mun taka líklega um 3–4 ár frá þessari stundu því að þá getur hann farið að hrygna. Ef okkur tekst þetta, — og sá vandi er fyrst og fremst bundinn við þetta ár, árið 1976, og hluta af næsta ári, — að gera þær ráðstafanir sem duga til þess að hann sé ekki drepinn á þessu aldursskeiði, og það er ekki einungis hættulegt með tilliti til framtíðarinnar, með tilliti til þess að ná upp hrygningarstofninum, heldur er einnig ákaflega óhagkvæmt að veiða fisk á þessu aldursstigi vegna þess að á næsta ári og næstu tveimur árum þyngist hann hvað mest. Það er sem sagt ekki hentugt að slátra þessum syndandi dilkum fyrr en þeir koma af fjalli.

Annað stjórntæki í þá veru að koma í veg fyrir að þessi mikla innistæða, sem við eigum þarna í árganginum frá 1973, brenni ekki upp í einhverju bráðræðisveiðiæði hjá okkur á næstu árum var að reyna að geta stemmt stigu við smáfiskadrápinu einnig með öðrum hætti en með mjög stækkuðum möskva, og það var að geta lokað svæðum sem ljóst var að smáfiskur hefði gengið á. Heimild hefur verið til að gera þetta áður, en það hefur tekið langan tíma. Nú er í frv., í 6. og 8. gr., heimild til að loka svæðunum umsvifalaust, þetta atriði, að geta beitt skyndilokunum ákveðið og fljótt þar sem þess virðist þurfa við, það er að mínum dómi og okkar í þessari n. eitt það allra stærsta. Bregðist hins vegar þessi tvö atriði, þá eru öll þau strik, sem við sjáum á kortunum aftan til í þskj. og öll sú geometría og dagsetningar og bönn að öðru leyti til lítils. Þetta er sem sagt meginatriðið. Æskilegast væri að við hefðum tök á því að hafa slíkt eftirlit með veiðum, jafnvel daglegt eftirlít með öllum veiðum, að við gætum verið laus við þetta, að við getum stjórnað þessu allt að því frá degi til dags þannig að skynsamlega væri að unnið. En því miður höfum við ekki efni á því að gera það og ekki neinar ástæður á neinnar handar máta, því miður. Í lfrv. er sem sagt komið það sem við vildum og ég lagði sérstaka áherslu á að yrði í lögunum, sem betur fer. Hins vegar eru í reglugerðum sett afmörkuð línu- og netasvæði eða föst lokuð svæði þar sem vitað er að smáfiskur heldur sig aðallega. Auk þess er gert ráð fyrir að skyndilokunum verði beitt á þeim svæðum þar sem vitað er að smáfiskur heldur sig á vissum árstímum. Þetta hefur áreiðanlega verið tíundað hér lið fyrir lið Í ræðum hv. fyrri ræðumanna svo að það er kannske ekki ástæða til þess að orðlengja um það, þó að þarna sé að mínum dómi um allra stærstu atriðin að ræða, þ.e. þau atriði sem hníga að því að við getum komið í veg fyrir að dánartala þessa árgangs verði of há. Ég álít það eitt frumskilyrðið til þess að við getum aftur fengið hér upp styrkan hrygningarstofn. Og ef tekst að gæta sín á þessu ári og því næsta, þá er ég ekki í nokkrum vafa um að fiskveiðar eiga eftir að aukast hér verulega og skapa okkur mikinn auð í þjóðarbúið, svo að ég tali nú ekki um þegar við losnum við óboðna gesti sem hafa gert sig freklega heimakomna á okkar miðum án þess að berja að dyrum og hafa sýnt okkur hinn versta ruddaskap í hvívetna.

Þó ég vilji nú ekki tefja tímann í löngu máli, þá er varla hægt að komast hjá því að minnast hér á einstakar greinar. Ég vék hér áðan að 6. gr., sem fjallar um heimildir til rn. að banna togveiðar þar sem það þykir nauðsynlegt af áðurgreindum ástæðum, og 8. gr. þar sem fjallað er um framkvæmd þess, og ég legg á það enn þá áherslu að það er mikið atriði að vel takist til einmitt í þessum efnum. Það er auðvitað hægt að tala hér um hverja grein fyrir sig sem snertir þessi atriði, en í 14. gr. tel ég mikilvægt þar sem kemur fram að það sé unnt að setja aðrar veiðar en rækjuveiðar, humarveiðar, síldveiðar, loðnuveiðar, spærlingsveiðar og kolmunnaveiðar undir leyfi. Ég tel t.d. persónulega að það sé mjög gagnlegt að geta tekið t.d. netaveiðarnar og sett þær undir leyfi, ekki síst með tilliti til þess að ákafir fiskimenn, sem í hita augnabliksins gleyma stundum að þeir þurfa að gæta sin á vissum reglum, geta átt það yfir höfði sér að missa veiðileyfi, t.d. til netaveiða, ef þeir þverbrjóta þær reglur, sem um þær eru eða kunna að verða settar. Það er vitað mál að nú um alllangan tíma hefur netafjöldi á netabátum verið takmarkaður og sett ákveðið hámark hvað hver bátur mætti vera með mörg net í sjó, og miðast sá netafjöldi við þann mannskap sem á bátnum er. Er það gert vegna þess að þar sem fæstir menn eru um borð, þar er gert ráð fyrir að þeir geti dregið færri net en aðrir daglega, því að æskilegast er að á hverjum degi séu öll net viðkomandi netabáts dregin úr sjó. Að öðrum kosti skemmist sá afli sem þarf að liggja tvær nætur eða þrjár eða fleiri. Fráleitt er að haga sér eins og netaveiðimenn hafa því miður margir gert um mörg undanfarin ár, að demba út ótölulegum fjölda neta. Í stað þess að vera með 120–150 net, eins og mest er leyfilegt að vera með, hafa þeir leyft sér að vera með 200–300 og jafnvel enn fleiri net í sjó, sem þýðir að það er útilokað að draga meira en helming eða jafnvel ekki nema þriðjung af öllum þeim netum á hverjum degi. Það þýðir ósköp einfaldlega að stór hluti aflans verður léleg vara, og þá er aðeins miðað við að um eðlilega tíð sé að ræða, þ.e.a.s. góð tíð og ekki miklar frátafir, því að það er engin leið að koma í veg fyrir að fiskur verði tveggja til þriggja nátta ef illa viðrar, eins og t.d. núna á vertíðinni. Reynslan hefur orðið sú að þar sem mikið er um þetta, að netaveiðiskipin séu með allt of mörg net í sjó, þar hefur líka matið hríðfallið. Á sama tíma og við erum að tala um að vernda hrygningarfiskinn og smáfiskinn, þá sýnist það vera glæpi næst að hauga í land netafiski í allt of umfangsmikil veiðarfæri sem fer kannske að helmingi til og jafnvel að 2/3 í slæman gæðaflokk, í stað þess að geta komið með góða vöru í land. Það er vont að vera að drepa kannske síðustu þorskana til þess að hálfeyðileggja þá og gera þá verðlitla.

Hér var í einni ræðu áðan, svo að ég grípi nú inn í einstök atriði, talað um að það ætti að skylda öll fiskiskip að koma með allan afla sinn að landi, hvernig svo sem á stæði og hvernig sem aflinn væri, til þess að það væri hægt að fylgjast með hvað væri drepið af smáum fiski. Ég er hér með það í höndunum sem Gaukur Jörundsson prófessor Í lögum segir um þetta mál. Um það atriði segir prófessorinn:

„Ég er sammála því að ástæða sé að taka til athugunar hvort ekki ætti að leggja bann við því að fleygja afla. Ákvæði í þá átt verða þó sennilega að bíða um sinn. Ástæður til þess eru m.a. þær að Ísland er aðili að alþjóðlegum samningum sem banna að tiltekinn ólögmætur afli sé fluttur að landi.“

Þetta segir hann. Fyrir utan þessar lögfræðilegu skýringar er hægt að segja að af praktískum ástæðum er ýmislegt sem mælir á móti því að það sé unnt að framkvæma þetta ákvæði þótt í lög væri sett. Það er hætt við því að þótt skipstjórar séu skyldaðir að koma með í land aflaðan undirmálsfisk, — fisk sem allir um borð vita að ekkert verð fæst fyrir, fisk sem þarf að landa og er meiri löndunarkostnaður á heldur en fyrir hann fæst í landi, — og mannskapurinn, sem þarf þá að gera að þessum fiski og hirða hann hefur sennilega ekki ýkjamikinn áhuga á því að vera að puða í því að ganga frá þessum fiski þannig að hann ýldi ekki allar lestar og geri allt ómögulegt, — þá verði það fyrsta sem karlarnir geri, — og þeir gera að undir dekki núna, — að þeir sparki þessu í sjóinn og komist hjá því að leggja á sig aukalega vinnu. Þetta er nú það sem yrði í raun og veru.

Það er margt sem hægt væri að setja inn í slíkar reglur sem ekki er þægilegt að eiga við í raunveruleikanum. Þess vegna álít ég slíkt ekki æskilegt, a.m.k. ekki að svo komnu máli.

Ég kemst þó ekki hjá því að segja hér örfá orð um það sem gerst hefur í sambandi við veiðiheimildirnar innan landhelginnar þótt stutt verði. En það er nú þannig að á langstærstu svæðum við landið er ekki um mjög miklar breytingar að ræða. Það er t.d. hér út af Faxaflóa, Breiðafirði og Vestfjörðum, þar hafa nánast engar breytingar verið gerðar varðandi botnvörpuheimildir.

Út af Norðurlandi hafa verið gerðar smávægilegar breytingar, sem eru þó fyrst og fremst fólgnar í því að skip allt að 350 tonn að stærð máttu fara aðeins inn fyrir 12 mílurnar allt árið, en við urðum sammála um það í n., jafnvel þó að menn séu alls ekki sammála um það fyrir norðan, ég veit það, — við urðum sammála um það í n. að þetta atriði ætti að fara burt og við skyldum halda öllum fyrir utan 12 mílur. Það hagar nú svo til að jafnvel þótt við vildum gera öllum jafnt undir höfði í sambandi við veiðisvæði og fjarlægð frá landi, t.d. að segja öllum að fara út fyrir 12 mílur, það væri kannske sú jafnaðarmennska sem skynsamlegast væri að leggja fram, ég veit að sumir eru svo miklir jafnaðarmenn að þeir hefðu kannske lagt það til, — en það hagar nú svo til að jafnvel þó að við getum breytt ýmsu með slíkri lagasetningu eins og nú stendur til að gera, þá er okkur alveg ómögulegt að setja lög um breytingu á landgrunninu. Það verður að vera eins og það er. Þess vegna er dálítið misjafnt hvar við getum dregið þessar línur eftir aðstæðum, og það má öllum vera ljóst. En þessi breyting þarna fyrir Norðurlandi kemur til vegna þess einmitt sem er grunntónninn í verkinu, eins konar stef sem gengur í gegnum alla fiskveiðisinfóníu okkar sem við höfum verið að vinna að og endurskoða síðan í haust, að einmitt á þessu svæði er talið að sé um mestan smáfisk að ræða að jafnaði. Það er auðvitað nokkuð misjafnt. En þess vegna varð ekki fallist á að fara inn fyrir 12 mílna línuna. Það er sett fast verndarsvæði utan um Kolbeinsey sem hefur verið gert í reglugerð. Ég er ekki að segja að það sé eingöngu rn. verk. Við höfum bent á ýmislegt slíkt og höfum haft samráð í þeim efnum við Hafrannsóknastofnun og álít sérfræðinga, bæði hvað þetta varðar og annað, svo að þar er einnig verið að vernda smáfisk.

Fyrir Austurlandi eru sáralitlar breytingar nema sama eðlis eins og fyrir Norðurlandi. Þar var skipum, sem eru allt að 350 lestir að stærð, heimilt að fara nokkuð inn fyrir 12 mílurnar frá I.anganesi og á svæðinu yfir Bakkaflóa og Vopnafjörð og Héraðsflóa, fara í Héraðsflóanum þó hvað næst landi. Það er nú ekki víst að þessi breyting, að reka þessi skip út fyrir á þessu svæði, skipti ýkjamiklu máli, ósköp einfaldlega vegna þess að þarna er ekki mikið um báta af þessari stærð að ræða sem stunda veiðar á svæðinu. Það eru tiltölulega mjög fá skip. Ég þori ekki alveg að nefna töluna en fjöldann mætti líklega telja á fingrum annarrar handar, svo fá skip er þarna um að ræða. En af sömu ástæðum var þetta gert til þess að reyna að hindra smáfiskadráp.

Fyrir Suðausturlandi hafa verið gerðar nokkrar breytingar. Hv. þm. Sverrir Hermannsson gat þess, held ég, í sinni ræðu að það svæði, sem lokað var þarna fyrir og veiðum á vissum tíma vegna smáfiskahættu, það er að vísu ekki í þessum lögum, en ég held, að hann hafi örugglega bent á að það þyrfti að fylgjast með því á þeim tíma sem smáfiskur hefur aðallega gengið inn á þetta svæði og þá yrði beitt skyndilokunaraðferðinni. Ég get ekki séð að nokkur annmarki geti verið á því, því að við vitum alveg hvenær fiskur gengur einmitt á þetta svæði, það er ekkert leyndarmál. Menn vita það af reynslunni, og þess vegna sé ég ekki heina ástæðu til þess að taka það inn í lög.

Það hafa orðið nokkrar breytingar á togveiðiheimildum þarna aðrar, og sumum finnst að á svæðinu fyrir Suðausturlandi og Suðurlandi hafi togveiðiheimildir fyrir stærri skip verði nokkuð auknar á vissum árstímum meðan þær hafi verið takmarkaðar sums staðar annars staðar. Vissulega eru þær takmarkaðar þarna líka. En hvað þetta snertir, þá hefur verið um nokkra aukningu að ræða á vissum árstímum og þá er því til að svara, að það er staðreynd að á þessu svæði er yfirleitt ekki um smáfisk að ræða eins og gerist út af norðanverðum Vestfjörðum, fyrir Norðurlandi og víða annars staðar, t.d. við Hvalbakinn. Auðvitað skríður þarna smáfiskur um eins og alls staðar annars staðar. En þarna er yfirleitt um góðan fisk að ræða, og einhvers staðar verða vondir að vera. Við byggjum nú okkar veiðar í vaxandi mæli á hinum nýja og glæsilega togaraflota sem hefur haldið uppi þjóðarbúskapnum undir vondri stjórn nú undanfarin ár, og við værum sennilega komnir á uppboð einhvers staðar ef hans hefði ekki við notið, þó að sumir hv. þm. litla flokksins, sem kallaður var hér einu sinni og er nú raunar enn þá minni, hafi staðið hér upp hver af öðrum til að lýsa því hvað það hafi verið vont verk að ausa út fé til þess að kaupa þessi skip.

Ekki verður hægt að komast hjá því að minnast aðeins á togveiðimöguleika togskipanna fyrir Suðvesturlandi. Þar er allmjög þrengt að togurunum yfir vertíðina og það er gert í því skyni að togararnir geti ekki nálgast hrygningarfiskinn eins mikið og verið hefur. Á vissum tíma ársins, þ.e.a.s. um hávertíðina, þegar línu- og netasvæðin eru lokuð og hrygningarsvæðið er lokað á Selvogsbankanum, þá hafa þessir togarar nánast ekkert erindi austur fyrir Reykjanes til að fiska annars staðar en utan við 12 mílur. Ég held að það sé varla ástæða til þess að fara að rekja það allt í smáatriðum.

En það er ekki hægt að víkjast undan því að minnast hérna dálítið á þær brtt. sem fjalla um þessi svæði, Suðausturlandið og Suðurlandið.

1. brtt. er við Suðausturlandið. Hún er í fjórum liðum, sem þó eru eiginlega ekki nema tveir, vegna þess að 3. og 4. liður eru undirliðir 1. og 2. liðar. Þar segir aðeins að það sé meiningin að loka og þrengja aðeins frá því sem er í frv. togveiðar á hrygningartímanum á þessu svæði, eins og hefur verið í lögum áður, og er þess vegna ekkert nema gott um þessar till. að segja frá mínu sjónarmiði.

B-liður þessarar brtt. er í tveim liðum um það að leyfa nú aftur, eins og var í lögum og er í gildandi lögum varðandi annað svæðið, að leyfa minnstu bátunum að fiska upp að ströndinni á takmörkuðu svæði í takmarkaðan tíma. Um það svæði, sem var ekki í gildi í síðustu lögum, er það að segja að þar er einungis um tveggja mánaða veiðiheimild að ræða, frá miðjum febrúar að miðjum apríl. Það þykir sannað af reynslunni að á þetta svæði sé ekki hægt að fara til að sækja sér smáan fisk. Þarna er í rauninni eingöngu um allstóran göngufisk að ræða og að langmestu leyti ýsu. Og það var nú svo að í vetur voru nokkrir bátar teknir að ólöglegum veiðum, mjög nálægt landi þarna sumir hverjir, og var mikið fjaðrafok um þetta í blöðunum og sum blöð í þessu landi, undir forustu náttúrlega Alþýðublaðs-Vísis, gengu hreinlega berserksgang yfir því að hér væri um stórkostlegan glæp að ræða sem væri jafnvel verri en þau sorglegu glæpamál sem hafa verið hér Í gangi nú um alllangan tíma. Þetta voru verstu óvinir þjóðarinnar sem þarna höfðu stolist inn fyrir strikið, ekki var annað hægt að skilja á þessum skrifum. En ég get sagt það, að á þessum tíma, þegar þessir bátar fengu þennan afla, var ekki um auðugan garð að gresja í fiskveiðum hér um Suðurland. Þá voru netabátarnir að basla við að krækja í einhvern afla í afar erfiðri tíð og töpuðu miklum veiðarfærum og höfðu miklar keyrslur og gátu ekki stundað sjó nema öðru hvoru og netin lágu þess vegna lengi í sjó. Þeir komu með slæman afla, eyddu mikilli olíu og höfðu mikinn veiðarfærakostnað, þ.e.a.s. með þeim veiðiaðferðum var aflað tiltölulega lélegs hráefnis með gífurlegum kostnaði. Hins vegar höfðu þessar togveiðar margt til síns ágætis. Þar var alls ekki um neina keyrslu að ræða. Þar var alls ekki um neinn veiðarfærakostnað að ræða. Þar var alls ekki um smáfiskadráp að ræða. Þar var alls ekki um lélegt hráefni að ræða. Þar var einungis um fyrsta flokks fisk að ræða. Matið á fiskinum, og ég hef vigtarnótur upp á það og matsnótur, var þannig að allur fiskurinn fór 100% í 1. flokk og ekkert af honum var undirmálsfiskur. Þessar veiðar höfðu hins vegar hinn stóra galla, — og ég er ekki að mæla með slíkum veiðum að því leyti til, — þessar veiðar höfðu marga kosti, en aðeins einn galla, og sá galli var að þær voru ólöglegar. Þarna var fiskað vitlausu megin — ekki við linu, heldur við hugsaða dregna línu út af ströndinni.

Ég ætla ekki að láta mér detta það í hug að mæla hér með lögbrotum, hvorki af þessu tagi né öðru. En af þessu, sem ég hef sagt um þetta mál, ætti að vera ljóst að það er ekki skynsamlegt að hafa leyfilegar veiðar og koma með vondan fisk með miklum tilkostnaði á sama tíma og bannaðar eru veiðar sem skila eingöngu fyrsta flokks hráefni með litlum tilkostnaði. Eina ráðið við þessu að mínum dómi og okkar í n. er að koma í veg fyrir þetta og lagfæra þennan hnút, leyfa bátunum hreinlega að veiða upp við sandinn á þessum tíma, að veiða göngufiskinn, stóra fiskinn, sem allur fór og hefur ævinlega farið í 1. flokk. Þess vegna legg ég eindregið til að a.m.k. þeir fáu hv. alþm., sem mega vera að því að hlusta á umr. um frv. til l. um veiðar í fiskveiðilandhelgi, geti skilið hvað hér er um að ræða, að hér er ekki verið að hleypa mönnum upp að landi til neinna hornsílaveiða eða til þess að ganga á stofninn eða til þess að gera eitthvað ljótt sem við megum ekki, heldur til þess að veiða skynsamlega og það góðan fisk og allan stóran.

Um hina brtt. af þessari tegund er óþarfi að segja mikið. Þetta hefur verið í lögum nú að undanförnu og hefur reynst vel. Þarna hefur ekki komið ýkjamikill afli á ári hverju. Þó hefur þetta farið yfir 2000, upp Í jafnvel 3000 tonn, og aflamat gefur til kynna að þar sé einnig um stóran fisk að ræða, og gildir þá sama um þetta og hitt atriðið.

Ég vil nú ekki segja neitt eiginlega um ákvæði til bráðabirgða, en legg samt til að menn lesi það yfir. Það sjá flestir hvers eðlis það er. Ég vil helst ekki hafa mörg orð um það, en fylgi því samt, eins og ég hef undirskrifað. Ég hafði um það einhver orð í upphafi að okkur, sem létum hafa okkur til þess að fara í þessa n. til þess að koma saman lögum um þetta efni, var efst í huga að reyna að koma í veg fyrir smáfiskadráp og reyna að stuðla að því að hinn stóri stofn, sá eini stóri stofn sem við eigum, fái lifað af til þess tíma að hann geti skilað sæmilegum arði og helst eignast nokkur afkvæmi eins og önnur lifandi kvikindi til þess að viðhalda þeim stofni sem íslenska þjóðin lifir á. Og til þess voru að okkar dómi fyrst og fremst þær aðferðir að stækka möskva mikið, svo að smæsti fiskurinn slyppi, og beita skyndilokunum, eins og ég sagði áðan, þ.e.a.s. geta komið í veg fyrir það strax að fiskveiðar á smáfiski í stórum stíl kæmu upp. Þetta eru undirstöðuatriðin sem við höfðum fyrir augunum þegar við vorum að vinna að þessu frv. Ef það tekst ekki og eftirlit með því rennur út í sandinn, þá er allur sá línudráttur og öll sú flatarmyndafræði, sem er augljós af þeim kortum sem fylgja frv., til einskis.

Ég vil að endingu leggja áherslu á það við hv. þm. þessarar d. að hafi þeir nú eftir þessa 2. umr. einhverjar sérstakar aths. fram að færa við einstaka liði frv., um fiskisvæðin eða um aðrar greinar frv. sem fjalla um aðra þætti málsins, þá láti þeir okkur í sjútvn. vita af því sem fyrst og helst sem skýrast og greinilegast, en fari ekki að kasta hér inn við 3. umr. alls kyns brtt. sem gætu orðið til þess að tefja afgreiðslu málsins. Ég legg mikla áherslu á það, að ég álít að það sé tvímælalaust nauðsynlegt að koma þessu frv. í gegn áður en þing lýkur störfum og margbreytilegur tillagnaflutningur við 3. umr. gæti orðið til þess að tefja málið og gæti orðið til þess að sprengja það upp. Og ég segi fyrir mig, að ég get varla séð fyrir endann á því sem skeð gæti ef af slíku yrði. Þess vegna vil ég segja það aftur, að ég hvet hv. þm. í þessari d. til þess að taka þessari ábendingu og láta vita strax af hugmyndum sínum og vinna af ábyrgð að koma þessu máli farsællega Í höfn.