06.05.1976
Neðri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3759 í B-deild Alþingistíðinda. (3050)

212. mál, upptaka ólöglegs sjávarafla

Frsm. meiri hl. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst aðeins víkja að atriði sem nokkrir þm. hafa vakið athygli mína á, en það eru lög nr. 25 frá 22. apríl 1967, um Landhelgisgæslu Íslands, en þar segir svo Í 17. gr., að „í sjóð, er nefnist Landhelgissjóður Íslands, skal renna sektarfé og andvirði upptækra verðmæta vegna brota gegn fiskveiðilöggjöfinni“ o.s.frv. Í frv., sem er til umr. nú, er gert ráð fyrir að stofna sjóð sem í skal renna andvirði hins ólöglega sjávarafla, og einfalt mál er það að sjálfsögðu, að þetta, ef að lögum verður, eru ný lög sem koma í stað hinna að þessu leyti, þannig að vitanlega gilda þau og mundu þá verða breytt hinum fyrri um landhelgisgæsluna í þessu atriði þegar þau verða endurskoðuð. Ég vænti þess að þetta sé fullljóst.

Það hafa orðið nokkrar umr. um þetta frv. Hv. þm. Garðar Sigurðsson ræddi málið sem að líkum lét þar sem hann hafði lýst því yfir að hann mundi skila sérálíti í málinu. Það kom að vísu í ljós, sem ég átti von á, að andstaða hans við frv. risti ekki djúpt, Hann var þarna á grunnmiðum, að segja má, kannske í landhelgi Lúðvíks Jósepssonar. Því fer að vísu fjarri að hann sé að aðhafast neitt ljótt þar eða stunda rányrkju. Hann er þar í slefi hjá aðaldráttarbátnum og á ekki gott með að skera sig úr því togi, og þess vegna er nú það að hann þurfti að hafa þessa sérstöðu í orði. En síðan hafa hv. þm. Skúli Alexandersson og Ellert B. Schram rætt málið, og Ellert vitnaði í að hér mundi vera á ferðinni að brjóta sjálfa stjórnarskrána. Að sjálfsögðu eru það bábiljur einar, enda var fram á það sýnt af hálfu hæstv. sjútvrh. og til þess vitnað að hér er ekkert annað á ferðinni í sjálfu sér en það sem lengi hefur auðvitað viðgengist, að það bitnar á allri skipshöfn til að mynda ef skip er staðið að ólöglegum veiðum, að því leyti sem afli þess er gerður upptækur, og vitaskuld ber áhöfn ekkert úr býtum af þeim aflafeng. En vegna þess að n. þótti sem hér væri mjög djúpt tekið í árinni í ákvæðum þessa frv., þá vísaði hún málinu til umsagnar lagaprófessors Gauks Jörundssonar og úrskurður hans eða umsögn er að mínum dómi með þeim hætti að sker úr um það að hér er alls ekki um neitt það athæfi að tefla að það brjóti í bága við sjálfa stjórnarskrána.

Þetta frv. er fram lagt Í framhaldi af þeim umr., sem urðu í fiskveiðilaganefndinni um með hvaða hætti hægt væri að hindra smáfiskadráp og að stundaðar yrðu ólöglegar veiðar að þessu leyti, og flutt um það sérfrv. Það er alveg ljóst mál að eins og sakir standa má einskis láta ófreistað til þess að reyna að hindra þessa ósvinnu. Og eins og ég hef margoft tekið fram í umr, um frv. til laga um veiðar í fiskveiðilandhelginni, þá er miklu betra ofgert en vangert í þessum sökum. En ég held að menn misskilji það líka að þessu verði beitt í tíma og ótíma, það sé ástæðulaus ótti. Ég held að þessum ákvæðum verði ekki beitt nema borðleggjandi sé að um brot sé að tefla. Ég óttast það ekkert. En það er alveg nauðsynlegt að auka agann á þessu sviði, því nær daglega berast a.m.k. þeim, sem eru nátengdir þessum útvegi, fréttir um athafnir sem útilokað er að láta fara fram án þess að bregða við. Ég ætla ekki og þarf ekki að upplýsa hv. þd. um það, því ég geri ráð fyrir því að flestir þeir, sem hér eru, hafi fylgst með því. Ég held að í þessu efni, eins og fram kom hjá hv. þm. Ellert B. Schram, þá leggi hann allt of alvarlegan skilning í málið að því leyti sem sjútvrn. sé að taka sér í hendur dómsvald, því að skýrum stöfum stendur í þessu frv. að það megi vísa málinu til sakadóms til réttrar dómsmeðferðar. Hér er aðeins verið að auka aðhald, að hægt sé þegar í stað að láta menn kenna á kólfinum ef þeir ætla að fara fram sem þeir hafa gert enda þótt fyrir liggi hið mikla hörmungarástand okkar fiskstofna. Það hefur sýnt sig í framkvæmdinni að nauðsynlegt er að geta þegar í stað tekið í taumana því ella fer þetta allt út í deilur og endalaust málaþras. Það hefur áreiðanlega enginn löngun til þess, hvorki í sjútvrn. né annars staðar, að sýna sjómönnum óbilgirni. En ef þeir geta ekki farið fram siðsamlega í þessu og eins og drengir góðir, sem þeir eru í raun og veru, þá þarf að taka í taumana, og ég sé ekki betur en að a.m.k. sé alvarleg tilraun gerð til þess með setningu slíkra laga sem þessara.

Ég geri ekki ráð fyrir að neinn ætli mér það að ég sé að biðja um nein þrælalög yfir íslenska fiskimenn. Það kæmi mér a.m.k. á óvart ef svo væri. En þeir, sem hafa haft með höndum framkvæmd laga um gæslu á þessu sviði, eiga sér þann lærdóm að hér þurfi að fá í hendur vopn samkv. slíkum lögum sem þessum að beita megi svo agi aukist. Mönnum gengur ekkert nema gott eitt til, það fyrst og fremst að hindra og vinna að því að þeim ókjörum linni að stunduð sé rányrkja og að brotin séu lög sem gilda, mönnum gengur ekkert annað til, og menn átti sig á því að það er í þeirra eigin þágu fyrst og fremst sem slík lög eru sett, mjög hvöss lög, mjög hörð lög. En reynslan sýnir að það verður ekki ofgert Í þessum sökum ef við eigum að ná þeim árangri sem okkur liggur líf við að ná.