06.05.1976
Neðri deild: 101. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3786 í B-deild Alþingistíðinda. (3097)

154. mál, sálfræðingar

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Það ber að harma, að þetta atriði skyldi ekki hafa verið rætt í n. Hv. þm. Ellert B. Schram hefur gert grein fyrir því að hann var fjarverandi þegar frv. var endanlega afgr., en við vissum raunar að hann hafði beðið um frest án þess að við vissum þó hvers vegna, en þetta hefði vissulega verið nauðsyn að ræða í n. Mér var kunnugt um að þetta atriði var rætt þegar frv. var til umr. í menntmn. Ed., þegar hún fjallaði um þetta mál, og þar fékkst skýring á þessu ákvæði.

Hér er um að ræða eins og segir í 1. gr., að rétt til að kalla sig sálfræðinga hér á landi hafa þeir einir sem til þess hafa fengið leyfi menntmrn., þ.e.a.s. hér er verið að löggilda bæði starfsheiti og starfsemi. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að með þessari grein er ekki eingöngu verið að gæta hagsmuna sálfræðingastéttarinnar eða einstaklinga sem stundað hafa þetta nám í einhverjum skólum. Þetta er fyrst og fremst hugsað til verndar almenningi. Það er hugsað sem trygging fyrir því að fólk leiti til manna sem hafa fengið menntun sem viðurkennd er af rn. og öðrum hæfum aðilum. Þetta er megintilgangurinn og þetta tel ég mjög mikilsvert og mun því greiða atkv. gegn brtt hv. 11. þm. Reykv.

Við vitum að hér er um afskaplega margvíslegt nám að ræða. Menn hafa stundað sálfræði eða sálarfræði í hinum ýmsu menntastofnunum í hinum ýmsu löndum, og á bak við þetta frv. liggur mikil vinna og viðleitni til að samræma þessa menntun og meta hvers konar menntun eigi að viðurkenna til þess að menn geti fengið starfsheiti sitt löggilt. Ég hef þá trú að ef maður kemur út úr skóla með sálfræðipróf og fær það ekki löggilt, há sé það af því að hann teljist ekki hafa þá þekkingu eða menntun til að bera að það sé — ég get sagt: óhætt almennings vegna að hann kalli sig þessu nafni og villi þannig á sér heimildir, Ég vil enn fremur vekja athygli á því, að það var samnorræn n. sem komst að þeirri niðurstöðu að það væri rétt að fara þessa leið, og það er mjög varhugavert fyrir íslendinga að skera sig úr um mikilvægt atriði eins og þetta. Það getur líka haft afdrifarík áhrif fyrir íslenska sálfræðinga ef svo fer, sem e.t.v. horfir, að það komist á gagnkvæm réttindi til starfa á Norðurlöndunum, þá hlýtur undirstaða þessa réttar að vera sú að samræming sé á löggildingu starfsheitis og starfsemi.