07.05.1976
Sameinað þing: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3792 í B-deild Alþingistíðinda. (3112)

313. mál, leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti, Ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin. Ég hlýt hins vegar að telja miður að enn skuli engar ákvarðanir hafa verið teknar um viðbót við þessar 82 íbúðir sem þarna er um að ræða. Ég hlýt að treysta á hæstv. ráðh. að hann sjái svo til að skylduákvæði, sem sett var í Ed., það komi a.m.k. til framkvæmda á þessu ári á þann veg að það verði raunhæft nú þegar. Það er þó ekki meira átak en það, að þar kæmu til 70 íbúðir til viðbótar, og ekki væri það ofgert, það væri algjört lágmark í þessum efnum.

Upphafleg áætlun er orðin hrikalega langt á eftir, og ef ekki verður að gert á þessu ári, þá sígur enn á ógæfuhliðina og þá bætist þetta ár við þau ár undanfarandi sem þetta mál hefur að nokkru verið olnbogabarn hjá húsnæðismálastjórn. Hins vegar veit ég að hér er um mjög fjárfrekt verkefni að ræða, en engu að síður það nauðsynlegt að það verður hreinlega að hafa forgang.

Ég vildi aðeins benda á það að enn þá er ekki um það að ræða að verið sé að jafna metin milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar í þessu efni, eins og þó var meiningin með þessari heimild. Það má ekki skoða sem neinn meting af minni hálfu sem landsbyggðarmanns, En hér er um beina afleiðingu af Breiðholtsframkvæmdunum margumtöluðu að ræða, og ég veit að Reykjavíkurborg getur nú á grundvelli þess, sem þá var gert, auðvitað lagt fram aukið fé til verkamannabústaðanna á þessu svæði og á því mun eflaust vera full þörf. Ég held að það sé rétt hjá mér, að þar hafi yfir 300 íbúðir verið í gangi á s.l. ári og voru teknar í notkun þá og nú á þessu ári. Ég skal síst hafa á móti því, en vek aðeins athygli á því að þetta gerist nú, á sama tíma og hér fækkar fólki beinlínis. Og ég sé að það verður verulegt framhald á byggingu verkamannabústaða hér einnig á þessu ári og ekkert nema gott um það að segja. Þarna er um forgangsverkefni að ræða með verkamannabústaðina sem ég tel út af fyrir sig eðlilegt. En á sama tíma fjölgar fólki verulega úti á landi í kjölfar þeirrar atvinnuuppbyggingar sem þar varð, og þar stendur viða á svörum um nauðsynlega fjármögnun til félagslegra framkvæmda einmitt Í sambandi við leiguíbúðirnar. Það má hins vegar deila um það hvort sveitarfélögin hafi ekki farið í of ríkum mæli inn á þær og sinnt hinu hlutverkinu síður, þ.e.a.s. verkamannabústöðunum. Ég áfellist sumar sveitarstjórnir fyrir að hafa farið of alfarið inn á þessar íbúðir, Í stað þess að halda sig að því kerfi sem hefur vissulega forgang hjá húsnæðismálastjórn. En það er greinilegt að leiguíbúðirnar, sem áttu að jafna þennan mun sem varð á sínum tíma vegna Breiðholtsframkvæmdanna sem auðvitað komu eingöngu höfuðborginni til góða, hafa ekki enn þá orðið til þess að jafna þessi met, Það hallar enn á landsbyggðina miðað við síðasta ár þrátt fyrir einhverjar framkvæmdir í verkamannabústöðum þar einnig. Og ég er hræddur um að svo verði eins á þessu ári nema verði gert verulegt viðbótarátak. Ég legg sem sagt aðaláherslu á það að á þessu veltur mjög framtíðarþróun fjölmargra þéttbýlisstaða, að nú verði rösklega að unnið, og ekki mun heldur veita af þeirri atvinnu sem við þetta mun einnig skapast ef vel verður að staðið. Ég vil því leyfa mér að skora á hæstv. ráðh. að sjá til þess að það verði a.m.k. ekki gengið skemmra á þessu ári en skylduákvæði, sem við samþ. í Ed., sagði til um, að það fari a.m.k. af stað á þessu ári 150 leiguíbúðir á vegum sveitarfélaganna.