10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3855 í B-deild Alþingistíðinda. (3169)

257. mál, jarðalög

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil strax í upphafi máls míns segja það, að ég er á móti þessu frv. til jarðalaga og tel það stefna í átt til hreins kommúnisma. Þetta er upptaka á eignum manna sem búa í þéttbýli sem þeir eiga utan sinnar heimabyggðar, sveitar eða byggðarlags. En ég hafði visst gaman af því að hv. síðasti ræðumaður, Helgi Seljan, 7. landsk. þm., skyldi upplýsa það að hann væri þó gæddur vissri braskaranáttúru, hann hefði eignast jörð, en væri nú að stuðla að því með lagasetningu á Alþ. að koma í veg fyrir að þessi hvöt hans nái nú lengra á þessum gróða og braskaravegi. (Gripið fram í.) Já, ég svara nú ekki hv. þm. því sem hann skaut hér að, en það leynist ýmislegt meðal fulltrúa öreiganna. Ég óska þeim til hamingju með kapítalistann innan sinna vébanda.

Ég vil upplýsa hv. 7, landsk. þm. að ég vil ekki taka þátt í því að viðurkenna að hér hafi verið brædd saman sjónarmið Sjálfstfl. og Framsfl. almennt. Ég vil mótmæla því. Ég tel mig í Sjálfstfl. Það getur vel verið að það séu menn innan Sjálfstfl. sem telja þetta mjög gott frv., en ég tel það ekki vera svo. Það vill nú svo til að margir af þeim, sem búa úti á landi og hafa erfiðað og lagt það til landsins sem þeir hafa getað með erfiði og miklu hugviti, hafa á elliárum losað sig við sínar jarðir og komið sér svo fyrir í ellinni í þéttbýli. Ég er ansi hræddur um að það verði erfiðara eftir að þetta frv. nær fram að ganga, að jarðanefndir komi til með að takmarka söluverð þessara eigna. Ég efast um að þeir geti í framtíðinni fengið sér smáíbúð t.d. í Reykjavík, Akureyri eða annars staðar þegar þeir þurfa á hvíld að halda og kannske að vera nálægt sjúkrahúsi. Nei, ég held að þetta frv. sé að mörgu leyti vanhugsað og síst til bóta fyrir einmitt þá sem menn þykjast vera að berjast fyrir, en það eru bændurnir sjálfir.

Ég er sammála því sem kemur fram hjá hv. varaþm. Alþfl., Braga Sigurjónssyni, sem því miður er horfinn af þingi áður en þetta mál er tekið til afgreiðslu, þegar hann segir, með leyfi hæstv. forseta, í sínu nál. á þskj. 682 — ég gríp hér inn í þetta nál.:

„Annað markmið frv. virðist að festa í sessi eignar- og umráðarétt sjálfseignarbænda og sveitahreppa yfir öllu landi, bæði þinglýstum jarðeignum sem og afréttum og óbyggðum öllum, lóðum og lendum utan skipulagðra þéttbýlisstaða, gögnum lands og gæðum, sbr. 3. gr. frv.

Undirritaður telur að jafnafdráttarlaust yfirráða- og valdsvið fyrirhugaðra jarðanefnda, sem frv. leggur til að verði, og skipaðra með þeim hætti, sem frv. ætlast til, hljóti að leiða til árekstra með íbúum sveitahreppa og íbúum þéttbýlisstaða, þar eð skipan jarðanefndanna virðist miðuð við hagsmuni sjálfseignarbænda og sveitahreppa einvörðungu.“

Ég held, að þetta frv. stuðli einmitt að þessu ósætti milli íbúa í þéttbýli og íbúa í strjálbýli. Bragi Sigurjónsson heldur áfram í sínu nál.:

„Hætt er við að líkir árekstrar kunni að skapast varðandi úthlutun og ákvörðun útilífssvæða og sumarbústaðalóða, einnig ráðstöfunarstjórn á fasteignum sem eitt sveitarfélag á í öðrum, t.d. Reykjavíkurborg í Grafningshreppi (Nesjavellir) eða Hafnarfjarðarbær í Grindavíkurhreppi (Krýsuvík), svo að dæmi séu nefnd. Enn er að geta slíkra tilfella þegar íbúar þéttbýlisstaða telja sig þurfa að kaupa jörð, jarðir eða jarðahluta í öðru sveitarfélagi sér til landrýmis. Þarf hér að koma sveigjanlegri sjónarmiðum að með skipan jarðanefnda en ætla verður að skipan samkv. frv. bjóði upp á, og er tillöguflutningur í sambandi við þetta nál. m.a. við það miðaður.“

Svo koma brtt. sem þegar hafa verið lesnar hérna upp og ég kæri mig ekki um að endurtaka.

Ég vil þá rétt aðeins koma að því, sem ég tel athugunarvert í þessu frv., og byrja þá á jarðanefndunum sjálfum. Það segir í 5. gr.:

„Jarðanefndir skulu hver á sínu svæði vera sveitarstjórnum til aðstoðar við framkvæmd laga þessara, sbr. 1. gr., með því að“ o.s.frv.

Er ekki nóg að kjörnir fulltrúar í hverju sveitarfélagi sjái sjálfir um að lögum sé framfylgt í viðkomandi sveitarfélagi? Þarf virkilega að koma með eina silkihúfuna til viðbótar í stjórnkerfi landsins, jafnvel þótt þetta komi í staðinn fyrir aðra nefnd og jafnvel þótt hún sé prjónuð og þá kannske úr rauðu? Ég álít að þetta sé alveg furðulegt, að sveitarstjórn, kjörnum fulltrúum, skuli ekki vera treyst til þess að lögum sé framfylgt á hverjum stað og það skuli þurfa að skipa sérstakar n. til þess að sjá um að sveitarstjórnir framfylgi lögum. Eina ráðið er náttúrlega að kjósa þá menn sem fólkið treystir á hverjum stað, en ekki setja eftirlitsmenn til að sjá um að þeir starfi eins og þeir eiga að starfa lögum samkvæmt.

Það, sem kemur í 3. lið 5. gr., þar sem segir að jarðanefnd skuli fylgjast með því að sveitarstjórn gæti ákvæða gildandi laga um mannvirkjagerð í sveitinni, töku hvers konar jarðefna og stuðla að góðri umgengni um land og mannvirki, hvað á þetta að þýða? Hvers vegna komum við ekki með till. um að það verði sett eitthvað yfir Alþ., nýtt Alþ. til þess að hafa eftirlit með okkur hér sem þjóðin virðist vera að verða óánægð með? (Gripið fram í.) Ég sé að það væri kannske athugandi að breyta þá þingsköpum vegna framískota hv. 5. þm. Norðurl. v., þannig að tveir eða fleiri geti talað í einu.

Í 6. gr. er talað um hvernig aðilar, peningastofnanir og aðrir, geti eignast land, geti eignast það í „nauðungarsölu á uppboði, þar með talinni útlagningu til veðhafa“ o.s.frv. En um það, hvernig þeir geta losnað við það aftur, það er hvergi nokkurs staðar getið um að þessar peningastofnanir, sem eru þó ríkisfyrirtæki, geti losnað við þessar jarðir sínar aftur ef þær eru neyddar til þess að taka við þeim. En ég álít að það sé ekki nokkur leið að forsvara það að Sjálfstfl. láti Framsfl. teyma sig út í að samþykkja þetta frv. Það er andstætt því sem ég álít að sé stefnuskrá og lífsskoðanir sjálfstæðismanna. Það er hvergi nokkurs staðar í frv., sem ég get séð, að réttur eiganda sé tryggður að öðru leyti en því að hann getur áfrýjað til ráðh. En það kemur fram seinna í frv. — ég man nú ekki hvar það er — að ef eigandi telur sig hafa kaupanda að jarðareign sinni og sveitarstjórn eða jarðanefnd telur verðið of hátt, þá getur hún flokkað það undir brask og vefengt

það, metið það og tekið eign annarra á því verði sem hún ákveður sjálf. Það gengur meira að segja svo langt í 26. gr. að undir ákvæði laga þessara um forkaupsrétt koma ekki til framkvæmda eftirfarandi atriði. En síðasta mgr. hljóðar svo: „Falli fasteignarréttindi við erfðir til annarra en þeirra, sem greinir í 1. tölul., á hreppsnefnd rétt á að fá þau keypt því verði sem þau eru lögð erfingjum til arfs.“

Erfingjar hafa ekki einu sinni leyfi til þess að eiga þetta ef sveitarstjórn eða jarðanefnd ákveður að taka það af þeim. Er hægt að koma með slíkt? Brýtur þetta ekki í bága við stjórnarskrána? Hvað er að ske hér? Ætlar Sjálfstfl. að láta Framsfl. teyma sig út í svona bölvaða vitleysu? Það er tæplega þörf á því að lesa 13. og 14. gr., ég vildi biðja hv. þm. um að lesa þær sjálfir áður en þeir greiða atkv. í þessu máli. En ég ætla nú samt að lesa hérna 14. gr.:

„Nú er jörð í sameign, en einn sameigenda rekur bú á jörðinni og hefur þar fasta búsetu, og getur ráðh. þá leyft honum að leysa til sín eignarhluta meðeigenda sinna, enda hafi sveitarstjórn, jarðanefnd og landnámsstjórn mælt með því. Náist ekki samkomulag um verð á hinum innleystu hlutum, skal fara um mat og greiðslu bóta eftir lögum um framkvæmd eignarnáms.“

Ég kalla þetta bara hreinan dónaskap, að koma fram með svona frv. — hreinan dónaskap. Hvað skeður ef hér í Reykjavík verður látin fara fram athugun á því hvað bændur eiga mikið af íbúðum og reykvíkingar, þeir sem leigja hjá þeim, vildu kaupa íbúðirnar? Við gætum látið fara fram mat á þessum íbúðum eftir okkar geðþótta, en söluverðið yrði ekki gangverð, það yrði matsverð og bændur yrðu neyddir til að selja sínar íbúðir. Þetta er nákvæmlega það sama. Og hvað skeður þá? Hver veit nema svona frv. skapi slíkt stríð eins og kemur fram í nál. hv. þm. Braga Sigurjónssonar? Það getur vel verið.

Með þessu frv. ætla opinberir aðilar beinlínis að ráða fyrir bændur. Má segja að þeir séu sviptir eignarrétti. Það er furðulegt að Sjálfstfl. skulu láta draga sig út í þessa bölvaða vitleysu, eins og ég sagði áðan. Og ég endurtek það, ég efast um að þetta sé leyfilegt samkv. stjórnarskránni.

Gera bændur sér ljóst hvaða réttur er tekinn af þeim með þessu frv.? Halda bændur virkilega að Framsfl. sé að gera þeim einhvern greiða? Ég held, að bændur vilji selja sinar jarðir, þegar þeir eru búnir að strita ævilangt og þurfa að komast í hvíld, kannske nær heilsuhælum, þurfa kannske að bregða búi vegna heilsubrests, hafa þá notað tækifærið og losað sig við sínar jarðir og eignir og keypt íbúð hér í Reykjavík eða annars staðar nálægt sjúkrahúsum. Ég endurtek það, ég efast um að bændur séu fylgjandi því að þurfa að hlíta söluverði jarðanefndar eða sveitarstjórnar.

Ég veit ekki hvort 9. gr. er nokkuð betri en hinar, en þar segir, með leyfi forseta: „Óheimilt er að þinglýsa skjölum varðandi ráðstöfun fasteignar sem lög þessi taka til.“ Það er óheimilt manni að þinglýsa eign sinni. Aðrir eigendur fasteigna í landinu þurfa ekki að leita til opinberra stofnana til þess að fá heimild til þess að þinglýsa eign sinni eða til sveitarfélaga.

Í 18. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú er fasteign ráðstafað andstætt fyrirmælum laga þessara.“ Sem sagt, ef eigandi fasteignar ráðstafar henni að eigin geðþótta, sem er að sjálfsögðu andstætt þessum lagafyrirmælum, varðar sú ráðstöfun refsingu sbr. 61. gr. Auk þess getur sveitarstjórn þá með samþykki jarðanefndar og ráðh. höfðað mál til ógildingar ráðstöfuninni, til ógildingar á því sem maður hefur gert við sína eigin eign. Og hvað segir svo í 61. gr.? „Brot gegn )ögum þessum varða sektum allt að 100 þús. kr. Mál út af brotum gegn lögum þessum skulu sæta meðferð opinberra mála.“ Það er ekkert annað. Maðurinn er sektaður og dreginn fyrir dómstóla fyrir það eitt að hafa selt sína eigin eign. Vesalings Sjálfstfl., hvað er að verða um hann? Hvað er að verða um Sjálfstfl.?

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, ég held að þau séu þegar orðin nógu mörg, og ég efast ekkert um að þau leiða af sér einhverjar umr. Ég á von á því vegna þess að samstaða um þessi mál er fyrir fram ákveðin í öllum flokkum. Alþb: menn hafa komið hér upp og lýsa ánægju með þetta. Það er frsm. úr Sjálfstæðisfl. Það er landbrh. sem flytur frv. Þetta er stjfrv. Ég held að þjóðin verði að fara að vakna. Þetta virðist vera gulltryggt og því vitlausari sem hluturinn er, þegar hann kemur hér fram, þeim mun betra er að koma honum í gegn, því auðveldara. Það ættu hv. þm. að vita.

Hv. 6. þm. Sunnl. gat þess í sinni ræðu, kom að því, að sveitarstjórn væri fenginn ótvíræður réttur með þessu frv. En ótvíræður réttur til hvers? Til að skipuleggja. Sveitarstjórnir fara eingöngu með skipulagsmál og athugun á sumarbústaðastæðum o.s.frv. Ég held að það sé hvergi í þessu frv. sem sveitarstjórn er fenginn ótvíræður réttur. Það er alls staðar sett á þá lögregla: jarðanefnd, eftirlitsnefnd, og sums staðar er talað um að jarðanefnd hafi tillögurétt til sýslunefndar. Ég held að réttur sveitarfélaga sé þarna fótumtroðinn. Það getur vel verið að það sé rétt sem hv. 1. landsk. þm. sagði, að frv. gefi til kynna batnandi sambýli á kærleiksheimill og í samstarfi stjórnarflokkanna. Þá verð ég að segja, ef þetta er sýnishorn af því, þá óttast ég um framtíðina.