11.11.1975
Sameinað þing: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

300. mál, samstarf við erlenda aðila um virkjanir og stóriðju á Austurlandi

Jónas Árnason:

Herra forseti. Það er ekki ófyrirsynju að menn standa hér upp og láta í ljós ugg út af þeim áformum sem bersýnilega eru á ferðinni bak við tjöldin um að koma upp stóriðju á Austurlandi.

Ég held að fulltrúar austfirðinga, sem hér hafa talað, ættu að láta reynslu okkar vestlendinga sér að kenningu verða. Það, sem getur komið í veg fyrir, að austfirðingar fái yfir sig þennan ófögnuð, er ekkert annað en viðbrögð fólksins heima fyrir. Ef austfirðingar rísa upp og frábiðja sér þennan ófögnuð, þá er hægt að koma í veg fyrir hann. Ég er sannfærður um að við vestlendingar hefðum losnað undan því að fá yfir okkur þá verksmiðju, sem verið er að reisa við Grundartanga núna, ef menn hefðu áttað sig fyrr, ef menn hefðu skilið eðli þessara mála eins og þeir skilja það í dag.

Ég ætla ekki við þessar umr. að rekja hvernig þeim málum er komið hjá okkur. Ég er búinn að flytja um það þáltill. að framkvæmdum verði frestað þar efra. Þar er nú að ljúka fyrsta stigi. Það er að ljúka fyrsta stigi þess þjösnaskapar, sem tengdur er framkvæmdunum þar efra. Það er búið að riðlast þar um og spilla náttúru. Það er búið að sýna það, að þetta fyrirtæki og þeir aðilar, sem við erum hér komnir í bland við, virða ekki íslenskan verkalýð hið allra minnsta. Óvirðing þeirra gagnvart íslenskum verkalýð er slík sem engin dæmi eru um áratugum saman. Vandræði margs konar önnur hafa af þessu sprottið. Þetta hefur opnað augu fólks, og ef fleiri flokkar en Alþb. hefðu risið upp gegn þessu, meðan málið var enn í undirbúningi, og sameinast um að sporna gegn þessu, þá held ég að við hefðum komið í veg fyrir þennan ófögnuð, við hefðum losnað við þennan ófögnuð. Og ég vil beina því til austfirðinga að þeir reyni að átta sig í tæka tíð og rísi upp gegn þessu, og þá er ég að tala um almenning þar eystra.