10.05.1976
Neðri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3935 í B-deild Alþingistíðinda. (3243)

271. mál, Happdrætti Háskóla Íslands

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð, og til þess að spara tíma ætla ég að láta það, sem ég segi nú um þetta frv., nægja um önnur tvö sem einnig munu koma hér til 2. umr. eftir afgreiðslu í n. Það eru frv. um happdrættin þrjú.

Ég hef haft sömu afstöðu til nál. sem gefin hafa verið út á þskj. 700, 701 og 702 varðandi öll þessi frv., að skrifa undir nál. með fyrirvara. Það er ekki vegna þess að ég sé á nokkurn hátt andvígur þeirri hagræðingu sem verið er að koma á fót með flutningi þessara frv. í sambandi við drátt vinningsnúmera hjá þessum happdrættum. Hér er aðeins um vinnuhagræðingu að ræða, að taka tölvur þar í notkun, auk þess sem ekki mun vera hægt, að því er mér skilst, að halda öllu lengur áfram með þá aðferð sem notuð hefur verið, þ.e.a.s. láta draga með gömlu aðferðinni, þar eð miðar sem notaðir eru við slíkan drátt fást ekki lengur prentaðir, eftir því sem mér skilst. Ég hef ekki fyrirvara á því að skrifa undir þetta nál. vegna þess að ég sé á móti þessari hagræðingu, heldur af sömu ástæðum og hv. síðasti ræðumaður tók fram, að mér finnst mjög óæskilegt að vera með lögum að koma fleiri og fleiri verkefnum af slíku og þvílíku tagi til meðferðar í tölvum og öðrum slíkum tækjum án þess að nokkur lög séu sett um meðferð slíkra tækja og heimild til notkunar gagna sem þau tæki vinna, eins og viðgengst í flestum eða öllum nálægum löndum. Það er af þeirri ástæðu sem ég hef undirritað nál. með fyrirvara, en ekki því að ég hafi neitt á móti þeirri hagræðingu sem þarna er rekin. En ég segi eins og hv. síðasti ræðumaður, að mér finnst mjög óeðlilegt að vera sífellt að fjölga slíkum verkefnum eins og hér um ræðir án þess að sett sé löggjöf um hvernig nota megi þau geysimiklu auknu afköst og þær upplýsingar sem geyma má með þeim hætti sem hér er um að ræða.