11.05.1976
Sameinað þing: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3971 í B-deild Alþingistíðinda. (3279)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Fyrir síðustu helgi keyrði um þverbak þeim svívirðilegu árásum bresku herskipanna á varðskip okkar og má kraftaverk heita að ekki varð af stórslys. Ég tel að viðbrögð hæstv. ríkisstj. við þessum atburðum hafi verið svo lítil að það verði að átelja hér á Alþingi.

Mér virðist að ýmislegt hafi gerst núna allra síðustu vikur sem styrki mjög allan málflutning okkar.

Í fyrsta lagi voru þessar síðustu árásir alveg sérlega harðar og hljóta að virðast öllum þeim, sem sjá tilgangsleysi þeirra, sem furðulegt ráðleysisflan af bresku ríkisstj.

Í öðru lagi var Hafréttarráðstefnan að ljúka fundi í New York þar sem gengið var frá nýjum texta og að því er virðist algjörlega óumdeilt að 200 mílna útfærsla verði ekki véfengd sem alþjóðlega heimil ráðstöfun, og meira að segja forseti ráðstefnunnar á að hafa sagt að útfærsla t.d. Bandaríkjanna hafi greitt mjög fyrir þróun þessa máls.

Í þriðja lagi hafa bretar sýnt friðunarsvæðum okkar meiri fyrirlitningu heldur en áður.

Í fjórða lagi er nú orðið ljóst að þeir hafa haldið úti fjölda togara, sem annars hefði verið lagt, og eru sýnilega að reyna að sanna fyrir sjálfum sér og öðrum að þeir hafi stundað hér veiðar með meiri togaraflota heldur en raun undanfarinna ára hefur sýnt okkur, og geta menn giskað á hvað þeir ætla sér að hafa út úr því.

Í fimmta og síðasta lagi er meginvertíð lokið hér á íslandi. Við vitum hvernig hún fór, og við vitum líka að allar horfur eru á því að um mitt ár verði búið að veiða allan þann þorsk sem fiskifræðingar geta framast talið öruggt að veiða ef stofninn á ekki að bíða alvarlegt tjón. Það er því ljósara en nokkru sinni að breski togaraflotinn undir vernd breska flotans verður hér fram í fullkominni andstöðu við friðunarsjónarmið og með fullkomnu tillitsleysi til örlaga þorskstofnsins, þó að allir viti að afkoma okkar um ófyrirsjáanlega framtíð er tengd þessum stofni.

Allt eru þetta rök sem við þekkjum, en hafa styrkst við þá atburði sem ég hef nefnt, og væri því ástæða til að nota hvert tækifæri og hvert tilefni til að koma þeim á framfæri.

Ég skil ekki hvers vegna sendiherra okkar með sitt starfslið í New York hefur ekki fengið fyrirmæli um að krefjast fundar í Öryggisráðinu. Og ég skil ekki hvers vegna sendiherra okkar með starfslið sitt í Brüssel hefur ekki fengið fyrirmæli um að óska eftir fundi í NATO-ráði. Við erum að vísu langþreytt vegna þess hve lítinn árangur þessar stofnanir hafa getað veitt okkur og okkar málstað hingað til. En þær eru einu sinni ekki sterkari en þetta, og dropinn holar steininn í þessum málum. Þess vegna tel ég að við megum ekki sleppa tækifærum eins og þessum, sérstaklega þegar þau kosta okkur nálega ekki neitt.

Að lokum er fram undan utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins í Osló, og ég er þeirrar skoðunar að utanrrh. Íslands eigi ekki að sækja þennan fund, heldur senda orðsendingu sem aðalritari getur lesið þessum fundi þar sem við drögum mynd eitthvað líka því sem ég hef verið að tala hér um. Ég er sannfærður um það, eins og lítur út í dag, að það mundi vera mun áhrifaríkara ef ráðh. kæmi ekki til fundarins, heldur en hitt, þó að hann sæti þar inni á lokuðum fundi og héldi þar ræðu yfir starfsbræðrum sinum. Ég minnist þess að í fyrsta þorskastríðinu átti Atlantshafsbandalagið 10 ára afmæli og hélt mikla afmælisráðstefnu í London. Alþm. áttu að vera uppistaðan í sendinefnd Íslands á þeirri ráðstefnu, en þeir neituðu að fara og það kom sýnilega við þá sem stóðu að ráðstefnunni. Það vakti sýnilega miklu meiri athygli heldur en nokkur málflutningur hefði getað vakið.

Að lokum stenst ég ekki freistinguna að endurtaka eitt atriði sem ég nefndi í umr. um utanríkismál nú nýlega. Það er hugmynd sem ég sá í blaði norðan af Akureyri um að við sýnum sjómönnum Landhelgisgæslunnar einhverja sérstaka virðingu sem öðrum landsmönnum hefur ekki verið sýnd og mun ekki verða sýnd. Ég tel að forseti íslands ætti að gefa út sérstakan flokk af afreksmerki íslenska lýðveldisins sem var samkvæmt forsetabréfi frá 1950 til þess að verðlauna þá sem bjarga mannslífum. Ég tel að starf Landhelgisgæslu-sjómannanna sé fyllilega sambærilegt við það og þeir einir eigi að fá merki þessa flokks. Ég bið hæstv. ríkisstj. um að íhuga þetta og ræða það, hvort hún vill ekki ráðleggja forseta Íslands að gera þetta.