11.05.1976
Sameinað þing: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3973 í B-deild Alþingistíðinda. (3280)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er svo sannarlega ekki oft sem ég stend hér upp utan dagskrár og hef raunar aldrei beðið um orðið utan dagskrár fyrstur manna hér á hinu háa Alþ. síðan ég tók hér sæti fyrir nokkrum árum.

En atburðir undanfarinna daga hafa verið svo alvarlegir í mínum augum að mér finnst útilokað annað en þjóðin fái að heyra eitthvað frá hinu háa Alþ., heyra einhver viðbrögð frá þessari stofnun, ekki síst vegna þess að frá hæstv. ríkisstj. sem heild hefur ekkert verið sagt um þetta mál annað en það, að við höfum sent skrifleg mótmæli og höfum jafnvel í hyggju að mótmæla við Öryggisráðið og eitthvað slíkt, eins og við höfum oft beitt, en með engum árangri.

Ég vil í upphafi geta þess að ég hef raunar ekki búist við að þessu sinni bitastæðum svörum frá hæstv. ríkisstj. fremur en endranær. Þar hafa svörin jafnan verið á eina lund. Þar hefur verið talað um að við ættum að sýna stillingu, við ættum að leita eftir samúð frá erlendum vinaþjóðum okkar og eins og ég sagði áðan, senda skrifleg mótmæli og allt í þeim dúr, sem hefur ekki verið til neins, raunar ekki til neins annars en styrkja breta í þeirri trú að hér sitji stjórn að völdum sem geti látið bjóða sér allt. Ég veit að þetta eru hörð orð, en ég tel að reynslan frá því að svokallað þorskastríð hófst hafi sýnt það og þess vegna sé alveg óhætt að halda því fram. Auk þess sem maður býst ekki við allt of mörgum svörum og þaðan af síður greinagóðum frá hæstv. ríkisstj. eða einstökum ráðh., þá hafa yfirlýsingar ráðh. ekki reynst svo ábyggilegar sem maður hefði mátt búast við. Ég hélt að ætti að vera hægt að treysta þeim til fullnustu í sambandi við þessa hluti. Er þess skemmst að minnast þegar rætt var um að gera samninga við vestur-þjóðverja hér í haust, þá lýstu ráðh., hæstv. ráðh. í ríkisstj. nokkrir yfir því, að ekki kæmi til greina að semja við vestur-þjóðverja nema bókun 6 tæki gildi, og eins og kunnugt er var þá vikið frá því skilyrði. Yfirlýsingarnar héldu ekki. Hins vegar skyldi gefinn 5 mánaða frestur, og treystu þá allir því að eftir þennan óhæfilega frest yrði þó alla vega staðið við það að væri ekki bókun 6 komin til framkvæmda eftir 5 mánuði, þá yrði samningnum frestað. Þær yfirlýsingar, sem gefnar voru í þessu máli, hafa ekki heldur staðist.

Það alvarlegasta í málameðferðinni varðandi landhelgina er að mínum dómi það að við íslendingar, sem eigum mest undir því, við höfum aldrei tekið frumkvæðið á neinu stigi málsins. Allir okkar leikir í þessum efnum hafa verið þannig að þeir hafa verið eða áttu að vera svör við þeim aðgerðum sem andstæðingarnir hafa gert í málinu, en svörin hafa öll verið með þeim hætti að þeir leikir okkar hafa nánast verið eins konar biðleikir, en aldrei verið í þeim dúr að við höfum tekið frumkvæðið á neinu sviði. Nú hefur hins vegar brugðið svo við á undanförnum dögum, að tveir hæstv. ráðh. úr ríkisstj., hæstv. dómsmrh. og hæstv. utanrrh., hafa látið hafa eftir sér um þetta mál nokkru harðari ummæli en áður hafa komið. Er þar um að ræða þá ræðu sem hæstv. ráðh. Ólafur Jóhannesson flutti á aðalfundi miðstjórnar Framsfl. nú fyrir stuttu, þar sem hann fjallaði um landhelgismálið. Ég vil ekki skorast undan því sem hæstv. forseti fór fram á, að ræðumenn skyldu vera stuttorðir, en ég get ekki komist hjá því að vitna í ummæli þessara tveggja ráðh. og leita eftir svörum frá þeim um það hvert framhaldið kunni að geta orðið.

Í máli hæstv. ráðh. Ólafs Jóhannessonar kemur skýrt fram að það, sem við höfum gert vegna ofbeldis breta með því að leita aðstoðar bandalaganna og við höfum kvartað undan þessum aðgerðum breta fyrir Öryggisráði og Atlantshafsráði, að allar þær tilraunir hafa verið til lítils eða nánast til einskis, og þar segir hæstv. ráðh., með leyfi forseta: „NATO hefur ekki reynst þess megnugt að hefta flotainnrás einnar bandalagsþjóðar í lögsögu annarrar og það hefur ekki einu sinni treyst sér til þess að fordæma innrás breta í orði.“

Þá segir hæstv. ráðh. á öðrum stað: „Það skal ekki dregið í efa að þannig megi túlka varnarsamninginn. En hitt hefur valdið íslendingum vonbrigðum, að Bandaríkin skyldu ekki sjá sér fært að verða við tilmælum íalendinga um lán eða leigu á einu eða tveimur strandgæsluskipum og að bandaríski utanrrh. skyldi telja þörf á því að ganga úr götu sinni til þess að tilkynna hinum breska starfsbróður sínum sérstaklega að Bandaríkin mundu alls ekki láta íslendingum í té skip, Að mínum dómi hefði mátt ætlast til annarra viðbragða af hálfu bandaríkjamanna. Ég get ekki skilið þá menn sem lýsa undrun sinni á því að leita þyrfti til bandaríkjamanna með slík tilmæli. Ég get ekki skilið þá stjórnmálamenn,“ segir hæstv. ráðh., „sem láta sér um munn fara ummæli sem einna helst verða skilin á þá lund að við megum aldrei gera neitt, sem kemur bandaríkjamönnum í illt skap, hvað þá meira.“ Og hæstv, ráðh. heldur áfram: „Þjóðir Efnahagsbandalagsins, sem við erum í bandalagi við í NATO, hafa reynt að beita fjárhagslegum þvingunum til að knýja okkur til undanhalds í þessu máli.“

Þetta sagði hæstv. ráðh. Þarna kveður hann á ýmsum stöðum allfast að orði, og ég vil leyfa mér að fara fram á það við hæstv. ráðh. að hann geri hv. Alþ. grein fyrir þeim skilningi sem leggja ber í þessi orð, ef hann telur þörf á að útskýra þau eitthvað nánar. En þau eru að mínum dómi mjög sterk og þýða ekkert annað en það, að hér hafi verið staðið rangt að málum, við höfum ekki fengið neinar undirtektir og bandaríkjamenn hafi greinilega tekið afstöðu með bretum í málinu. Það sýnist mér vera augljóst.

Varðandi þau skip, sem íslendingar fóru fram á að fá í Bandaríkjunum, hefur verið skrifað í bandarískum blöðum. Ég rakst á það ekki fyrir löngu í bandarísku blaði, Miami Herald, frá 24. apríl s.l., þar var grein um það að Bandaríkjastjórn hefði neitað íslendingum um báta á leigu. í þeirri grein kemur m.a. fram, sem er höfuðatriðið, að til séu í eigu varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna 14 slík skip, og sú málsgr. endar þannig: „Og engin þeirra í notkun.“ Nú kom það fram hjá öðrum hæstv. ráðh. núna í útvarpsþætti að það væri að hans dómi fyllilega unnt að pressa áfram á bandaríkjamenn í þessum efnum, og þá er aðeins spurningin um það, í hverju sú pressa ætti að vera fólgin. Það er ljóst að því, sem ég hef sagt hingað til. að sú pressa getur ekki verið fólgin í munnlegum eða skriflegum mótmælum, heldur getur hún ekki komið öðruvísi að gagni heldur en hún sé í verki, að við leikum einhvern mótleik til þess að bandaríkjamenn og aðrir samstarfsmenn okkar í Atlantshafsbandalaginu verði áþreifanlega varir við.

Hæstv. ráðh. Einar Ágústsson svaraði spurningum í þættinum Bein lína nú í fyrrakvöld, minnir mig, þar sem hann var mikið spurður um landhelgismálið. Þar sagði hæstv. utanrrh. m.a., að við ættum nú að láta NATO vita af því að það sé erfiðleikum háð fyrir hvaða stjórn sem ríkir á Íslandi að hafa áfram samvinnu við bandalagið þegar ein þjóðin hagar sér með þessum hætti. Og hæstv. ráðh. hélt áfram: „Ég tel líka að vera hersins hér sé ekki sjálfsagður hlutur.“ Þetta þýðir að mínum dómi það, að við þurfum að mati hæstv. utanrrh. að snúa okkur til NATO með einhverjar slíkar ákvarðanir sem þeir skildu og fyndu fyrir og yrðu til þess að rétta okkar hlut, þó ekki væri til annars heldur en að við tækjum einu sinni frumkvæðið í þessu máli.

Hæstv. ráðh. var einnig spurður um það af einum sem hringdi í þáttinn hvort árásir breta á varðskipin jafngiltu ekki stríðsyfirlýsingu. Þannig var spurningin. Svar hæstv. utanrrh. var á þann vega að árásirnar á skipin væru meira en stríðsyfirlýsing, svo segir hann orðrétt: „Ég tel að það sé stríð, styrjaldaraðgerðir.“ Þetta eru nokkuð ákveðin orð af munni hæstv. utanrrh. Þar lýsir hann því yfir að bretar séu hreinlega í stríði við íslendinga og þessar aðfarir freigátanna á miðunum séu styrjaldaraðgerðir. Þetta er orðrétt. Og í því sambandi, eftir að sjálfur utanrrh. þjóðarinnar hefur sagt þessi orð, þá hlýtur sú spurning að vakna hjá þjóðinni hvort það sé með nokkru móti hægt að rökstyðja þátttöku okkar í Norður-Atlantshafsbandalaginu meðan bretar, ein svokölluð bandalagsþjóð okkar, eru í styrjöld við okkur að mati hæstv. utanrrh?

Við vitum að vera okkar í NATO er forsendan fyrir því að hér sé her í landinu. Og ef við gripum nú til einhverra mótaðgerða sem snertu herinn í landinu og takmörkuðu hans starfsemi, þá held ég að þrátt fyrir samninginn og uppsagnarfresti sé það ástand, sem nú er og að mati hæstv. ráðh. er styrjaldarástand, nægilegt til þess að allir slíkir frestir falli sjálfkrafa burt. Það er venjan þegar svo stendur á. Og til þess að gera langt mál stutt, þá víl ég að lokum lýsa því sem minni skoðun hver ætti að vera okkar mótleikur í stöðunni og fyrsti leikurinn í öllu þessu tafli, þar sem sjálft líf þjóðarinnar liggur undir, sem gæti talist leikur til þess að ná frumkvæðinu. Aðgerðir okkar væru fólgnar í því að radarstöðvar bandaríkjamanna hér á landi yrðu stöðvaðar. Það er mjög auðvelt að koma því við að fjarskiptamiðstöð hersins og NATO á landinu yrði lokað. Að eftirlits- og æfingarflug hersins í Keflavík væri stöðvað á meðan NATO-ríki er í styrjöld við Ísland. Það er staðreynd, að eitt af NATO-ríkjunum með skip úr NATO-flotanum er í styrjöld við íslendinga, og þess vegna eigum við, á meðan slíkt ástand varir, ekki að leyfa neina starfsemi NATO á Íslandi. Annað er ekki rökrétt.

Að lokum vil ég aðeins segja það, að varðandi það, sem kom fram í ræðum tveggja fyrri ræðumanna, hv. þm. Stefáns Jónssonar og hv. þm. Benedikts Gröndals, um utanríkisráðherrafundinn, þá er ég alveg sammála því að við eigum ekki að láta hæstv. utanrrh. sækja þennan fund, og jafnvel þó hann hafi sagt frá því í útvarpsþætti þeim, sem ég vitnaði til áðan, að hann mundi líklega fara á fundinn, þó hann fullyrti það ekki, og reyna að skamma þá þarna ytra og halda yfir þeim ræður. Ég efast ekki um að hann mundi nota tækifærið til þess. Ég efast ekki um það. En ég held að sterkara en allar slíkar ræður og allur slíkur yfirlestur yfir NATO-klíkunni þar ytra, sterkara en það allt saman væri það ef hæstv. utanrrh. léti alls ekki sjá sig á þeim fundi. Og til þess að ná þar einnig frumkvæðinu og gera afstöðu okkar enn þá sterkari, enn þá eftirtektarverðari, væri það, að um leið og utanrrh. neitaði að sækja fundinn, þá sama dag yrði sendiherra íslendinga í Brüssel kallaður heim. Með þessum hætti mætti slá tvær flugur í einu höggi, og þetta yrði sannarlega leikur sem eftir yrði tekið. Með því værum við íslendingar og jafnvel hæstv. ríkisstj. byrjuð að rétta ofurlítið úr kútnum. Þá gæti kannske komið sá dagur að andstæðingar okkar í málinu litu ekki á það sem sjálfsagðan hlut að það mætti bjóða okkur allt, það mætti neita okkur um allt og það mætti ætlast til alls af okkur í undansláttarátt.