11.05.1976
Neðri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4016 í B-deild Alþingistíðinda. (3326)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Virðulegi forseti. Vegna þess að hæstv. dómsmrh. getur ekki verið á þessum fundi vegna anna, þá leyfi ég mér að taka hér til máls og gera stutta aths. við mál síðasta ræðumanns.

Mér er fullkunnugt um afstöðu hæstv. dómsmrh. Hann óskar eindregið eftir því að frv. um rannsóknarlögreglu og fylgifrv. þess nái fram að ganga á þessu þingi. Hann lét þess getið strax þegar hann mælti fyrir þessum málum hér, og sú ósk hans er enn í fullu gildi.

Það er rétt, sem fram kom hjá hv. ræðumanni, Sighvati Björgvinssyni, að í því skjali sem hér var útbýtt í gær um þau mál sem ríkisstj. óskaði eftir að gengju fram á þinginu fyrir þinglok, féll niður málaflokkur dómsmrh., og það mun hafa orðið fyrir mistök. Ég vil leyfa mér, — með leyfi forseta — að lesa upp þessi mál svo að það fari ekkert á milli mála hvað hann óskar eftir að gangi fram:

1. Rannsóknarlögregla ríkisins ásamt tveim fylgifrv.

2. Breytingar á lögum um meðferð opinberra mála.

3. Skipan dómsvalds í héraði.

4. Lögreglustjórn, tollstjórn o.fl.

5. Skotvopn, sprengiefni og skoteldar.

6. Umferðarlög, þ.e. 23. mál.

7. Veiting ríkisborgararéttar.

8. Norræn vitnaskylda ásamt fylgifrv.

9. Breytingar á lögum um meðferð einkamála, ef ekki er ágreiningur af hálfu þn. og það væri æskilegt vegna samræmis við önnur Norðurlönd.

Ég á sæti í allshn. Nd. eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson. Ég hef reynt að ýta á eftir rannsóknarlögreglufrv., eins og Sighvati Björgvinssyni mun vera kunnugt um. Frv. þetta var sent til umsagnar, ég man nú ekki dagsetningu nákvæmlega, það var líklega 31. mars. Umsagnir bárust greiðlega á tilsettum tíma nema ein. Lögreglustjóraembættið í Reykjavík óskaði eftir fresti. Formaður n., Ellert B. Schram, var í útlöndum, þegar fresturinn rann út, og ég veitti sem varaformaður fulltrúa lögreglustjóra, William Möller, frest, aukafrest um tveggja daga skeið. Þegar umsögnin barst var formaður n. heim kominn og tekinn við forustu í n. Nokkuð dróst að halda fund í n., og þegar málið loks var tekið fyrir til meðferðar, þá féllst ég á að þessar aths. þyrftu skoðunar við, og eins bárust aths. frá lagadeild háskólans. Ef nm. treysta sér til þess að verja tíma í fundi um málið, þó að nú styttist til þingloka, þá skal ekki standa á atbeina mínum við að koma málinu fram, og ég er þess mjög fýsandi að svo verði gert.

Þetta eru góð mál og bráðnauðsynleg, ég tek undir það með hv. þm. Sighvati Björgvinssyni. Það er nauðsynlegt að þau mál nái fram að ganga sem fyrst, og þau ættu að bæta úr þeim vanda sem hér er fyrir höndum. Hins vegar tel ég að þau bæti úr þessum vanda og geri minna áríðandi framgang þeirrar þáltill. sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson endaði mál sitt á að geta um.