12.05.1976
Efri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4101 í B-deild Alþingistíðinda. (3409)

52. mál, búfjárræktarlög

Frsm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Það er mér mikil ánægja að mega mæla fyrir nál. landbn. um þessa breyt. á búfjárræktarlögum sem flutt var í Nd. af hv. varaþm. Sigurði Björgvinssyni og var um það að Búnaðarfélag Íslands skyldi skylt að sjá um að rækta og vernda íslenskt forustufé þannig að það glatist ekki sem sérstakt fjárkyn, heldur verði ávallt til stofn af hreinkynja forustufé sem tryggi viðhald þessarar búfjártegundar um ókomin ár.

Í grg. með þessu frv. sagði hv. flm. með leyfi forseta:

„Allt fram á fyrstu tugi þessarar aldar hefur forustufé verið mikilvægur þáttur í sauðfjárbúskap íslendinga. Meðan enn tíðkaðist að halda fé stíft til beitar á vetrum og meðan það var flutt milli staða öðruvísi en vera rekið, stundum um langa vegu yfir fjallvegi og óbrúuð vatnsföll, kannske í ófærð og vondum veðrum, þá var það oft frábær dugnaður og vitsmunir forustufjárins sem gerðu mönnum kleift að sigrast á erfiðleikunum. En með breyttum búskaparháttum hefur forustuféð nú á síðustu árum sífellt verið að tapa því mikilvægi sem það áður hafði. Og ef svo heldur fram sem horfir er þess skammt að bíða að sú hætta vofi yfir að forustufé hverfi með öllu úr íslenskum búsmala.“

Fyrir þessu flutti flm. á sínum tíma mikla og snjalla ræðu sem sannfærði Nd.- menn mjög rækilega um að hér væri þarft og gott mál á ferðinni. Þaðan er það komið, þetta frv., að vísu nokkuð breytt, en með sama aðaltilgangi. Og landbn. Ed. hefur athugað frv. og leggur til að það verði samþ. óbreytt eins og það er komið frá Nd., en fjarverandi afgreiðslu málsins voru Bragi Sigurjónsson og Jón Árnason.