12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4109 í B-deild Alþingistíðinda. (3438)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram til þess að það fari ekkert á milli mála, að ég hef óskað eftir því að frv. um rannsóknarlögreglu ásamt tveimur fylgifrv. yrði afgr., og þau þrjú eru meðal þeirra frv. sem eru á þeim lista sem dómsmrn. sendi frá sér og óskað var sérstaklega eftir að yrðu afgr. á þessu þingi. Ég tek það einnig fram að ég hef lagt fram fyrir þingið fjölmörg önnur stórmál sem mér hefur ekki dottið í hug að fara fram á afgreiðslu á þessu þingi. Ég nefni ættleiðingarlög, ég nefni barnalög, ég nefni lögréttulög, ég nefni frv. til 1. um breyt. á meðferð opinberra mála sem er í sambandi við þetta lögréttumál, og ég nefni frv. um biskupsstóla, svo að nokkur séu nefnd.

Það er að vísu rétt að þessu frv. er ekki ætlað að taka gildi fyrr en um áramótin, en það er auðvitað þess eðlis að það þarfnast, hvenær sem það verður lögfest, ýmiss konar undirbúnings áður en það getur komið til framkvæmda. Því fyrr sem það er afgr., þeim mun betra.

Ég tel að þetta frv. hafi verið lagt fram það tímanlega á þingi að það hefði verið hægt að afgr. það a.m.k. sé ég að afgr. eru fjöldamörg mál, sem lögð hafa verið fyrir þingið síðar en ég lagði þetta frv. fram. Ég veiti því enn fremur athygli að fyrsti fundur í n. um þetta mál er haldinn 9. mars. Síðan virðist mér að sé gefinn allríflegur frestur til umsagna þar sem það er ekki fyrr en í maí sem það virðist liggja fyrir hverjar umsagnir hafa komið fram, og fyrst þá er farið að fjalla um þær. Ég get ekki stillt mig um í þessu sambandi að vekja athygli þingnefnda á því hvort það er ekki orðið fullmikið gert að því að senda mál til umsagnar, hvort það er ekki ákaflega einfaldur afgreiðslumáti að koma saman á fund, eftir að frv. hafa verið lögð fram, gera lista yfir þá aðila sem eigi að senda það til umsagnar og senda svo frv. þangað og bíða svo bara og gera ekkert fyrr en þær umsagnir hafa borist. Ég verð að telja að það geti í sumum tilfellum verið heppilegri og greiðari starfshættir fyrir hv. þingnefndir að kalla aðila, sem hér er um að ræða, á sinn fund og fá þá til þess að láta uppi álit sitt með þeim hætti heldur en hafa þann hátt á sem mér virðist í æ ríkari mæli vera farinn að tíðkast og ber að mínu mati vott um að þingnefndir eru farnar að reyna vinna sér störfin léttara og þess vegna vilja þau dragast á langinn eins og er.

Ég vil enn fremur benda á að í þessu tilfelli hafa umsagnir borist frá þeim aðilum sem má segja að þetta mál snerti mest og hafa langmesta reynslu varðandi slík mál, þ.e. Sakadómi Reykjavíkur og ríkissaksóknara, og báðir þessir aðilar mæla mjög eindregið með því að frv. verði afgr. sem lög. Lagadeild Háskólans, sem málið var sent til umsagnar, mælir eindregið með því þó að hún hafi gert sínar aths. Nú stóð að vísu svo á að í þeirri n., sem að frv. starfaði, var prófessor við lagadeild Háskólans sem einmitt kennir eða kenndi þá kennslugrein sem hér var um að ræða, og maður hefði getað haldið að hann hefði haft einhver samráð við eða kynnt sér viðhorf samkennara, og a.m.k. verð ég að telja að hans álít eigi að vega ekki minna heldur en kennara sem eru í allt öðrum fræðum. Þá vil ég enn fremur láta það álit mitt í ljós, af því að ég sagði, þegar ég lagði þessi frv. fram, að ég legði þau fram algjörlega óbreytt eins og þau komu frá þessari n. sem samdi þau, að það hefði verið eðlilegt af hv. allshn. að kveðja þá eða a.m.k. formann þeirrar n. á sinn fund og leita eftir skýringum hans á einstökum atriðum.

Ég held að það sé ekki hægt að segja að það sé nema í hæsta lagi ein umsögn, sem borist hefur, sem e.t.v. má kalla hálfneikvæða og áreiðanlega ekki meira en hálfneikvæða, og það er umsögn frá lögreglustjóranum í Reykjavík, en að sjálfsögðu er þessi þáttur málanna ekki sérstaklega á hans sviði.

Ég syndga að vísu upp á náðina hjá hæstv. forseta, en ég gat ekki verið við hér í gær þegar þessi mál voru rædd og ég vildi aðeins láta þetta koma fram, en vil svo að lokum undirstrika það, að ég fer auðvitað ekki með neitt skipunarvald gagnvart þn. né hv. Alþ. Ég tel mig hafa gert mitt með því að leggja fram þessi frv. sem ég tel til stórra endurbóta á þessu sviði. Svo er það hv. Alþingis að segja til um hvað það vill gera. En að sjálfsögðu get ég ekki lokið máli mínu án þess að þakka stjórnarandstöðunni sérstaklega fyrir þann stuðning sem hún veitir mér í þessu máli.