12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4127 í B-deild Alþingistíðinda. (3451)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Hæstv. forseti. Við 1. umr. málsins gerði ég almenna grein fyrir afstöðu þingflokks Alþfl. til þessa máls og sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það mál.

Ég beindi við 1. umr. þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh. hvernig skilja bæri 3. gr. frv., hvort hana bæri að skilja þannig að tilætlunin væri að forstjóri Framkvæmdastofnunar yrði einn, eins og Sjálfstfl. ásamt Alþfl. hafi lagt til að yrði þegar lögin voru sett 1971, eða hvort skilja mætti gr. þannig að þeir gætu verið tveir, þrír, fjórir eða jafnvel tíu. Svarið var þannig, að það mætti samkv. gr. hafa forstjórana fleiri en einn, og var þessi skilningur staðfestur við umr. í hv. fjh.- og viðskn. Ég skil því málavexti þannig að tilætlunin sé að hafa óbreytta skipan: stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, þ.e. að hún skuli lúta þingkjörinni stjórn, sem ég tel sjálfsagt og eðlilegt, og það eigi framvegis að vera tveir forstöðumenn sem nú verða nefndir framkvæmdastjórar og eru báðir þm. Þessari skipan erum við í þingflokki Alþfl. algjörlega andvígir. Er þar að engu leyti um að ræða neitt persónulegt vantraust á þeim einstaklingum sem þessum störfum gegna og eru um það mjög vel færir, heldur teljum við nægilegt að þarna sé einn forstjóri, og við teljum að þessi eini forstjóri eigi ekki að vera þm., heldur eins og tíðkast nú orðið um bankastjóra að þeir séu ekki þm.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því, að í frv. er gert ráð fyrir nýrri deild við stofnunina og að hún lúti sérstökum framkvæmdastjóra. M.ö.o.: hér er hæstv. ríkisstj: enn við sama heygarðshornið, að fjölga háttsettum og hálaunuðum embættismönnum í kerfinu. Hv. Ed. hefur þegar að frumkvæði hæstv. ríkisstj. samþ. að fjölga bankastjórum við einn af ríkisbönkunum um einn, og hér á að fjölga framkvæmdastjórum við stóra ríkisstofnun um einn, sem óhætt er að segja að sé algjör óþarfi því verkefni stofnunarinnar eru ekki aukin með frv. frá því sem verið hefur.

Þá vil ég enn fremur láta þess getið, eins og er tekið fram í nál., að í sjálfu sér er mjög óeðlilegt að setja ákvæði í almennum lögum eins og gert er í 14. gr. þessa frv., að ákveðinn hundraðshluti af fjárlögum skuli ganga til ákveðinna verkefna. Hér er um að ræða framlag til Byggðasjóðs. Ég tel miklu eðlilegra að ákvæði um slíkt sé í stjórnarsamningi stjórnarflokka hverju sinni, og er ekki — síður en svo — nokkuð að athuga við það ákvæði sem er í stjórnarsamningi núv. stjórnarflokka, að 2% af fjárlagaútgjöldum skuli ganga til Byggðasjóðs. Ég vek hins vegar athygli á því, að það er minna framlag sem lögbundið er með þessu frv., en aðferðina tel ég í sjálfu sér vera óeðlilega, að binda fjárveitingavaldið með þessum hætti í einstökum lögum. Það hníga engin almenn rök að því, að þó að þm. væru almennt sammála um að auka framlög til skólamála eða til félagsmála, þá skuli sjálfkrafa í kjölfar þess sigla aukin framlög í Byggðasjóð, eða ef nauðsyn þykir að spara á fjárlögum af einhverjum sérstökum ástæðum útgjöld í einhverju ákveðnu skyni, þá skuli sjálfkrafa af því leiða minnkun framlags í Byggðasjóð. Auk þess tel ég að móta ætti fastari stefnu varðandi lánveitingar Byggðasjóðs heldur en átt hefur sér stað, þ.e.a.s. að um verði að ræða stærri heildarsjónarmið varðandi þær lánveitingar sem opinber skýrsla hefur verið gefin um, því að þar tel ég kveða of mikið að beinum fyrirgreiðslulánveitingum sem eru ekki þáttur í fastmótaðri heildarbyggðastefnu.

Í framhaldi af þeim almennu skoðunum, sem ég hef lýst að væru skoðanir flokks míns í þessu máli varðandi stjórn stofnunarinnar, hef ég leyft mér að flytja á þskj. 739 brtt. við 3. gr. varðandi stjórnina. Ég kaus að velja henni nákvæmlega það form sem fulltrúar Sjálfstfl. töldu eðlilegast og réttast í fjh.- og viðskn. haustið 1971. Sú till., sem ég flyt á þskj. 739, er efnislega samhljóða þeirri till. sem þeir fluttu þá, hæstv. núv. fjmrh. Matthías Á. Mathiesen og hæstv. núv. sjútvrh. Matthías Bjarnason, að því einu breyttu að ég tek að sjálfsögðu upp í till. ákvæði um Byggðadeild, sem ákvæði er um í stjórnarfrv., og breyti nafni forstöðumanna deilda, sem svo heita nú, í framkvæmdastjóra deilda, eins og ríkisstj. hefur þegar lagt til í greininni.

Ég þarf auðvitað ekki að taka það fram að flokksmenn mínir munu greiða þessari till. atkv. Hún er flutt í samráði við þingflokk Alþfl. og ég vil a.m.k. mega vænta þess að fyrrv. flm. þessarar till. greiði henni atkv.