17.11.1975
Sameinað þing: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Mér hefur borist eftirfarandi bréf:

„Reykjavík, 17. nóv. 1975.

Þorv. Garðar Kristjánsson, ritari þingflokks sjálfstæðismanna, hefur í dag ritað mér á þessa leið :

„Samkv. beiðni Gunnars Thoroddsens, 2. þm Reykv., sem nú er erlendis í opinberum erindum, leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþ. að óska þess að vegna forfalla annars varamanns taki þriðji varamaður hans, Kristján J. Gunnarsson fræðslustjóri, á meðan sæti hans á Alþ.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um að þér látið fram fara í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Ingvar Gíslason,

forseti Nd.

Enn fremur hefur borist annað bréf:

„Reykjavík, 17. nóv. 1975.

Hér með tilkynnist yður, að ég get ekki komið því við vegna anna að taka nú sæti á Alþ. í forföllum Gunnars Thoroddsens iðnrh.

Virðingarfyllst,

Gunnar J. Friðriksson.“

Fyrir liggur kjörbréf Kristjáns J. Gunnarssonar og bið ég kjörbréfanefnd að taka kjörbréfið til rannsóknar. Áður en ég fresta fundi les ég þriðja bréfið sem mér hefur borist:

„Reykjavík, 17. nóv. 1975.

Jón Helgason, 4. þm. Sunnl., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég undirritaður verð í sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum um nokkurn tíma get ég ekki tekið þátt í störfum Alþ. á næstunni. Með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþ. óska ég þess að 1. varamaður Framsfl. í Suðurlandskjördæmi, Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur, taki sæti á Alþ. meðan á fjarveru minni stendur.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.

Þorv. Garðar Kristjánsson,

forseti Ed.

Guðmundur G. Þórarinsson hefur áður setið á þingi og þarf ekki að rannsaka kjörbréf hans og býð ég hann velkominn til starfa.

En þá leyfi ég mér að biðja kjörbréfanefnd að rannsaka kjörbréf Kristjáns J. Gunnarssonar fræðslustjóra og gef n. 5 mínútna hlé til starfa. — [Fundarhlé.]