17.11.1975
Sameinað þing: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég hef nú fylgst talsvert lengi með þingstörfum, þó lengst af sem blaðamaður. Á þeim tíma hef ég ekki orðið var við að þingfréttaskrif séu sérstaklega tekin til umr. á hv. Alþ., en svo má þó vera. Hvað sem því líður hefur slíkt þó gerst nú á þessu þingi. Á ég þar við þegar hv. þm. Stefán Jónsson kvaddi sér hljóðs utan dagskrár á fundi Sþ. í fyrri viku til þess að gera athugasemdir við, að hann ætlaði, mjög grófar falsanir þingfréttaritara Tímans um ummæli hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar um landhelgismálið.

Athugasemdir hv. þm. Stefáns Jónssonar hafa því gefið ákveðið fordæmi í þessu sambandi. Við skulum láta það liggja á milli hluta, hvort rétt sé að gera slíkt að algildri reglu, að þm. leiðrétti ranghermi þingfréttaritara úr ræðustól í sölum Alþ., en mér er þó ekki úr vegi að feta nokkuð í slóð hv. þm. Stefáns Jónssonar vegna ákveðins tilefnis.

Í Þjóðviljanum laugardaginn 15. nóv. s. l. er vikið að ræðu sem ég flutti í umr. utan dagskrár um landhelgismálið sem urðu í Sþ. s. l. miðvikudag. Ummæli Þjóðviljans í þessari fréttagrein eru svo grófar fréttafalsanir að slíks munu fá dæmi. Í fyrsta lagi er eftir mér haft að rangt væri að skipherrar Landhelgisgæslunnar tækju þátt í umr. um landhelgismálið. Þetta er rangt eftir mér haft, eins og kemur glögglega í ljós ef ræða mín er lesin, en henni mun væntanlega verða dreift til þm. innan skamms í prentuðum þingtíðindum. Ég sagði að það væri mjög óæskilegt að yfirmenn Landhelgisgæslunnar og þar með skipherrar gæslunnar tækju þátt í deilum, sem oft geta orðið mjög harðar, um pólitíska stefnumörkun í landhelgismálinu eða tækju þátt í því á opinberum vettvangi að gagnrýna þá stefnu sem rétt stjórnvöld hafi mótað og þeim er ætlað að framkvæma, jafnvel þótt sú stefna sé umdeild. Það var þetta, sem ég sagði. Þetta er mín skoðun og ég tel sama gilda um þetta atriði eins og ég vænti að hv. alþm. séu sammála um að óviðurkvæmilegt sé að æðstu yfirmenn t. d. fjmrn. taki virkan þátt í opinberum deilum um réttmæti pólitískrar stefnumörkunar ríkisstj. í ríkisfjármálum. Ég tel að sama eigi að gilda um æðstu embættismenn Landhelgisgæslunnar í þessu tilvíki og um æðstu embættismenn t. d. fjmrn.

En þetta er þó ekki svo alvarlegt mishermi hjá Þjóðviljanum að ástæða sé til að gera athugasemdir við hér. Hitt er öllu alvarlegra að Þjóðviljinn fullyrðir að ljóst hafi verið að ég hafi hér úr ræðustól á Alþ. verið að bera fram kröfu um það að víkja opinberum starfsmanni úr starfi, nánar til tekið einhverjum hæfasta og best metna skipherra Landhelgisgæslunnar, Guðmundi Kjærnested. Slík fölsun ummæla er með algjörum fádæmum. Hér er um rakalaus ósannindi að ræða, óhróður af grófasta tagi og að mínu viti brot á siðareglum Blaðamannafélags Íslands.

Það er ljóst að sá maður, sem stendur að baki þessara skrifa, er ritstjóri Þjóðviljans sem jafnframt er þingfréttaritari þess blaðs, Kjartan Ólafsson. Mér fer eins og hv. þm. Stefáni Jónssyni, ég ætla ekki að bera hann sökum vegna þess að hann getur ekki borið af sér sakir í þessum ræðustól. En ég tek undir þau orð hv. þm. Stefáns Jónssonar, að það verður tæpast þolað mótmælalaust að dagblöðin fari með rakalaus ósannindi í frásögnum af umr. hér á Alþ. þegar rætt er um landhelgismálið á þessum tíma.

Með leyfi forseta vil ég ljúka ræðu minni með því að vitna beint í lokaorð hv. þm. Stefáns Jónssonar og taka þar undir hvert og eitt einasta orð, sem hann lét falla. Hv. þm. sagði: „Nú vil ég hvorki kalla þann blaðamann, sem hér um ræðir, neinum ónefnum vegna hugsanlegs skorts á almennu siðgæði né heldur draga greind hans í efa. Ég ítreka það, að ég kalla hann hvorki siðlausan ósannindamann né fífl. En ég vil beina þeirri hugmynd til hæstv. forseta hvort ekki komi til greina að æskja þess við þá, sem ráða menn til að segja fréttir af umr. á hv. Alþ., að þeir setji til þess fólk með góða meðalgreind, svo að þm. þurfi ekki að haga orðum sínum með sérstöku tilliti til bjána.“ Hafi það farið á milli mála við hvað hv. þm. Stefán Jónsson átti með þessum orðum sínum, þá fer það ekki á milli mála lengur.