17.11.1975
Efri deild: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

62. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Við hv. þm. Stefán Jónsson og hv. þm. Ragnar Arnalds leyfum okkur að endurflytja lítið frv. frá síðasta þingi um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt, að við 1. gr. bætist ný mgr., svo hljóðandi:

„Þó skal framangreindur frádráttur vegna vinnu eiginkonu bónda við búrekstur aldrei nema lægri fjárhæð en helmingi persónufrádráttar hjóna, enda gegni hún ekki öðrum launuðum störfum.“

Áður en ég vík að frv. sjálfu verður vart komist hjá því að víkja nokkuð að þeirri löggjöf sem frv. yrði angi af ef samþ. yrði. Ég skal þó ekki ræða það ítarlega, aðeins benda á fáeina punkta á við og dreif. Nýlega hafa orðið miklar umr. um einhver umdeildustu atriði núgildandi skattalaga. Út í það skal ekki farið hér, enda er þetta frv. okkar um tiltölulega mjög afmarkað verkefni sem þó er fullrar athygli vert.

Það er ekki of fast að orði kveðið þegar sagt er að fá mál veki meiri umr. meðal almennings, a. m. k. í kringum útkomu skattseðlanna, og hvergi nýtur samanburðurinn við náungann sér betur og verður bitrari og beinskeyttari. Í haust hefur mjög á því borið að almenningur veki máls á eindregnari kröfum en oft áður um lagfæringar og einnig að bent hefur verið á staðreyndir, óvefengdar, um fáránleikann í útgjöldum einstaklinga og fyrirtækja sem hagnýtt geta sér veilur skattkerfisins til hins ýtrasta og vel það á stundum. Þessar aths. hafa átt við sterk rök að styðjast og flestar hafa þær verið léttvægar miðað við staðreyndirnar sem fylgdu með till. hv. þm. Ragnars Arnalds í Sþ., sem rædd var hér á dögunum, og sanna betur en annað hve mikilla úrbóta og breytinga er í raun þörf. Aðeins vil ég að því víkja vegna fjölmargra fullyrðinga, að því fór fjarri að á tímum vinstri stjórnarinnar væri gengið nógu langt í lagfæringum á þessu kerfi. En sé miðað við þá löggjöf sem hún tók við af viðreisnarstjórninni, þá er samanburðurinn vissulega vinstri stjórninni stórlega í hag. Verstu agnúana var þó hægt að knýja samstarfsflokkana til að sniða af, en þó fór víðs fjarri að þar væri nógu langt gengið og um margt voru vonbrigði mín mikil með þau löglegu skattsvik sem möguleg voru og eru í skjóli ranglátrar löggjafar sem ég hlýt að nokkru að bera ábyrgð á.

Einhver gleggstu dæmin um þessi löglegu skattsvik er að finna í till. og grg. hv. þm. Ragnars Arnalds, og til viðbótar eru svo þær ómældu fjárhæðir sem hvergi koma fram hjá þeim sem að miklu eða öllu leyti ráða launum sínum sjálfir. Afleiðingin er óhjákvæmilega sú að launafólkið almennt ber byrðarnar af miklu meiri þunga en sanngjarnt er, á meðan þeir, sem mesta eignamyndun sýna í þjóðfélaginu, sleppa vel, stundum alveg. Um þverbak keyrði þó nú á þessu ári þegar ríkið fór að greiða með þessum aðilum sumum hverjum, eins og um væri að ræða aldraða eða öryrkja eða námsmenn eða aðra þá sem sannarlega töpuðu á skattkerfisbreytingunni á s. l. þingi. Dæmi þekki ég lítið af slíkri endurgreiðslu til ágæts kunningja míns sem byggði við verslun sína s. l. sumar, fékk sér nýjan bíl af dýrustu tegund og fór ekki nema tvisvar til sólarlanda auk ýmislegs smáræðis, eins og endurnýjunar flestra húsgagna í íbúð sinni.

Þetta þykir e. t. v. kynlegur inngangur að þessu litla frv., en nokkur almenn orð hljóta að fljóta með hverju sinni sem á einhvern hátt er beinlínis inn á skattalöggjöfina komið. Ekki svo að skilja, enn á að fara að breyta og því fer mjög fjarri að ég vonist til þess að það verði á nokkurn sérstaklega betri veg við ríkjandi stjórnarfar, a. m. k. ekki fyrir það launafólk, sem borið hefur aðalbyrðarnar varðandi okkar samfélagslegu þarfir, hvort heldur er í formi beinna eða óbeinna skatta. Ef svo yrði, að þar yrði um breytingar að ræða til batnaðar, þá þyrfti Eyjólfur að hressast ansi mikið, svo að ekki sé meira sagt.

Það er meira að segja sérstaklega talað nú um endurskoðun þess atriðis sem þetta frv. felur í sér breytingu á og nefnt er sérsköttun hjóna, en mér skilst reyndar að sé lítið annað en nafnið tómt eftir að hafa lesið greinar um þessi mál eftir t. d. Má Pétursson héraðsdómara og þó alveg sérstaklega að loknum lestri greinar eftir Svövu Jakobsdóttur á dögunum. Má þó vera að hrakspár séu hér heldur miklar og eitthvað þokist í réttlætisátt. En sú er skýring þeirra gæsalappa, sem í grg. frv. er að finna og umkringja orðið sérsköttun, að ég óttast að þær hæfi best þeim hugmyndum um þetta atriði sem þar eru efst á baugi. Ekki skal nánar farið út í það hér, til þess gefst væntanlega ærið tækifæri síðar.

Svo að ég víki að frv. sjálfu, þá hygg ég að það sé rétt að minna fyrst á þá útbreiddu skoðun, einkum meðal bæjarbúa, að bændur eigi auðvelt með að komast hjá opinberum gjöldum, göt skattalaganna séu þeim hin hagstæðustu og auk þess geti þeir ýmsum öðrum fremur hagrætt útgjöldum sínum að vild. Þetta held ég að sé að meginhluta til alrangt. Vissulega er fjárfesting bænda mikil og afskriftir af þessari fjárfestingu oft háar. En arðsemin af þessari sömu fjárfestingu er oft lengi að skila sér til baka og enn er óöryggi atvinnurekstrarins slíkt að ekki þarf mikið út af að bera til að hagnaðurinn hverfi út í veður og vind í þeirra orða fyllstu merkingu. Á síðari árum hefur verið gengið ákaflega hart eftir fskj. með framtölum bænda og ekki staðið á að leiðrétta þar smáatriði, a. m. k. veit ég slíks mörg dæmi. Ég hef að vísu mitt kjördæmi eitt til viðmiðunar, en þar held ég að eftirlit sé betra með bændum og atvinnurekstri þeirra en flestum ef ekki öllum atvinnurekstri í fjórðungnum. Það ber auðvitað að meta þá samviskusemi, þó að gjarnan mætti sjá hennar stað viðar og gagnvart fleirum. Ég held einnig að bændur á Austurlandi hafi verið með allra tekjulægstu bændum á landinu. Uppbygging þar hófst síðar en víða annars staðar, erfiðleikar voru meiri, fjölbreytni minni og svo mætti lengi telja.

Oft er um það deilt, hvort bændastéttin íslenska sé atvinnurekendur eða launþegar. Ekki vil ég eða við flm. kveða þar upp neinn algildan dóm. En víst er um hitt, að einyrkjarnir okkar, sem eru nú meginþorri stéttarinnar, eru víðs fjarri því að vera atvinnurekendur í þess orðs merkingu almennt í dag. Þeir vinna sem og aðrir bændur hörðum höndum allan ársins hring, ekki er spurt um vinnutíma eða lengd hans og allir, sem til þekkja, vita að á sumum tímum þarf að leggja nótt við dag í brauðstritinu. Og bóndakonan íslenska tekur að yfirgnæfandi hluta ríkan þátt í þessu striti. Umbun hennar í skattalöggjöfinni er því fáránleg, hvað sem öllum búreikningatölum líður, svo sem ég vík að hér á eftir. Eða hvað um enga stund í eftirvinnu, enga stund í næturvinnu? Miklar sparidúkkur hljóta þær að vera að meiri hluta, konur þeirra bænda sem búreikningana annast, eða er það bara þeirra skoðun, byggð á aldagamalli hefð, sbr. „bóndi er bústólpi, bú er landstólpi, því skal hann virður vel.“ Ekki dreg ég heldur úr því, þó að hitt mætti fljóta með um sveitakonuna á okkar tímum. Því er það, að við flm. teljum ótvírætt að aðrar reglur eigi að gilda um eiginkonur bænda gagnvart skattalögum en eiginkonur atvinnurekenda almennt, svo mikla launþega teljum við bændur og bændakonur og vinnu þeirra svo mikla og sérstaka, oft svo að nálgast þrælkun á vissum árstímum, þó að vélamenningin hafi miklu um breytt.

Þetta vildi ég segja sem almennan inngang að þeim þætti sem frv. okkar snýst um og er endurflutt nú óbreytt til þess alveg sérstaklega að minna á þennan hóp kvenna sem tekur virkan þátt í atvinnulífinu, þ. e. a. s. einmitt í annarri — óhætt að segja, annarri mikilvægustu framleiðslugrein okkar, — þátt sem okkur flm. virðist vanmetinn mjög alvarlega miðað við þá reglu sem gildir almennt úti í atvinnulífinu, að þar skuli helmingur launatekna konu vera skattfrjáls.

Eins og ég benti á í fyrra fer því víðs fjarri að jafnrétti gildi. Ég vitnaði þá í grein og bréf frá glöggri og greinargóðri bóndakonu austan frá Vopnafirði sem reifaði mál þetta af hvoru tveggja hógværð og þekkingu. Ég leyfi mér enn að vitna lítillega í orð hennar, með leyfi hæstv. forseta :

„Í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins, sem eftir er miðuð afkoma bænda hverju sinni, er konan sett utangarðs. Fyrir utan fyrrnefnt launamisrétti,“ sem hún hefur áður minnst á, „eru konunni einnig reiknaðar mun færri vinnustundir en hún í reynd vinnur. Bóndanum eru reiknaðar 2080 klst. í dagvinnu, 412 klst. í eftirvinnu og 408 klst. í næturvinnu. Eiginkonu hans eru reiknaðar 600 klst. í dagvinnu, engin eftirvinna eða næturvinna. Ég viðurkenni fúslega að vinna kvenna við störf, sem eingöngu snerta atvinnurekstur hjónanna, er mjög mismikil frá einu búi til annars en 600 vinnustundir á ári eru fáránlega lág viðmiðunartala. Því til sönnunar vil ég taka tvö dæmi.“ Síðan rekur hún lágmarksdæmi, sem hún kallar svo, sem er algert lágmarksdæmi og hún telur varla raunhæft á nokkurn hátt og út úr því dæmi koma 632 stundir. En síðan heldur þessi bóndakona áfram og segir, með leyfi hæstv. forseta: „En tökum nú algengara dæmi og teljum líka alla vinnu þar í lágmarki“ — og þá fær hún út úr því dæmi 1547 klst. „Þykir sjálfsagt mörgum sveitakonum þetta mjög svo vantalið hjá mér, en þá sjáum við bara, hvað 600 klukkustundirnar er fáránleg tala.“

Svo kemur hún beint að því máli, sem hér er í raun á dagskrá, og segir svo enn, með leyfi hæstv. forseta:

„Einn aðili enn hefur talið rétt að ganga á hlut sveitakvenna,en það eru skattayfirvöld landsins. Því miður hafa mér ekki borist reglugerðir um þau mál, þegar þetta er skrifað, og segi því aðeins frá fenginni reynslu. Nái bóndi ekki tiltekinni upphæð í nettóhagnaði af búskaparbaslinu reiknast vinna konu einskis virði. Á sameiginlegri skattskýrslu hjóna kemur ekki fram frádráttur vegna tekna hennar og vinni bóndi t. d. utan búsins fyrir fullum tekjum, en búið gefi ekki af sér tiltekinn hagnað, kemur vinna hennar hvergi fram á skattskýrslu. En mér er spurn: Hver sér um þennan smábúskap ef bóndinn vinnur alla sína vinnu utan bús? Skattayfirvöld virðast líta svo á að slíkur smábúskapur passi sig sjálfur.“

Við flm. verðum vart sakaðir um að ganga of langt í þessum efnum. Við leggjum einfaldlega til að í stað 1/4 persónufrádráttar hjóna komi helmingur sem frádráttur vegna vinnu eiginkonu bónda við búrekstur, að frádrátturinn megi nema helmingi. Við bentum og bendum enn á í grg. að við álitum hiklaust að um erfiða og annasama vinnu eiginkvenna bænda eigi að gilda rýmri og réttlátari reglur um skattafrádrátt en um eiginkonur atvinnurekenda yfirleitt. Ýmislegt veldur þessu ranglæti, þótt vitað sé að í mörgum tilfellum er vinnuframlag hjónanna við búreksturinn æðisvipað. M. a. veldur þessu furðulegur útreikningur á vinnustundafjölda eiginkvenna bænda í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara, sem aðeins er 600 vinnustundir á ári og þær vinnustundir eru auk þess reiknaðar á mjög lágum kauptaxta. Hins vegar segjum við einnig í grg. að það hefur þótt erfitt að fastákveða vinnuframlag bændakonunnar, enda misjafnt að vísu. Og eins hafa menn óttast að frelsi til framtals í þessum efnum gæti leitt til misnotkunar á þann veg að óeðlilegur hluti af tekjum búsins yrði talinn fram til tekna konunnar. Hér erum við sem sagt alls ekki að leggja þetta til, því að við förum aðeins fram á að hér verði þannig rýmkað að þessi tala verði þá í raun færð úr 600 í 1200, ef þannig má að orði komast, eða frádrátturinn úr 1/4 í helming. Það er auðvitað sérstakur kapítuli út af fyrir sig á hinu margumrædda kvennaári hver kauptaxti bóndakonunnar er og hver mismunur þar er á launakjörum hennar og bóndans miðað við sambærileg störf. Í dag eru þessar tölur 323 kr. í dagvinnu á móti 293 kr., að ég hygg. Var einhver að tala um jafnlaunaár?

Vinnustundafjöldann, rúmlega 1.5 stundir á dag við búrekstur, hlýt ég einnig að telja fráleitan. Hins vegar hef ég það fyrir satt, eins og ég vitnaði hér í áðan, frá þeim mæta manni hv. þm. Inga Tryggvasyni, sem er hér um hinn fróðasti, að hér sé um að ræða sem næst meðaltalsútkomu úr búreikningum bænda, þeim sem ég gat um hér áðan, og ég veit að þar muni hann fara með algerlega rétt mál. En ég leyfi mér þá jafnframt og við flm. að draga í efa réttmæti þessara búreikninga og vinnustundafjölda bændakvennanna í þeim búreikningum. Hann stangast t. d. illilega ú við hógværa upptalningu Ágústu Þorkelsdóttur á Refsstað, sem ég vitnaði í í þingræðu í fyrra og gerði áðan einnig, en þar var hún með lágmarkstölu. Þessi vinnustundafjöldi stangast líka óþyrmilega á það vinnuframlag eiginkvenna bænda sem ég þekki til. Þar hef ég beðið þrjár glöggar konur um álit þeirra og þeirra tölur eru misjafnar. Þær eru allt frá rúmum 1200 stundum og upp í yfir 2000 stundir. En varðandi síðasta dæmið, þá ber að geta þess, að bóndinn var um 6 vikna skeið í vinnu utan heimilis. Ég held, að engin þessara kvenna hafi ofreiknað sitt vinnuframlag, miklu frekar hitt, að þær hafi vantalið það miðað við raunveruleikann, því að þegar ég ræddi við þær hverja um sig á eftir, þá voru þær með miklar afsakanir varðandi þetta mál og sögðust aðeins hafa talið það allra, allra brýnasta sem þær hefðu getað flokkað undir vinnu við búreksturinn.

Aðalreglan í dag er 1/4 af persónufrádrætti hjóna þó að undantekningar séu leyfðar ef sannað er að eiginkonan annist búið að verulegu leyti vegna fjarveru bónda síns í t. d. vinnu annars staðar utan heimilis. Og þá langar mig til að benda á hvernig þessar undantekningar eru í raunveruleikanum. Varðandi dæmið um bóndakonuna sem taldi sér yfir 2000 stundirnar og ég benti á hér áðan, þá var það alveg rétt að frádráttur var hækkaður vegna þessarar 6 vikna vinnu bóndans. En hvað ætli þetta hafi verið mikil upphæð, ekki í skatti, heldur bara í frádrætti, sem skatturinn tók þarna til greina? Það voru 10 þús. kr., ekki í skattupphæð auðvitað, heldur dróst það frá tekjuupphæðinni.

Við leggjum sem sagt áherslu á að hér er ekki gengið til fulls út á jafnréttisbrautina, enda segir í grg. að hér sé um lágmark að ræða. En gagnvart búrekstrinum álítum við að bæði hjónin skuli jafnrétthá, þannig að frádráttur konu bóndans vegna sannanlega framtalinna vinnustunda verði hærri ef tekjur hennar af búrekstrinum eru meiri en nemur hálfum persónufrádrætti hjónanna. Sú upphæð skal þá vitanlega gilda.

Starf sveitakonunnar er mikið og erilsamt hvað snertir atvinnureksturinn sjálfan og í flestum tilfellum er um erfitt starf að ræða. Við flm. álítum að lágmarkið sé í raun að meta þetta þann veg að þær séu ekki settar mjög miklu neðar en aðrar útivinnandi konur. Þetta frv. er flutt í ljósi núgildandi skattalaga eingöngu. Annað er svo hvað við munum gera þegar þær breytingar sjá dagsins ljós sem nú eru boðaðar. Kannske hlutur sveitakonunnar verði þar það vel metinn að við sjáum ekki ástæðu til breytinga, heldur getum fagnað nýju skrefi í jafnréttisbaráttu kynjanna. Við erum að vísu ekkert sérstaklega trúaðir á slíkt í dag en það kann vel að vera að þar sé vantrú okkar fullmikil. En hvað sem því líður, þá töldum við sjálfsagt að Alþingi fengi einmitt í ljósi enn nýrra breytinga á skattalögum þetta mál aftur til meðferðar. Því var aldrei andmælt á þinginu í fyrra, við heyrðum jákvæðar raddir gagnvart hugmyndinni sem slíkri og okkur þótti því rétt að láta hér á reyna eða halda málinu vakandi einmitt í þeim hræringum sem á næstunni eiga sér stað í skattamálum.

Sveitakonan hefur reyndar gleymst furðanlega í öllu tali kvennaársins, og þótt um megi deila á hvern hátt hún megi ná sem mestu jafnrétti sem og aðrar kynsystur hennar, þá verður vart talið að of langt sé gengið þótt reynt sé að setja það í lög að hún nálgist kynsystur sínar úti í atvinnulífinu hvað snertir þau ótvíræðu og mikilsverðu hlunnindi sem þær hafa þar haft. Eftir er svo vandamálið mikla varðandi heimavinnu húsmóðurinnar almennt, en hvað þetta mál snertir sem og sérsköttunina almennt, þá væntum við þess að hæstv. fjmrh. og hans sérfræðingar finni þar á einhverja réttarbót, og þá skal ekki standa á okkur flm. að styðja þær hugmyndir og till. sem þar kæmu fram. En við erum bara skelfing hræddir um að það muni torvelt að finna þær á kassabotninum, þær leynist þar ærið djúpt, þótt það ætti reyndar að grynnast á þeim eftir því sem lækkar í þessum sama kassa, að því er okkur skilst.

En gamanlaust, frv. þetta er flutt til þess að rétta hlut sveitakonunnar í skattkerfinu, meta hann réttilega. Um aðferðir má deila. Við flm. erum tilbúnir til að taka nýjum rökum og ábendingum, fara nýjar leiðir til að ná því marki sem ég hygg að allir séu sammála um, að í þessu sem öðru ríki sem fyllst og mest jafnrétti, það jafnrétti sem nú í dag á ekki það heiti skilið, þar sem misréttið er of augljóst til að fram hjá því verði gengið, hvaða leið svo sem menn finna að því marki að jafna metin. Um það erum við flm. fúsir að ræða og sameinast öðrum í því sem gæti þokað þessu á leið, þótt í öðru formi væri en hér er lagt til.

Ég vil svo, herra forseti, óska þess að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til 2. umr. og hv. fjh. - og viðskn.