17.05.1976
Efri deild: 116. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4391 í B-deild Alþingistíðinda. (3761)

115. mál, íslensk stafsetning

Menntmrh. (Vílhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Mig langaði til þess að láta viðhorf mín í þessu máli koma fram í þessari hv. d. Ég hafði gert grein fyrir þeim á næturfundum í Nd., en það er ekki hægt að ætlast til þess að það hafi borist til hv. þm. þessarar deildar.

Fyrir Alþ. liggja nú tvö frv. til l. um íslenska stafsetningu, en þótt undarlegt kunni að þykja eru ekki í íslenskri löggjöf nein bein ákvæði um stafsetningu, hvorki um það, hversu með skuli fara þá fjallað er um stafsetninguna, né heldur — þaðan af síður liggur mér nú við að segja — um það hversu rita skuli einstök orð eða skipa þeim í setningar.

Frv. það, sem hér er til 1. umr., mælir fyrir um hið síðarnefnda. Fram til þessa hefur stafsetningin á skólabókum og opinberum skjölum og skilríkjum verið ákveðin með reglugerðum sem ekki voru byggðar á beinum lagafyrirmælum. Því er það að ef Alþ. afgreiðir núna sem lög þetta frv. hv. 9. þm. Reykv. o.fl., þá er í raun og veru brotið blað í stafsetningarmálum okkar að því leyti að Alþ. hefur þá í fyrsta sinn ákveðið sjálft hversu rita skuli íslenskt mál. Má þá ætla að svo verði og eftirleiðís þegar sá háttur hefur einu sinni verið upp tekinn.

Þessu er ég algerlega andvígur. Ég tel afar óæskilegt og jafnframt óeðlilegt að Alþ. setji sjálft stafsetningarreglurnar. Verksvið þingsins er mjög yfirgripsmikið og ég ætla ekki að fara að skilgreina það nánar hér, það væri nú óþarft. Alþm. hafa jafnframt beinni þátttöku í þingstörfum ærin viðfangsefni, þar sem eru tengslin við kjósendur sína, við fólkið í kjördæmunum. Stafsetningin, breytingar og allar ákvarðanir sem hana varða, eru viðkvæm mál og vandasöm í eðli sínu. Nauðsynlegt er að sæmilegt næði gefist til að fjalla um þá hluti og miklu betra næði, tel ég, en ætla má að alþm. gefist allajafna. Þar með er ég ekki að halda því fram að Alþ. eigi hér hvergi nærri að koma, síður en svo, sbr. frv. sem ég flutti í Nd. í vetur og vísað hefur verið til menntmn. þeirrar d. Þar er hins vegar um að ræða frv. að rammalöggjöf um meðferð stafsetningarmálanna, ekki um ritreglur. Mínar till. í þessu máli felast í þessu frv. að sjálfsögðu og þær eru í örfáum orðum sagt þessar, að um breytingar allar á íslenskri stafsetningu sé í fyrsta lagi fjallað af málvísindamönnum og kennurum. Það er auðvitað allt til skoðunar hvernig þau ákvæði yrðu endanlega í löggjöf ef samþ. yrði, hversu nefndum yrði skipað. Í öðru lagi kæmi svo málið fyrir menntmrn. og menntmrh. sem svo í þriðja lagi yrði að leita heimildar Alþ. fyrir sérhverri breytingu er gera skyldi. Í mínum huga er einkum tvennt sem mælir með þessu síðast nefnda, að leita til Alþ.: Annars vegar að ég tel þörf mikillar íhaldssemi í þessum efnum. Ég álit að við eigum að vera afar spör á breytingar á okkar stafsetningu og alls ekki að breyta henni nema að mjög vel athuguðu máli og eftir nokkuð almennar umr. um fyrirhugaðar breytingar. Það, að málið yrði gert að þingmáli til synjunar eða samþykkis, lagt fyrir Alþ. áður en af breytingu gæti orðið, það tryggir einmitt að slík almenn umr. fari fram ef eðlilega er að málinu staðið á Alþ. að öðru leyti.

Ég held að hv. alþm. ættu að athuga vel allar aðstæður áður en þeir hafna þessari leið. Ég tel henni í raun og veru hafnað ef Alþ. tekur sig til og semur og setur ritreglur sjálft. Meðferð þessa frv., sem hér er til umr., ég tel að henni hafi verið nokkuð ábótavant í Nd., svo ekki sé meira sagt. En hins vegar vil ég taka það skýrt fram að sú meðferð á í raun og veru sínar skýringar og kannske nokkuð eðlilegar. Frv. er flutt vel tímanlega á þingtímanum og vísað til n., en nokkru síðar stakk ég upp á því við þingflokkana að hver flokkur tilnefndi mann í n. til þess að ræða þetta mál og athuga hvort menn gætu ekki fundið sameiginlega niðurstöðu. Við héldum einn fund um þetta í þessari n. — ég var í henni fyrir minn flokk — og þótt þar færi vel á með mönnum, þá var það mitt mat eftir þann fund að sumir og þá fyrst og fremst flm. þessa frv. tveir, sem í þessari n. áttu sæti, væru í raun og veru ekki til viðtals um afgreiðslu á frv. mínu fyrr en gengið hefði verið til úrslita um frv. þeirra. Af þessari ályktun minni leiddi svo það að ég beitti mér ekki fyrir fleiri viðræðufundum með þessari n. En þessar bollaleggingar um hugsanlegt samkomulag, þó fundurinn væri aldrei nema einn, tóku nokkurn tíma. Þær kunna að hafa valdið því að frv. var ekki sent til umsagnar einum eða neinum þegar það var nýkomið til n., svo sem annars er siður þn. þegar um er að ræða þingmál sem eru bæði veigamikil í sjálfu sér og varða beinlínis umfangsmiklar stofnanir eða stóra starfshópa. Hér gat bæði verið um að ræða málvísindastofnanir og skólarannsóknadeild menntmrn., samtök kennara og skólastjóra og svo bókaútgefendur og þá náttúrlega sérstaklega Ríkisútgáfu námsbóka. En í stað þess að leita álits þessara aðila bréflega eða með því að boða þá á nefndarfund, þá ákvað meiri hl. menntmn. Nd. að gefa út nál. þegar ætla mátti, að tiltölulega skammt lifði þings, mæla þá með samþykkt frv., og síðan hefur verið lagt mikið kapp á afgreiðslu þess á þeim fáu dögum sem þá eru eftir af þingtíma ef að líkum lætur.

Eins og vænta mátti hefur nú komið í ljós að ýmsir þeir aðilar, sem ég áðan nefndi, hafa óskað eftir að koma skoðunum sínum á framfæri við alþm. Má þar nefna t.d. Ríkisútgáfu námsbóka, skólarannsóknadeild menntmrn., Samband ísl. barnakennara, Kennaraháskóla Íslands og Æfinga- og tilraunaskólann, sem er deild í Kennaraháskólanum, og svo mörg kennarafélög víðs vegar á landinu. Einnig hafa komið fram ábendingar og álitsgerðir frá einstaklingum, svo sem Árna Böðvarssyni cand. mag. o.fl. Það er liðin tíð að Nd., t.d. menntmn. þeirrar hv. d., geti kannað þessar umsagnir og brotið þær til mergjar. Eins og horfir og stefnt er að með þinglausnir, þá má það nú kallast borin von einnig að hv. þm. þessarar d. gefist kostur á því sakir tímaskorts að kryfja þetta nokkuð verulega til mergjar allt saman. En ég hef talið rétt að greiða fyrir því að álit þeirra aðila, er starfa hjá menntmrn., beint eða óbeint, bærust hv. þm. þó seint sé og enda þótt ég sé kannske ekki í öllum atriðum nákvæmlega sammála því sem kemur fram í þessum umsögnum.

Ýmislegt í ábendingum þessum, sem ég nefndi, er þannig vaxíð að eðlilegt má kalla og æskilegt að hv. alþm. gefi sér tóm til að gaumgæfa það, t.d. viðvörunarorð starfsmanna skólarannsóknadeildar menntmrn., en þeir vara við nýrri gjörbreytingu og segja í sínu áliti, og það er það eina sem ég ætla að leyfa mér að vitna til í þessum plöggum, en þeir segja: „Það hlýtur einnig að valda óánægju og gæti valdið glundroða í starfi skólanna ef Alþ. samþykkir lög er fyrirskipa kennurum að kenna stafsetningu sem mörgum þeirra er þvert um geð að nota og þeir telja hafa skaðleg áhrif á árangur og áhuga nemenda sinna.“ Þessi skoðun er í raun og veru rauði þráðurinn, sýnist mér, í þeim ályktunum frá kennarasamtökum og þ. á m. frá Sambandi ísl. barnakennara, sem ég hef komist yfir að lesa.

Ég skal ekki vitna frekar til þessara umsagna, en ég vil þó minna á aths. forstöðumanna Ríkisútgáfu námsbóka sem hafa komið hér í tvennum umsögnum, en þeir minna á kostnaðarhliðina. Það er um það bil helmingur af úthlutunarbókunum svo nefndu sem kominn er út með hinni nýju stafsetningu, og það er rétt að vekja athygli á því að þær nýju bækur eru miðaðar við hið endurskoðaða námsefni, en aftur á móti það, sem enn þá er með gömlu stafsetningunni, það er námsefni sem ekki er búið að endurnýja og þurfa bækurnar þess vegna að gefast út innan tíðar í tengslum við áframhaldandi starf skólarannsóknadeildar á þessu sviði. Ég vil svo aðeins leggja áherslu á það að allar þær ábendingar, sem eru að berast þessa dagana, eru, eftir því sem ég best fæ séð, ábendingar fólks sem vinnur að íslenskukennslunni, að meðferð stafsetningarmálanna úti í skólunum.

Mín viðhorf til málsins sjálfs og málsmeðferðar skýrði ég nokkuð við umr. í Nd., eins og ég gat um áðan, og ég vil einnig leitast við að skýra þau nú hér í hv. Ed., þó með örfáum orðum aðeins.

Þetta frv. var síðast rætt í Nd. á næturfundi sem stóð alllangt fram á sjötta tímann. Ég minnist þess ekki að hafa setið þingfund á þeim tíma sólarhrings síðan laust eftir 1950, en það var við 2. umr. fjárl. þegar fjöldi þm. gerði grein fyrir brtt. sínum og þáv. formaður fjvn., Gísli Jónsson, svaraði sérhverjum þeirra, svo sem þá var venja að gera, þó að nú sé niður fallin. Fylgismenn frv. munu telja að langar ræður andstæðinga þess beri vott um fáheyrðan mótþróa gegn því að frv. næði að ganga undir atkv. og hljóta endanlega afgreiðslu á hv. Alþ., því er nú situr. En þetta er bæði og. Það hefur alls ekki svo sjaldan borið við að þingmál hafi stöðvast á síðustu dögum þings hreinlega vegna tímaskorts og þá vegna þess að sýnt þótti að umr. yrðu svo langar að ekki rúmuðust innan þeirra tímamarka sem Alþ. hafði sett sér hverju sinni. Þetta hafa menn oft notað sér. Andstæðingar frv. undrast hins vegar að forseti skyldi freista að þoka málinu áfram með svo löngum næturfundi. En einnig þetta hefur og oft til borið og oft tekist, en ekki ævinlega. Að mínum dómi er hér ekki um neitt einsdæmi að ræða, og ég álít að hv. þm. geti verið alveg rólegir þess vegna, og ég tel alveg þarflaust að tala um þessa málsmeðferð í sérstökum ásökunartón þó að ég telji hana óheppilega af ástæðum sem ég áður nefndi. En hitt sýnist mér alveg liggja í augum uppi, að framgangsmáti þessa máls á Alþ. þessa síðustu daga geti alls ekki talist æskilegur undirbúningur ákvörðunar um íslenska stafsetningu í einstökum atriðum. Ég held að málsmeðferðin öll styðji mjög þá skoðun mína að það sé ekki æskilegt að Alþ. setji sjálft stafsetningarreglurnar í einstökum atriðum, það sé fremur ráð að Alþ. leitist við að tryggja með skynsamlegri rammalöggjöf rækilegan undirbúning sérhverrar ákvörðunar um íslenska stafsetningu, um búning móðurmálsins í rituðu formi og að Alþ.taki sér þá ákvörðunarvald um það hvenær leyfa skuli breytingar á stafsetningu þeirri sem notuð er í opinberum plöggum. Þetta síðast nefnda helgast m.a. af því að sérhver breyting á stafsetningu kostar hið opinbera ærna fjármuni sem Alþ. hlýtur að hafa forgöngu um að afla. En þó koma auðvitað margar aðrar orsakir til og að mínum dómi enn þá mikilvægari heldur en fjármálalega hliðin.

Mér þykir rétt að láta það koma fram hér alveg skýrt, eins og ég raunar gerði í Nd., að ég var andvígur þeim breytingum, sem gerðar voru á stafsetningu 1973 og 1974, vegna mikillar íhaldssemi minnar í þessum efnum. Ég taldi rangt að gera nokkrar breytingar á stafsetningu, og ég græt því með glotti þó að horfið yrði frá þessum breytingum í verulegum atriðum. Hins vegar var ég ákaflega veikur fyrir röksemdum hv. þm. Gils Guðmundssonar gagnvart endurreisn z-unnar þegar hann gerði grein fyrir atkv. sinn um meðferð þáltill. í Sþ. 1974. Hann tók líkingu, hann benti á að allir menn geta lifað án botnlanga, það vefjist fyrir mönnum hvenær skuli taka hann eigi að síður, en engum manni dettur í hug að græða hann í aftur eftir að hann hefur verið numinn brott. Og ég hef betur og betur sannfærst um að þessi áhending er nánast pottþétt. Og ég mundi telja það miður farið að taka á ný til við að rita z úr því sem nú er komið.

Af því, sem ég áðan sagði, leiðir það að sjálfsögðu að ef mitt frv. yrði samþ. á Alþ., þá mundi ég beita mér fyrir því að stafsetningin yrði tekin til athugunar á ný. Hef ég þá einkum í huga reglurnar um stóran staf og lítinn og fleiri ákvarðanir sem ekki varða notkun z-unnar, að þetta yrði sem sagt tekið til skoðunar.

Færi nú svo að hv. alþm. samþykktu frv. hv. 9. þm. Reykv. o.fl., sem hér liggur fyrir, án þess að gefa sér tóm til að kanna og meta álít og umsagnir fjölmargra aðila sem m.a. standa næstir í því að framkvæma fyrstu lög um íslenska stafsetningu, þá held ég að væri skynsamlegt að bæta eins og tveimur gr. inn í þetta frv., annars vegar um það að Alþ. til öryggis tæki að sér auk hinnar hefðbundnu útgáfu Alþingistíðindanna einnig útgáfu þeirra námsbóka sem varða íslenskukennsluna, og svo í öðru lagi og ekki síður að taka þá inn í frv. ákvæði um sektir og jafnvel þyngri viðurlög ef opinberir starfsmenn brytu þessi nýsettu lög mjög harkalega. Það skiptir miklu þegar sett eru lög um tiltekið efni í fyrsta sinn að hæfilegrar festu sé þá gætt við framkvæmd þeirra. Jæja en sleppum því.

Mér sýnist, eins og málum er nú komið, að það væri skynsamlegast að láta hér staðar numið við meðferð þessa frv. Á vissan hátt væri kannske æskilegt að skera úr þeim ágreiningi sem uppi hefur verið á Alþ. í þessu máli, og um skeið hugleiddi ég það satt að segja hvort ekki væri réttast að stuðla beinlínis að því að svo mætti verða. En þegar hvort tveggja kom til, hversu hæpið og ég vil nú segja óeðlilegt það er að mínum dómi að Alþ. semji ritreglur og setningarfræði og svo hversu örðugt er um vik að brjóta málið til mergjar með viðunandi hætti á þeim tíma sem virðist vera til umráða hér á hv. Alþ. efnislega, þá held ég að réttast sé að láta vera að samþykkja þetta frv.

En ég get að lokum sagt það, að ég teldi æskilegt, ef það hefði verið unnt að afgreiða frv. mitt um meðferð stafsetningarmálsins, en mér er ljóst að til þess vinnst varla tími, enda þótt það sé stórum einfaldara í sjálfu sér heldur en stafsetningarreglurnar allar í heild. En þess megum við auðvitað minnast, alþm., að íslensk stafsetning er ekkert dægurmál og þegar á allt er lítið, þá kannske geta frekari aðgerðir Alþ. vel beðið haustsins.

Herra forseti. Mig langaði til að láta þessi viðhorf mín koma fram hér við 1. umr. málsins í þessari hv. deild.