17.05.1976
Neðri deild: 111. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4398 í B-deild Alþingistíðinda. (3783)

258. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Ingólfur Jónsson:

Hæstv. forseti. Vegna þess að ég er ekki samþykkur þessu frv. og vegna þess að það er frv. stjórnar sem ég styð, þá tel ég eðlilegt að gera grein fyrir því hvers vegna ég get ekki stutt frv. Það er auðvitað að þetta frv. verður að lögum, það er komið í seinni d. og hv. n. hefur mælt með málinu. Það er því sýnilegt að það hefur meirihlutafylgi hér í hv. Alþ. Það má því ætla að opinberir starfsmenn fái verkfallsrétt áður en Alþ. lýkur störfum að þessu sinni. Má því segja að núv. ríkisstj. geri það sem vinstri stjórnin treysti sér ekki til að fá lögfest þrátt fyrir gefin loforð.

Í stjórnarsamningi vinstri stjórnarinnar var fram tekið að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fengi fullan samningsrétt, sem er sama og verkfallsréttur. En vinstri stjórnin gafst upp á því að standa við þetta fyrirheit sem hún gaf í upphafi valdaferils síns. Núv. ríkisstj. gaf ekkert loforð í stjórnarsamningi um verkfallsrétt opinberum starfsmönnum til handa. Eigi að síður tókst samningsnefnd BSRB að fá loforð ríkisstj. fyrir því að fá verkfallsrétt fyrir opinbera starfsmenn lögfestan.

Með frv. því, sem nú er til umr., er hæstv, ríkisstj. að uppfylla sín ótímabæru og vanhugsuðu loforð. Sagt er að hér sé aðeins um takmarkaðan verkfallsrétt að ræða, en þannig verður það tæplega í reynd. Gert er ráð fyrir að sáttasemjari ríkisins beri fram sáttatillögu áður en til verkfalls er boðað. Til þess að atkvgr. um till. sé gild þurfa liðlega 50% atkvæðisbærra manna í BSRB að taka þátt í atkvgr. og yfir 50% af þeim, sem atkv. greiddu, að hafna till. til þess að hún teljist felld. Þannig nægir aðeins að rúmlega 25% félagsmanna hafni till. sáttasemjara til að koma á verkfalli. Það er því auðséð að hér er ekki um neina verulega takmörkun að ræða. Þegar þannig er um hnútana búið er ekki rétt að tala um takmarkaðan verkfallsrétt.

Lágmarksþjónustu skal halda uppi í öryggis- og heilbrigðismálum, að sagt er í samningsdrögum sem gerð hafa verið um þessi mál. Er gert ráð fyrir að tilteknir menn frá báðum aðilum ákveði hver lágmarksþörf er í þeim greinum. Ekki er vitað hvort aðilar geti komið sér saman um raunhæft mat á málunum. Það er því engin trygging fyrir því að nauðsynlegasta þjónusta verði veitt.

Starfsmenn ríkis og bæja halda æviráðningu þótt þeir fái verkfallsrétt. Komið hefur í ljós að margir opinberir starfsmenn kæra sig ekki um að fá verkfallsrétt eins og stjórn BSRB hefur barist fyrir. Þeir vita að fenginni reynslu að kjör þeirra eru endurskoðuð hverju sinni í samræmi við gerða kjarasamninga Alþýðusambands Íslands og að möguleiki er fyrir því að bæta hlut þeirra, sem verst eru settir, án verkfalla. Það er skiljanlegt að starfsmenn ríkisins vilji fá launakjör bætt. Það verður að viðurkenna að margir í lágum launaflokkum eru oft illa á vegi staddir. En launakjör er unnt að lagfæra og endurskoða án þess að verkfallssvipan sé á lofti. Það er hægt að endurskoða og samræma launakjör með því að færa menn til milli launaflokka ef samræming og starfsmat réttlætir það. Með þeim hætti má lagfæra ýmislegt sem valdið hefur óánægju meðal opinberra starfsmanna.

Verkfallsréttur opinberum starfsmönnum til handa leysir engan vanda. Það er miklu fremur ástæða til að ætla að slík ráðstöfun ríkisstj. og Alþ. gæti orðið til þess að skapa mörg vandamál. Hætt er við því að verkfallsréttur starfsmanna ríkisins verði til þess að auka á upplausn í þjóðfélaginu. Væri þá illa farið því að nú er þörf á að skapa festu og tryggja aukinn skilning stétta í milli til þess að sá grunnur, sem þjóðfélagið starfar á, geti orðið traustur. Aðeins með því að það megi takast verður lýðræði tryggt í landinu og batnandi lífskjör fyrir alla landsmenn. Það er spor aftur á bak að lögfesta verkfallsrétt opinberum starfsmönnum til handa. Það leysir engan vanda og bætir ekki kjör þeirra. Heilbrigð vinnulöggjöf, atvinnuöryggi og hæfileg tekjutrygging er það sem ber að stefna að.

Yfirleitt eru menn sammála um nauðsyn þess að endurskoða gildandi vinnulöggjöf. Stjórn Alþýðusambands Íslands hefur talið sig vera reiðubúna til viðræðu um það. Vinnuveitendasambandið hefur óskað eftir því að nauðsynlegar breytingar verði gerðar á löggjöfinni til þess að komið verði í veg fyrir endurtekin vandræði og stórtjón. Engum dettur í hug að breyting á vinnulöggjöf þjóðarinnar verði raunhæf eða til góðs nema sanngirni verði ráðandi og hagsmunir allra aðila vinnumarkaðarins og þjóðarinnar í heild hafðir í huga þegar breytingin er gerð. Það hefði mátt ætla að breyting yrði gerð á nefndum lögum á því þingi sem nú er að ljúka störfum. En það verður ekki. Er því góður tími til þess að undirbúa málið áður en Alþ. kemur saman í haust.

Ríkisstj. þarf að hafa forustu um að ná samkomulagi við þá aðila sem hlut eiga að máli. Þannig væri mögulegt að hafa frv. tilbúið næsta haust með nauðsynlegum breytingum. Að sjálfsögðu er um margar breytingar að ræða sem til greina gætu komið. Þó er ein sérstaklega mikilvæg, sú að láta sáttasemjara ríkisins fá vald til þess að fresta verkföllum um tiltekinn tíma. Væri eðlilegt að sá frestur mætti vera allt að því tveir mánuðir, í fyrstu 30 dagar, í annað sinn 20 dagar og að síðustu 10 dagar, ef líklegt þætti að samkomulag gæti náðst á þeim tíma.

Að undanförnu virðist gangur mála hafa verið sá að samkomulagstilraunir og samningaumleitanir hafi ekki verið reyndar að marki fyrr en verkfall var skollið á. Ef sáttasemjara verður fengin heimild til frestunar ber að tryggja um leið í lögum að tíminn verði notaður frá frestun til þess að ná samkomulagi milli deiluaðila. Með frestunarheimildinni er líklegt að komið verði í veg fyrir verkföll, en launþegar fengju kjarabætur með frjálsum samningum án verkfalla. Þannig væri lokið að mestu a.m.k. þeim ljóta leik sem háður hefur verið að undanförnu öllum til tjóns. Þá yrði ekki endurtekin niðurhelling á mjólk eða önnur verðmæti eyðilögð. Þá yrðu veiðiskipin ekki látin vera í höfn um aðalbjargræðistímann. Og þá yrði þjóðarbúið ekki fyrir margra milljarða kr. tjóni vegna framleiðslutaps af völdum verkfalla og þá yrðu launþegar ekki fyrir því tjóni og launatapi sem af vinnustöðvunum leiðir. Vonandi hafa nægilega margir lært af reynslu undanfarinna ára til þess að samkomulag geti náðst milli allra aðila um réttlátar og skynsamlegar breytingar á þeirri löggjöf sem umrædd mál snertir.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ræða frv. það sem hér er á dagskrá frekar, enda hefur málið verið rætt allmikið og öllum hv. þm. er ljóst hvað í því felst.