18.11.1975
Sameinað þing: 17. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Í tilefni af því, sem hér hefur komið fram varðandi viðræður íslendinga og breta um hugsanlegar veiðiheimildir breta í íslenskri fiskveiðilandhelgi, þar sem því er nú neitað af hæstv. forsrh. að tilboð hafi komið fram af hálfu íslendinga um 65 þús. tonna aflamagn bretum til handa fyrir 3 víkum, eins og breski ráðh. í samninganefndinni hefur haldið fram, þá vil ég segja það, að ég tel nauðsynlegt að hæstv. ríkisstj. komi á framfæri, einnig í Bretlandi, mótmælum gegn þessum ósannindum breska ráðh. Það á ekki að líðast að breskur ráðh., sem kemur hingað sem formaður : samninganefnd, geti haldið því fram að þeim hafi verið gert ákveðið tilboð, þar sem hann nefnir tölur, ef það er með öllu rangt.

Hitt verð ég aftur að segja, að ég hef orðið fyrir vonbrigðum áður af hálfu íslenskra stjórnvalda í sambandi við þessar samningaviðræður við breta og frásagnir af þeim. Ég vil minna á í þessum efnum að fyrst kom það fram í fréttum frá Lundúnum eftir samningaviðræðurnar sem þar fóru fram að íslendingar hefðu gert bretum ákveðið tilboð um ákveðið aflamagn. Íslensku ráðh. báru þetta til baka og sögðu að þeir hefðu ekki gefið neitt tilboð um aflamagn, og eftir að hingað kom heim var þetta enn endurtekið, að það hefði ekki verið gert tilboð um aflamagn. Síðan, þegar nánar er skýrt frá þessu máli, m. a. í gögnum sem lögð hafa verið fyrir landhelgisnefnd, kemur að mínum dómi allt annað í ljós. Það er að vísu hægt að vera með orðaleik í þessu eins og ýmsum fleiri málum og segja að þó að menn hafi nefnt ákveðnar tölur með sérstöku orðalagi, þá beri ekki að skilja það sem tilboð, og ræða síðan um það áfram í öllum samningaviðræðum eins og um tilboð hafi verið að ræða. Það fer nú ekkert á milli mála að í þessum samningaviðræðum í London nefndu íslensku samningamennirnir fasta tölu sem tilboð, að vísu í spurnarformi, hvort bretar mundu vilja fallast á samninga ef þetta yrði boðið. Síðan var sem sagt staðið að öllum viðræðum eins og hér væri um tilboð að ræða, bæði í viðræðum íslendinga og breta. Ég tel því að afneitanir íslensku ráðh. um að þeir hafi gert tilboð hafi verið rangar og það sé nú skjalfest. Síðan kemur enski ráðh. nú í annað sinn og segir að fyrir 3 vikum hafi verið gert tilboð um 65 þús. tonna afla, og hann endurtekur þetta án þess að okkar ráðh., sem áttu kost á að mótmæla því, gerðu það opinberlega í fjölmiðlum. Nú hefur hæstv. forsrh. afneitað þessu mjög greinilega hér, en ég álít að hann eigi að koma mótmælum gegn þessum fullyrðingum breska ráðh. á framfæri í breskum blöðum, og ég vil vænta þess að ríkisstj. geri það og sýni þá með því að hún hefur hér ekkert undan að draga.

En það er kannske ekki aðalatriði þessa máls hvenær tilboðið um 65 þús. tonna heildarafla hefur verið gefið. Nú liggur það ljóst fyrir að íslensk stjórnvöld hafa boðið þetta aflamagn, og ég tel fyrir mitt leyti að þetta tilboð ríkisstj. beri ekki vott um neina sanngirni, eins og hæstv. forsrh. orðaði það hér, heldur beri þetta tilboð vott um mikinn glannaskap og óraunsæi af hálfu ríkisstj., að leyfa sér við þær aðstæður, sem við búum við, að bjóða slíkt aflamagn. Í þessu sambandi vil ég rifja það upp, að ég hef mjög ákveðið farið fram á það við hæstv. ríkisstj. í umr. um málið hér á Alþ. og einnig í landhelgisnefnd, að ríkisstj. verði við því að skýra þjóðinni opinberlega frá því hvað hefur komið fram í viðræðunum við útlendinga um hugsanlegar veiðiheimildir þeim til handa, að hún birti skýrslu um þessar viðræður og það sé ekki verið að toga út eitt og eitt atriði af því sem fram hefur komið, venjulega eftir að upplýsingar hafa berist um málið erlendis frá.

Á síðasta landhelgisnefndarfundi tók hæstv. ríkisstj. sér frest til þess að athuga um það hvort hún gæti orðið við þessari kröfu minni, en út úr þeim fresti hefur ekkert komið enn, engin skýrsla hefur verið birt af hálfu ríkisstj. og þjóðin er enn þá dulin þess hvað raunverulega er að gerast í þessu máli. Enn endurtek ég áskorun mína til hæstv. ríkisstj., að hún birti skýrslu um málið og láti þar koma fram aðalatriði þess sem fram hefur komið í þessum viðræðum. Það er augljóst að það þarf ekki að skjóta sér neitt á bak við álit breta í þeim efnum, því að þeir segja frá þessum viðræðum eins og þeim þykir henta fyrir sig. Það hefur þegar komið fram.

Þetta á ekki aðeins við viðræðurnar við breta, sem vitanlega skipta hér þó aðalmáli, en þetta á einnig við þær viðræður sem átt hafa sér stað við vestur-þjóðverja. Þar liggur líka fyrir að hæstv. ríkisstj. hefur gert þjóðverjum tiltekið tilboð um aflamagn. Það liggur líka fyrir að það muni ekki bera mikið á milli um það aflamagn, sem vestur-þjóðverjar gera kröfu um, og það aflamagn, sem íslenska ríkisstj. hefur þegar boðið. Þessu hafa m. a. þjóðverjar sjálfir skýrt frá. Nú skora ég á hæstv. forsrh. að skýra þingheimi frá þessu og alþjóð. Hvað hefur hún boðið þjóðverjum? Það verður ekki legið á því lengur að þjóðin fái að vita þetta. Ég hef sagt það áður og segi það enn: Ég læt ekki binda mig í þessum efnum lengur með einhverjum kröfum um trúnað í landhelgisnefnd sem þannig starfar að það er dulið fyrir henni allt sem hægt er að dylja fyrir henni. Ég hef sagt það, að ég muni segja mig úr landhelgisnefnd ef þannig verður staðið að málum eins og gert hefur verið til þessa. Það hlýt ég að gera og gefa þá þær upplýsingar sem mér eru kunnar um þetta mál, því að ég tel að þjóðin eigi kröfu á því að fá að vita það.

Það leikur sem sagt enginn vafi á því að það er þegar búið að bjóða útlendingum allverulegt aflamagn, svo verulegt að það hlýtur að hafa afgerandi áhrif á það hvað íslendingar fá að veiða sjálfir á næsta ári ef ekki á að taka að neinu leyti tillit til þeirra alvarlegu aðvarana sem fyrir liggja frá fiskifræðingum. Það hefur verið réttilega sagt og það af hálfu einstakra ráðh., að það aflamagn, sem samið verður um við útlendinga, eins og nú er komið málum, verði allt að vera á kostnað íslenskra fiskiskipa. Þetta hefur verið sagt af íslenskum ráðh. Og þegar farið er að bjóða umtalsvert fiskimagn og ekki er hægt að skilja það á annan veg en þann að þá verði að setja hömlur á hvað íslendingar fái að veiða sjálfir, þá er ekki hægt að dylja slíkt mál tengi fyrir landsmönnum. Ríkisstj. verður að segja frá því. Og henni ber auðvitað skylda til að segja frá því hvernig hún ætlar að standa að málinu áfram, eftir að hún hefur samið við erlendar þjóðir um verulegar heimildir til veiða. Á að setja kvóta á íslensk veiðiskip, ákveða, hvað hvert skip má veiða, til þess að hafa stjórn á heildarveiðinni, eða á að stöðva veiðarnar þegar líður nokkuð fram á árið og íslendingar eru komnir í hámark þess sem veiða má?

Það er margt í sambandi við þessar viðræður við útlendinga um hugsanlegar veiðiheimildir þeirra sem þörf væri í rauninni á að ræða hér, en það er ekki síst framkoma íslenskra stjórnvalda í þessum viðræðum öllum. Ég vil í sambandi við þá framkomu spyrja hæstv. forsrh. hvort hann geti ekki fallist á að taka undir með leiðarahöfundi Morgunblaðsins frá í dag um að það sé orðin full ástæða til þess að íslendingar neiti að ræða við breta um þessi mál á meðan þeir halda skipum sínum að lögbrotum í íslenskri fiskveiðilandhelgi. Orðrétt sagði blaðið á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta, eftir að það hafði fjallað nokkuð um það hvað gerst hafði: „Í raun og veru hefði íslenska ríkisstj. átt að neita að tala við bresku samninganefndina nema með því skilyrði að allir breskir togarar hyrfu úr íslenskri fiskveiðilögsögu.“ Vill nú ekki hæstv. forsrh. lýsa því hér yfir að hann vilji beita sér fyrir því í ríkisstj. að það verði tekin upp þessi afstaða gagnvart bretum og þeim sagt umbúðalaust nú að við tölum ekki frekar við þá varðandi þetta mál en orðið er fyrr en a. m. k. þeir hafi dregið allan sinn fiskiskipaflota út úr okkar fiskveiðilandhelgi? Það skiptir miklu máli, þegar mál eins og þetta liggja fyrir, að við sýnum fulla reisn og fulla alvöru, en séum ekki alltaf með framkomu líkast því að við séum að biðjast afsökunar á því yfirleitt að vera til.

Ég vil svo að lokum endurtaka það, að ég vil óska eftir því að hæstv. forsrh. skýri hér frá þeim tilboðum sem ríkisstj. hefur þegar gert þjóðverjum, hver þau eru um aflamagn. Það liggur nú fyrir í aðalatriðum hvað bretum hefur verið boðið og þá bið ég hann til viðbótar við annað, sem ég hef farið fram á, að lýsa því einnig yfir að það tilboð, sem illu heilli hefur reyndar verið gert bretum, sé lokatilboð, frá því verði aldrei vikið af íslendinga hálfu, þannig að það leiki ekki vafi á því að þetta sé bara boð í fyrri hl. samningaviðræðna sem síðan eigi að halda áfram að slaka til á. Það væri fróðlegt að það kæmi líka fram, einmitt frá hæstv. forsrh., að hér hafi verið um lokatilboð að ræða sem ekki verði breytt af Íslands hálfu og þar settur verulega stór punktur á eftir.

Ég vil svo vænta þess, að hæstv. forsrh. verði við þessum óskum mínum.