17.05.1976
Efri deild: 117. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4434 í B-deild Alþingistíðinda. (3852)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Sjútvn. þessarar d. hefur haft til meðferðar frv. til 1. um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og skilar sameiginlegu nál. á þskj. 847. Nm. mæla með samþykkt frv. með þeim breytingum sem hún flytur á sérstöku þskj., þ.e. þskj. 848. Hins vegar áskilja nm. sér rétt til að flytja og fylgja brtt.

Á fundi n. komu Már Elísson fiskimálastjóri, sem mætti á öllum fundum n., einnig fiskifræðingarnir Jón Jónsson, Jakob Jakobsson, Ingvar Hallgrímsson og Sigfús Schopka, Þórður Ásgeirsson skrifstofustjóri sjútvrn. mætti einnig á fundi n. og Guðmundur Ingimarsson frá Fiskifélagi Íslands.

Í ljós kom að sjútvn. Nd. hafði ekki leitað umsagnar Hafrannsóknastofnunarinnar um frv. þetta. Einnig kom fram hjá fiskifræðingunum að þeir töldu að þeir hefðu ekki fengið að fjalla um málið eftir þær veigamiklu breytingar sem það fékk hjá sjútvrn. N. taldi að þetta væri ekki eðlileg málsmeðferð og óskaði því eftir umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar og fékk ítarlega umsögn sem lögð var til grundvallar að verulegu leyti við störf nefndarinnar.

N. flytur allmargar brtt. á þskj. 848. Mun ég nú lýsa þeim.

1. brtt. er sú, að lagt er til að viðmiðunarstaður nr. 38, sem er Göltur (Hellna-Göltur) á Snæfellsnesi, verði felldur niður. Þetta leiðir til þess að næsti viðmiðunarstaður utar verður Malarrif, vitinn á Malarrifi, og hefur það í för með sér að heimild til togveiða á Faxaflóa færist utar sem nemur fjarlægðinni frá viðmiðunarstað 38, Gelti, að Malarrifi og verður þar með nokkurn veginn sú sama sem hún er í gildandi lögum.

Mjög var um það rætt í n. að útfærsla frá 9 sjómílum í 12 með togveiðiheimildir fyrir Norðurlandi skerði möguleika nokkurra báta sem þar eru staðsettir og á Austfjörðum. Þeir munu ekki vera margir, mér telst til að þeir muni vera 5 talsins. Hins vegar leggja fiskifræðingar á það mjög ríka áherslu að togveiðiheimildir fyrir Norðurlandi verði ekki innar en við 12 sjómílur. N. taldi sér ekki fært að ganga gegn þessu rökstudda áliti fiskifræðinganna. Hins vegar var horfið að því ráði að opna að nýju ræmu við Austurland frá Langanesi, og er það gert með lið B 3, þar sem skipum 39 metrar að lengd eða minni er heimilað að veiða allt árið með botnvörpu og flotvörpu utan línu sem dregin er úr punkti 6 sjómílur réttvísandi norðaustur frá Langanesi í punkt 6 sjómílur réttvísandi austur frá Glettinganesi. Þetta er nokkurt svæði og þar er talin minni hætta smáfiski og sömuleiðis er þar koli í Héraðsflóanum sem fæst nokkur aðgangur að með þessu, að vísu kannske ekki fullkomlega nóg, en nokkuð, og þarna ætti að fást svæði fyrir þá báta sem hér um ræðir. Hins vegar vil ég leggja á það ríkasta áherslu, að að sjálfsögðu þarf að finna þessum bátum annað veiðisvið og má þar m.a. benda á loðnu fyrir Norðurlandi að sumri til.

Við liðinn C, Suðausturland, eru gerðar nokkrar breytingar.

Með tilvísun til frv., eins og það var eftir meðferð Nd., er lagt til í fyrsta lagi að í staðinn fyrir „linu réttvísandi suður frá Ingólfshöfða“ komi: 18° v. lg., þ.e.a.s. sú veiðiheimild, sem þar um ræðir, er færð vestar og færð í þá sömu vestlægu lengd sem nú er í lögum.

Sama gildir um liðinn C 5 sem fjallar um heimild báta 26 metra að lengd eða minni og var bundinn við Ingólfshöfða. Er lagt til að það verði fremur 18° v. Ig. eins og nú er. Jafnframt er við liðinn C 5 tekin upp takmörkun á togveiðum sem er nú í lögum, þar sem segir: „Togveiðar verði þó ekki heimilar á svæði milli linn, sem dregin er réttvísandi suður af Hvalnesi, og að línu, sem hugsast dregin réttvísandi vestur af 15° 45', innan 6 sjómílna frá landi, á tímabilinu 1. maí til 1. okt.“ Þetta er nú í lögum og er bætt hér inn í, takmörkun á togveiði á þessu svæði.

Þá er leiðrétting við C 6. Í frv. stendur: „austur frá Ingólfshöfða“, en á að sjálfsögðu að vera: suður frá Ingólfshöfða.

Loks er þarna bætt við einum nýjum lið, C 8, sem heimilar togurum að veiða á litlum geira sem afmarkast af línu dreginni austur frá Hvítungum að línu dreginni réttvísandi suður af Hvalnesi, þó aðeins að 6 mílum frá fjöruborði. Þetta er heimilt nú að 4 sjómílum. Þetta er gert vegna eindreginnar áskorunar og tilmæla togaraeigenda á Austfjörðum sem telja sig búa nú við ákaflega erfið skilyrði þar sem erlendur togarafloti hefur mjög verið á þeirra miðum. En á því tímabili, sem hér um ræðir, frá 1. maí til 31. des., mun vera stór fiskur í þessum geira og fá þessir togarar þar venjulega 1–2 veiðiferðir sem geta munað þá töluverðu. Ég vil taka það fram, að vel má vera að þetta eigi að falla brott síðar, en miðað við það ástand, sem nú er, töldum við rétt að heimila áfram þessar veiðar. Þess skal getið, að allir þm. Austurl. mæltu með því.

Í meðferð Nd. var gerð sú breyting að tekin var inn í frv. að nýju heimild til þess að veiða fyrir Suðurlandi, þ.e.a.s. það er D, Suðurland. Þarna hefur fallið brott, sé ég, við D, Suðurland, en í meðferð Nd. var tekin inn heimild í liðnum D 9 þess efnis að skipum 26 metra og minni er heimilt að veiða með botnvörpu á tímabilinu frá 1. jan. til 15, sept. upp að suðurströnd meginlandsins á svæði sem takmarkast að austan af lengdarbaug 21° 57' v. lg. og að vestan af lengdarbaug 22° 32' v. lg. Þetta er tekið upp úr gildandi lögum. En fiskifræðingar telja að út af fyrir sig sé þarna að vísu stór fiskur, þótt smáýsa slæðist með, en hættan sé langsamlega mest á tímabilinu frá 20. júní til 1. ágúst, þ.e. á hrygningartíma síldarinnar. Þá er með botnvörpu hægt að eyðileggja síldarhrygningu með einum drætti svo að um munar, eins og síldin hrygnir, og leggja á það ríka áherslu að þessi tími verði rofinn frá 20. júní til 1. ágúst ár hvert. Að öðru leyti er þetta látið standa.

Þá er leiðrétting, liðurinn E: Í staðinn fyrir „Reykjanesvita“ á að koma: Reykjanesaukaviti. Og sömuleiðis við 6. gr. kom íslenska málfræðin upp í okkur, enda mikið um hana rætt hér, og vakin var athygli á því að það er ekki sagt á sæmilegu máli: „með tilkynningu að banna allar togveiðar“ o.s.frv., heldur er réttara að segja: „að tilkynna bann við öllum togveiðum“. Er það einnig leiðrétting.

8. gr. var hins vegar mjög til umr. á fundum n. og sýndist þar sitt hverjum. Þar gerði sérstaklega Hafrannsóknastofnunin töluverðar aths. og margar þeirra sjálfsagðar og nánast því leiðréttingar. Tekið var það ráð að orða gr. upp að nýju og skal ég reyna að benda á þá þætti eða þær breytingar sem þar eru helstar.

Í fyrsta lagi er í 1. mgr. eftir „að koma í veg fyrir óhóflegt smáfiskadráp“ bætt við: „eða aðrar skaðlegar veiðar“. Þarna er vísað t.d. til veiða á skelfiski sem stundum geta verið að sjálfsögðu skaðlegar á ýmsan máta, og var talið að það væri sjálfsagt að hafa þetta fullkomlega opið.

Þá eru felld niður í lok 1. mgr. orðin „og séu staðkunnugir á viðkomandi eftirlitssvæði“, þ.e. skipstjórar eftirlitsskipanna. Var vakin athygli á því að þegar tvö skip eru, þá er ákaflega erfitt að binda í lögum að þeir skuli vera staðkunnugir á því svæði sem þeir kunna að starfa á einhvern takmarkaðan tíma. Þótt þetta sé æskilegt, þá getur það orðið nánast óframkvæmanlegt, enda vafasamt að binda slíkt í lögum.

Þá er í upphafi 2. mgr. breytt þar sem segir í frv.: „Þá getur ráðh. sett sérstaka trúnaðarmenn“, það er fest hér betur: „Ráðh. setur sérstaka trúnaðarmenn um borð í veiðiskip eftir því sem þurfa þykir“. Hann hefur það m.ö.o. enn þá í sinni hendi enda þótt kveðið sé dálítið ákveðnar að orði um þessa menn.

Þá er 3. mgr., þar segir í frv.: „verða varir við að um verulegt magn af smáfiski sé að ræða í afla skips eða skipa“. Þar er fellt niður „skips eða skipa“, þannig að eftir stendur: „varir við verulegt magn af smáfiski í afla“. Þetta er samkvæmt ábendingu Hafrannsóknastofnunarinnar. Svo getur verið ástatt að þeir verði varir við mikinn smáfisk í afla t.d. rannsóknaskips og teldu þá spurningu hvort þessi gr., eins og hún er orðuð, nær þar til, heldur yrðu þeir að fara um borð í önnur skip og kanna ástandið þar líka sem er stundum ógerlegt. Þess vegna var þetta fellt niður, enda hygg ég að gr. sé fyllilega ljós eins og hún er.

Þá kemur líklega veigamesta breytingin sem lagt er til að gerð verði á þessari gr. Hún er í því fólgin að bæta einum sólarhring við þá tvo sem eftirlitsmenn hafa heimild til að loka veiðisvæðum, þannig að í staðinn fyrir tveggja sólarhringa skyndilokun er heimiluð þriggja sólarhringa skyndilokun. Aðrar breytingar eru ekki gerðar í þessari gr. nema í síðustu mgr. er fært til samræmis við þessa þriggja sólarhringa skyndilokun orðalag það sem nefnir fjölda sólarhringanna sem nauðsynlegar ráðstafanir skulu hafa verið gerðar til verndunar ungfisks á viðkomandi svæði.

Þá er í 13. gr. dragnótaveiðiheimild færð til baka frá 20. des til 30. nóv. Þetta er einnig samkv. till. fiskifræðinga sem telja engin rök fyrir því að heimila hana svo lengi, enda mun víðast hvar, ef ekki alls staðar, vera horfið frá slíkri veiði þegar svo seint er orðið ársins. Og þá er bætt við úr gildandi lögum við 13. gr.: „Heimild þessi til veitingar dragnótaveiðileyfa skal ekki notuð að því er varðar veiðar í Faxaflóa“. Það verður að segjast, að að öllum líkindum mun þetta vera það ákvæði sem einna mest mun um deilt hér á hv. Alþ., en n. varð sammála um að taka þetta enn inn í lögin og telur að þeim rannsóknar- og tilraunatíma, sem þar er um að ræða, sé ekki lokið.

15. gr. er orðuð upp á nýtt og gerð viðtækari í sambandi við veiðitilraunir og aðrar vísindalegar rannsóknir innan fiskveiðilandhelginnar, þannig að hún er ekki bundin, eins og stendur í frv., við botnvörpu, flotvörpu og dragnót í rannsóknaskyni, enda telur n. að þarna sé um mistök að ræða hjá rn. Það er engin ástæða til þess að leyfa ekki Hafrannsóknastofnun jafnframt að gera tilraunir með önnur veiðarfæri og mun enginn til þess raunar ætlast.

Þá er í 16. gr. tekið upp atriði samkv. eindreginni ósk Fiskifélags Íslands að það fái til umsagnar þau mál sem falla undir 13., 14. og 15. gr. Hins vegar mun sjútvrn. telja óþarft að binda það í lögum, en n. ákvað samt að festa hér einnig umsögn Fiskifélags Íslands.

Að ósk dómsmrn. er gerð breyting á 17. gr. Þar er fest töluvert betur í lögum meðferð mála sem hefur satt að segja verið ákaflega ábótavant. Í frv. segir nú: „I.eggja má löghald á skipið og selja það að undangenginni aðför til lúkingar sektum samkv. þessari gr. og kostnaði“. Hins vegar er gr. nú orðuð svo: „Lagt skal löghald á skip, sem staðið er að meintum ólöglegum veiðum“ — þ.e.a.s. það er fastbundið, það skal lagt löghald á skip — „þegar er það kemur til hafnar, og er eigi heimilt að láta það laust fyrr en dómur hefur verið kveðinn upp í máli ákæruvaldsins gegn skipstjóra skipsins eða máli hans lokið á annan hátt og sekt og kostnaður hefur verið greitt að fullu. Þó er heimilt að láta skip laust fyrr ef sett er bankatrygging eða önnur trygging jafngild að mati dómara fyrir greiðslu sektarinnar og málskostnaðar. Til tryggingar greiðslu sektar samkv.þessari gr. og kostnaðar skal vera lögveð í skipinu.“ Hér er þetta fest langtum betur en er, og ég vil lýsa þeirri skoðun minni að reynsla undanfarinna ára, þegar sama skipið hefur verið tekið á sama sólarhringnum kannske tvívegis fyrir ólöglegar veiðar, er svo komið strax aftur á veiðar, sýni að hér sé full þörf á að búa betur um hnútana og að því er stefnt með þessari gr.

Í 19. gr., þar sem segir: „Hver sá maður, er leiðbeinir skipi við ólöglegar botnvörpu- eða flotvörpuveiðar“ er fellt niður „botnvörpu- og flotvörpuveiðar“ og kemur í staðinn almennara, sem sagt „veiðar“.

Þá er í ákvæði til bráðabirgða, sem sjútvn. Nd. setti í frv., bætt við mgr. sem segir: „Þrátt fyrir ákvæði 13. gr. skulu skip, sem eru 45 rúmlestir brúttó eða minni og hafa notið heimilda til dragnótaveiða, njóta sömu veiðiheimilda“. Í þessu ákvæði til bráðabirgða eru undanþegin lengdartakmörkunum skip sem áður nutu veiðiheimilda og eru 350 brúttólestir eða 105 brúttólestir, og þykir rétt að hafa sama ákvæði um dragnótaveiðar þar sem einnig eru tekin upp lengdarmörk á skipum og það mundi útiloka allmikinn fjölda skipa sem eru rétt við þau lengdarmörk.

Ég hef nú rakið þessar brtt., sem eru nokkuð margar, sumar efniseðlis, en aðrar ekki. En ég vil jafnframt geta þess að í n, var rætt um ýmis önnur atriði, t.d. mjög rætt um þá ákvörðun í frv. að fara yfir í mestu lengd á skipum og um það rætt hvort ekki ætti að taka upp skrásetningarlengd, en niðurstaðan varð sú að þetta breytti ekki öllu ef að því væri staðið í skipsskjölum og skipsbókum að færa þessa mestu lengd. Á því er einnig vakin athygli að miðun við mestu lengd kemur alls ekki í veg fyrir það að skip geti komist undir veiðiheimildir með breytingu á lengd, eins og mjög hefur tíðkast í sambandi við mælingu á stærð skips og hefur raunar gert þá viðmiðun einskisnýta. Sú hugmynd kom fram að e.t.v. ætti að setja í lögin bann við að breyta lengd skipa, en það nær að sjálfsögðu eingöngu til skipa, sem eru þegar á sjó, og ekki til nýrra skipa, svo að ekki varð úr því að slíkt væri tekið þarna inn. En ég vil geta um þetta þar sem það var mjög til umr. og sannarlega koma báðar lengdarviðmiðanir mjög til greina.

Loks vil ég geta þess, eins og kemur fram í nál., að einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja og fylgja brtt. og munu einhverjar koma fram.