15.10.1975
Efri deild: 6. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

Útfærsla fiskveiðilögsögunnar

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Í dag fögnum við merkisdegi, íslendingar. Fiskveiðilögsaga Íslands hefur verið færð út í 200 sjómílur. Með þessu hefur verið stigið stærsta skrefið og væntanlega lokasporið í landhelgismálinu. Í nær 30 ár hafa íslendingar náð hverjum áfanganum öðrum mikilvægari í sókn sinni til fullra yfirráða á Íslandsmiðum til að tryggja tilveru sína og lífsmöguleika í nútíð og framtíð.

Til að ná árangri í landhelgismálinu hefur jafnan reynt á samhug og samstöðu þjóðarinnar. Það hefur reynt á landhelgisgæsluna, stjórn hennar og skipverja. Það hefur reynt á alla sem vandasömum og mikilvægum hlutverkum hafa gegnt. Það hefur reynt á þjóðina í heild.

Ég veit að ég mæli fyrir hönd okkar allra hv. þdm. þegar ég óska þjóðinni til hamingju með þau tíðindi, sem nú hafa gerst, og ber fram óskir um að Landhelgisgæslu Íslands megi auðnast að standa á verði um hina mikilvægu hagsmuni þjóðarinnar nú sem fyrr, þegar mikið hefur legið við, og læt í ljós fyrir hönd okkar allra þá ósk og von að ákvörðun sú, sem nú hefur komið til framkvæmda, nái fullum árangri til gæfu og gengis íslenskri þjóð.