20.11.1975
Sameinað þing: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

39. mál, eignarráð á landinu

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að líta svo á að till. sú, sem hér er til umr., sé einhver lífseigasta afturganga sem riðið hefur húsum hér á hv. Alþ. nú á síðari árum. Fjórum sinnum hefur hana dagað uppi og í fimmta sinn er hún sprottin upp hér í þingsölum, og það sýnir að hún er lífseigari en náttröllin forðum og annarra ráða verður að leita við afgreiðslu þessa máls heldur en gert hefur verið til þessa. A. m. k. tvisvar sinnum hef ég skorað á hv. allshn. hv. Alþ. að taka þessa till. til afgreiðslu og fella hana. Ég ætla að leyfa mér í þriðja sinn og vonandi í síðasta sinn að beina þessari áskorun til hv. allshn., að taka nú till. til afgreiðslu, og ég efast ekkert um að þá yrði hún felld.

Till. hefur breytt um svip með árunum. Hún er orðin loðin að orðalagi og teygjanleg miðað við það sem áður var. Inn í hana hefur verið skotið orðalagi sem er tvírætt og stangast jafnvel á við höfuðtilgang till. sjálfrar. Till. ber þó hinn sama höfuðtilgang, sem hún æ hefur haft, þann tilgang að þjóðnýta allt land, að færa allt land úr höndum einkaaðila og sveitarfélaga í hendur ríkisins, að gera landið allt að þjóðareign, eins og það er kallað, og er það megintilgangur till., enda þótt undanskot séu að bændur megi eiga bújarðir sínar meðan þeir þess óska.

Ég þarf ekki að ítreka skoðanir mínar á þessum tillöguflutningi. Ég hef rætt þessi efni á undanförnum þingum og mér nægir að vilna til þess, eins og aðrir hv. þm. sem hér hafa tekið til máls sumir hverjir. Ég ætla þó ekki að hverfa að því ráði, eins og síðasti hv. ræðumaður, hv. þm. Helgi Seljan, að fara að elta ólar við það sem sagt var í umr. í fyrra eða hitteðfyrra. Ég held að það sé nægilegt að fjalla um það efni sem á dagskrá þessa fundar er.

Ég vil aðeins segja það, að ef að því væri stefnt að færa land, þótt ekki væri nema afréttir, fallvötn, stöðuvötn og hvers konar landsréttindi, úr höndum þeirra aðila sem það eiga nú, þ. e. bænda og sveitarfélaga í langflestum tilvikum, þá væri mjög stefnt til hins verra fyrir íslenskt þjóðfélag. Með því væri brott numin kjölfesta bændastéttarinnar, sem er landið sjálft í þeirra eign og yfirráðum, og við mundi blasa að landi og landsréttindum réðu stjórnarráðsskrifstofur í Reykjavík með auknum mannafla, síauknu ríkisvaldi, nýju leyfakerfi og nýjum starfsmönnum, auknu ríkisbákni. Með þessu held ég að væri mjög stefnt til hins verra, og um það skal ég ekki fara mörgum orðum. Hitt er rétt, að við nokkurn vanda er að fást í ýmsum þeim greinum sem till. fjallar um. Þann vanda er hægt að ráða við á annan hátt heldur en að þjóðnýta landið og þau landsréttindi sem um er talað hér.

Ég skal í sambandi við það, sem hér hefur verið drepið á um jarðalög, aðeins segja það, að þar eru reifaðar hugmyndir til þess að fjalla um nokkurn hluta af þeim efnum sem hér er að vikið. Þessar hugmyndir eru nú skoðaðar enn að nýju af fulltrúum stjórnarflokkanna, og ég á von á að stjórnarflokkunum takist að samræma sín sjónarmið um þessi efni og komast þar að niðurstöðu sem verði í raun til mikilla bóta um þessi mál. Þar eru þó ýmis fleiri ráð, sem til greina koma, heldur en þau er voru í jarðalagafrv. sem lagt var fram fyrir tveimur árum. Ég skal ekki fara lengra út í þá sálma. En ég lít svo á að leiðir að því marki, sem jarðalagafrv. fjallar um í sinni upphafsgr., séu a. m. k. fleiri tiltækar heldur en sú sem þar er mörkuð.

Um það að eigendur náttúrugæða lands, fallvatna, jarðhita og annarra verðmæta stundi brask og njóti óhófsgróða af þessum eignum sínum, þá vil ég geta þess að um það getur verið a. m. k. þörf á því að kveða nánar á en gert er í sambandi við framkvæmd eignarnáms og eignarnámsmat nú í lagasetningu. Það getur verið þörf á því að setja eitthvert þak á það hvað slík verðmæti eru metin við eignarnámsmat þegar eignarnám er framkvæmt. Og eins og íslenska stjórnarskráin gerir ráð fyrir, þá er eignarnám og heimild til eignarnáms úrræði, ef almannaheill krefur, til þess að ná réttindum sem einkaaðilar eða sveitarfélög vilja halda fyrir almenningi sem hefur brýna þörf fyrir að njóta slíkra réttinda. Þessi mál hafa verið mjög til umr. hér að undanförnu í sambandi við háhitasvæðin. Ég tel ekki þörf á því að flytja þessi verðmæti í hendur ríkisins alfarið, en ég tel enga ástæðu til annars, ef í odda skerst og vandkvæði eru á að ná samningum við þá aðila sem eiga þessi réttindi, en að þá sé eignarnámsheimild fengin og henni beitt.

Í sambandi við það að íslenska ríkið slægi eign sinni á t. d. afréttarlöndin, á veiðiárnar, á stöðuvötn í byggð og óbyggð með einfaldari lagasetningu eins og hér er lagt til, þá er það vitað að þessi landsgæði eru yfir höfuð í eigu bænda landsins, sumpart í einkaeign, en að mjög miklu leyti í félagseign, í eigu sveitarfélaga og jafnvel samtaka þeirra. Ef þetta væri skilið frá bújörðum og tekjur af þessum eignum hyrfu frá bændastéttinni, þá má vænta þess að eitthvað þyrfti að koma í staðinn, og ég lít svo til að ýmsum þyki að búvörur séu nægilega háar í verði, en nærtækast væri líklega að hækka verð á landbúnaðarvörum til þess að vega á móti þeirri skerðingu sem bændastéttin yrði fyrir við slíka lagasetningu.

Allt eru þetta rök gegn því máli sem hér er flutt. Málið er enda, eins og hv. flm. sjálfur sagði, með þeim hætti að það gengur þvert á viðurkenndar hefðir um eignarrétt og má segja að það nálgist það að stríða gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Hér hefur borið nokkuð á góma umgengni við landið, nauðsyn þess að vernda íslenska náttúru og hverja varúð þarf að hafa í sambandi við hvers konar meðferð lands og landsgæða. Undir þetta er sjálfsagt að taka. Ég vil samt segja, að eftir því sem ég þekki til, þá mun umgengni við landið vera a. m. k. í sumum tilvikum og í vissum greinum best komið í eigu bændanna og samtaka þeirra. Held ég að væri ekki nein bót til hins betra að aðrir færu þar með eignarráð yfir.

Í sambandi við það t. d., sem hér hefur verið nefnt um sumarbústaðalönd, einstaka sumarbústaði sem reistir séu skipulagslaust og að einkaaðilar brytji sundur lönd sín og hafi af ofsagróða að selja stórgróðamönnum og eignamönnum, stórkapítalistum þéttbýlisins, eins og hér hefur verið komið að, þá er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að sveitarstjórn í hverju sveitarfélagi hefur slíkt mál algerlega á sínu valdi, því að lög kveða svo á að enginn megi reisa sumarbústað — og gildir það alfarið — án leyfis sveitarstjórnar. Ég tel að það sé út af fyrir sig að þetta lagaákvæði sé í skökkum lögum, — það er í náttúruverndarlögum, en ætti heima í jarðalögum verði þau samþykkt. Það hefði verið þörf á því að ýmsar sveitarstjórnir færu eftir þessu lagaákvæði betur en gert hefur verið og gættu sín fyrir þeirri hættu sem þarna er vissulega yfirvofandi. Ráðin eru þó í höndum sveitarstjórnanna, og ég hef ekki trú á því að það yrði betur með það vald farið ef það væri í höndum einhverrar stjórnarráðsskrifstofu hér í Reykjavík. Ég tel að útivistarsvæði, þar sem fólk úr strjálbýli og þéttbýli geti notið hollra návista við íslenska náttúru og haft frjálsan umgang og frjálst val um hvernig það bagar sér eftir vissum reglum, slík útivistarsvæði þurfi að vera til í hverju héraði. Slík útivistarsvæði ættu í rann og veru að vera í eigu og forsjá héraðsstjórna sjálfra í hverju héraði og óþarft að þjóðnýta slík landssvæði til þess að vel megi fara. Ég held að það eigi að vera metnaðarmál hvers héraðs að skipuleggja slík svæði, gefa fólki kost á því að sækja þau heim, dvelja þar skemmri eða lengri tíma og njóta, eins og ég sagði áðan, hollra návista við íslenska náttúru til þess að dreifa huganum frá daglegu striti hversdagslífsins hér á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landinu þar sem, eins og kallað er, streita sækir á fólkið.

Ég skal ekki fara mörgum fleiri orðum um þetta mál. Það er margþætt. Það er leiðigjarnt að fjalla um sama efni þing eftir þing, hlusta á sömu framsöguræðurnar og sömu röksemdirnar og í rauninni algerlega óþarft að fara að flytja sömu röksemdirnar gegn slíkum málum. Ég vil vitna til þess, sem ég hef áður sagt á undanförnum þingum, en ég vil þó sérstaklega enn beina þeirri áskorun til hv. allshn. að taka nú höndum til og afgreiða þessa till. Verði hv. allshn. sammála um eða meiri hl. hennar að leggja til að hún verði samþykkt, þá er sjálfsagt að það álit n. birtist hér á hv. Alþ. og láta sjá hvernig um fer. En ég tel miklu trúlegra að mikill meiri hl. bæði í þeirri hv. n. og eins af þingheimi í heild sé þeirrar skoðunar að það sé landhreinsun að kveða þessa afturgöngu niður fyrir fullt og allt, að ganga af henni dauðri, og þá held ég að tími sé til kominn að hv. Alþ. skeri úr um það hvort svo skuli ekki að verki staðið.