26.11.1975
Sameinað þing: 23. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Áður en ég kem að efni þeirrar þáltill., sem hér er til umr., langar mig að segja nokkrar setningar út af því máli sem hér var til umr. áðan. Mér dettur í hug hvort það sé virkilega nokkur maður í landinu til sem viti ekki um fyrirætlanir samstarfsnefndar um fundahöld eftir allar þær auglýsingar, sem lesnar hafa verið og birtar í fjölmiðlum. Hafi sá maður verið til fyrir daginn í dag, þá fær hann áreiðanlega þessa vitneskju eftir umr. hér því að betri auglýsingu hygg ég tæplega hægt að fá heldur en þá sem hér hefur farið fram. Persónulega tel ég að slíkar auglýsingar eigi að birtast, og ég afneita því algerlega, sem hér hefur verið gefið í skyn, að ég eigi einhvern þátt í því að umrædd ákvörðun var tekin.

Að þessum fáu orðum sögðum vil ég leyfa mér að gera með nokkrum orðum grein fyrir þeirri þáltill. um heimild fyrir ríkisstj. til að ganga frá samkomulagi við ríkisstjórn Sambandslýðveldisins Þýskalands um veiðar þýskra togara, eins og till. á þskj. 85 heitir.

Till. sú, sem hér er til umr., fjallar um það að Alþ. veiti ríkisstj. heimild til að ganga frá samkomulagi við ríkisstjórn Sambandslýðveldisins Þýskalands í samræmi við orðsendingu sem prentuð er með ályktun á þskj. 85.

Í ályktun Alþ. frá 15. febr. 1972 segir, að haldið skuli áfram samkomulagstilraunum við ríkisstjórnir Bretlands og Sambandslýðveldisins Þýskalands um þau vandamál sem skapast vegna útfærslu fiskveiðilandhelginnar.

Viðræður við Sambandslýðveldið Þýskaland hafa farið fram af og til undanfarin 3 ár og fjölmargir viðræðufundir verið haldnir, bæði hér í Reykjavík og í Bonn. Strandaði lengi vel á því að þjóðverjar reyndust ófáanlegir til að falla frá því að nota frystitogara á Íslandsmiðum. Miðuðu þjóðverjar þá við að ef þeir ættu að fá hlutfallslega sama aflamagn á Íslandsmiðum á grundvelli fyrri veiða og bretar fengu með samkomulaginu frá 1973 gætu ísfisktogarar þeirra, 40 að tölu, ekki náð því magni og yrði því að nota tiltekinn fjölda frystitogara til að brúa bilið. Á þetta var ekki fallist af Íslands hálfu. Jafnframt var ágreiningur um hversu langt frá ströndum landsins þýskir togarar skyldu halda sig svo og um aflamagn.

Síðustu viðræður við Þjóðverja fóru fram í Reykjavík 28. og 29. okt. 1975 og í Bonn 19. og 20. nóv. 1975. Í þeim viðræðum og í framhaldi af þeim var þrautreynt hversu langt málum yrði þokað til samkomulags. Liggur nú fyrir að samkomulag geti tekist, svo sem í hjálögðu fylgiskjali segir.

Þetta samkomulag, sem hér er lagt fyrir Alþ. í formi heimildar til ríkisstj., er í 10 liðum. Í fyrsta lagi er miðað við 200 mílna svæðið samkv. reglugerðinni frá 15. júlí 1975 um fiskveiðilandhelgi Íslands, þ. e. a. s. núgildandi fiskveiðimörk íslendinga.

Í öðru lagi segir að heildarársafli skipa skrásettra í Sambandslýðveldinu Þýskalandi skuli ekki fara fram úr 60 þús. tonnum og að af því magni verði þorskafli ekki meiri en 6 þús. tonn. Það hefur að sjálfsögðu verið eitt af skilyrðum fyrir samningsgerð af Íslands hálfu að lækka aflamagnið sem mest. Þjóðverjar fóru lengi fram á 95 þús. tonn og síðar 85 þús. tonn, — áður fyrr veiddu þeir um 120 þús. tonn og sá margnefndi og illræmdi Haagdómstóll dæmdi þeim 119 þús. tonn, — en niðurstaðan nú er sem sagt 60 þús. tonn, eins og ég áðan sagði, og þar af ekki meira en 5 þús. tonn af þorski. Við mat á þessu atriði hefur af Íslands hálfu verið miðað við það að fá magnið eins langt niður og frekast voru tök á og þá haft í huga hvað líklegt væri að þýsk skip gætu aflað án samkomulags. Reynslan sýnir að þjóðverjar náðu á árinu 1973 91 700 tonnum og á árinu 1974 68100 tonnum, en þess ber þá að gæta að landhelgisgæslan kom í veg fyrir veiðar með klippingum — það voru 14 klippingar 1973 og 6 árið 1974 — svo og með því að togarar hífðu upp vörpur þegar þeir urðu varir við varðskip og í mörgum tilvikum sigldu þeir þá burt af veiðisvæðinu. Á síðara árinu, þ. e. 1974, stunduðu bretar veiðar samkv. samkomulaginu frá 1973 og gat því landhelgisgæslan einbeitt sér að því að hefta veiðar þýskra togara. Nú er fyrirsjáanlegt að málið horfir allt öðruvísi við þar sem bretar ætla sér nú að stunda ólöglegar veiðar í skjóli herskipaverndar, og verður það ærið verkefni fyrir landhelgisgæsluna að snúa sér að því máli. Þess ber og að gæta í þessu sambandi að þjóðverjar stunda hér aðallega karfa- og ufsaveiðar og þorskstofninn er því ekki í hættu þeirra vegna samkv. þessu samkomulagi.

Í þriðja lagi er aðeins um að ræða 40 ísfisktogara samkv. sérstakri skrá. Þýsk verksmiðjuskip og frystitogarar eru því útilokuð frá öllu 200 mílna svæðinu. Verður það að teljast mjög veigamikið atriði sem þjóðverjar voru alls ófáanlegir til að fallast á áður, jafnvel utan 50 mílna markanna.

Í fjórða lagi eru svo svæði þau sem þýskum skipum yrði leyft að stunda veiðar á. Þau eru afmörkuð, eins og sést á meðfylgjandi korti, og ég vil vísa til þess gagnvart hv. alþm., þar sem það yrði of flókið, held ég, að fara að lesa það upp nokkuð að ráði. Er þar einnig um að ræða verulegar tilslakanir af hálfu þjóðverja frá því sem áður var. Fyrir suðausturlandi er miðað við hólf sem er fyrst 25 og síðan 23 sjómílur frá grunnlínum sunnan 65° norðlægrar breiddar. Suðurströndin er síðan lokuð frá 15° vestlægrar lengdar til 22° vestlægrar lengdar. Síðan kemur opið svæði sem miðað er við 25 mílur frá grunnlínum undan Reykjanesi, en síðan 50 mílur frá grunnlinum Faxaflóa og 40 mílur frá grunnlínum Breiðafjarðar, síðan aftur 50 mílur frá grunnlínum fyrir Vestfjörðum, þó þannig að gert er ráð fyrir opnu hólfi fyrir hluta af Vestfjarðasvæðinu inn að 37–34 mílna frá grunnlínum á tímabilinu frá 1. júní til 30. nóv. Síðan er lokað svæði fyrir öllu Norðurlandi og Austurlandi að þeim mörkum sem ég nefndi í upphafi, þ. e. 65. breiddargráðu. Enda þótt þjóðverjar hafi aðallega stundað veiðar á þeim svæðum, sem veiðiheimildirnar miðast við, er þess að gæta annars vegar, að þeim er þar þokað miklu lengra frá ströndum en þeir hafa áður verið, og hins, að án samkomulags væri engin trygging fyrir því að þeir leituðu ekki bæði nær ströndum en samkomulagið segir til um né heldur að þeir mundu ekki leita á önnur svæði og með miklu fleiri skipum, þ. á m. frystitogurum.

Í fimmta lagi eru ákvæði um að þýskir togarar stundi ekki þær veiðar á hrygningarsvæðum og uppeldissvæðum sem íslenskum skipum eru bannaðar veiðar á, og er þar um mjög veigamikið atriði að ræða.

Í sjötta lagi eru ákvæði um að þýsk skip virði íslenskar reglur um möskvastærð og lágmarkslengd og þyngd á fiski sem leyfilegt er að veiða. Gildir það einnig um þær reglur sem settar kunna að verða síðar um aðra möskvastærð en nú gildir.

Í sjöunda lagi ber þýskum togurum að tilkynna landhelgisgæslunni daglega um staðsetningu sína og mun það auðvelda störf landhelgisgæslunnar, bæði að því er varðar eftirlit og björgunarstarfsemi almennt.

Í áttunda lagi eru ákvæði um að ef ástæða er til að ætla að brot hafi verið framið á ákvæðum samkomulagsins geti íslensk varðskip stöðvað hlutaðeigandi togara hvar sem er innan 200 mílna markanna og kvatt til þýskt eftirlitsskip til að sannreyna málsatvik. Þetta er sams konar ákvæði og notað var í samkomulaginu við breta frá árinu 1973. Þegar það ákvæði var rætt á sínum tíma var það gagnrýnt á þeim grundvelli að framkvæmd íslenskra laga færi ekki fram nema breskt eftirlitsskip kæmi þar við sögu. Var því þá haldið fram að í raun væri verið að afsala slíku valdi til annarra þjóða. Framkvæmdin á þessu ákvæði hefur verið þannig að hér er aðeins um það að ræða að gefa hinum aðilanum kost á að fylgjast með því sem skeður, en dómsmrh. tekur ákvörðun um það hvort skip sé strikað út af listanum. Þannig hefur það verið í framkvæmd og hefur þetta ákvæði ekki valdið neinum erfiðleikum. Hitt er jafnljóst, að meðan ekki liggur fyrir viðurkenning á útfærslunni sem slíkri er þetta eðlileg málsmeðferð. Þetta ákvæði verður því að meta í ljósi þeirrar reynslu sem nú liggur fyrir.

Í níunda lagi er miðað við að samkomulagið sé gert til tveggja ára frá dagsetningu orðsendingarinnar.

Loks segir í tíunda lagi að samkomulagið taki einnig til Berlínar, en þar er um að ræða ákvæði sem Sambandslýðveldið Þýskaland hefur í öllum sínum samningum af ástæðum sem ekki þarf að rekja hér.

Þetta eru aðalatriði orðsendingarinnar. Síðan er gert ráð fyrir tveimur bréfum og er texti þeirra einnig prentaður sem fskj. við þáltill. Annað er þess efnis að erindaskiptin hafi engin áhrif á afstöðu aðila til hafréttarmála, og er þá miðað við að hafréttaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sé enn eigi lokið. Hitt bréfið er um að framkvæmd samkomulagsins megi fresta ef bókun nr. 6 við samning Íslands við Efnahagsbandalagið hefur ekki tekið gildi innan 5 mánaða, og mundi það m. a. hafa í för með sér að hólf það undan Vestfjörðum, sem ég nefndi áðan, mundi ekki opnast ef slík frestun á sér stað, og það er fullur ásetningur ríkisstj. að nota þá heimild til frestunar sem hér um fjallar. Hins vegar mundi slík frestun að sjálfsögðu ekki breyta neinu um gildistíma sjálfs samkomulagsins.

Að sjálfsögðu hefði verið æskilegast, að bókun nr. 6 hefði komið til framkvæmda við undirskrift þessa samkomulags, en það mál er ekki á valdi vestur-þjóðverja einna, eins og við öll vitum. En mitt mat er það, að ákvæðið n.m frestun á framkvæmd samkomulagsins, ef tollaívilnanirnar verða ekki komnar til framkvæmda eftir 5 mánuði, verði þjóðverjum mikill hvati til að gera allt sem þeir geta innan Efnahagsbandalagsins til að tollamál okkar verði leyst. Jafnframt vil ég geta þess, að af hálfu þýskra stjórnvalda er mikill áhugi fyrir því að greiða fyrir sölu á íslenskum sjávarafurðum í Vestur-Þýskalandi. Standa vonir til að slík viðskipti geti orðið báðum aðilum hagstæð.

Ég vil þessu næst lesa hér upp bréf frá forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar til sjútvrn., dags. 25. nóv. 1975, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vísa til bréfs rn., dags. 25. nóv. 1975, varðandi umsögn stofnunarinnar um drög að samningi við Sambandslýðveldið Þýskaland varðandi veiðar vestur-þýskra skipa innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.

Eins og fram kemur í skýrslu stofnunarinnar, dags. 13. okt. s. l., er ástand helstu fiskstofna á Íslandsmiðum með þeim hætti að ekki verður mikið til skiptanna ef gerðar verða þær friðunarráðstafanir sem stofnunin telur nauðsynlegar til viðhalds þessara stofna. Af þeim sökum ber að draga úr veiði útlendinga svo sem frekast er kostur.

Þessi fiskveiðasamningur er að því leyti sérstæður að hér er svo til einungis um að ræða veiði tveggja tegunda, ufsa og karfa, en það eru hvort tveggja stofnar sem ekki eru í jafnyfirvofandi hættu og þorskstofninn. Stofnunin telur mjög mikils virði að þorskveiðar vestur-þjóðverja skuli takmarkaðar við 5 þús. tonna hámark á ári og er það vart meira en ætla verður eðlilegt við veiðar á hinum tegundunum. Æskilegast hefði verið að heildarkvótinn væri lægri, sérstaklega þar sem ekki er ósennilegt að íslendingar muni sækja í ufsa- og karfastofnana í auknum mæli vegna takmarkana á þorskveiðinni.

Það er skoðun Hafrannsóknastofnunarinnar að vandlega athuguðu máli að vart muni án samninga verða unnt að takmarka heildarafla vestur-þjóðverja á Íslandsmiðum meira en hér er lagt til, eins og m. a. reynsla fyrri ára sýnir.

Af þeim sökum er hér um að ræða skásta kost, sem við eigum völ á í dag frá fiskifræðilegu sjónarmiði.

Stofnunin telur mjög mikilvægt, að vesturþjóðverjar muni virða lokun hrygningarsvæða eða svæða þar sem mikið er af ungfiski. Lágmarksstærð fisks, sem landa má á Íslandi, er mun hærri en í gildi er annars staðar, og bjóðast vestur-þjóðverjar til að samþ. hana að því er varðar veiðar þeirra á Íslandsmiðum. Einnig munu þeir taka upp 135 mm möskvastærð eða jafnvel stærri verði slíkt ákveðið.

Þá er mjög þýðingarmikið að hvorki verksmiðju- né frystiskip skuli fá að stunda veiðar innan nýju fiskveiðilögsögunnar.

Stofnuninni er ljóst að mjög skiptar skoðanir eru um veiðisvæðin innan 50 sjómílna og er einkum ekki ánægð með svæðið út af Norðvesturlandi, sérstaklega með sóknarþunga íslenskra fiskiskipa í huga.

Með tilliti til núverandi ástands fiskstofna á Íslandsmiðum er stjórnun veiðanna skilyrði þess, að unnt verði að nýta stofnana skynsamlega í framtíðinni.

Í þeim samningsdrögum, sem hér um ræðir, fallast vestur-þjóðverjar á að hlíta þeim reglum sem við hyggjumst gera á næstunni varðandi nýtingu stofnanna. Að áliti Hafrannsóknastofnunarinnar er þetta þungt á metunum, þrátt fyrir þá annmarka á samkomulagi þessu, sem nefnt hefur verið hér að framan.“

Ég vil að lokum segja það, að vitanlega væri það öllum íslendingum kærkomnast að allar þjóðir og þ. á m. og ekki síst vestur-þjóðverjar virtu okkar nýju fiskveiðimörk og féllu frá kröfum sínum um áframhaldandi veiðar innan þeirra, en þar sem því miður er nú ekki því að heilsa, þá verður að meta vandlega hvort meiri árangur fáist í bili með samkomulagi eða án þess. Eftir öllum aðstæðum leiðir slíkt mat nú til þess, að telja verður það samkomulag, sem hér er um að ræða, viðunandi eftir atvíkum. Vonast ég því til að það fái góðar undirtektir hjá hv. alþm.

Nú er það mikils virði að íslensk þjóð sé samhuga og standi saman um hagkvæma lausn á okkar vanda. Lokasigurinn er skammt undan og við væntum mikils af hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. En við megum að mínu mati ekki spilla þeim góða árangri sem þar hefur náðst, og það má heldur ekki gleyma því að ráðstefnunni er ekki lokið. M. a. vegna þess verðum við að líta á það mál, sem hér er nú lagt fyrir Alþ., sem áfanga í baráttunni.

Ég hef kosið að gera grein fyrir efni þáltill. í eins skömmu máli og mér var frekast unnt til þess að gefa öðrum hv. alþm. kost á því að ræða þessi mál. Ég mun e. t. v. síðar bæta við nokkrum orðum, ef umr. gefa tilefni til þess, sem ég satt að segja gæti búist við, en ætla ekki að hafa þessa framsöguræðu lengri, heldur leggja til, herra forseti, að þáltill. verði þegar að frestun kemur vísað til hv. utanrmn.