15.10.1975
Neðri deild: 6. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

5. mál, byggingarlög

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu rétt að við eigum ekki við það að þarna sé verið að stofna til opinberra embætta, heldur er þarna um að ræða nýtt starfsheiti, nýtt starfssvið. Ég vil aðeins vekja athygli þm. í örfáum orðum á tveimur atriðum.

Í fyrsta lagi segir í 18. gr. frv.: „Nánari ákvæði um réttindi og skyldur byggingarstjóra skulu sett í reglugerð.“ Frv. felur sem sé ekki í sér hver ábyrgð þessara byggingarstjóra skuli vera, hverjar séu skyldur þeirra gagnvart húsbyggjendum í landinu. Spurningin er sú: Er hann að axla, byggingarstjórinn, einhverja þá ábyrgð sem iðnmeistarar hafa hingað til borið á sínum störfum í sambandi við húsbyggingar? Því er svarað í 13. gr. Þar segir svo: „Ákvæði 15.– 18. gr. hagga í engu réttindum og skyldum byggingariðnaðarmanna, sveina og meistara, samkv. lögum um iðju og iðnað og öðrum lögum. Iðnmeistarar skulu undirrita yfirlýsingu um ábyrgð sína, eftir því sem nánar verður kveðið á um í reglugerð.“

Það er sem sagt reglugerðin, sem á að segja til um það, hvernig ábyrgð byggingarstjóra verði háttað, hvernig ábyrgð iðnmeistara verði háttað, sem undir hann eru settir. Það gefur auðvitað auga leið að ef ætlast er til þess að maður taki á sig einhverja ábyrgð sem gæti orðið fjárhagsleg af því að standa fyrir byggingum, þá gerir hann það að sjálfsögðu ekki án þess að þiggja einhverja þóknun fyrir. Telja menn það eðlilegt ef ábyrgð þeirra, sem húsið byggja, verður aukin frá því sem nú er, — telja menn þá eðlilegt að ekki verði settar fram kröfur um að þóknunin, sem þeir fá m. a. fyrir að taka á sig þessa ábyrgð, verði ekki aukin að einhverju leyti? Ég tel a. m. k. mjög óeðlilegt að slíkar óskir kæmu ekki fram, og ég tel mjög óeðlilegt að slíkum óskum yrði ekki sinnt. Spurningin er því einfaldlega þessi: Er verið að stofna þarna til nýrra starfa sem munu að öllum líkindum verða til þess að auka enn þau útgjöld sem almennir húsbyggjendur í landinu munu greiða? Ég er ansi hræddur um að svo sé, og ég tek það sérstaklega fram að það kemur ekkert í frv. sjálfu í veg fyrir það að þessa niðurstöðu megi draga, vegna þess að það virðist beinlínis gefa því undir fótinn að iðnaðarmennirnir, sem húsið byggja, standi áfram ábyrgir fyrir sínum framkvæmdum, auk þess verði byggingarstjóri svo ábyrgur gagnvart húsbyggjanda. Hvort hann tekur á sig hluta ábyrgðar iðnmeistara er ekki svarað, hvort hann tekur á sig aukna ábyrgð er ekki heldur svarað, en ég hef aldrei heyrt það fyrr að menn geti búist við því að maður, sem tekur að sér eitthvert ákveðið starf fyrir annan mann, inni það starf af höndum án þess að fá þóknun fyrir.