27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti, góðir hlustendur. Fyrir hálfum öðrum mánuði lét Hafrannsóknastofnunin frá sér fara skýrsíu sem sjútvrn. dreifði síðan til alþm. og fleiri. Í skýrslu þessari er fjallað um ástand fiskstofna á Íslandsmiðum og nauðsynlegar friðunaraðgerðir innan fiskveiðilögsögu landsins. Niðurstaða fiskifræðinganna, sem skýrsluna sömdu, er sú, að mikilvægustu fiskstofnar okkar séu nú þegar ofveiddir að því marki að nauðsyn beri til að draga tafarlaust úr sjósókn og aflabrögðum ef ekki eigi að stefna út í hreinan voða og sér í lagi hrun þorskstofnsins að 2–3 árum liðnum.

Settar eru fram í skýrslunni tölur um æskilegan hámarksafla af hverri tegund, og séu þær lagðar saman kemur í ljós að lagt er til að heildarafla botnfisktegunda þurfi að halda innan við 400 þús. tonn, en síðustu ár hefur hann numið um 600 þús. tonnum á ári. Af því magni höfum við íslendingar veitt sem næst 2/3, en erlend fiskiskip 1/3 hluta. Þriðjungs samdráttur heildarafla er nauðsyn, segja því fiskifræðingarnir, ef ekki á illa að fara. Jafnframt liggur fyrir að erlend fiskiskip hirða um þessar mundir þriðjung aflamagnsins. Það þýðir, ef gefa á neyðarkalli fiskifræðinganna gaum, að við íslendingar þurfum að neita okkur um eins tonns afla fyrir hvert tonn sem útlendingar veiða á Íslandsmiðum, skerða okkar sókn á miðin nákvæmlega sem svarar sókn erlendra skipa.

Þessi ógnvekjandi tíðindi urðu landsmönnum kunn í kjölfar endanlegrar útfærslu íslenskrar fiskveiðilögsögu úr 50 mílum í 200 mílur. Þar með er náð markmiði landgrunnslaganna um að færa íslenska lögsögu yfir fiskimiðin sem ótvírætt fylgja landinu, og í þessu efni er farið eftir því sem telja verður fyrirsjáanlega niðurstöðu af starfi hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Útfærslan í 200 mílur var eitt helst kosningamál forustuflokks núv. ríkisstj. fyrir hálfu öðru ári. Sjálfstæðismenn vildu sýna þjóðinni að þeir væru bæði stórtækari og gætu gert betur en vinstri stjórnin þegar hún færði fiskveiðilögsöguna út í 50 mílur. Skýrslan um ástand fiskstofnanna undirstrikar á áhrifamesta hátt, sem hugsast getur, réttmæti útfærslunnar og nauðsynina á að láta þar ekki sitja við orðin tóm, heldur leggja allt kapp á að gera 200 mílna fiskveiðilögsöguna að veruleika.

Það kom því eins og köld gusa þegar ríkisstj. lagði fyrir Alþ. í fyrradag þáltill. þar sem hún æskir heimildar til að gera við Vestur-Þýskaland samkomulag um veiðar vestur-þýskra togara á Íslandsmiðum. Þar er ráð fyrir því gert að vestur-þýsk togskip fái næstu 2 ár að veiða rúmlega 2/5 hluta af þeim afla sem fiskifræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar telja ráðlegt að taka af tveimur þýðingarmiklum fiskstofnum, ufsa og karfa. En ekki nóg með það, lagt er til að vestur-þýsku togararnir fái að athafna sig árið um kring á þremur þýðingarmiklum svæðum innan 50 mílna landhelgislínunnar, fyrir Austur- og Suðausturlandi allt inn að 23 mílum, suður og vestur af Reykjanesi allt inn að 25 mílum og að 40 mílum út af Breiðafirði. Þar að auki er svo gert ráð fyrir að þjóðverjum sé hleypt á Vestfjarðamið frá Kögri suður fyrir Barða hálft árið, mánuðina júní — nóv., allt inn að 34 mílum.

Hér hefur verið gengið miklu lengra til móts við vestur-þjóðverja en nokkra nauðsyn bar til eða sanngirni mælir með, eins og málum er nú háttað. Landhelgisgæslan hefur síðustu árin gengið þannig fram við að verja 50 mílna línuna að veiðar vestur-þýskra togara innan hennar voru að fjara út. Á síðasta ári nam afli þeirra við Ísland, bæði utan og innan línu, 68 þús. tonnum, og aflaáætlun þjóðverja sjálfra nú seint á þessu ári er sú, að á sama svæði nái þeir aðeins 40 þús. tonnum eða þriðjungi minna en nú á að heimila þeim hvort næstu 2 ára.

Í þrjú ár höfum við barist fyrir að hreinsa 50 mílna lögsöguna. Landhelgisgæslunni hefur orðið svo vel ágengt að þjóðverjar voru á hröðu undanhaldi, og síðustu vikur hefur komið í ljós að eins hlaut að fara fyrir bretum þegar þeir vildu ekki sætta sig við að hlíta því að tímabundin veiðiheimild þeirra er runnin út.

Að sjálfsögðu er ákjósanlegt að ná viðunandi samkomulagi við þessar þjóðir eins og aðrar ef þess er kostur. Tímabundnar veiðiheimildir á nýja lögsagnarbeltinu milli 50 og 200 mílna línanna gátu komið til mála og hefðu átt að koma vestur-þjóðverjum að meira gagni en nokkrum öðrum, vegna þess hvers konar veiðar skip þeirra stunda. En að opna þeim stór veiðisvæði innan gömlu 50 mílna lögsögunnar um leið og mörkin eru færð út í 200 mílur gefur til kynna að sú útfærsla sé aðeins á pappírnum. Slíkt er móðgun við íslendinga og sér í lagi við sjómenn. Um þvílíka framkvæmd á glæstasta kosningafyrirheiti Sjálfstfl. frá síðustu kosningum hæfa best orð skáldsins: „Og það er eins og ekkert hafi gerst.“

Ef íslendingar og vestur-þjóðverjar væru einir í heiminum eða a. m. k. einir um að sækjast eftir fiskafla á Íslandsmiðum mætti að vísu færa að því nokkur rök að á samkomulagsuppkastið sé lítandi. Meginástæðan er sú að þjóðverjar leggja mest kapp á veiði ufsa og karfa, fisktegunda sem ekki eru taldar í jafnyfirvofandi hættu sökum ofveiði og íslenski þorskstofninn. En jafnframt er vert að hafa í huga að sókn íslenskra fiskiskipa í þessar tvær tegundir hefur verið dræmari en ella vegna þess að vestur-þýski markaðurinn hefur mátt heita okkur lokaður um árabil, sumpart með beinu löndunarbanni vestur-þýskra stjórnvalda og sumpart af völdum refsitolla. Þeim tollmúr hefur verið haldið við í 3 ár þvert ofan í gefin fyrirheit af hálfu Efnahagsbandalags Evrópu. Þar hefur vestur-þýska stjórnin fram að þessu verið ein að verki í því skyni að þvinga okkur íslendinga til undanhalds í samningaþófi um veiðiheimildir þýskri togaraútgerð til handa innan íslenskrar fiskveiðilögsögu.

En það er öðru nær en við og vestur-þjóðverjar eigumst einir við. Á fiskimiðum umhverfis land okkar koma við sögu fiskiflotar sem gerðir eru út frá tugum landa í Evrópu til veiða á fjarlægum miðum. Vaxandi sókn í fiskstofnana á æ stærri skipum búnum æ stórtækari og fullkomnari veiðarfærum og fiskleitartækjum, veldur því ástandi sem fiskifræðingarnir hafa málað svo dökkum lítum. Yfir þýðingarmesta nytjafiskinum, þorskinum, vofir að dómi færustu og fróðustu manna svipað hrun og síldarstofninn varð fyrir af völdum ofveiði okkar og annarra þjóða fyrir tæpum áratug.

Það var mikið lán að fyrsti samningurinn um veiðiheimildir, sem við gerðum eftir útfærsluna í 50 mílur, var við belga sem reyndust liprir í samningum og komu mjög til móts við óskir okkar í mörgum greinum. Síðari samningar drógu dám af hinum fyrsta. Eins mun fara nú. Fyrsti samningur eftir nýjan útfærsluáfanga verður óhjákvæmilega fyrirmynd annarra og það liggur þegar fyrir að samningar eru komnir vel á veg við Noreg og Belgíu. Síðan kemur röðin að færeyingum. Austur-þjóðverjar og pólverjar hafa enn fremur óskað eftir samningum. Það er fyrirkvíðanlegt ef fyrirmyndin í öllum samningsgerðum verður það samningsuppkast sem gert hefur verið við vestur-þjóðverja.

Á þessari stundu, fáum dögum eftir að breska stjórnin fyrirskipaði í þriðja sinn flota sínum að ráðast inn í íslenska fiskveiðilögsögu til verndar veiðiþjófum, láta talsmenn uppkastsins að samkomulagi við vestur-þjóðverja helst á sér skilja að samþykkt þess sé að þeirra hyggin fyrst og fremst ráð til að einangra breta og gera landhelgisgæslunni fært að snúa sér einvörðungu að togaraflota þeirra og verndarskipum. Minn skilningur á þessu samningsuppkasti er þveröfugur. Ég tel að með því séu beinlínis lögð drög að samningsgerð við breta á sömu nótum, nema hvað þar yrði fyrst og fremst um að ræða þorskafla í stað ufsa og karfa. Þessa ályktun dreg ég einkum af fskj. IV með þáltill. ríkisstj. Þar er birt fyrirhuguð orðsending frá stjórn Vestur-Þýskalands til íslensku ríkisstj., þess efnis, að hafi bókun 6 um tollaívilnanir af hálfu Efnahagsbandalags Evrópu til handa Íslandi ekki tekið gildi innan 5 mánaða frá gildistöku samkomulagsins megi fresta framkvæmd þess. Hingað til hefur staðið á vestur-þjóðverjum að Ísland fengi þær tollaívilnanir sem samið var um í bókun 6, en eins og nú er komið má fullyrða að bretar beiti neitunarvaldi í Efnahagsbandalaginu til að hindra gildistöku hennar. Þetta er þá orðið úr stórum orðum sumra ráðh. í haust að gildistaka bókunar 6 væri algert skilyrði fyrir samningum við vestur-þjóðverja.

Með þessu ákvæði í samkomulagsuppkastinu eru lögð drög að viðvarandi þrýstingi á íslensku ríkisstj. að gera samkomulag við breta.

Ekki er rétt að gera lítið úr því hagræði sem af því gæti hlotist að tollfríðindin í löndum Efnahagsbandalagsins, sem kveðið er á um í bókun 6, komi til framkvæmda. Þar koma ekki aðeins til álita auknar tekjur af útflutningi sem þegar fer til Efnahagsbandalagslanda. Meira máli skiptir að markaðsstaða okkar í heild, aðstaðan til að koma aðalútflutningsvarningi okkar í hagstæðasta fáanlegt verð mundi rýmkast til muna fengjum við aðgang að fiskmarkaði á Efnahagsbandalagssvæðinu á viðunandi samkeppnisgrundvelli.

Það þarf enginn að segja mér að þessir beinu viðskiptahagsmunir, ásamt áfergju vestur-þjóðverja að missa ekki umsamin veiðiítök í miðjum klíðum hafi ekki sín áhrif þegar frá líður. Með fyrirhuguðu samkomulagi við Vestur-Þýskaland er stefnan tekin á samninga við breta með þeim ískyggilegu afleiðingum sem þeir geta haft fyrir hætt kominn þorskstofninn á Íslandsmiðum, sjávarútveg okkar og afkomu þjóðarinnar.

Ég vil ekki vera með neinar hrakspár, en það borgar sig aldrei að loka augunum fyrir veruleikanum. Að mínum dómi er það skárra af tvennu illu að hafna augljósum háskasamningum og berjast heldur eins og við erum menn til fyrir vernd fiskstofna og eigin lífsbjörg þau tvö eða í hæsta lagi þrjú missiri sem enn kunna að líða þangað til hafréttarráðstefnan gerir endanlega þá ályktun sem festa mun gagnvart öllum heimi 200 mílna fiskveiðilögsögu okkar.

Mótatkv. mitt við samningsuppkastinu, sem fyrir liggur, er byggt á því að þessi samningur, svo varhugaverður sem hann er, sé þar á ofan undanfari annarra samninga og enn verri, enn hættulegri stofnum helstu nytjafiska, — samningum sem hæglega geta stofnað afkomu þjóðarinnar í tvísýnu. — Þökk þeim sem hlýddu.