02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

295. mál, Kröfluvirkjun

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi vék hér í máli sínu að ýmsum atriðum og mörgum þeirra í ádeiluskyni sem alls ekki er um spurt. Að því leyti er grg. hans fyrir fsp. ekki í samræmi við þingsköp, og ég mun að sjálfsögðu ekki fara inn á þau atriði sem hann nú hreyfir hér án þess að hafa spurt um þau í sinni fsp. Ég mun halda mig við svör við þeim fsp., sem hann hefur lagt fram á hinu prentaða þskj.

Fyrst er spurt: „Hve stóra virkjun er nú verið að gera við Kröflu og hver er áætlaður kostnaður hennar nú?“

Samningar hafa verið gerðir um kaup á tveimur 30 mw. vélum til virkjunarinnar eða samtals 60 mw. Hins vegar er talið að unnt verði að framleiða allt að 70 mw. með þessum tveimur vélum. Áætlaður kostnaður er: Framkvæmdir á vegum Kröflunefndar 4132 millj. kr., á vegum Orkustofnunar, kostnaður við jarðboranir og gufukerfi, 1706 millj. Kostnaður við 132 kílóvolta háspennulínu til Akureyrar er hér ekki meðtalinn. Hann er áætlaður 510 millj. kr. og kostnaður við aðveitustöð á Akureyri er áætlaður 126 millj. kr.

Önnur spurning er þessi: „Hvaða aðili á að reka virkjunina þegar hún tekur til starfa?“ Skv. 1. gr. laga nr. 21 frá 1974, um jarðgufuvirkjun við Kröflu, heimilar Alþ. ríkisstj. að fela væntanlegri Norðurlandsvirkjun eða öðrum aðila að reisa og reka virkjunina. Tekið er fram í skipunarbréfi Kröflunefndar að virkjunin skuli afhent Norðurlandsvirkjun þegar það fyrirtæki hefur tekið til starfa.

Þriðja spurningin: „Hve mikið rafmagn má ætla að verði til umframnota á Norðurlandi þegar Kröfluvirkjun og byggðalínan komast í gagn, og hefur verið hugsað fyrir markaði fyrir það? Ef ekki, á hvaða rafmagnsnotendur á að deila kostnaði af því?“

Orkustofnun hefur nýlega gert orkuspár fyrir Norðurland. Er í öðru tilvikinu gert ráð fyrir rafhitun á Akureyri, en í hinu er gert ráð fyrir hitaveitu þar.

Skv. fyrra tilvikinu er aflþörfin 67 mw. árið 1977. Nú er gert ráð fyrir að fyrri vél Kröfluvirkjunar verði komin í gang fyrir árslok 1976. Með 30 mw, í Kröflu er uppsett vatnsafl og gufuafl á Norðurlandi 58 mw. Ef norðurlínan verður í fyrstu rekin með 60 kílóvolta spennu má gera ráð fyrir að hægt verði að flytja eftir henni 5 mw. Verður þá aflið samtals 63 mw. Ef aflþörfin verður 67 mw., eins og orkuspáin gerir ráð fyrir, þarf að nota dísilstöðvar þegar notkun fer yfir 63 mw. þangað til annaðhvort byggðalínan eða norðurlínan flytur rafmagn með fullum afköstum eða seinni vélasamstæðan í Kröflu tekur til starfa.

Skv. síðara tilvikinu, þegar gert er ráð fyrir hitaveitu á Akureyri, er aflþörfin hins vegar 59 mw. árið 1977.

Hér má bæta því við, að ætla má að orkunotkun markaðar, sem sveltur hefur verið um langan tíma, vaxi mun meira en gert er ráð fyrir í orkuspám, þar sem gera má ráð fyrir að ýmis iðufyrirtæki muni stórauka orkukaup sín fljótlega eftir að orka er fyrir hendi. Verður því að koma síðari vélasamstæðu í notkun áður en langt líður.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að nú fyrir skemmstu ritaði Samband ísl. samvinnufélaga á Akureyri bréf til Kröflunefndar þar sem komið er á framfæri þeirri ósk að fá keypta ódýra orku frá Kröfluvirkjun þegar hún kemst í notkun veturinn 1976, sambandsverksmiðjurnar á Akureyri verði að endurnýja olíukatla sína fyrir áramótin 1976–1977 og rafmagn það sem þarf, ef endurnýja á gamla olíukynta gufukatla með nýjum rafknúnum kötlum, er um 10–12 mw.

Þar sem Krafla verður fyrsta meiri háttar jarðgufustöð hér á landi væri einnig óráðlegt að gera ráð fyrir snurðulausum rekstri beggja vélasamstæðna samtímis, a. m. k. í fyrstu. Sú er a. m. k. reynsla annarra þjóða um rekstur jarðgufustöðva. Út frá öryggissjónarmiði er því einnig nauðsynlegt að hafa vélarnar tvær áður en langt líður.

Fjórða spurningin er: „Hver er kostnaður orðinn við Kröfluvirkjun nú miðað við októberlok:

a. við virkjunarframkvæmdirnar sjálfar, þar með taldar byggingar,

b. Kröflunefndar sjálfrar í heild,

c. laun formanns, skrifstofukostnaður (þar með talinn launakostnaður), aðkeypt ráðgjafaþjónusta og ferðakostnaður?“

Undirbúningur og framkvæmdir við virkjunina og háspennulínur frá henni eru á vegum eftirfarandi þriggja aðila:

1. Kröflunefnd, þ. e. undirbúningur og bygging sjálfrar virkjunarinnar.

2. Jarðvarmaveitur ríkisins eða Orkustofnun, þ. e. rannsóknir jarðhitasvæðisins, borun tilrauna- og vinnsluhola við virkjun þeirra og lagning gufuveitu að virkjuninni.

3. Rafmagnsveitur ríkisins, þ. e. undirbúningur og lagning háspennulínu frá Kröflu til Akureyrar og tenging þeirrar línu á Akureyri.

Kröflunefnd hefur hins vegar undirbúið tengingu línunnar við tengivirki Kröfluvirkjunar. Heildarútgjöld þessara aðila munu nú vera um 1 000 millj. — einn milljarður.

Seinni liðum þessarar fsp. í fjórða lið er svarað skv. upplýsingum frá ríkisbókhaldinu. Skrifstofa Kröflunefndar skilar mánaðaryfirliti og fskj. fyrir næstliðinn mánuð eigi síðar en 10. n. m. Lokið hefur verið sundurliðun fram til 30. sept. og liggur það fyrir, en heildarútgjöld Kröflunefndar fyrir október námu 135.8 millj. kr. Skv. þessu nema heildarútgjöld vegna virkjunarframkvæmda til 30. sept. 570.4 millj. kr. og útgjöld í okt. námu 135.5 millj., samtals því í októberlok 705.9 millj. kr. kostnaður við sjálfar virkjunarframkvæmdirnar.

Þá er spurt um kostnað við Kröflunefnd sjálfa í heild. Ekki er nú fyllilega ljóst hvað átt er við með þessu orðalagi. Starfsemi n. er samtvinnuð virkjunarframkvæmdum og stendur eingöngu í sambandi við þær, en þóknun nm. á árinu 1974 nam samtals 747 658 kr., en þau laun eru ákveðin með hliðsjón af launum stjórnarmanna í Laxárvirkjun. Laun formanns á árinu 1974 námu 182 160 kr. og er það innifalið í þessari þóknun nm. sem getið var. Skrifstofukostnaður fram til 30. sept. nú í ár hefur numið 1 603 þús. kr. Aðkeypt ráðgjafarþjónusta hefur til septemberloka 1975 numið 135 millj. 812 þús. kr. Ferðakostnaður hefur til 30. sept. 197:5 numið 2 millj. 809 þús. kr.