03.12.1975
Neðri deild: 20. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Út af því fyrst, sem hv. þm. Reykn., Jón Skaftason, sagði, þá tek ég undir það, sem hann benti á, að þarna hefur verið náð í mjög gott sönnunargagn sem sjálfsagt er að reyna að gera sér sem mestan mat úr. Einnig er sú ábending hans athygli verð að láta gera kvikmynd um þessi mál. Ég vil taka það fram að sjónvarpið hefur fengið leyfi til þess að fara með varðskipi, ég veit ekki hvort það hefur enn þá tekist. Veðrið hefur yfirleitt ekki verið gott að undanförnu. Og það eru enn fremur umsóknir frá erlendum sjónvarpsmönnum, og ég geri ráð fyrir að það verði reynt að hliðra svo til að þeir geti komist með. En það verða menn auðvitað að skilja, að því eru viss takmörk sett hvað t. d. hægt er að setja marga menn þannig um borð og enn fremur að varðskipin geta ekki hagað ferðum sínum með tilliti til eða eftir óskum slíkra manna, heldur geta þeir þá þurft að eiga þar lengri dvöl en þeim finnst gott í misjöfnu veðri.

Annars finnst mér fyrir mitt leyti að hafi verið gert of mikið úr því hér í sambandi við þessar umr., sem ég ætti síst að verða til þess að vekja upp aftur, að landhelgismálið hafi verið eitthvað sérstaklega slælega kynnt nú. Ég held að það væri ástæða til fyrir einhverja þm. að spyrja sig — ekki kannske eins og er gert í einu bókarheiti: „Hvað varstu að gera öll þessi ár?“ — heldur að því, hvað þeir hafi verið að aðhafast á öllum þeim ráðstefnum sem þeir hafa sótt að undanförnu. Ég veit ekki betur en það hafi verið sendir undanfarin ár 10 alþm. eða ígildi þeirra á þing Sameinuðu þjóðanna. Ég ætla að þeir hafi ekki dregið af sér þar við að kynna málstað okkar í þessu máli. Ég veit ekki betur en það hafi sótt, að ég ætla, 5 þm. hafréttarráðstefnu hverja, og ekki hafa þeir legið á liði sínu. Ég veit ekki betur en hver og einn einasti ráðh., sem hefur t. d. farið á einhvern fund, hefur notað tækifærið til þess að halda þar ræðu og þá víkja sérstaklega að þessu máli. En það hefur kannske ekki með þessum hætti nægilega komist út til almennings. Þó hygg ég mála sannast að það sé t. d. talsvert öðruvísi skrifað um landhelgismálið nú í bresk blöð heldur en var þegar síðast var fært út og það sé kynnt betur en þá átti sér stað, málstaðurinn frá báðum sjónarmiðum. En þá held ég að það hafi verið mjög einhliða áróður sem hafður var uppi í breskum blöðum. En þetta var nú útúrdúr.

Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að till. um samþykkt á þessu samkomulagi verði lögð fram hið fyrsta, og ég skal koma þeim skilaboðum til utanrrh. Ég er ekki í landhelgisnefnd, svo að ég get ekki svarað fyrir hana. En viðvíkjandi þeim sjúkraflutningum sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson gerði að umtalsefni, þá er í sjálfu sér kærkomið að gera nánari grein fyrir þeim.

Það er rétt, eins og hann sagði, að það hefur verið stefna hjá okkur allt okkar landhelgisstríð að neita ekki að taka við sjúkum eða slösuðum mönnum, — mönnum sem þyrftu virkilega að komast undir læknishendur. Það kann að hafa verið mismunandi framkvæmd á því, hvort skipum hefur verið leyft að koma að bryggju með slíka menn eða það hafi verið tekið á móti þeim annars staðar. Þessari stefnu held ég að verði að fylgja í þessum átökum eins og áður. Það hafa átt sér stað þrjú tilfelli á þessum dögum.

Í fyrsta tilfellinu, sem átti sér stað þegar skip kom til Norðfjarðar, fór það ekki upp að bryggju, heldur sendi bát með manninn sem var spánverji eða einhverrar annarrar þjóðar. En hvað um það, þá kann nú að vera að það hafi átt sér stað einhver misskilningur um veikindi þessa manns, hversu alvarleg þau væru. Ég vil ekki fullyrða að þau hafi verið sögð alvarlegri en þau reyndust vera í raun og veru — og þau reyndust ekki vera alvarleg. En það var tekið gott og gilt og honum var veitt leyfi til að koma með hann. Hins vegar var það alger misnotkun sem átti sér stað, — misnotkun sem verður að vita harðlega, — að hafa notað tækifærið til þess að setja póst um borð. Til þess hafði vitaskuld aldrei neitt leyfi verið veitt og mjög vitavert að mínum dómi.

Annað tilfelli var svo að það var komið til Seyðisfjarðar með mann sem voru gefnar upplýsingar um að mundi vera lærbrotinn eða mjaðmarbrotinn, að mig minnir. Þegar svo á sjúkrahúsið kom reyndust sem betur fer þessi meiðsl mannsins ekki eins alvarleg og leit út fyrir, heldur reyndist þarna vera um allmikið mar að ræða, og maðurinn fór af spítalanum eftir stuttan tíma. Ég hef látið hafa samband við sjúkrahúslækni á þessum stað, og hann hefur talið að eins og þetta leit út hafi ekki verið hægt að skera úr því fyrir fram hvort þarna var um alvarleg meiðsl að tefla eða þau sem svo reyndust.

Svo er þriðja tilfellið sem átti sér stað nú alveg nýskeð. Þar er um handleggsbrotinn mann að tefla sem veitt var leyfi til að koma með.

En þó að þessari reglu verði fylgt, að taka á móti sjúkum mönnum og slösuðum, þá hafa þessi tilfelli gefið ástæðu til að vera hér vel á verði, og dómsmrn. hefur í dag ritað utanrrn. og beðið það að koma því á framfæri við breska sendiráðið að lögð verði áhersla á að þessi heimild verði ekki misnotuð, við mundum taka vel eftir því ef við teldum að misnotkun ætti sér stað í þessum efnum og a. m. k. fyrsta tilfellið af þessum hefði verið til þess fallið að vekja tortryggni. Þarna sem sagt má ekki eiga sér stað að það sé stofnað til neinnar tortryggni í þessu sambandi, og það verða bretar að skilja, þó að við ætlum eins og áður að halda uppteknum hætti með að veita nauðsynlega sjúkrahjálp þeim sem þess þurfa með.

Það má svo segja að það hafi komið til sögunnar þarna viss gamanþáttur inn á milli þegar aðstoðarskipið Miranda komst ekki hjálparlaust frá bryggju á Seyðisfirði. Ég verð að segja það, að það var ekki haft neitt samband við mig áður en þetta var gert, að draga það frá bryggju, heldur bygg ég að þar hafi ráðið — ég veit ekki hvað ég á að segja: riddaramennska okkar varðskipsforingja að þetta var gert, að hjálpa skipinu frá bryggju með þessum hætti.

Ég skal svo endurtaka það, að það verður höfð ströng gát á því að misnotkun eigi sér ekki stað í sambandi við sjúkraflutningana.