10.12.1975
Neðri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

107. mál, snjóflóð á Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins fá að leggja hér nokkur orð í belg, ekki síst vegna þess að ég hef átt sæti í stjórn Viðlagasjóðs frá upphafi og með frv. fylgir bréf frá stjórn Viðlagasjóðs. Einmitt þess vegna vil ég leyfa mér að taka það skýrt fram að þegar þetta bréf var samið í stjórn Viðlagasjóðs og sent þaðan gat ég ekki verið viðstaddur, ég var ekki kominn til landsins, — þetta var gert örfáum dögum áður en ég gat setið minn fyrsta fund. Og ég vil leyfa mér að fullyrða að ég hefði ekki skrifað undir bréfið eins og það lítur út. Í því eru viss atriði sem ég hefði ekki getað fallist á, og ég vil halda því fram að bréfið hefði litið nokkuð öðruvísi út hefði ég haft aðstöðu til þess að taka þátt í samningu þess.

Því miður heyrði ég ekki alla yfirlýsingu hæstv. forsrh. vegna þess að ég tafðist nokkuð hér frammi og missti því miður af mestum hluta ræðu hv. 3. þm. Suðurl., þó að ég væri kominn. En eftir því sem mér er sagt hefur hæstv. forsrh. gefið hér allmikla yfirlýsingu, en mér er ekki alveg ljóst, hversu mikils má meta það, af þeim fréttum sem ég hef haft af henni. Þó eru það nokkur atriði í þessu frv. sem ég vil leyfa mér að gera aths. við og einnig í þessu bréfi stjórnar Viðlagasjóðs.

Það segir í þessari einu gr. eða 1. gr. frv. að Viðlagasjóði sé heimilt að verja allt að 200 millj. kr. af eign sinni til að standa að fullu við skuldbindingar sínar vegna snjóflóða í Norðfirði. Þetta er afar pent orðalag og lætur lítið yfir sér. En þetta þýðir ósköp einfaldlega að það á að taka 200 millj. kr. úr Vestmannaeyjadeildinni til þess að færa til Neskaupstaðar. Mér sýnist að Norðfjarðardeildin þurfi á einhverjum peningum að halda í viðbót og samkv. þessu er gert ráð fyrir að hún fái um 650 millj. kr. alls. En hér kemur fram á öðrum stað að bætur bæjarsjóðs og stofnana hans, þ. e. a. s. til rafveitu, gatnagerðar, skolplagna, hafnarinnar, endurbætur fyrir fyrirtæki og lausafé bæjarfélagsins í heild, þarna er gert ráð fyrir því að það verði um 540 millj. kr., auk þess að stöðvun rekstrar bæjarfélagsins og stofnana þess muni verða bætt með 200 millj. kr. Á þessum upphæðum er afar lítill munur, og þótt ég vilji ekki draga úr því að þeir í Neskaupstað fái mjög sómasamlegar bætur fyrir það sem þeir misstu í snjóflóðunum, þá getur varla talist syndsamlegt að bera þetta saman, að bætur fyrir skemmdir á aðallega tveimur fyrirtækjum eigi að vera eins miklar og fyrir allt það tjón sem bæjarsjóður Vestmannaeyja hefur orðið fyrir sem er geigvænlegt. Rafveitan gjöreyðilagðist. Hún lenti undir hrauni og fór miðstöð alls rafveitukerfisins í bænum undir hraun. Mun kosta um 400 millj. kr. að endurbæta þetta til þess að geta veitt jafnmikla þjónustu fyrir jafnmarga íbúa eins og áður var, en bætur til rafveitunnar eru talsvert innan við 100 millj. kr. Sér hver maður að þarna er geysilega mikill munur á hvernig að er staðið.

Það er ekki rafveitan ein. Allar götur bæjarins eru meira og minna stórskemmdar, ef ekki eyðilagðar, en bætur fyrir þær götur, sem fóru undir vikur og hraun, eru svo smánarlegar að það er varla hægt að minnast á það hér. Fyrir þá peninga getur bærinn lagt nokkur hundruð metra í nýrri götu.

Í bréfi Viðlagasjóðs segir einnig að þessi áætlun stjórnarinnar geri ráð fyrir því að nægilegra tekna hafi þegar verið aflað fyrir Viðlagasjóð, þ. e. a. s. Vestmannaeyjadeildina. Þetta er dálítið vafasöm fullyrðing vegna þess að þarna er reiknað með skuldabréfaeign sjóðsins sem mun vera um 900 millj. kr. Þessi skuldabréf eru næstum því öll vegna sölu sjóðsins á þeim húsum sem inn voru flutt frá Norðurlöndunum fyrir gjafafé þaðan. Skuldabréfin eru til 7 ára nokkur, talsvert fleiri eru til 14 ára, en langflest, langmesta upphæðin er til 26 ára. Þau skuldabréf eru lánuð með sömu kjörum og Húsnæðismálastofnunin gerir og lánsupphæðin sú sama og er hjá Húsnæðismálastofnuninni þegar afsal fer fram. Flest lánin hafa þess vegna verið um 1700 þús. eins og þau lán eru hjá Húsnæðismálastofnuninni.

Það var ákveðið á sínum tíma, þegar verið var að reyna að selja þessi hús, á fimmta hundrað hús, að sjóðurinn útvegaði kaupendum lán, og þá héldum við, sem vorum í stjórninni, að húsnæðismálakerfið tæki sinn þátt í því að byggja þessi hús í landinu eins og önnur hús. Þetta eru einu íbúðarhúsin í landinu sem Húsnæðismálastofnunin hefur ekki lagt neitt til. Við gerðum sem sagt ráð fyrir því að húsnæðismálakerfið tæki þessi skuldabréf til sín, kannske ekki öll í einu því að það er ekki gott að gleypa of stóran bita og enginn vildi vera ósanngjarn í þeim efnum, heldur stungum við upp á því að þetta yrði gert í smáskömmtum, að Húsnæðismálastofnunin keypti þessi bréf smátt og smátt. Þessu var ekki sinnt á sínum tíma þegar hin svokallaða vinstri stjórn sat að völdum, og þessu hefur ekki heldur verið sinnt á stjórnartíma núv. stjórnar sem ekki telst vinstri stjórn að sjálfsögðu. Með þetta erum við óánægðir. Og þó að sé hægt að sýna það í bókhaldi að við eigum í árslok 1976 900 millj. kr. í svona skuldabréfum, þá vita allir að það bætir ekkert greiðslustöðu sjóðsins sem er ákaflega slæm allar götur síðan hann var stofnaður, yfirdráttur við Seðlabankann hefur farið upp í á sautjánda hundrað millj. kr., og hún er núna mjög slæm. Það er að vísu hægt að veggfóðra með skuldabréfum, en það er ekki það sem við ætlum að gera. Það eru miklu stærri og mikilvægari verkefni sem bíða. Það er kannske hægt að selja þessi skuldabréf. En hver vilt kaupa skuldabréf til 26 ára á lágum vöxtum, þótt nokkur hluti þeirra sé gengistryggður, nema með gífurlegum afföllum? Allir geta reiknað ósköp einfaldlega eðlileg afföll eða vaxtamun á skuldabréfunum sem við eigum til 7 og 10 ára, eins og verðbólgan hefur verið að undanförnu. Þessi bréf eru í rauninni afar lítils virði.

Ef einhver réttur er í þessu máli, þá þyrftum við að fá yfirlýsingu um að Seðlabankinn eða ríkissjóður keypti þessi bréf smátt og smátt á nafnverði. Og mér fyndist ekki óeðlilegt þó að Seðlabankinn gæfi hreinlega eftir vaxtamuninn þótt mikill sé, ósköp einfaldlega vegna þess að í plagginu er annars staðar að finna tölur í greiðsluáætlun fyrir Viðlagasjóð, á bls. 4, í fskj. I, lið 7, þar sem í árslok 1976, þegar Viðlagasjóður á að leggja niður sína starfsemi, er gert ráð fyrir því að vaxtagjöldin, sem að langmestum hluta ef ekki öll fara í hít Seðlabankans, muni nema samtals 542 millj. kr. Ég vil einnig benda á aðra tölu sem er í lið 6 á bls. 4, það eru tolltekjur ríkisins af innfluttu húsunum sem keypt voru fyrir gjafaféð frá Norðurlöndum sem nema þá 561 millj. Samtals fá ríkið og Seðlabankinn úr þessum tveim liðum rúmar 1100 millj., en á sama plaggi er gjafafé Norðurlandanna samtals 1456 millj. Ríkið og Seðlabankinn hafa þess vegna tekið til sín nokkurn veginn það sama og gjafafé Norðurlandanna var. Ég minntist aðeins á þetta vegna þess að mín reynsla er sú að því miður er það þannig með mjög marga þm. að þeir lesa svona töflur og „statistik“ ekki nógu gaumgæfilega til þess að taka eftir öðru eins og þessu.

Í bréfi frá stjórn Viðlagasjóðs, sem ég þykist þekkja höfundinn að af textameðferðinni, segir enn fremur, að fjárhagserfiðleikar Vestmannaeyjakaupstaðar verði miklir um árabil og þetta stafi af því að bæjarfélagið hafi reist sér hurðarás um öxl með miklum og dýrum framkvæmdum. Ég skil hreinlega ekki hvernig stendur á þessu eða hvað kom þessum mönnum til að fara að klína þessu þarna inn í textann. Þetta fer illa, auk þess sem það er leiðinleg aðdróttun að þeim sem hafa verið í miklum erfiðleikum, samt fullir bjartsýni, að reyna að byggja kaupstaðinn upp aftur. Ég veit ekki nákvæmlega hvaða framkvæmdir það eru sem eru svona miklar og dýrar og ótímabærar, ef maður á að skoða textann, eins og hann er þarna á blaðinu. Það er kannske verið að sneiða að því að við höfum reynt að láta alla peninga sem við gátum látið í það að ljúka sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum sem er ákaflega dýrt fyrirtæki að sjálfsögðu. Við álitum nauðsynlegt og eitt það alnauðsynlegasta, sem við gátum gert á þessum tíma, að koma heilbrigðismálunum í sæmilegt horf. Hefðum við ekki gert það, þá væru vestmanneyingar ekki komnir til baka, alls sekki í þeim mæli a. m. k. sem raun hefur á orðið. Ég veit ekki hvort þarna er átt við það að Vestmannaeyjakaupstaður beitti sér fyrir íbúðabyggingum, blokkabyggingum, bæði til þess að selja og eins samkv. lögum um verkamannabústaði, nema þessu sé eingöngu beint að því að við vildum koma upp sundlauginni okkar, gamalli og góðri, þótt á öðrum stað væri, og byggja íþróttaaðstöðu fyrir unga fólkið og fyrir alla vestmanneyinga. Íþróttir hafa yfirleitt verið mikið stundaðar í þessum bæ um langan tíma. Og sannleikurinn er sá að við allt það rót sem varð á fólki og þá ekki síst unglingum í sambandi við þann flæking sem fólkið lenti í hér uppi á landi, þá kom ákaflega mikið los á alla og þá ekki síst unglingana. Við getum séð afleiðingarnar af því í skólunum. Upplitið á þeim er allt annað en áður var, og ef hægt var að gera nokkuð verulega gott til þess að bæta úr þeim vandkvæðum sem þar sköpuðust, þá var það að koma upp góðri íþróttaaðstöðu. Þess vegna hefði mér fundist sæmilegast fyrir stjórn Viðlagasjóðs, þ. e. a. s. að mér fráteknum vegna þess að ég gat ekki haft áhrif á þetta, að sleppa þessari leiðinlegu setningu.

Hins vegar kemur hér í framhaldi af því að þær framkvæmdir, sem þarna hafi verið unnið að, og það sama gildir að sjálfsögðu um framkvæmdir í Neskaupstað, — þær framkvæmdir hafi verið unnar á miklu hærra verðlagi en eðlilegt má teljast við normal-ástand. Það skapast mikil spenna, það þarf að leita eftir aðkomnu vinnuafli, það þarf langan vinnudag og allt annan taxta en venjulegan taxta og allur vinnulaunakostnaður sprengist upp þegar þannig stendur á. Það gera sér allir ljóst. Hins vegar var mat matsmanna, þegar þeir voru að meta skemmdir á hlutum og fyrirtækjum, miðað við að það sé verið að vinna við þetta í rólegheitum með eðlilegum vinnutíma og með heimafengnu vinnuafli. Það er allt annað. Það verðlag er þrisvar sinnum eða a. m. k. helmingi lægra en er unnið eið svona skilyrði. Auk þess vil ég benda á höfuðatriði í sambandi við þetta mál, og það er að bæturnar hafa verið miðaðar við verðlagsvísitölu frá nóv. 1973, en allir geta séð hvað það þýðir. Það, sem unnið er á árinu 1973, er unnið undir mikilli pressu og mikilli spennu og þar af leiðandi geysilega dýrt. Um það, sem unnið er á árinn 1974 að nokkru leyti, gildir að nokkru leyti það sama, en á árinu 1974, einkum síðari hluta ársins, var allt annað verðlag komið heldur en á árinu 1973. Þá höfðu allir hlutir hækkað í landinu um 50%, svo að ekki sé talað um verðlagið nú í ár. Það getur hver séð sjálfan sig í því ef hann ætlar að nota sömu krónutölu til innkaupa seint á árinu 1975 og á haustmánuðum 1973. Peningarnir eru orðnir miklu minna virði. Við fáum bæturnar samkv. vísitölu á haustmánuðum 1973, en verðum að framkvæma fyrir þá peninga á þessu ári. Þess vegna eru bæturnar ekki nema þriðjungurinn af raungildi kostnaðar við framkvæmdirnar.

Þannig er, að jafnvel þótt við hefðum fengið alla þessa peninga í hendurnar strax í Vestmannaeyjum sem við áttum að fá í bætur, þá má kannske segja sem svo að við hefðum átt að gera þetta allt á haustinu 1973. Þá var kostnaður í samræmi við peningana sem við fengum í bótum, að vísu að frádregnum miklum afskriftum sem okkur þóttu að sumu leyti ákaflega einkennilegar, eins og t. d. þegar verið var að reikna malargötur alltaf verri og verri með hverju árinu sem leið. Sannleikurinn er sá að allir vita það að malargötur verða alltaf betri og betri með hverju ári, þær þjappast betur saman og alltaf þarf að halda þeim við. Og svona er margt í þeim efnum. En það er sem sagt ljóst að við fáum litlar bætur og þurfum að framkvæma þetta á allt öðrum tíma en þegar samræmi var á milli verðgildis peninganna og kostnaðar við framkvæmdir, ósköp einfaldlega vegna þess að alla þá hluti, sem gera þurfti, var alls ekki hægt að gera á þessum tíma, til þess hefðum við þurft tugi þús. manna í vinnu. Það er ekki hægt að gera allt í einu: hreinsa bæinn af ösku, grafa upp allar götur, leggja og gera við vatnsveitu, reisa nýja rafveitu, leggja nýjar skolplagnir, flytja byggðina alla vestur á eyju og allt þar fram eftir götunum. Það er bókstaflega ekki hægt, t. d. vegna þess að það er afgreiðslufrestur á flestu efni sem til þess þarf. Sannleikurinn er sá, að það er ekki aðeins verið að vinna að þessum framkvæmdum enn í dag fyrir þetta gamla bótafé, heldur eigum við eftir að vinna að þessum framkvæmdum einnig á næstu árum fyrir peninga sem eru orðnir að engu, eins og við orðum það, eða orðnir að litlu. Þetta getur auðvitað ekki gengið, enda kemur það í ljós í bréfi frá forseta bæjarstjórnar Vestmannaeyja og bæjarstjórans í Vestmannaeyjum, Sigfinns Sigurðssonar, að þar vanti peninga og er það nú ekkert nýtt — í stórum stíl til þess að vestmanneyingar verði ekki á eftir og bærinn fari hreinlega ekki á hausinn. Það vantar þarna stórkostlega upphæðir, þúsundir milljóna. Og sem betur fer er lokakafli bréfs stjórnar Viðlagasjóðs jákvæður að þessu leyti.

Ég vil aðeins endurtaka það, sem ég sagði áðan í sambandi við skuldabréfaeignina, að hún bætir ekki greiðslustöðuna. Fyrir svona bréf verður ekki framkvæmt nema þeim verði breytt í peninga. Ég vil því mælast til þess við hæstv. ríkisstj. að hún beiti sér fyrir því við Seðlabankann að hann kaupi þessi skuldabréf. Ég er ekki að mælast til þess að það verði gert allt í einu, heldur að hann kaupi þessi skuldabréf smátt og smátt, þannig að þau gætu lagfært rekstrarstöðuna, greiðslustöðuna og þessi bréf yrðu að peningum, og þeir greiddu þessi bréf, eins og ég sagði áðan, án þess að taka af þeim afföll og láta þá vexti, sem við höfum greitt til Seðlabankans hingað til, ganga upp í þann mismun.

Ég vil ekki skilja svo við þetta mál að ég minnist ekki á eitt atriði sem mér heyrðist koma fram í ræðu hv. 3. þm. Sunnl. þegar hann talaði um atvinnutækin í Vestmannaeyjum og útgerðina. Sannleikurinn er sá að hin stóru atvinnutæki í Vestmannaeyjum hafa farið nokkuð illa út úr þessu öllu saman. Þau urðu fyrir því að hluti húsa þeirra brotnaði niður í hrauni. Þau urðu fyrir því, að það þurfti að rífa upp allar þeirra vélar og rafkerfi og allt saman og flytja burtu, flytja það síðan þangað aftur. Þau misstu úr geysilega mikið vegna rekstrarstöðvunar og reyndar eyðilögðust sum hver tækin. Staða þeirra er þess vegna slæm þrátt fyrir það að við gátum veitt þeim nokkra fyrirgreiðslu, stjórn Viðlagasjóðs, á þessu ári til þess að greiða þeim uppbót fyrir tekjutap með vinsamlegri afstöðu hæstv. ríkisstj.

En það er annað sem er all alvarlegt úti í Vestmannaeyjum. Og ég er viss um að hæstv. ráðh. þessarar ríkisstj. og hæstv. forsrh. þekkja þetta. Hann hefur komið til Vestmannaeyja, kom fljótt til Vestmannaeyja eftir að hann tók við þessu háa embætti, og það þótti okkur vestmanneyingum gott, að æðsti yfirmaður stjórnvalda skyldi koma þarna og líta á hlutina með eigin augum. En við áttum hins vegar ekki því láni að fagna að fyrrv. forsrh. léti svo lítið að koma þar, ekki svo sem í eitt einasta skipti. Það, sem ég á við, er ástandið á bátaflotanum í Vestmannaeyjum. Hann er orðinn gamall og úr sér genginn, og sannleikurinn er sá að það er ekki einungis að bátarnir eru gamlir og af óhentugri stærð, heldur er meðalaldur véla í bátaflotanum ákaflega hár. Við vitum það að þótt við getum orðið gömul hér, þá geta vélar aldrei orðið gamlar og þær eru hjarta skipsins, þannig að bátaflotinn er lítill og óhagkvæmur, gamall. Við höfum í rauninni ekki nema eitt stórt skip og með þessum stærri bátum, sem við höfum verið að fá að undanförnu, má kannske segja að við höfum fimm sæmilega stór skip til veiða í Vestmannaeyjum, en aðeins einn skuttogara, og það kemur til af því að við vorum ekki búnir að panta nema eitt skip 1972 og skömmu eftir lok þess árs kemur eldgosið. Þá dettur auðvitað engum manni í hug að fara að panta skuttogara til Vestmannaeyja, það liggur í hlutarins eðli. Það var varla hugsanlegt að menn færu að drífa í því fyrr en ári eftir gosið. Það er ósköp eðlilegt. Þess vegna drógumst við aftur úr í þessum efnum. Ég álít mjög mikilvægt að við fáum a. m. k. tvö skip af minni gerð skuttogara til Vestmannaeyja sem allra fyrst og um það eru allir vestmanneyingar sammáta. Til þess að fá þessi skip, þessi nauðsynlegu atvinnutæki í bæinn hafa sameinast þrír stórir gamlir keppinautar í fiskiðnaðinum, til þess að ná sér í jafnara hráefni og betra, því að sannleikurinn er sá að haustmánuðina og jafnvel fyrstu mánuði ársins ber bátaflotinn því miður sáralítinn afla í land, þannig að nú þessar víkurnar er lítil vinna í Vestmannaeyjum. Ég vil þess vegna fara þess á leit við hæstv. ríkisstj. þó að hún hafi sett að sínu mati nauðsynlegar reglur til þess að stemma stigu við miklum fjölda nýrra skipa í landi, eins og ástand fiskstofna er nú, þá geri hæstv. ríkisstj. undanþágu í þessu tilviki vegna sérstakra aðstæðna vestmanneyinga í þessum efnum og leyfi fulla fyrirgreiðslu í lánum eins og áður var gert þrátt fyrir nýjar reglur. Ég er viss um að allir þeir, sem leggja þessi mál niður fyrir sér af sanngirni, bæði þeir aðrir sem ekki fengju slíka fyrirgreiðslu og ríkisstj. og ráðamenn peningamála, gera sér grein fyrir að þarna er um alveg sérstaka aðstöðu að ræða og að þessi þrjú fyrirtæki fái þessa tvo togara sem okkur er brýn nauðsyn á að fá.

Ef yfirlýsing hæstv. forsrh. hefur hnigið að því að Vestmannaeyjadeildin og uppbyggingin þar fengi sömu fyrirgreiðslu og þeir í Neskaupstað hafa fengið, þá er ég ánægður með þá yfirlýsingu. Hins vegar ef hún hefur einungis verið með því orðalagi að stjórnvöld ætli að standa við sínar skuldbindingar, þá getur það þýtt það að stjórnvöld vilji standa við það sem segir í lögunum um Viðlagasjóð, og sú yfirlýsing er mér alls ekki nægileg því að í lögum um Viðlagasjóð er enn þá miðað við brunabótamat frá því í nóv. 1973. Sú yfirlýsing er ekki nægileg. En hafi þetta verið á þann veg að við kaupstaðinn skuli skilið með sæmilegum hætti, þannig að hann verði ekki að dragast aftur úr öðrum bæjarfélögum ú landinu, — það bæjarfélag sem var löngum í fremstu röð, verði ekki á eftir öðrum á næstu árum, — það get ég sætt mig við.

En ef við lítum aðeins á frv., sem hér liggur fyrir, og ekkert annað, þá er í fyllsta máta óeðlilegt að taka allmyndarlega upphæð, 200 millj. kr., til þess að flytja eitthvað annað, jafnvel þótt í góðu skyni sé, úr sjóði sem sýnilega hefur ekki nægilega peninga til sinna þarfa. Mér finnst sú aðferð óeðlileg. Og mér þætti gaman að heyra í einhverjum sem gæti haft aðra skoðun og þá á hvaða forsendum. Um þetta mál gætum við sjálfsagt rætt hér, vestmanneyingar og menn úr stjórn Viðlagasjóðs, nokkuð lengi og bent á ýmsar þarfir sem fram undan eru. Það er hægt að benda á það að við eigum mjög langt í land til þess að rafveitan sinni því verkefni sem hún gerði. Allar götur bæjarins eru svo til ónýtar. Stórkostlegar skolplagnir eru fram undan. Höfnin er enn þá hálffull af vikri. Og svona mætti lengi telja. En ef við fáum fjármagnsfyrirgreiðslu í samræmi við niðurstöður þeirrar n. sem nú er verið að skipa, þá get ég eftir atvikum fallist á að samþykkja þessa grein, hafi yfirlýsing hæstv. forsrh. verið með þeim hætti sem ég vona að hún hafi verið.