11.12.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir það, að hann skuli veita Alþingi svo fljótt þær upplýsingar sem fyrir liggja um þann atburð sem gerst hefur. Það er augljóst að hér er um mjög alvarlegt atvik að ræða, hvernig sem á það er litið. Eins og hæstv. ráðherra sagði er það algjörlega sérstætt að þetta gerist innan landhelgi, ekki aðeins innan fiskveiðilögsögu, heldur innan óumdeildrar landhelgi Íslands. Þar af leiðandi er þetta mál sérstaks eðlis og ótrúlegt að andstæðingar okkar voga sér að gera slíkt.

Ég vil taka sterklega undir orð hæstv. ráðherra þegar hann lýsti því að við sendum héðan frá Alþingi kveðjur okkar til skipshafnar varðskipsins, látum í ljós þá von að þar séu allir heilir og þökkum þeim frammistöðu þeirra, sem við treystum að hafi verið eins góð og hún gat verið.

Ég vil fyrir hönd míns flokks lýsa því yfir, að við sem fyrr í málum sem þessu stöndum að baki ríkisstj. og væntum þess að það verði brugðist við þessu á jafnalvarlegan hátt og tilefni er til og að fengnum öllum upplýsingum gerðar þær gagnráðstafanir sem réttar eru taldar og við ítrastar getum gert eftir þetta atvik.