20.10.1975
Sameinað þing: 4. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég þarf að gera nokkrar aths. við það sem hæstv. forsrh. sagði. Hann sagði að á síðasta fundi landhelgisnefndar, sem haldinn var fyrir rúmum 3 mánuðum, hefði verið sérstaklega fjallað um það atriði hvernig ætti að standa að framkvæmdum í málinu og þá m. a. hvort taka ætti upp viðræður við aðrar þjóðir eða ekki. Hæstv. forsrh. sagði að þá hefði komið fram ágreiningur í landhelgisnefnd og það er rétt. En hann sagði og það er ekki rétt — að sá ágreiningur hefði verið um það hvort taka ætti upp viðræður við aðrar þjóðir eða ekki. Ég hef veitt því athygli að það hefur talsvert verið gert úr því í blöðum ríkisstj. að við Alþb.-menn og fleiri úr stjórnarandstöðunni vildum ekki ræða við aðrar þjóðir sem óskuðu eftir viðræðum við okkur. Ég tók skýrt fram á þessum landhelgisnefndarfundi og hef lýst því yfir opinberlega nokkrum sinnum síðan að þetta er með öllu rangt. Það hefur enginn ágreiningur verið og er enginn ágreiningur við okkur um það að ræða við aðrar þjóðir. Ágreiningurinn, sem upp kom og stendur því miður enn, er um það, hver eigi að vera afstaða okkar íslendinga í meginatriðum í þessum viðræðum. Á þessum síðasta fundi í landhelgisnefnd gerðum við í stjórnarandstöðunni talsvert ítarlegar tilraunir til þess að reyna að ná samkomulagi um það, hver skyldi verða meginafstaða okkar íslendinga í viðræðum. Á þessum fundi bauð ég það m. a. fram til samkomulags að ég skyldi standa að því að samþykkja einhverjar veiðiheimildir á ytra beltinu, frá 50 mílum út í 200, ef það gæti þýtt samkomulag um að engar veiðiheimildir handa útlendingum yrðu veittar á innra beltinu, en tók þó skýrt fram, eins og komið hafði fram í till. mínum að í rauninni er ég á móti slíkum veiðiheimildum líka á ytra beltinu. Ég tel þær ástæðulausar og ég tel að þær hafi lítið gildi fyrir útlendingana. En til samkomulags bauð ég þetta, ef samstaða gæti þá tekist um þessa meginafstöðu. En slík samstaða fékkst ekki. Og það fékkst ekki fram á þessum fundi hver ætti að vera meginafstaða íslendinga í hugsanlegum viðræðum. Það er þetta sem ágreiningurinn stendur um í rauninni enn í dag.

Hæstv. forsrh. taldi upp í sínu máli nokkur atríði sem áttu að vera skýringar á því hver væri okkar stefna í þessum hugsanlegu viðræðum eða komandi viðræðum. Hann sagði: Okkar megintakmark er að friða 200 mílurnar sem allra fyrst. — Það vita auðvitað allir og ekki síst hæstv. forsrh. að orðalag eins og þetta segir hreinlega ekki neitt. Það veit enginn hvað þetta þýðir. Þetta er hægt að teygja eins og hrátt skinn.

Hið sama er að segja um annað atriði sem hann nefndi hér og ég hef tekið eftir í ræðum hans að undanförnu um málið: Friða ber 50 mílurnar sem mest. — Hvað þýðir þetta? Það veit enginn heldur hvað þetta þýðir. Hér er ekkert skýrt markmið sett. Þetta gæti allt eins þýtt það að slakað yrði á kröfunni um friðun 50 mílna allt niður í það sem gert var í síðustu samningum.

Þá er einnig talað um að samningar verði að byggjast á því, að samdráttur verði í aflamagni útlendinga. Þetta segir harla lítið annað en það, að við vitum að sjálfir hafa útlendingar sagt að þeir gætu fallist á samdrátt í aflamagni, af því að skipastóll þeirra er orðinn minni.

Þá er einnig talað um að af okkar hálfu verði það að vera skilyrði að fækka skipum útlendinganna. Þetta hefur líka komið fram hjá þeim sjálfum. Það er vegna þess að þeir eiga færri skip. Þeir hafa ekki nú í breska veiðiflotanum svo mörg skip sem þeir höfðu á síðustu skrá til þess að stunda þessar veiðar hér við land.

Nei, ummæli eins og þessi eru sett fram aðeins til þess að hylja það að menn vilja ekki segja hver er meginstefnan. Það hefði að sjálfsögðu verið skýr stefna að lýsa yfir: Okkar markmið verður það að ljá ekki máls á því að veita veiðiheimildir innan 50 mílnanna. — En hæstv. ríkisstj. hefur ekki enn fengist til þess að gefa slíka yfirlýsingu, og því miður fór það svo nú í þessum umr. eins og áður, að hæstv. forsrh. fékkst ekki til þess að gefa slíka yfirlýsingu.

Almennar vangaveltur hafa mjög komið fram hjá hæstv. forsrh. um að við verðum að haga okkur eftir því, hvort við losnum fyrr við útlendingana af okkar miðum með því að semja við þá eða með því að leggja út í meiri eða minni baráttu. Auðvitað vitum við að okkur hefur aldrei orðið neitt ágengt í okkar landhelgismálum á undanförnum árum og áratugum án þess að taka upp baráttu, án þess að sýna alvöru, án þess að láta eitthvað reyna á. Sá, sem byrjar á því að segja: Ja, við getum ekki varið okkar landhelgi, ætli sé ekki best að semja, ætli við náum ekki bestum árangri með því að semja? — hann ofurselur sig alveg þeirri miklu ágengni sem við vitum að við eigum að mæta frá hálfu breta. Viti bretar fyrir fram að við leggjum ekki í neina baráttu, við ætlum að gefast upp, við munum semja við þá, þá munu þeir líka sækja fast á í samningunum. Og þá verða líklega samningarnir ekki merkilegir sem við stöndum frammi fyrir undir lokin.

Það er ekki hægt að ganga fram hjá því að aðstaða okkar íslendinga nú til þess að taka upp baráttu í þessu máli, er miklum mun betri en hún hefur verið í fyrri tilfellunum. Það er auðvitað miklu betra að eiga við breta úr því að aðstaðan er orðin sú að fulltrúar þeirra hafa lýst því yfir í býsna merkilegum ræðum, þar sem þessi mál hafa verið rædd á hafréttarráðstefnunni, að þeir styðja orðið 200 mílna regluna, og þar sem þeir hafa tekið upp býsna harða baráttu innan Efnahagsbandalagsins fyrir sama sjónarmiði og við erum að berjast fyrir. Afstaða breta fram til þessa hefur ekki verið mótuð af slíkum viðurkenningum. Þeir hafa þvert á móti haldið því fram, allt fram að því að þeir skiptu um skoðun, sem fram kom í umr. á hafréttarráðstefnunni síðast, að það kæmi ekki til mála að viðurkenna annað en það að hafið upp að 12 mílum væri hið frjálsa úthaf og þeir yrðu ekki heftir þar í sínum athöfnum.

Eins og einnig hefur komið fram í þessum umr., er aðeins þessi breytta afstaða breta og sívaxandi kröfur innan Bretlands um að færa jafnvel einhliða út, heldur er einnig sú afstaða. sem komin er upp á Bandaríkjaþingi, í Mexíkó og miklu viðar í heiminum, og sú sterka viðurkenning fyrir okkar málstað sem komin er fram í því frv. sem lagt hefur verið fram á hafréttarráðstefnunni. Allt þetta gerir afstöðu okkar nú margfalt sterkari en aðstaða okkar var áður. Það er því alveg furðulegt við þessar kringumstæður og þegar málið hefur dregist eins og það hefur dregist og í sambandi við friðun okkar fiskimiða og við vitum hvað ástandið er orðið alvarlegt, að menn skuli þá hika við að leggja í einhverja hugsanlega baráttu fyrir þessu nauðsynjamáli.

Nei, sá ágreiningur sem fram kom í landhelgisnefnd og vissulega er til staðar, hann er aðeins um það, hver eigi að vera okkar meginafstaða til þeirra viðræðna, sem fram munu fara. Hitt eru aðeins blekkingar, að reyna að halda því fram að við séum svo miklir dónar í Alþb., að við neitum að tala við skikkanlegar þjóðir. Þannig hefur deilan ekki staðið. Hún er ekki um það. En ríkisstj. hefur viljað halda þannig á málinu að hún sendi sína menn til viðræðufundar, og helst er að skilja á mönnum að það eigi að sjá til hvað komi út úr öllu þessu. Það er þokkaleg aðstaða sem þeir menn hafa sem eru sendir til samningaviðræðna og hafa ekki fengið neitt veganesti um það hvað þeir megi segja.

Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, bæði frá hálfu form. Alþfl. og af hálfu SF, að það er auðvitað alveg rangt að við í stjórnarandstöðunni höfum slitið samstarfi við stjórnarflokkana í þessu máli, þó að hafi verið þessi ágreiningur, sem ég hef hér lýst, um hvort ætti að marka skýra afstöðu varðandi þessar viðræður eða ekki. Það er ekki heldur rétt hjá hæstv. forsrh. að halda því fram að það hafi ekkert fundarefni verið í rauninni til fyrir landhelgisnefnd á þeim tíma sem liðinn er síðan síðasti fundur var. Í öllum þeim viðræðum, sem áttu sér stað við breta og vestur-þjóðverja um landhelgismál á þeim tíma, sem ég var í ríkisstj., var það ævinlega föst regla að halda fundi í landhelgisnefnd, bæði áður en gengið var til samninga, og þar var gerð grein fyrir megintill. þeim sem við mundum setja fram og í mjög mörgum tilfellum kort látin fylgja, og í öllum tilfellum voru lagðar fram skýrslur um viðræðurnar, þar sem viðræðurnar voru raktar og greinilega tekið fram hvað hafi helst komið fram í umr. á viðkomandi fundum, og stjórnarandstaðan eins og aðrir fékk skýrslur um allar þessar viðræður. En nú brá svo við eftir viðræðurnar við breta nú síðast að engin skýrsla var gerð eða a. m. k. ekki send flokkunum. Við urðum að láta okkur nægja mjög óljósar og ósamhljóða frásagnir af þessum viðræðufundum, sem komu í blaðaviðtölum. Það var því að sjálfsögðu tilefni til þess að halda fund í n. En það virðist vera að ríkisstj. hafi ekki óskað eftir því að ræða þessi mál við stjórnarandstöðuna eða leita eftir hugsanlegu samkomulagi um það hvað gert yrði í málinu.

Mér þykir ekki heldur gott að það sýnist nokkuð ljóst að sú nýja skýrsla Hafrannsóknastofnunarinnar, sem ég gerði hér að umtalsefni og er jafnskýr og ákveðin eins og hv. þm. þekkja, það er engu líkara en hún hafi komið einhverju fáti á hæstv. ríkisstj. Hún veit varla hvernig hún á við þessari skýrslu að bregðast. Nú talar hún um að það verði að halda fund margra manna um þessa skýrslu, það verði að kalla saman útvegsmenn, fiskifræðinga, hagfræðinga og aðra, áhugamenn og ræða þetta plagg, og jafnvel er farið að tala um það, hvort ekki sé rétt að halda ráðstefnu og reyna að fá erlenda sérfræðinga og þinga um þessi mál. Auðvitað er þessi skýrsla Hafrannsóknastofnunarinnar eins og aðrar sem frá henni hafa komið um þessi mál. Það er hægt að segja að annar meginþáttur þessarar skýrslu snýr raunverulega að útlendingum, að því hversu miklir möguleikar eru á því skv. áliti fræðimannanna að halda hér áfram þeirri sókn á miðunum sem verið hefur. Þetta er annar meginþáttur skýrslunnar, og ég tel að þessi þáttur skýrslunnar styðji mjög ákveðið okkar sjónarmið og þau rök sem við höfum fram til þessa sett fram fyrir okkar málstað. Hinn þátturinn í þessari skýrslu snýr hins vegar meira að okkur íslendingum sjálfum, hvaða reglur við viljum setja gagnvart okkur, hvað við teljum tiltækilegast að gera í sambandi við bæði lokun veiðisvæða um lengri eða skemmri tíma, um breytingar á möskvastærð í vörpum og margt annað þess háttar. Það mál verður að sjálfsögðu tekið fyrir m. a. í þeirri n. sem skipuð hefur verið og á að koma fram með frv. um nýjar reglur varðandi nýtingu hinnar nýju fiskveiðilandhelgi af hálfu landsmanna sjálfra, því að þau lög, sem við höfum haft um þau efni, hafa í rauninni eingöngu náð til okkar sjálfra. Það geta vissulega komið fram margar hugmyndir, og mér dettur ekki í hug að halda því fram að þær ábendingar, sem koma af hálfu fiskifræðinganna, þurfi í öllum greinum að vera þær bestu varðandi það hvaða reglur við setjum gagnvart okkur sjálfum. En það er alveg óþarfi að blanda því á nokkurn hátt saman við hinn meginþáttinn, sem er þeirra sterka aðvörun til allra, sem með þessi mál hafa að gera, eins og málin standa nú, um að það megi ekki halda áfram að taka úr stofnunum jafnmikið og gert hafi verið og sé augljóst að það nemi því, sem þurfi að skera niður, sem útlendingar hafa tekið til þessa, — þetta sé nauðsynlegt.

Mér finnst því að hæstv. ríkisstj, hefði einmitt átt að taka þessa skýrslu og nota hana á þann hátt sem hefði komið okkur að mestu gagni í viðræðum okkar við hina erlendu aðila.

Ég tók eftir því, að hæstv. forsrh. sagði að þessi skýrsla mundi að sjálfsögðu verða notuð sem röksemd af okkar hálfu í viðræðum við útlendinga og það þykir mér ánægjulegt. En ég vil vænta þess að það sé ekkert hik á okkar mönnum að nota þessa skýrslu, eins og hún liggur fyrir, varðandi þennan þátt hennar.

Ég skal svo ekki lengja frekar ræðutíma utan dagskrár en orðið er. En ég vil vænta þess, að hæstv. ríkisstj. taki þetta mál allt til nýrrar athugunar og taki upp aukið samstarf við stjórnarandstöðuna um málið og taki til nýs mats þær nýju upplýsingar sem liggja fyrir. Ég vil trúa því að ríkisstj., sem studd er af tveimur flokkum, eigi eftir að ræða nokkru betur málið í stjórnarfl. og hafi þar verið eitthvert hik á mönnum áður eða einhver hugsun um að láta undan kröfum útlendinganna, þá vil ég mega trúa því að við þessar nýju upplýsingar, sem liggja fyrir, fáist menn til þess að endurskoða afstöðu sína og geri það áður en sendimenn okkar fara til London, svo að þeir viti alveg skýrt og klárt hvað þeir eiga að segja á þessum viðræðufundi.