16.12.1975
Sameinað þing: 34. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

1. mál, fjárlög 1976

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið úr því sem komið er. Það, sem gaf mér tilefni til þess að standa hér upp, var kannske fyrst og fremst atriði í ræðu hv. 2. þm. Vestf., Steingríms Hermannssonar. En ég vil þó, áður en ég kem að því, víkja aðeins örfáum orðum að öðru sem gerst hefur í dag.

Ég hygg að enginn fari í grafgötur með það, sem fylgst hefur með umr. hér í dag, að það hefur farið lítið fyrir þingsetu þeirra hv. þm. sem styðja hæstv. ríkisstj. Menn hafa sumir hverjir velt því fyrir sér hver orsök þessa kunni að vera. Nú hefur það verið svo þau undanfarin þrjú ár sem ég hef átt sæti á Alþ., að oftast hefur nokkuð vel verið setið undir umr. um afgreiðslu fjárlaga, skiljanlega, vegna þess að hér er um eitt stærsta þingmál hvers Alþ. að ræða. Við stjórnarandstæðingar höfum bent á að þau vinnubrögð, sem hafa verið viðhöfð af hálfu hæstv. ríkisstj., séu með þeim eindæmum að líklega þurfi lengi að leita til að finna hliðstæðu þess sem hér hefur nú gerst.

Líklega hafa fleiri hv. þm. en ég komist að þeirri niðurstöðu að á þennan hátt og hann einan hafi hv. stjórnarliðar séð sér fært að mótmæla vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. í meðferð þessa máls hér á Alþ., þ. e. a. s. að láta stóla sína auða tala máli. Ég a. m. k. skil það ekki ef það er svo almennt orðið um hv. þm. að þeir vilji ekki með eðlilegum hætti, — hér á ég fyrst og fremst við stjórnarþm. núverandi, — fylgjast með framvindu máls eins og afgreiðslu fjárlagafrv. Mér er það að minnsta kosti óskiljanlegt ef þeir eru þannig þenkjandi að þeir telji það engu skipta hvernig með það mál er farið og hver endanleg afgreiðsla þess verður. Ég tel að líklegasta skýringin á hinum tómu stólum hv. stjórnarliða hér í dag sé sú, að þeir vilji með því að mæta ekki til þingfundar mótmæla þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið við höfð.

Nú má kannske segja að ein undantekning sé í sambandi við umr. Sú undantekning er að hv. 2. þm. Vestf. flutti fyrr í kvöld ræðu og talaði mjög álíka og við stjórnarandstæðingar höfum talað í dag. Það, sem hann gerði fyrst og fremst að umræðuefni, var einn þáttur fjárlagafrv. sem er til rannsóknarstarfsemi. Hv. 2. þm. Vestf. er glöggur maður. Hann hefur fjallað mikið um þessi mál á undanförnum árum og virðist greiðlega hafa fylgst með því hvert stefnir í sambandi við afgreiðslu fjárveitinga til þessa málaflokks í ár. Hann gerði allrækilega grein fyrir því með hversu miklum ólíkindum það mætti teljast ef hæstv. ríkisstj. ætlar að afgreiða þann þátt fjárlagafrv. eins og allt bendir til að verði. Hann benti á að fjöldamörg rök hefðu verið fram færð því máli til stuðnings að hér þyrfti bót á að ráða, en eigi að síður virtist ljóst a. m. k. eins og mál nú stæðu, að engin breyting ætti að verða til hækkunar á fjárveitingum til þessa málaflokks. En þetta er auðvitað ekkert einsdæmi. Svona mætti tala um fjölmarga þætti fjárlagafrv. á nákvæmlega sama hátt og hv. 2. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, gerði hér áðan um þennan eina tiltekna.

Ég er viss um það, að ef hv. þm. stjórnarliðsins gerðu sér í raun og veru grein fyrir því hversu alvarlegir hlutir eru hér að gerast í sambandi við afgreiðslu fjárveitinga til hinna ýmsu málaflokka, þá mundu þeir tala á nákvæmlega sama hátt og Steingrímur Hermannsson gerði. Og það undirstrikar að það er rétt, sem við höfum haldið hér fram, bæði við 1. umr. málsins og einnig í dag við 2. umr., að það hefur verið fyrir fram ákveðið að taka ekki í neinu tillit til óska um leiðréttingar, hversu mikil eða sterk rök sem þar lægju að baki hjá viðkomandi aðilum. Ég skal ekki, herra forseti, fjalla öllu meira um þetta. En ég vil aðeins víkja örfáum orðum að öðru sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Vestf. Hann gerði fyrst að umræðuefni það tjón sem orðið hefur á mannvirkjum á Suðureyri í Súgandafirði, og allt, sem hann sagði um það mál, er rétt. En ástæðan fyrir því að ekki var hreyft við því máli af hálfu þeirra aðila, sem í fjvn. eiga sæti, er sú að venjan hefur verið þann tíma sem ég hef átt sæti hér og svo mun lengur hafa verið, að ekki væru fram bornar brtt. við málaflokka fyrr en ljóst lægi fyrir hvaða meðferð þeir fengju við endanlega afgreiðslu. Og hér á ég við heimildagrein fjárlaga sem hv. þm. flutti brtt. við, en einmitt sú heimildagrein bíður afgreiðslu til 3. umr. En ég vil að öllu leyti taka undir það, sem fram kom í ræðu hv. þm., að það er auðvitað nauðsynlegt að gera ráð fyrir því að Hafnabótasjóði verði gert kleift að bæta svo sem lög leyfa af hans hálfu það tjón sem þarna er um að ræða.

Hv. þm. minnti einnig á og vildi að því er mér skildist, koma á framfæri sterkri viðvörun til hæstv. ríkisstj. í sambandi við ýmsa styrki til íþróttahreyfingarinnar, sem eiga að því er virðist að standa óbreyttir í fjárl., og sömuleiðis að því er varðar fjárveitingar til flóabáta og sjúkraflugs. Einnig þessir þættir eru enn óafgreiddir í fjvn. og bíða 3. umr. En ég vil að sjálfsögðu taka undir þá viðvörun hv. stjórnarþm. sem ég þykist vita að hann hafi komið á framfæri í sínum þingflokki, við hæstv. ráðh. og samstarfsmenn í ríkisstjórn, en virðist ekki ætla að bera árangur sem erfiði, að það er vissulega stefnt í algjört óefni að því er varðar t. d. flóabáta, fjárupphæðina, og þær fjárveitingar sem ætlaðar eru til sjúkraflugs, ef ekki verður veruleg hækkun á báðum þessum liðum. Og þá er það rétt sem hv. þm. sagði, þá verða menn að gera það upp við sig hvort þeir ætla í reynd að stuðla að því að leggja hvora tveggja þessa þætti, sem eru snarir þættir í samgöngu- og öryggismálum hinna dreifðu byggða, hvort þeir ætla bókstaflega að gera tilraun til þess að þessari þjónustu verði hætt þegar á næsta ári. Það blasir við varðandi hvorn tveggja þessara liða ef ekki fæst veruleg breyting til hækkunar á því sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Að sjálfsögðu mun á það reyna við endanlega afgreiðslu hér. Ég vænti þess, að það fáist leiðrétting í þessum efnum milli 2. og 3. umr., en verði slíkt ekki, sem mér þætti miður, þá verður að sjálfsögðu látið á það reyna við endanlega afgreiðslu frv. hér á hv. Alþ. hvort það er í raun og veru meining hæstv. ríkisstj. og stuðningsliðs hennar að ganga svo frá málum að því er varðar þessa þætti og ýmsa aðra, sem enn eru óafgreiddir, að fyrirsjáanlegt sé að hætta verður gjörsamlega þeirri þjónustu sem veitt hefur verið í þessum efnum. Hér er um að ræða snaran þátt í þjónustu við fjölda íbúa á hinum dreifðu svæðum, ekki neinn sérstakan landsfjórðung umfram annan, að ég hygg, sem býr við þessar aðstæður. En hér er spurningin um það hvort menn eru tilbúnir að taka þá ákvörðun núna að leggja þessa þjónustu að velli, svo sem gert verður ef ekki fæst veruleg breyting til hækkunar frá því sem hæstv. ríkisstj. hefur nú boðað.