18.12.1976
Efri deild: 28. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

100. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur tekið til meðferðar frv. til l. um breyt. á l. nr. 10 22. mars 1960, um söluskatt. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins og mun minni hl. skila séráliti. en meiri hl. leggur til að frv. verði samþ.

Hér er um það að ræða að framlengja söluskattsstigið sem upphaflega var lagt á til þess að draga úr áhrifum olíuverðhækkana, og falla nú úr gildi sérstök lög sem voru nr. 9 frá 27. febr. 1976, um ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða o. fl., þannig að ráðstöfun þessa fjár er flutt inn á fjárlög og kemur til afgreiðslu við afgreiðslu fjárlaga.

Ég tel að það sé vissulega til bóta að setja þennan lið undir fjárlög, þannig að meiri heildaryfirsýn fáist yfir fjármál ríkisins. Það er ekki til bóta að einstakar stofnanir og einstakir sjóðir og nefndir á vegum ríkisins hafi slíka tekjustofna til ráðstöfunar án þess að slíkt komi til afgreiðslu við afgreiðslu fjárlaga.

Þótt með því frv., sem hér liggur fyrir, sé ekki verið að ganga frá endanlegri ráðstöfun þessa fjár, heldur við afgreiðslu fjárlaga, þá þykir mér rétt að gera stutta grein fyrir þeim málum.

Frá Þjóðhagsstofnun kom bréf sem segir í stuttu máli hvernig í þessum málum er ástatt. Fjallar bréfið um olíustyrk og segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

„1) Miðað við áætlaðar mannfjöldatölur á miðju ári 1976 má lauslega áætla að fólki, sem býr við hitaveitu, fjölgi um 9 þús. frá miðju ári 1976 til jafnlengdar 1977. Samkvæmt þessu byggju um 127 700 manns við hitaveitu, 22 500 manns við rafmagnskyndingu og um 70 þús. manns við olíukyndingu. Fólki, sem býr við olíukyndingu, gæti því fækkað um 8 þús. eða 10–11%. Athuga ber að hér er um grófar áætlanir að ræða.

2) Áætlaður kostnaður 1. des. við upphitun á einn rúmmetra íbúðarhúsnæðis: 1) Hitaveita: 2.15 tonn, sem þarf til að kynda upp hvern rúmmetra, á kr. 50 eða 107.50. 2) Rafmagn: 71 kwst. á 2,30 eða 163,30. 3) Olía: 12 lítrar, sem þarf til að hita upp einn rúmmetra húsnæðis, á 27.05 kr. eða 324,60“

Samkvæmt þessu, miðað við það að kostnaður við að kynda upp húsnæði með olíu sé hundrað, þá er kostnaður við að kynda upp með rafmagni 50.3% og kostnaður við að kynda með hitaveitu 33.1%. En þessar tölur eru miðaðar við það að olíustyrkur sé 0. Og mun ég koma að því lítillega síðar.

„3) Innheimta olíugjalds í ár er talin nema 1300 millj. kr. Styrkgreiðslur til einstaklinga tímabilið des. 1976 til nóv. 1977 eru taldar verða um 700 millj. kr., sem er talsvert hærri fjárhæð en reiknað var með í haust. Miðað við óbreytta styrkfjárhæð og hækkun styrkþega um 10–11% gætu greiðslur styrkja til einstaklinga numið um 630 millj. kr. 1977. Frá því að styrkfjárhæðir voru síðast ákvarðaðar, í febr. 1976, hefur olíuverð“ — pr. lítra á þetta sennilega að vera — „hækkað úr kr. 24.20 í kr. 27.05 eða um tæplega 12%, en þetta er mun minni hækkun en á almennu verðlagi. Væri styrkur hækkaður frá áramótum sem þessu næmi, styrkur nú 9500 kr. yrði 10 600 kr., gætu heildargreiðslur til einstaklinga numið 700 millj. kr. 1977 .“

Eftir því sem mér hefur skilist, þótt málið hafi ekki fengið endanlega afgreiðslu í fjvn., mun vera reiknað með því að styrkur hækki úr 9 500 kr. í 10 600 kr., þótt það komi siðar til afgreiðslu. Ef svo verður, þá er rétt að líta aðeins á hvernig þessi mál hafa þróast.

Á árunum 1974–1975 kostaði að kynda hvern rúmmetra með hitaveitu, miðað við tölur Þjóðhagsstofnunar. 68.80 kr., rafmagni 151.94 kr, og olíu 156.10 kr., þegar dregin hefur verið frá meðaltalsolíustyrkur. Ef við lítum á hvernig næsta ár gæti verið, þá er það vissulega nokkuð erfitt vegna þess að það liggja ekki fyrir endanlegar ákvarðanir um taxta Hitaveitu Reykjavikur og Rafmagnsveitna ríkisins á næsta ári. En þó liggur fyrir að Hitaveita Reykjavíkur hefur farið þess á leit — og það hefur verið samþykkt af borgarráði og borgarstjórn — að hækka nú þegar taxta sína um 15%, sem er minni hækkun en meðaltalsverðhækkanir hafa orðið, sem mundi þýða að hvert tonn frá Hitaveitunni mundi kosta 57.50 kr., þannig að þá mundi kosta 118.25 að kynda upp hvern rúmmetra. Ef miðað er við samsvarandi forsendur varðandi rafmagn og gert ráð fyrir 20% hækkun, þá mundi kosta 196 kr. að kynda upp hvern rúmmetra með rafmagni. Ef við lítum hins vegar á kostnað við olíuupphitun, þá kemur það fram í bréfi Þjóðhagsstofnunar að það kosti 324.60 á hvern rúmmetra. Ef olíustyrkur verður 10 600 kr., þá samsvarar það nokkurn veginn 33% niðurgreiðslu á kostnaði við olíukyndingu, sem mundi þá þýða að það kostaði 217.50 kr. að kynda upp hvern rúmmetra húsnæðis með olíu. Það skal tekið skýrt fram að ekki er vitað hverjar verða hækkanir á hitaveituvatni og rafmagni. En séu þessar forsendur nálægt einhverju lagi, þá hefur kostnaður við að kynda húsnæði með hitaveitu hækkað frá árinu 1974–1975 um tæpar 50 kr., en aftur á móti hækkað um 44 kr. að kynda upp hvern rúmmetra með rafmagni og 61.40 kr. að kynda upp hvern rúmmetra með olíu.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta mál, en vildi aðeins vekja athygli á þessum tölum. Ég get sagt það sem mína skoðun að ég mundi vissulega æskja þess að þessi munur væri jafnaður meir en gert er, en vildi hins vegar vekja athygli á hvernig þessum málum væri komið í dag.

Ég vil aðeins, herra forseti, ítreka það, að meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ.