20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

1. mál, fjárlög 1977

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég gat um það í ræðu minni við 2. umr. fjárl. fyrir nokkrum dögum að sú afgreiðsla, sem þar var gerð, væri gerð meira eða minna út í hött. Viðamiklir málaflokkar voru þá enn óafgreiddir þannig að enga heildarmynd var að fá af einstökum málaflokkum eða útgjaldaáformum hæstv. ríkisstj. í heild. Enginn kostur var að fara yfir áætlun um ýmis rekstrarútgjöld, t. d. með tilliti til þess hvernig hæstv. ríkisstj. og forstöðumenn opinberra stofnana færu eftir fyrirmælum um mannaráðningar þar eð starfsmannaskrá ríkisins, sem samkv. lögum á að leggja fram hér á Alþ. um leið og fjárlagafrv. að hausti til, var þá enn ekki fram komin. Allt þetta torveldaði að sjálfsögðu mjög fjvn. að fá yfirsýn yfir ríkisreksturinn og kom jafnframt í veg fyrir að n. gæti beitt því aðhaldi sem henni er ætlað að gera í umboði Alþ. Í þriðja lagi lá þá ekki heldur neitt fyrir um tekjuhlið fjárl. Skattafrv. hæstv. ríkisstj., sem þráfaldlega hafði verið boðað, hafði þá enn ekki verið lagt fram Engin vitneskja lá fyrir um það, hvernig ætti að mæta áhrifum boðaðra tollalækkana sem voru umfram það sem fjárlagafrv. hafði gert ráð fyrir. Engin ákvörðun lá fyrir um hvernig bregðast ætti við breyttum þjóðhagsforsendum frá samningu frv., eins og t. d. því að atvinnutekjur manna voru orðnar hærri á árinu 1976 en reiknað var með þegar frv. var samið og till. gerð um skattvísitölu.

Við 2. umr. fjárl. hér fyrir örfáum dögum var því enn allt í óvissu, allir endar enn lausir. Að vísu hefur margt af því nú komið fram sem vakin var athygli á þá að vantaði En það kom ekki fram fyrr en svo seint að fjvn. gafst raunar ekkert ráðrúm til þess að skoða þau mál, afla sér upplýsinga þar um eða gera sér grein fyrir áformum og afleiðingum af stefnumörkun hæstv. ríkisstj. Þannig var t. d. ekkert vitað um hugmyndir sérfræðinga hæstv. ríkisstj. um endurskoðun tekjuáætlunar fyrr en síðla dags s. l. föstudag, tæpum sólarhring áður en fjvn. átti að ljúka störfum. Það var ekki fyrr en síðla þann sama dag sem starfsmannaskrá ríkisins var lögð fram hér á Alþ., og höfðum við fjvn.-menn ekki aðstöðu til að kynna okkur hana að marki fyrr en á sunnudag, þ. e. a. s. í gær. Í þessari skrá kemur m. a. sú athyglisverða staðreynd í ljós, að á yfirstandandi ári fjölgaði í ríkisstofnunum og hjá ríkisfyrirtækjum um alls 356 stöður. Af þeim 356 nýjum stöðum var óheimilt að ráða í 158, m. ö. o.: 1/3 af þeirri fjölgun, sem varð á starfsmönnum ríkisins á yfirstandandi ári, var algerlega óheimil. Þetta segir sitthvað um það hvernig hæstv. ríkisstj. hagar vinnubrögðum sínum — og ekki aðeins vinnubrögðum, heldur verkum sínum, því að auðvitað er það hennar og hennar fyrst og fremst að fylgjast með því, að ákvörðunum, sem búið er að taka, verði framfylgt, og koma í veg fyrir að ríkisstofnanir haldi áfram á þeirri vafasömu braut að ráða til sín starfslið sem Alþ. og fjárveitingavaldið hefur ekki heimilað þessum stofnunum að ráða til sín. Og það segir talsverða sögu þegar í þriðju hverja stöðu, sem í var ráðið á yfirstandandi ári, er samkv. þessari nýútkomnu skýrslu ráðið í heimildarleysi. Eitt af verkefnum fjvn. er að fylgjast með því að slíkt eigi sér ekki stað. Það er auðvitað ógerningur fyrir n. að koma við slíku aðhaldshlutverki þegar hún fær ekki skýrslu þá, sem frá þessu greinir, fyrr en 1–11/2 sólarhring áður en ljúka á 3. umr. og afgreiðslu fjárlaga.

Þá var heldur ekkert vitað um lánsfjáráætlun hæstv. ríkisstj., sem átti að leggja fram um miðjan nóvembermánuð, eftir því sem hæstv. fjmrh. lofaði Alþ. í upphafi þings í haust, fyrr en rétt fyrir kvöldmat s. l. föstudag, að hún var lögð fram. Lítill sem enginn tími hefur því gefist til þess að skoða lánsfjáráætlun og fá svarað ýmsum þeim spurningum sem óhjákvæmilega vakna við skoðun hennar.

Þá voru skattalagabreytingarnar, sem boðaðar höfðu verið, ekki heldur lagðar fram fyrr en um líkt leyti, þannig að nú er sýnt og raunar gert ráð fyrir því við afgreiðslu fjárlaga nú að boðaðar skattalagabreytingar komi ekki til framkvæmda á árinn 1977, þannig að enn verða menn að búa við óbreytt skattalög, ranglæti þeirra verður ekki heldur leiðrétt á næsta ári Háværar og rökstuddar umkvartanir skattborgara hafa ekki borið árangur. Fyrirheit hæstv. ríkisstj. um breytingar sem yrðu samfara þessari fjárlagaafgreiðslu hafa ekki verið efnd. Og það er jafnvel spurning um það enn, hvort till. þær, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram í þessum málum nú fyrir nokkrum dögum, eru í raun réttri annað og meira en sýndarmennskan ein, vegna þess að annað verður ekki skilið af blaðafregnum heldur en það. að t. d. þm. flokks hæstv, fjmrh. telji sig hafa algerlega óbundnar hendur af ákvæðum frv. sem þó er lagt fram hér á hinu háa Alþ. sem stjfrv. Væntanlega getur hæstv. ráðh. leiðrétt það ef ég fer rangt með. Leiðrétti hann það ekki tel ég að með því sé hann að staðfesta að það sé rétt sem ég hef sagt, að stjórnarþm. telji sig ekki bundna af ákvæðum frv. sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram, þar sem boðaðar eru nýjar og að mörgu leyti mjög þarfar og góðar hugmyndir til breytinga á skattalögum. Ef svo er, sem ég tel ekki ástæðu til að efa því að það hefur verið skýrt frá því í blöðum og því hefur ekki verið mótmælt, — ef þetta er rétt, hver er þá tilgangurinn með því að leggja fram slíkt frv.? Er tilgangurinn annar og meiri heldur en sá einn að reyna með einhverjum ráðum að friða óánægjuraddir manna sem neyðast til þess að horfa upp á það einu sinni enn að þrátt fyrir öll loforð hæstv. ríkisstj. um leiðréttingar og umbætur í skattamálum gerist ekkert, sem slíkt varðar, við afgreiðslu fjárlaga nú og komi ekkert af slíku tagi til framkvæmda við skattaálagningu á næsta vori.

Þá langar mig einnig til þess að spyrja hæstv. fjmrh. að því og nota tækifærið til þess á meðan hann situr hér í salnum, hæstv. ráðh., að í sambandi við þá mjög takmörkuðu athugun sem fjvn. gafst tími til að viðhafa á lánsfjáráætlun ríkisstj., þá spurði ég m. a. að því hvernig ætlunin væri að verja þeim 20 þús. millj. í erlendum gjaldeyri sem á að afla í nýju lánsfé á næsta ári, þ. e. a. s. hve miklum hluta af þessu fé ætti að ráðstafa til verklegra framkvæmda og hve miklum hluta af þessu fé ætti að ráðstafa til þess að greiða afborganir og vexti af eldri erlendum lántökum. Þetta liggur ekki ljóst fyrir í lánsfjáráætluninni. A. m. k. gátu þeir, sem kynntu lánsfjáráætlunina fyrir fjvn., ekki svarað spurningum mínum þar um. Eina talan, sem þeir hugsanlega gátu nefnt, var að sá hluti af hinni nýju erlendu lántöku, af þeim 20 þús. millj. kr. eða jafnvirði þeirra í erlendum gjaldeyri, sem líklega ætti að fara til þess að greiða niður eldri erlendar skuldir og standa undir byrði vaxta og afborgana af erlendum skuldum, sem áður er búið að stofna til, mundi líklega vera einhvers staðar á bilinu frá 4–7 miljarða kr. Nær gátu þeir vísu menn ekki farið. E. t. v. getur hæstv. fjmrh. svarað þessu frekar, því ég held að Alþ. hljóti að vilja fá að vita nákvæmlega hvernig verja á því lánsfé sem ætlunin er að afla á næsta ári, hvað verður framkvæmt fyrir mikið af þessu lánsfé og hve mikið af þessu stafar af því að við getum ekki með öðru móti staðið undir byrðum vaxta og afborgana af erlendum og innlendum lánum sem við erum þegar búnir að taka og nota til annarra þarfa.

Ég vil taka það sérstaklega fram, að ég hef enga reynslu haft af störfum í fjvn. umfram þá sem ég hef öðlast í vetur, þar eð þetta var í fyrsta sinn sem ég hef átt sæti í þeirri n. Ég get því ekki af eigin raun gert neinn samanburð á störfum n. nú miðað við störf hennar á umliðnum árum. Þó hygg ég að það sé öllum mönnum l.jóst, að aðstaða n. til þess að sinna verkefnum sínum við afgreiðslu fjárl. og öðlast yfirsýn og jafnframt nauðsynlega innsýn í einstök atriði í rekstri ríkissjóðs og ríkisstofnana er áhaflega takmörkuð og að aðstaða þessara aðila til starfa er einkum og sér í lagi takmörkuð vegna þeirra vinnubragða sem nú hafa verið viðhöfð við gerð þessara fjárl. og ég veit ekki af eigin raun, eins og ég sagði áðan, hvort eru einsdæmi eða almenn regla. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega taka það fram, að þessari gagnrýni er ekki beint gegn samstarfsmönnum mínum í fjvn. Allir nm. í fjvn. og þá ekki hvað síst formaður n. hafa lagt sig fram við störf sín og unnið mikið. En starfsemi þeirra sem og annarra nm. er settur stóllinn fyrir dyrnar á þann hátt, að tillögur og hugmyndir ríkisstj. hafa ekki legið fyrir, þannig að að því leyti hafa nm. lengst af starfa sinna raunar verið að þreifa sig áfram í þoku, óvitandi um efni og inntak þeirra till. og áforma ríkisstj. sem eru að sjálfsögðu lykilatriði í sambandi við fjárlagaafgreiðslu. Við þetta er að sjálfsögðu erfitt að una og ætti að vera tiltölulega auðvelt að breyta með breyttum starfsháttum. Hvort vilji er til slíkra breytinga er hins vegar annað mál. En á meðan starfshættir eins og ég hef hér vikið að ráða ríkjum verða störf Alþ. og fjvn. að gerð fjárl. að sjálfsögðu ómarkviss og laus í reipunum.

Það hefur verið einkennandi fyrir ríkisbúskapinn á umliðnum árum að sjálf fjárlagagerðin segir raunar ekki nema hálfa söguna um rekstur og framkvæmdir á vegum ríkisins og ríkisstofnana, þar sem stöðugt færist í vöxt að sinna stórum verkefnum utan við fjárlög í sambandi við öflun lánsfjár erlendis og innanlands til sérstakra verkefna sem síðan er úthlutað öðrum aðilum en Alþ. jafnvel að taka endanlegar ákvarðanir um. Lánsfjáráætlun hæstv. ríkisstj. er þannig ekki afgreiðsluverkefni fjvn. á sama hátt og fjárlög, heldur miklu fremur til hliðsjónar fyrir n. í störfum hennar. Þó fæst engin heildarmynd af búskap ríkisins nema einnig þessi þáttur sé hafður með. Á hinn bóginn, eins og ég gat um áðan, er lánsfjáráætlun svo seint fram komin að lítið sem ekkert ráðrúm hefur gefist til þess að athuga nákvæmlega hvers eðlis þær hugmyndir eru sem þar eru settar fram, hver áhrif af erlendu lántökunum, sem þar eru ráðgerðar, verða og hvernig og hvort það fé er notað eins og hest og eðlilegast væri.

Ég kom áðan fram með fsp. til hæstv. ráðh. sem okkur gafst ekki tími í fjvn. til að fá svar við, og vænti ég þess að hæstv. ráðh. geti svarað því frekar og betur en sérfræðingar hans á fundi fjvn. En eins og ég sagði áðan, þá var eina svarið sem þeir gátu gefið við fsp. minni að af um 20 milljörðum, sem á að taka í nýjum lánum á næsta ári færu 4–7 mill.jarðar til þess að greiða vexti og afborganir af þegar teknum erlendum lánum. Samkv. því erum við sem sé komnir út á þá braut að við neyðumst til að taka stöðugt hærri ný erlend lán til þess að standa undir greiðslum af erlendum lánum sem þegar hafa verið tekin, svo verulegur hluti, 4–7 milljarðar af nýjum lántökum að upphæð 20 milljarðar fara til þess að við getum staðið í skilum við erlenda. lánardrottna okkar. Erum við þannig komnir inn í vítahring sem hlýtur að vera erfitt að losa sig út úr aftur, enda er það svo að þrátt fyrir mörg og fögur orð hæstv. ríkisstj. um nauðsyn þess að draga úr erlendum lántökum er staðreyndin sú, að erlendar lántökur verða á næsta ári talsvert meiri en á yfirstandandi ári, þrátt fyrir það að innflutningi dýrra atvinnutækja. svo sem fiskiskipa. sem fjármögnuð hafa verið með erlendum lántökum, hafi að mestu eða öllu leyti verið hætt. M. ö. o. er hinum erlendu lánum nú í sívaxandi mæli varið til þess að standa undir byrðum afborgana og vaxta af öðrum erlendum lánum. Sem dæmi um þetta má nefna að ráðgert er að afla alls 2944 millj. kr. í erlendu lánsfé til Kröfluvirkjunar á árinu 1977. En af þeirri upphæð fer meira en helmingur eða 1564 millj. kr. til endurgreiðslu og greiðslu á vöxtum og afborgunum af erlendum lánum til þeirrar virkjunar, en aðeins innan við helmingur eða 1380 millj. kr. til greiðslu á kostnaði við nýjar framkvæmdir. Og það er langt frá því að Krafla sé eina dæmið hér um, þar sem lántökur til endurgreiðslu á þegar teknum erlendum lánum nema svipaðri eða jafnvel hærri upphæðum en lántökur til nýrra framkvæmda.

Það er því ekkert undarlega þó að dagblaðið Vísir skýri frá því í dag að samkv. nýútkomnum skýrslum frá OECD sé Ísland talið það ríki á Vesturlöndum sem sé í mestum skuldum og skuldi nú sem svarar 45% af vergri þjóðarframleiðslu, ef ég man rétt. Mun þetta vera, að því er blaðið segir, algert einsdæmi meðal þeirra ríkja sem eiga aðild að OECD. Ekki veit ég hvort þessu blaði er fyllilega treystandi, að það fari með rétt mál, en hetta fullyrðir það í fréttum sínum í dag. Sé það rangt, þá vænti ég að hæstv. fjmrh. leiðrétti það hér á eftir En.hitt hygg ég að sé rétt, sem þetta blað skýrir frá, enda kemur það fram í riti Þjóðhagsstofnunarinnar „Úr þjóðarbúskapnum“, að greiðslubyrðin af þessum erlendu lánum nemi nú á árinu 1977 um 17% af gjaldeyristekjum okkar íslendinga og stefni í enn hærri prósentutölu, þótt ráð sé fyrir því gert að útflutningstekjur haldi áfram á næstu árum að aukast hlutfallslega álíka mikið og þær hafa gert á þessu ári, þannig að það er alla vega ljóst hvert stefnir.

En það er ekki aðeins hvað erlendar lántökur varðar sem hæstv. ríkisstj. gengur eins langt og hún mögulega getur gengið og raunar heldur lengra. Það eru ekki aðeins ríkisframkvæmdir, framkvæmdir eins og framkvæmdirnar norður við Kröflu, sem gert er ráð fyrir að fjármagna að mestu eða öllu leyti með lántöku. Þannig er einnig gert ráð fyrir mjög verulegum lántökum innanlands, t. d. til þess að fjármagna fjárfestingarlánasjóði. Þannig er gert ráð fyrir því að eigin fjármögnun fjárfestingarsjóða á næsta ári lækki mjög verulega hlutfallslega, á sama tíma og lántökur hækki mjög verulega til þess að standa undir fjármagnsaðgerðum fjárfestingarsjóða hvað varðar það fé sem úr lífeyrissjóðum á að koma, en fé úr lífeyrissjóðum til nota hjá fjárfestingarsjóðunum er áætlað að hækki um 59.4% á næsta ári.

Þannig gengur ríkisvaldið nú í hvern þann sjóð erlendis sem innanlands þar sem einhver peningavon er, í því skyni að fjármagna opinberar framkvæmdir, fjárfestingarlánasjóði og endurgreiðslur á erlendum lánum. Í viðbót við þetta er Seðlabankinn svo látinn prenta peningaseðla í stríðum straumum til þess að forða ríkissjóði frá greiðsluþroti. Þannig er ekki hægt að halda áfram endalaust og er raunar þegar orðið augljóst hver endirinn hlýtur að verða. En hæstv. ríkisstj. hefur gefist upp við að veita viðnám.

Hún hefur augsjáanlega þegar tekið þá ákvörðun að skilja öðrum það eftir að takast á við vandann. Hún ætlar öðrum en sjálfri sér að mæta örðugleikunum þegar að skuldadögum kemur. Einskis viðnáms er lengur að vænta af hennar hendi. Svo stendur hæstv. fjmrh. hér, eins og hann gerði áðan og hrósar sér af því að nú sé von til þess að ríkisstj. nái þeim árangri á næsta ári að hér í landi verði ekki nema 24–25% verðbólga, og telur hæstv. ráðh. að það séu mikil batamerki. Þetta er svona svipað eins og maður, sem sokkinn er upp undir axlir í kviksyndi, teldi það mikið batamerki ef hann sykki ekki eins hratt í ár og hann gerði í fyrra. En hræddur er ég um að ekki væri manninum batnað að neinu leyti og ekki ætti hann sér bata von fyrr en hann væri farinn að þokast upp úr kviksyndinu, því að hvort sem hann sekkur hægt eða hratt, þá stefnir hann þó alla vega niður.

Uppgjöf þessi kemur m. a. fram í því, hvernig hæstv. ríkisstj. stendur að lokaafgreiðslu þessara fjárl. Eins og ég benti á við 2. umr. var þá þegar orðið um að ræða fyrirsjáanlegan halla á ríkisrekstrinum á næsta ári þegar tillit væri búið að taka til áhrifa tollskrárfrv. þess, sem þá var búið að leggja fyrir þingið, og áhrifa þess á væntanlegar tolltekjur ríkissjóðs, en þá ekki fram komið hvernig ríkisstj. hugsaði sér að mæta þeim halla. Nú liggur hins vegar fyrir hvernig það á að gera. Brugðið er á það ráð til þess að sýna ekki halla við afgreiðslu fjárl. að hækka aðeins áætlaðar tekjur ríkissjóðs af ýmsum tekjustofnum. Þannig er áætlun um söluhagnað Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hækkuð með einu pennastriki um litlar 1100 millj. kr. án þess að nokkur verðhækkun hafi nánar verið ákveðin, eins og þar segir. Þá er áætlað í hinum nýju forsendum fjárlagafrv, sem eru grundvöllur undir afgreiðslu þess nú við 3. umr., að almennur vöruinnflutningur í krónum hækki úr 13%, eins og fyrst var áætlað, í 23%, og á þessu er síðan ný áætlun um tekjur af aðflutningsgjöldum byggð. Þá hefur bensín verið hækkað með nýgerðri verðhækkun, eins og allir muna, og er gert ráð fyrir að það auki tekjur ríkissjóðs um 70–80 millj. kr. umfram upphaflegar áætlanir, jafnvel þótt fyrir liggi að á síðustu tveimur árum hafi bensínnotkun á bifreið lækkað talsvert vegna mikillar verðhækkunar á bensíni og þar af leiðandi minni notkunar bifreiða, einkum í einkaakstri.

Þannig hafa einstakar tekjuáætlunartölur fjárlagafrv. einfaldlega verið færðar upp á pappírnum til þess að mæta þegar orðnum útgjaldahækkunum, og þegar það nægði ekki til þess að jafna metin var liðurinn óvissar tekjur einfaldlega hækkaður úr 30 millj. kr. í 100 millj. kr., og var þá fenginn sá jöfnuður sem fást átti á pappírnum. Hér er að sjálfsögðu um algera sýndarmennsku að ræða, — lausn, ef lausn skyldi kalla, sem hæstv. ríkisstj, hefur einatt fundið út úr þeirri klipu sem hún er komin í þegar sá tími er þrotinn, sem Alþ. gefst til að fjalla um fjárlög, og menn standa andspænis því að fjárlög eiga að hækka um hvorki meira né minna en tæp 50% frá fjárl. yfirstandandi árs eða úr um 60 milljörðum kr. í tæpa 90 milljarða. Hafa fjárlög þá um það bil tvöfaldast á þriggja ára ferli núv. hæstv. ríkisstj., sem þó hafði það boðorð helst í upphafi stjórnarferils síns að taka upp nýja stefnu, stefnu aðgátar og varfærni í ríkisfjármálum. Sú stefna hefur beðið algert skipbrot, eins og sjá má af því að nú á þessu ári á að hækka fjárlög um tæplega 50% þrátt fyrir öll hin mörgu og fögru orð um aðgát og aðsjálni.

Um afgreiðslu einstakra mála og einstakra málaflokka milli umr. er í sjálfu sér hægt að tala langt mál, en ég ætla ekki að tefja fundi hér í kvöld á því að setja á langar tölur þar um, því að ríkisstj. og þingmeirihl. hennar eru þegar búin að marka sina ákveðnu stefnu sem líklega verður ekki frá hvikað. Nú er t. d. séð orðið að þrátt fyrir eindregnar áskoranir, jafnt innan þings og utan, um að málefni geðdeildar Landsspítalans verði tekin föstum tökum, þá er afráðið að verða ekki við þeim óskum nema að takmörkuðu leyti, þannig að útséð virðist um að unnt sé að ljúka þeirri framkvæmd jafnhratt og nauðsynlegt og óhjákvæmilegt var talið. Þá hefur einnig komið í ljós, að þau fögru orð hæstv. fjmrh, um aðstoð við þróunarlöndin, sem mælt voru á alþjóðlegum vettvangi ekki alls fyrir löngu, hafa ekki fylgt honum eftir hingað upp til lands, því að ekki er gert ráð fyrir að hækka þann fjárlagalið í till. fjvn. frá fjárlagafrv. um meira en 12 millj. kr. Þá er það með öllu vansæmandi hvernig fjvn. hefur afgreitt umsóknir ýmissa smærri félaga og félagasamtaka, t. d. líknarfélaga, t. d. samtaka eins og Alþýðusambands Íslands og annarra slíkra samtaka, sem óskuðu eftir því að fjárveitingar til starfsemi þeirra, sem yfirleitt eru mjög lágar og óverulegar, yrðu aðeins hækkaðar í samræmi við verðlagshækkanir á yfirstandandi ári. Fjvn. hefur lítið sem ekkert sinnt þessum beiðnum, og staðreyndin er sú, að flestar þessar tölur eru óbreyttar frá því í fyrra ef að till. fjvn. verður farið.

Þá hefur enn fremur komið fram, og ég ætla ekki að orðlengja það, hvernig af hálfu hæstv. ríkisstj. er staðið við fyrirheit — a. m. k. ætluðu sveitarstjórnarmenn að þar væri um fyrirheit að ræða — um að taka fyrir sérstakar framkvæmdir í hafnarmálum fiskihafna að loknum framkvæmdum við landshafnir sem lokið var við á yfirstandandi ári. Þeim mönnum hefur ekki orðið að þeirri trú að ríkisstj. mundi breyta stefnunni í þá veru, heldur hefur þvert á móti verið þannig á málum haldið að margar fiskihafnir í stórum útgerðarstöðum eru algerlega vanræktar á fjárl. nú, ekki aðeins til tjóns fyrir þá sem byggja þessi fiskiþorp og fiskibæi, heldur til beins fjárhagslegs skaða fyrir þjóðina alla.

Við alþfl.-menn höfum lagt fram við þessa 3. umr. nokkrar till. Fyrir þeim verður væntanlega gerð grein hér á eftir. Fæstar þessar till. eru stórvægilegar, heldur eru minni háttar lagfæringar sem á að reyna að fá þingið til að samþykkja nú við lokaafgreiðslu fjárl. Okkur er það fyllilega ljóst, að jafnvel þó að þessar till. allar yrðu samþykktar, þá nægði það ekki til þess að breyta þeirri meginstefnu sem felst í fjárlagagerð hæstv. ríkisstj. Til þess þarf annað og miklu meira til. En þetta er alla vega tilraun til þess að fá hv. Alþ. til þess að sinna ýmsum verkefnum sem ekki eru stór séu þau vegin á mælikvarða þann sem fjárl. eru vegin nú á þegar þau eru komin upp í tæpa 90 milljarða kr., en eru stór verkefni í augum þeirra, sem um hafa sótt, og í augum þeirra, sem með þessum tillöguflutningi er verið að reyna að ganga til móts við að leysa vandann hjá.

En það alvarlegasta í sambandi við þá stefnu, sem liggur að baki þeirrar fjárlagagerðar sem nú á að afgreiða, er þó ekki þetta sem ég hef minnst á í ræðu minni áðan, heldur hitt, á hvaða forsendum í kaupgjaldsmálum þessi fjárlagagerð byggist. Ég benti á það í ræðu minni við 2. umr. fjárl. fyrir nokkrum dögum að það væri beinlínis gert ráð fyrir því í forsendum fjárlagagerðar hæstv. ríkisstj. að kauphækkanir, sem veittar yrðu á næsta ári, yrðu alls ekki meiri en þegar er búið að semja um milli ríkisvaldsins annars vegar og samtaka opinberra starfsmanna hins vegar. Forsenda fjárlagafrv. ríkisstj. var sú, að aðrar launastéttir og þ. á m. þessar líka ættu ekki að fá á árinu 1977 meiri umbun heldur en þegar er gert ráð fyrir í samningum, sem nú er búið að gera, að þeim sé skammtað. Þetta hyggst ríkisstj. gera, jafnvel þótt fyrir liggi að sú kaupmáttaraukning, sem menn eru að spá að geti orðið á næsta ári, miðað við það að atvinnutekjur manna haldist hlutfallslega óbreyttar, þ. e. a. s. að mönnum takist á næsta ári eins og árinu 1976 að vinna óvenjumikla eftirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu, — þrátt fyrir það að gengið sé út frá því að þessi yfirvinna verði hlutfallslega jafnmikil á árinu 1977 og hún hefur verið árið 1976, þá er samt sem áður ekki gert ráð fyrir því að kaupmáttur heildartekna heimilanna hækki nema um hluta af því sem hann hefur lækkað á árinu 1976. Þetta er gert þrátt fyrir það að spáð sé mjög ört hækkandi útflutningstekjum á næsta ári, auknum útflutningi á áli, hækkandi álverði o. s. frv., o. s. frv., sem ég nefndi í ræðu minni við 2. umr.

Milli umr. hefur smávegis lagfæring verið gerð á þessu af hálfu hæstv. ríkisstj. Lagfæringin er sú ein, að þau atriði í gildandi kjarasamningum opinberra starfsmanna, sem hæstv. ríkisstj. augsýnilega gleymdi að taka tillit til við upphaflega gerð fjárlagafrv., hafa nú verið tekin inn í endurskoðaða áætlun um ríkisreksturinn á næsta ári, þ. e. a. s. samningsbundin ákvæði opinberra starfsmanna um vísitöluhækkun á laun. Þetta er eina leiðréttingin sem hæstv. ríkisstj. hefur gert á fjárlagasamningu milli umr. En ég vil vekja athygli á því, að í bréfi, sem fjvn. hefur fengið frá Þjóðhagsstofnuninni og ber yfirskriftina: Endurskoðun tekjuáætlunar fjárlagafrv. 1977, segir svo orðrétt, með leyfi forseta:

„Þessi aðferð“ — þ. e. a. s. að áætla launafólki ekki meiri kauphækkanir á næsta ári heldur en þegar hefur verið samið um í samningi milli ríkisvaldsins og starfsmanna þess, þrátt fyrir það að vitað sé og menn hafi fulla vitneskju fyrir því að öll launþegasamtök landsins séu að búast til kjarastyrjaldar, þá segir orðrétt svo: „Þessi aðferð ætti að gera alla fjárlagastjórn raunhæfari og ákveðnari en ella þar sem ekki ætti að sinna neinum umframfjárbeiðnum á næsta ári vegna óvæntra verðlags- og launabreytinga, þar sem þegar hefur verið ætlað fyrir slíkum breytingum“.

Með þessu er hæstv. ríkisstj. sem sé umbúðalaust að boða það, að hún muni, hvað sem allri verkalýðsbaráttu líður, hvað sem öllum samningum líður sem kunna e. t. v. að nást á árinu 1977, þá muni hún ekki undir neinum kringumstæðum heimila meiri kaupmáttaraukningu á næsta ári heldur en felst í samningum sem opinberir starfsmenn hafa gert og í gildi eru nú, það ætti ekki að sinna neinum umframfjárbeiðnum á næsta ári vegna óvæntra verðlags- og launabreytinga þar sem þegar hefur verið ætlað fyrir slíkum breytingum. Þetta er skýrt og afdráttarlaust, hvað hæstv. ríkisstj. er hér að segja. Á þessa byggist afgreiðsla hennar á fjárl. nú. Með þessu er verið að boða það, sem ég sagði áðan, að það er ekki ætlun ríkisstj. að heimila verkalýðshreyfingunni að ná fram með samningum neinum kauphækkunum umfram það, sem þegar hefur verið samið um milli opinberra starfsmanna annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar.

Það mun vera hefð, herra forseti, að þeir, sem eiga sæti í minni hl. fjvn. hverju sinni, standi ekki að tillöguflutningi, séu a.m.k. ekki fyrstu flm. að ýkjamörgum till. Þessa hefð hef ég haft í heiðri og er ekki 1. flm. að nema einni till., þ. e. till. sem ég flutti við 2. umr., mælti þá ekki fyrir, en dró til baka til 3. umr. og ætla að nota örfáar mínútur, jafnvel örfáar sekúndur til að lýsa hér nú.

Till. þessi er á þskj. 259, I, frá okkur Karvel Pálmasyni. Till. er á þá lund, að fjárveitingar til Menntaskólans á Ísafirði verði hækkaðar um 25 millj. kr., úr 19 millj. í 44 millj. Vissulega gerum við okkur ljóst, að það er harla ólíklegt að Alþ. fáist til að samþykkja þessa till. okkar. Engu að síður teljum við rétt að hún sé flutt. Hér er um það að ræða að gera þarf tilraun til þess að hæstv. ráðh. og ríkisstj. Íslands efni loforð sem fyrrv. ríkisstj. var búin að gefa ísfirðingnum og vestfirðingum um byggingarmál menntaskólans þar. Það loforð hefur ekki verið efnt nú um nokkurt skeið, því miður, vegna þess að þær vanefndir hafa ekki aðeins skapað Menntaskólanum á Ísafirði erfiðleika, heldur ekki síður grunnskólanum þar, en eins og menn vita er kennsluhúsnæði Menntaskólans húsnæði sem nota á fyrir grunnskólann á Ísafirði til hans þarfa. Vegna þess að Menntaskólinn hefur enn þá þetta kennsluhúsnæði til umráða er ástandið í grunnskólamálum á Ísafirði orðið þannig, að ekki er hægt að halda uppi lögboðinni kennslu í barnaskólanum vegna skorts á húsnæði og gagnfræðaskólinn þarf að setja upp í vetur sérstakar lausbyggðar kennslustofur til þess að koma kennslu sinni fyrir. Hér er því nm að ræða mál sem ekki varðar aðeins Menntaskólann einan, heldur grunnskólastigið einnig. Till. okkar lýtur að því, að unnt verði á næsta vori að hefja lágmarks-undirbúningsframkvæmdir við byggingu kennsluhúss fyrir Menntaskólann á Ísafirði. þ. e. a. s. að hægt verði á árinu 1977 að ljúka ekki aðeins verkfræðiteikningum, eins og felst í till. meiri hl., heldur einnig ljúka jarðvinnu og að steypa plötu.

Ég tel að Alþ. geti ekki öllu lengur leitt hjá sér að efna loforð sem búið er að gefa vestfirðingum fyrir mörgum árum um byggingu Menntaskólans á Ísafirði. E. t. v. verður þessi till. ekki samþ. nú, um það veit maður ekki, en alla vega er rétt að flytja hana, eins og við höfum gert, m. a. til þess að þm. Vestf. gefist kostur á því að láta fram koma að þeir séu mjög óánægðir með þá afgreiðslu sem þetta mál hefur hlotið ár eftir ár.