20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

1. mál, fjárlög 1977

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns láta þess getið að ég flutti við 2. umr. till. til hækkunar framlags til Jafnréttisráðs sem hv. fjvn. hefur nú gert að sinni, og vil ég nota þetta tækifæri til að lýsa ánægju minni yfir því.

Við 2. umr. fjárl. flutti ég einnig till. til hækkunar á framlagi til Félagsstofnunar stúdenta vegna ýmislegs rekstrar sem hún hefur með höndum vegna félagslegs aðbúnaðar stúdenta, og þar hafði ég í huga fyrst og fremst matstofu stúdenta og viðhald og endurbætur á stúdentagörðunum. Ég lagði þar til að framlag til Félagsstofnunarinnar hækkaði úr 11 millj. í 20, sem var þó langt fyrir neðan það sem Félagsstofnunin hafði farið fram á. Ástæðan til þess að ég tek aftur upp málefni Félagsstofnunarinnar er hið alvarlega ástand sem er á stúdentagörðunum. Ég hef því á þskj. 259 flutt brtt. sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 6. gr. Nýr liður:

Að ábyrgjast fyrir Félagsstofnun stúdenta allt að 30 millj. kr. lán til viðhalds og endurbóta á Gamla og Nýja Garði, gegn tryggingum sem ríkisstj. metur gildar.“

Ég tek þetta mál upp aftur vegna þess að ég tel að hér sé um mjög brýnt málefni að ræða, — málefni sem í rauninni sé ekki verjandi að alþm. láti reka á reiðanum. Það liggur fyrir frá verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar að til þess að koma til móts við kröfur borgarlæknis og slökkvistöðvarinnar í Reykjavík þurfi rúmar 28 millj., sakir þess að þessir aðilar telja byggingarnar svo illa farnar og svo hættulegar frá öryggissjónarmiði að það sé vafamál ef ekki algerlega ókleift að reka garðana áfram sem stúdentabústaði eða hótel. Hv. fjvn. hefur fengið þessi plögg í hendur og veit um þau, en ég ætla til upplýsinga fyrir hv. þm. að lesa aðeins upphaf þeirra bréfa sem til Félagsstofnunar hafa borist.

Slökkvistöðin í Reykjavík skrifar Félagsstofnun á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Skoðun með tilliti til eldvarna hefur farið fram á stúdentagörðum við Hringbraut, þeim nýja og gamla. Í ljós komu eftirtaldir ágallar sem lagfæringar þurfa við ef um áframhaldandi heimavistar- og hótelrekstur verður að ræða í húsunum.“ — Síðan eru þessar lagfæringar taldar upp. Ég sé ástæðulaust að lesa þær, en ég legg áherslu á, að hér er um algert skilyrði að ræða, ef eigi að reka garðana áfram.

Sams konar skoðun kemur fram hjá borgarlækni. Þar stendur svo í erindi hans til framkvæmdastjóra Hótel Garðs, með leyfi hæstv. forseta:

„Hjálagt sendist yður grg. um þær endurbætur er þarf að framkvæma áður en hótelrekstur hefst í stúdentagörðum nú í sumar.“

Þetta er skrifað 1976, og eins og ég sagði áðan er heildarupphæðin, sem Verkfræðistofa Stefáns Ólafssonar telur nauðsynlega til lagfæringar, rúmar 28 millj. Í þeirri von, að hv. Alþ. vilji veita þessu máli lið, hef ég lagt til, að ríkisstj. verði heimilt að ábyrgjast lán til Félagsstofnunar stúdenta í þessu skyni, og legg áherslu á að hér er um að ræða ýtrustu tilraun til að leysa þennan vanda.