26.01.1977
Neðri deild: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

146. mál, tékkar

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég vildi láta koma fram af minni hálfu stuðning við það frv. til l. um viðauka við lög um tékka, sem liggur fyrir þessari hv. þd. og er hér til umr. Það er engin spurning um það, að nauðsyn er á því að setja viðurlög við misferli á tékkum. Tékkaútgáfa hefur aukist stórkostlega í þjóðfélaginu á tiltölulega fáum árum og er orðin mjög umfangsmikil, svo ekki sé meira sagt, þannig að misferli á þessu sviði er auðvitað hættulegt fyrir eðlilegt viðskiptalíf og viðskipti, auk þess sem þessi notkun er svo almenn, að ef ekki er um að ræða sérstök viðurlög við misferli, þá síast þetta út í þjóðfélagið í stórum stíl. Það er alltaf spurning um það, hvernig á að beita refsingum, en mér sýnist að þær till., sem liggja fyrir í þessu frv., séu mjög skynsamlegar og meira en tímabærar.

Þetta er ekki fyrsta frv. sem hæstv. dómsmrh. leggur fyrir Alþingi á tiltölulega stuttum tíma um bætur á réttarkerfi þjóðarinnar. Það má segja að hvert frv. reki annað í þessum efnum. Og ég fullyrði það og hygg að um það séu allir sammála, að núv. hæstv. dómsmrh. hefur verið mikilvirkari í þeim efnum að bæta réttarfar og sakamálameðferð heldur en nokkur annar dómsmrh. um áratugi, og fyrir það er ástæða til að votta honum traust.

Það hafa orðið miklar umr. um dómsmálin á undanförnum mánuðum í fjölmiðlum og meðal stjórnmálamanna. Ég vil leggja áherslu á að í því moldviðri og þeim umr., sem um þetta hafa orðið, misjafnlega vandaðar, þá mega menn aldrei missa sjónar á því að sjálfstæði dómstóla er eitt af undirstöðuatriðum í lýðræðisríki og réttarríki. Eftir okkar kerfi og flestra lýðræðisþjóða er það svo, að dómarar eru settir til starfa á mismunandi hátt. Sums staðar eru þeir kosnir, eins og kunnugt er, og sums staðar skipaðir. Í því réttarkerfi, sem við byggjum á, og í þeim löndum, sem hafa svipað réttarkerfi og við íslendingar, eru dómarar yfirleitt skipaðir til starfa. Það má sjálfsagt deila um það hvor aðferðin sé skynsamlegri. Ég er þeirrar skoðunar að við búum við öruggara réttarkerfi í þessum efnum heldur en þær þjóðir sem kjósa dómara, og ég held að það séu miklu meiri líkur til þess þar sem dómarar eru kosnir, að pólitískar deilur verði um störf þeirra og þar af leiðandi minni starfsfriður fyrir dómara að vinna óháð og ótruflaðir að sínum vandasömu úrlausnarefnum. En um þetta má sjálfsagt deila. En sjálfstæði dómstóla er, eins og ég sagði áðan, geysilega þýðingarmikið undirstöðuatriði.

Það eru þrír aðilar sem fara með ríkisvaldið í okkar landi skv. stjórnarskrá. Það er Alþ. sem fer með löggjafarvaldið og vill ekki láta það af hendi til neins annars aðila. Það er að vísu svo að ríkisstj. hefur bráðabirgðalöggjafarvald með höndum, eins og kunnugt er. En hím er þingbundin og Alþ. ræður því hverjir sitja í ríkisstj. hverju sinni, þannig að Alþ. hefur að sjálfsögðu óbein áhrif á handhöfn bráðabirgðalöggjafarvalds, elda verður að leggja slík lög fyrir Alþingi. Síðan er framkvæmdavaldið sem á að vera í höndum ríkisstj., eins og kunnugt er, en er í reynd að verulegu leyti í höndum Alþingis vegna þess að við búum við þingbundna stjórn. Þriðji aðilinn eru dómstólarnir sem eru sjálfstæðir og óháðir eða eiga að vera það í störfum sínum og óheillavænlegt ef aðrir ætla að fara inn á svið dómstóla hvað snertir meðferð mála, þó mer,n geti auðvitað gagnrýnt hana almennt séð.

Ég er nægilega kunnugur meðferð bæði sakamála og almennra dómsmála til þess að gera mér grein fyrir því, að það er erfitt að ræða um einstök mál án þess að hafa kynnt sér meðferðinni til nokkurrar hlítar. Það er erfitt og ég ráðlegg engum að gera það of snemma. Það kunna að vera ýmsir málavextir sem valda því að menn líta öðruvísi á málin, eftir að menn hafa kynnt sér þau til hlítar, heldur en á að sjá án þess að þekkja þau vel.

Varðandi þær umr., sem hér hafa farið fram, langar mig til að víkja örfáum orðum að hinn svokallaða tékkamáli sem hefur verið til meðferðar hjá dómstólum síðan í sumar. Ég vil ekkert um það dæma hvort það er langur tími eða stuttur. Ég hygg að það sé ekki langur tími miðað við umfang þess máls, eins og mér kemur það fyrir sjónir. Hv. 9. þm. Reykv., sem hóf máls ú þessu atriði, áfelldist í sinni frumræðu ríkissaksóknara fyrir afskipti hans af þessu máli, sem eru um það hvort hann vilji láta fella niður eða takmarka rannsóknina við ákveðin mál og rannsaka þá ekki önnur mál sem kært hefur verið út af. Um það fjallar þessi ágreiningur, að því er mér skilst. Í sinni seinni ræðu sagði hins vegar hv. 9. þm. Reykv. að hann væri hiklaust fylgjandi því að öll mál fengju meðferð og dóm. Það fer ekki heim og saman að takmarka rannsóknir og láta niður falla meðferð og dómsálagningu ákveðinna mála, kannske margra, annars vegar og svo hins vegar að vilja fá rannsókn allra mála, sem kærð eru, og enn fremur dómsniðurstöður. Ég held að það sé ótæk málsmeðferð að fella niður eða ljúka ekki meðferð mála, sem kærð hafa verið og það sé enginn annar kostur, þegar þannig stendur á, heldur en að bæta við mannafla til þess að ljúka rannsókninni.

Það er alltaf álitamál hvað á að leggja mikla áherslu á hraðann í málum. Það er sjálfsagt hægt að skipta þessu og leggja til meiri vinnukraft. Það er álitamál hvað á að leggja mikla áherslu á að bæta við mannskap til þess að ljúka málsmeðferð og dómsálagningu. Ég fyrir mína parta tel að það sé ekki neinn annar kostur fyrir hendi í þessu efni heldur en að rannsaka málin. Þau eru sjálfsagt mjög mörg, eftir því sem manni skilst, og eflaust mismunandi að málavöxtum, ekki efast ég um það. Sumir hafa eflaust málsbætur, aðrir hafa þær ekki og allt þar á milli. En mér sýnist enginn annar kostur í þessu efni en að rannsaka málin og leggja síðan dóm á þau. Síðan er hægt að áfrýja til Hæstaréttar. Það er gangur málanna og það er þá áreiðanlega Hæstiréttur sem sker úr um að lokum, hver er sekur og hver er sýkn, og einnig um það, hvort málsmeðferð hafur verið eðlileg eða hvort ástæða er til að vísa málum heim í hérað á nýjan leik til frekari rannsóknar og dómsálagningar.

Ég held að það sé meira en vafasamt að hefja umr. á Alþ. um mál eins og þetta, sem er á — ég vil segja eðlilegu rannsóknarstigi. Ég get ekki séð að það sé í þessu neitt óeðlilegt sem gefi tilefni til að hefja miklar umr. og gagnrýni, eins og sakir standa. Það vill nú svo til að ég þekki persónulega þá dómara sem hér eiga hlut að máli, vegna þess að ég var málflutningsmaður um langan tíma hér í borginni. Þetta eru báðir ágætir menn, bæði umboðsdómarinn í málinu og ríkissaksóknari, og ég held að hvorugur þeirra vilji vamm sitt vita í sambandi við embættisstörf. Ég tek því ekki undir það, að það sé ástæða til þess að hallmæla þeirra störfum hér á Alþ., og ég sé ekki að það hafi gefist tilefni til þess. Í raun og veru er enginn bær um að dæma um það til fullrar hlítar nema Hæstiréttur eða þá aðrir aðilar sem geta kafað ofan í þessi flóknu og margþættu mál og kynnt sér meðferðina og síðar dómsálagningu.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram og er ekkert nýtt og raunar allir eru sammála um, að það sé nauðsynlegt að hraða meðferð mála og leggja dóm á þau svo fljótt sem unnt er. En ég vil þó taka það fram, að það má ekki í þessum efnum leggja svo mikla áherslu á hraða dómsmála að hætta sé á því að sýknir menn verði sakfelldir. Það verður að gefast nægur tími til þess að rannsaka málin vandlega að öllu leyti einnig að tryggja að menn, sem eru raunverulega sekir, verði ekki sýknaðir vegna þess að mál eru ekki nægilega rannsökuð og það gefst ekki nægur tími til að athuga málið. Ég vil vara við því.

Í þessu sérstaka máli, tékkamálinu, sem hefur verið mjög til umræðu í fjölmiðlum, er sem sagt spurningin þessi, hvort það eigi að takmarka rannsóknina og dómsálagningu við ákveðin mál og sleppa öðrum eða hvort á að ljúka öllum málunum. Það er alveg augljóst mál og ég er eindregið fylgjandi því og tek undir það, sem hér hefur komið fram, raunar hjá báðum hv. þm., hæstv. dómsmrh. og hv. 9. þm. Reykv., að það eigi og beri að rannsaka öll málin og leggja á þau dóm en ég er viss um, að það tekur mikinn tíma, sjálfsagt langan tíma, því að þetta er kannske hundruð og e. t. v. þúsundir mála. Ég veit að vísu ekki hve mörg mál einstaklinga er hér um að ræða, en eflaust gífurlegan fjölda tékka, þannig að það tekur áreiðanlega sinn tíma, og ég sé engan annan kost, ef menn vilja hraða þessu meira, heldur en að setja í það meiri mannafla. Ég vil hins vegar ekki leggja neinn dóm á það hvort ástæða er til þess. Það má vera að svo sé.

En þó að það sé nauðsynlegt að ræða um dómstólana og dómskerfið hér á Alþ. öðru hvoru, þá vil ég samt vara við því að haldið sé uppi óréttmætri gagnrými á störf dómstólanna í landinu almennt, vegna þess að það er talsvert hættulegt fyrir einn handhafa ríkisvaldsins, Alþingi, að grafa undan eða stuðla að því að grafa undan trausti almennings almennt á dómstólum í landinu. Það er eflaust þannig, að það eru ýmsir dómarar, sem eru ekki starfi sínu vaxnir. Svo er á fleiri sviðum. En það eru líka mjög margir og áreiðanlega langflestir, sem eru fullkomlega starfi sínu vaxnir og vinna af samviskusemi að sínum málum, þ. á m. meðferð dómsmála og dómsálagningu. Og ég vil vara við því að þyrla upp hér á Alþ. of miklu ryki eða stofna til mikilla umr. um málefni sem eru á eðlilegu rannsóknarstigi, eins og ég tel að tékkamálin séu, miðað við það hvað ég held að þau séu mikil að umfangi. Ég tel að það sé ekki líklegt til að auka veg Alþ. að ræða um þessi málefni hvatvíslega og án þess að umr. séu virkilega rökstuddar.