27.01.1977
Sameinað þing: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

48. mál, litasjónvarp

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Meðan verið er að hafa upp á hv. 5. þm. Vestf., sem hér hafði kvatt sér hljóðs áður, þykir mér rétt að segja hér nokkur orð.

Ég hafði ekki aðstöðu til að vera við fyrri hluta umr. um þetta mál, en hefur verið tjáð að frv. hafi mætt andstöðu nokkurra þm. sem ég verð að segja að mér kemur nokkuð á óvart.

Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir, enda mjög skýrt tekið fram í grg. með till., að við stöndum á nokkrum tímamótum í sambandi við sjónvarpið og sjónvarpsreksturinn. Það liggur fyrir að þau tæki, sem notuð eru til útsendingar, eru komin á það stig að komið er að endurnýjun á verulegum hluta þeirra, og einnig er svo með tæki mjög margra landsmanna að þau eru orðin það gömul að það hlýtur að vera komið að því að þau verði að endurnýja. Þegar þetta liggur fyrir, þá stöndum við frammi fyrir því, hvort á að ráðast í endurnýjun hjá sjónvarpinu sjálfu á tækjum miðað við svarthvíta útsendingu og hvort almenningur eigi að halda áfram að kaupa tæki aðeins miðað við svarthvíta útsendingu.

Ég held að það þýði ekki annað en að gera sér fulla grein fyrir því að litasjónvarp er það sem koma skal í framtíðinni. Og þegar þannig stendur, að þarf að verja mjög miklum fjármunum til endurnýjunar bæði tækja til sjónvarpsútsendingar og tækja almennings, þá hlýtur að vera mjög eðlilegt og ég tel alveg sjálfsagt að farið verði inn á þá braut að endurnýja það, sem endurnýja þarf, miðað við útsendingu í lit, þannig að ekki sé verið að eyða fjármunum í tæki sem ég tel að hljóti innan tíðar að heyra liðna tímanum til.

Ég er því fylgjandi þáltill., sem hér liggur fyrir, efnislega og tel að hún stefni alveg í rétta átt í þessu máli og sé það sem koma skal innan mjög skamms tíma. Það er þegar farið að ræða það og reyndar nokkuð ákveðið að hér verði reist jarðstöð sem tekið getur við sendingum frá gervitunglum. Hlýtur þá að koma að því að Ísland komist í samband við sendingar frá öðrum ríkjum, jafnvel öðrum heimsálfum, og það efni, sem þannig er sent, er víst að langmestu leyti og kannske nær eingöngu orðið sent út í lit, eins og kallað er.

Ég álít að ef við ætlum að halda áfram að byggja íslenska sjónvarpið upp með svarthvítu, þá sé þar um hreina stöðnun hjá okkur að ræða og að við gerum okkur ekki grein fyrir þeirri þróun sem er orðin í þessum málum og yfir okkur hlýtur að koma innan tíðar, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það hefur að vísu gerst, sem ég tel mjög gleðilegt, síðan þessi till. var lögð hér fram, að stjórnvöld, sem áður höfðu heft mjög eða jafnvel bannað innflutning á litasjónvarpstækjum, hafa nú rýmkað um þau höft og er farið að bjóða slík tæki hér á frjálsum markaði. Ég tel að þetta sé spor í rétta átt og hljóti að vera merki þess að stjórnvöld hafi gert sér grein fyrir hvert stefnir og vilji ekki koma í veg fyrir að þeir, sem þurfa að endurnýja sjónvarpstæki, geti gert það á þann hátt sem þeir óska eftir, fái keypt litasjónvarpstæki ef þeir telja sér það hagkvæmara.

Varðandi ráðstöfun þeirra tekna, sem af þessu mun leiða, tel ég einnig rétt að tekjur af innflutningi þessara tækja gangi til greiðslu kostnaðar við þá breytingu sem till. gerir ráð fyrir að þurfi að verða á vegum sjónvarpsins sjálfs, og tel ég þar alveg rétt að farið.

Ég vildi aðeins koma hér í ræðustól og lýsa stuðningi mínum við þá þáltill. sem hér liggur fyrir.