31.01.1977
Neðri deild: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

120. mál, lágmarkslaun

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég efast ekkert um að sú grundvallarmeining, sem stendur að baki þessu frv., er jákvæð, rétt, og síst skyldi ég verða til þess að mæla gegn því að launafólk á Íslandi á þessum tíma fengi leiðréttingu sinna mála. Ég held að ég geti tekið undir flest ef ekki allt sem fram kom í ræðu 1. flm. og frsm. þessa frv. sem hann mælti hér áðan.

En ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hér hljóðs og fannst rétt að segja örfá orð af þessu tilefni, er hvernig á það verður litið af hálfu verkalýðshreyfingarinnar í landinu ef löggjafinn ætlar að fara með þessum hætti að lögfesta laun. Hér er að vísu lagt til að hækka laun frá því sem er, en ég óttast fordæmið. Það er enginn vafi á því, að óvinveittar ríkisstj. í landinu finna flöt á því í framtíðinni að vísa til þessa fordæmis og vísa til þess að þjóðmálaástand hjá ríkinu sé með þeim hætti að nú sé nauðsynlegt og réttlætanlegt að grípa til lækkunar kaupgjalds með lögum. Það er þetta fordæmi sem ég óttast mjög að gefa óvinveittum valdhöfum í landinu — óvinveittum verkalýðshreyfingunni, óvinveittum launafólki í landinu — að grípa til þegar þeir telja sér henta og þeir telja sér stætt á að gera það. Það eru þessar efasemdir sem fyrst og fremst vakna í mínum huga þegar rætt er um að löggjafinn ákvarði kaupgjaldið með lögum frá Alþ. Það er á engan hátt það, að ég telji ekki réttlætanlegt, eins og mál hafa þróast og málum er nú komið, að hækka laun hjá launafólki.

Í grg. þessa frv. er vísað til ályktunar Alþýðusambandsþings á s. l. hausti, þar sem er réttilega á það bent að lágmarkslaun fyrir dagvinnu megi ekki vera lægri en 100 þús. kr. á mánuði. Það er að vísu gert ráð fyrir því í þessu frv., yrði það að lögum, að þá gilti það ekki nema þar til næstu samningar tækjust. En ég vil sem sagt mjög vara við því að löggjafinn fari að ákvarða með löggjöf bindandi kaupgjald. Það hefur a. m. k. allt til þessa og ég efast ekki um að það sé enn skoðun verkalýðshreyfingarinnar í landinu að það sé hennar verkefni og vinnuveitenda að semja um kaup og kjör. A.m.k. þætti mér gaman að fá um það vitneskju hvort nokkur breyting í aðra átt hefur átt sér stað hjá forsvarsmönnum verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Ég hef ekki orðið var við það. Og ég held satt að segja að það sé óbreytt afstaða verkalýðshreyfingarinnar, forustumanna í verkalýðshreyfingunni, að það eigi að vera vettvangur verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda að semja um kaup og kjör. Hitt þekkjum við, að ríkisvaldið hefur oft og tíðum gripið inn í samningsgerð og launamál, en ég er þeirrar skoðunar, að slíkt eigi alls ekki að gerast nema þá í neyðartilvíkum. Og það er þess vegna sem ég kaus að taka hér til máls og segja örfá orð, á engan hátt til að andmæla þeirri hugsun, sem ég held að standi á bak við þetta frv., þ. e. a. s. að bæta kjör launafólks í landinu. Það er einungis þetta, að ég óttast að slík lagasetning gefi fordæmi sem eigi e. t. v. í framtíðinni að verða verkalýðshreyfingunni örðugt í skauti.