01.02.1977
Sameinað þing: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1748 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

82. mál, viðgerðir fiskiskipa

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir hans skýru og greinargóðu svör. Ég hygg að að baki þeim fsp., sem ég las hér upp áðan, liggi sú spurning sem vakir í huga manna almennt, hvernig okkar skipasmiðastöðvar séu í stakk búnar til að mæta þeim mikla vanda sem er nánast afleiðing þeirrar byltingar sem átt hefur sér stað undanfarin 10–15 ár, að nánast allur skipafloti landsmanna er orðinn stálskip eða meginhluti hans og afkastamestu skipin eru stálskip. En fyrir þennan tíma voru stálskip nánast ókunn íslenskum skipaviðgerðarstöðvum þó að skipin sem slík væru kunn hér löngu fyrr. Þær skipasmíðastöðvar, sem tekið hafa til starfa, hafa þegar sannað ágæti sitt, svo ekki verður um villst, með þeim skipum sem þær hafa smíðað og endursmíðað og endurbætt á margan hátt, miðað við íslenskar aðstæður sem eru mjög sérstæðar svo sem óþarft er að orðlengja um hér.

Ég vænti þess að þau áform, sem hæstv. iðnrh. lýsti að væru á döfinni til styrktar og eflingar skipasmíði innanlands og þá ekki síst viðhalds þeim glæsilega flota stálskipa sem keyptur hefur verið til landsins á undanförnum árum, — þær ráðstafanir beri þann árangur að skipasmíðastöðvarnar geti haldið áfram að standast samanburð við það sem best gerist með erlendum þjóðum. Það hefur sannast á þessum frumárum stálskipasmíði á Íslandi að engar þjóðir þekkja betur til um íslenska staðhætti en íslendingar sjálfir og hefur því æðioft þurft að bæta um það sem að kunnáttu hinna erlendu skipasmíðastöðva laut. Skyldu menn ekki meta lítils að sú þjónusta verði ávallt sem mest og best fyrir hendi meðal íslendinga sjálfra.

Ég ítreka svo þakkir mínar til hæstv. ráðh. fyrir svörin og vona að þau áform, sem hann lýsti að væru þegar hafin eða í undirbúningi á vegum rn., nái sem fyrst fram að ganga.