01.02.1977
Sameinað þing: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

69. mál, áhrif Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs á athugun á atvinnu- og byggðaþróun í landinu

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég verð að segja að ég styð eindregið þá till. sem hér liggur fyrir, og ég held, eins og fram hefur komið hér, að það sé mikilvægt fyrir Byggðasjóð og stjórn Framkvæmdastofnunar að fá slíka nefndarskipun og fá úr því skorið hvort sú gagnrýni, sem komið hefur fram á Byggðasjóð nú um nokkurra ára skeið, er á rökum reist eða hvort þetta eru bara getsakir.

Ég ætla ekki að ræða hér almennt um stefnu Byggðasjóðs, en í orðum hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur kom fram visst vantraust á fiskvinnsluna á Suðurnesjum. Hún talaði þar um skipulagsleysi sem mundi vera m. a. þáttur í þeim örðugleikum sem þar væri um að ræða nú. Því gat ég ekki látið hjá líða að minnast á ýmislegt í því sambandi og vil þá segja að það hyggur margur auð í annars garði. Ég vil álykta svo, að meiri hluti þeirra, sem hafa farið með stjórn þjóðmála á undanförnum árum, hafi litið svo á að reykvíkingar og reyknesingar væru svo vel fjárhagslega og atvinnulega staddir að það væri hægt að láta þá bera skarðan hlut frá borði þegar kökunni væri skipt, því að þetta er ekkert nýmæli og þetta er miklu eldra en Byggðasjóður, að það sé gert upp á milli landshluta. Það var jafnvel svo að þessir staðir, sem eru gamlir og grónir útgerðarstaðir, áttu erfiðara með að fá leyfi til skipabygginga og skilakaupa fyrir 20–30 árum, svo að þetta er alls ekkert nýtt atriði. Og það byggist vafalaust á því, að það hefur verið litið svo á að þeir væru svo vel sjálfbjarga að þeim þyrfti ekki að hjálpa.

Útvegurinn á Suðurnesjum er nokkuð sérstæður og þarf reyndar ekki að lýsa því fyrir hv. þm., en ég ætla aðeins að benda á að þeir örðugleikar, sem nú koma í ljós, byggjast m. a. á þeirri sérstöðu sem sá útvegur hefur. Hann hefur sérstöðu t. d. að því leyti, að þar veiðist að mestu leyti fullvaxinn fiskur, sem þýðir aftur á móti það að ársaflinn kemur á land á mjög skömmum tíma. Það er aðallega um vertíðarafla að ræða, og þá þarf þá fjóra mánuði, sem vetrarvertíðin stendur, að vera til aðstaða til að sinna öllu því aflamagni sem á land kemur. Þetta veldur aftur á móti örðugleikum við að fullnýta þessar stöðvar hinn tíma ársins. Og síðan fór að draga úr aflamagni á sóknareiningu, sem mjög hefur verið áberandi undanfarin ár, veldur þessi mikla afkastageta fiskverkunarstöðvanna að sjálfsögðu enn þá meiri vandkvæðum en áður. Aflarýrnunin er svo mikil á þessu svæði, að árið 1970 voru það 84 þús. tonn sem þar komu á land á því tímabili, en um 40 þús. tonn 1976. Meira að segja í Keflavík var meðalafli í róðri 8.4 tonn 1970, en er 4.8 tonn á bæði stærri og betri skip og betur búin á árinu 1976. Það er þetta og jafnvel fleira óhagstætt sem hefur skeð. Eins og ég sagði áðan hefur stórþorskur lengst af verið uppistaðan í vertíðarafla suðurnesjamanna. En nú síðustu árin er þorskurinn kominn í mikinn minni hluta, en uppistaðan í aflanum orðin ufsi, karfi, langa og keila. Þetta eru tegundir sem við höfum nú síðustu daga heyrt getið um að eru miklum mun verðminni en þorskurinn, erfiðari í vinnslu og erfiðara að gera út á þær.

Sigurlaug Bjarnadóttir kom tvisvar að því í ræðu sinni um till. að erfiðleikar suðurnesjamanna varðandi hraðfrystiiðnaðinn stöfuðu af skipulagsleysi. En eins og ég hef getið um stafa erfiðleikarnir fyrst og fremst af eftirfarandi ástæðum: minnkandi fiskgengd, óhagstæðri aflasamsetningu, mismunun í lánafyrirgreiðslu, sem ég mun koma að síðar, og vegna þessarar mismunandi lánafyrirgreiðslu hafa menn á þessu svæði orðið að greiða meira í okurvexti heldur en annars staðar á landinu, það er nokkuð viðurkennt mál. Og svo er það, sem ég einnig gat um, að fiskverkunarstöðvarnar eru orðnar allt of stórar vegna samdráttarins í afla. Aftur á móti er það svo, að 40% af öllum suðurnesjabúum starfa að útvegi og fiskvinnslu og þess vegna er afkoma sjávarútvegs á svæðinu öllu ráðandi um tekjuöflun og atvinnuöryggi þeirra sem þarna búa.

Ástæðan til þess að ég kem nú hingað upp er því líka sú, að ég hef mikinn hug á því að leggja áherslu á að Framkvæmdastofnunin feli sinni öflugu áætlanadeild að gera úttekt á sjávarútvegi og vinnslu sjávarafla í Reykjaneskjördæmi. Ég held að það sé ekki ástæða fyrir okkur að vera mjög mikið að deila um hvað hefur skeð, heldur að reyna að bæta nú úr ef einhvers staðar hafa orðið á skyssur. Það er að vísu rétt að það hefur verið gerð úttekt og hún hefur verið gerð af Þjóðhagsstofnun í sambandi við verðlagningu, hún hefur verið gerð af viðskiptabönkum og hún hefur hefur verið gerð af sérstakri n. til að kanna atvinnumál Stór-Reykjavíkursvæðisins og fleiri aðilum jafnvel. En það er sama, jafnvel þó að allir þessir aðilar hafi komist að þeirri niðurstöðu að þarna væri erfitt vandamál viðureignar, þá hefur ekkert gerst nema umtalið.

Samkv. upplýsingum formanns stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar í hans merku ræðu um þessi mál er þessi till. var síðast á dagskrá, þá er Reykjaneskjördæmi þó enn, þrátt fyrir alla aflarýrnun, næsthæsta fisköflunarsvæði landsins með 158 674 tonna ársafla 1975, og þá er loðna meðtalin. Á Suðurnesjunum eru 23 frystihús sem flest eru núna á heljarþröm fjárhagslega, og það er augljóst mál að þar sem er um svona stóran hluta í fisköflun okkar og fiskvinnslu okkar að ræða, þá mundi verða eitthvað örðugra um tekjuöflun jafnvel Byggðasjóðs ef þau yrðu að hætta starfsemi sinni. Ég vil þess vegna taka mjög undir orð formanns stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar sem hann viðhafði hér, með leyfi forseta. Hann sagði:

„Það er augljóst mál að atvinnuleysi verður ekki síður háskalegt á Reykjavíkursvæðinu, ef það kemur þar, heldur en annars staðar. Því eru það blindir menn sem ekki vildu reyna að hafa yfirsýn yfir þarfir Reykjavíkursvæðisins til þess að þeir, sem þar búa, megi einnig hafa atvinnu og góða afkomu. Ég tel að nauðsyn beri til að gera sér fulla grein fyrir atvinnuöryggi þess fólks sem er búsett á Reykjavíkursvæðinu, um leið og stuðlað er að því, að fólk geti búið við jafngóð lífskjör annars staðar á landinu.“

Þessi orð vil ég gera að mínum. Ég held að það sé alger nauðsyn að taka nú þegar til mikillar og alvarlegrar athugunar hvernig á að bjarga við fiskvinnslu Suðurnesjanna og Faxaflóasvæðisins vegna þeirrar miklu breytingar sem hefur orðið nú á undan, örnum árum. Ef við lítum á þetta svolítið nánar, þá er það, sem hefur skeð, að fisköflunin hefur færst af þessu svæði að hluta og dreifst víðs vegar um landið í miklu stærri mæli en áður var. Þar af leiðandi er miklu minna af hrygningarfiski sem kemur á þau svæði en áður var, þar sem búið er að drepa hann á uppeldisstöðvunum. Þetta m. a. gerir það að verkum, eins og ég gat um áður, að nú eru það aðallega karfi og ufsi, sem aldrei koma á uppeldisstöðvar þorsksins fyrir norðan og austan, sem suðurnesjamenn fá. Verðlagning aftur á móti er ekki miðuð við þessar tegundir og kostnaður frystihúsanna ekki miðaður við þær. Það kemur þó í ljós hjá forstjóra Þjóðhagsstofnunar að afkoma frystiiðnaðarins hefur ekki verið eins góð í mörg ár og hún er núna árið 1976. En það byggist ekki á því að afkoma frystihúsanna, sem verka ufsa og karfa, sé svona góð, heldur vegna þess að frystihús víðs vegar um landið hafa fengið til vinnslu mikið af góðum fiski. Þau sýna þess vegna mikinn ágóða og eru mörg, og þegar tekið er meðaltal af öllu saman kemur þessi hagstæða útkoma. En vandi þeirra, sem á þessu svæði búa, er jafnmikill fyrir því.

Ég vil að lokum geta þess, að það var nýlega gerð skýrsla um hvernig aflasamsetningu á Vestfjörðum og Suðurnesjum hefði verið háttað árið 1975. Þar kemur í ljós að þá var þorskurinn á Vestfjörðum 37.6% og 7.2% á Suðurnesjum, það sem í frystihúsin fór. Á Vestfjörðum var ýsan 10.4%, en 21% á Suðurnesjum. En langa, ufsi og karfi voru um 24% á Vestfjörðum, en um 62% á Suðurnesjum. Ég vil þess vegna leggja áherslu á það, að þegar nú áætlanadeild Byggðasjóðs fer að athuga þessi mál verði ekki látið sitja við áætlunina tóma, heldur verði reynt að hefjast handa og bjarga þessum fiskiðnaði, þessari fiskvinnslu, útgerðinni þarna. Þetta er það mikið svæði og hefur um áratugi átt það mikinn þátt í útvegi og fiskvinnslu landsins að nú verður að fara að gera eitthvað raunhæft til þess að bjarga þessu frá algeru hruni.