02.02.1977
Neðri deild: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (1429)

149. mál, umferðarlög

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir) :

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. á þskj. 295, sem er nú lagt hér fyrir öðru sinni. Það var lagt fram fyrir jól í fyrra, þvældist alllengi fyrir þinginu, en hlaut ekki endanlega afgreiðslu. Ég flutti í fyrra allítarlega framsögu með frv. og get því stytt mál mitt núna.

Þetta frv. er í stuttu máli þannig til komið, að hin óvenjulega slysaalda, sem reið yfir okkur hér á landi í fyrrahaust, varð okkur, þessum tveimur flm., mér og 11. þm. Reykv., Ellert B. Schram, hvati til þess að hugsa okkar gang og leita í samráði við þá aðila, sem með umferðarmál fara, einhverra hugsanlegra leiða af hálfu Alþ. með lagasetningu til þess að binda endi á það ástand eða alla vega lagfæra okkar umferðarmál.

Ég minnist þess að í framsöguræðu í fyrra benti ég á að þá höfðu á 52 dögum farist í umferðarslysum á Íslandi 14 manns, þ. e. a. s. þriðja til fjórða hvern dag hafði látist maður í umferðarslysi. Þetta var óvenjulegt og hefur sem betur fer ekki endurtekið sig nú í ár, því að tölur sýna að umferðarslys urðu bæði færri og ekki eins mörg dauðaslys á árinu 1976 og árið þar á undan. Ég vil þó sérstaklega vekja athygli á því sem segir í grg. með þessu frv. nú, að lækkandi tala umferðarslysa á nýliðnu ári sé vissulega gleðiefni þótt enn sé talan óhugnanlega há. En við megum ekki láta það leiða okkar til of mikillar bjartsýni og því síður til andvaraleysis í þessum efnum, og það er vafalaust að hið eindæma hagstæða veðurfar, sem við höfum átt við að búa hér það sem af er þessum vetri, mun eiga sinn þátt í þessari ánægjulegu þróun. Færð á götum og vegum hefur verið ákaflega miklu betri en um sama leyti í fyrra og raunar alveg óvenjulega góð.

Það, að þetta frv. náði ekki fram að ganga til afgreiðslu í fyrra, hygg ég að hafi stafað ekki hvað síst af því að Alþ. komst raunar aldrei nema í 1. gr. þess, en 1. gr. fjallar um lögbundna notkun öryggisbeita í bifreiðum. Þetta atriði hefur verið umdeilt hvarvetna þar sem löggjafarþingin hafa á annað borð látið sig það skipta, og ég minnti á það í fyrra til hliðsjónar, að í Noregi, þegar frv. til l. um öryggisbelti lá fyrir norska Stórþinginu, þá komst það í gegn, en með 1/4 hluta norskra stórþingsmanna á móti. Það fór eins og ég vissi raunar fyrir, að þetta ákvæði um notkun öryggisbelta mætti ákveðinni mótstöðu hér, en það fékk þó marga góða liðsmenn með sér, og ég vil leggja áherslu á það nú að þessi 1. gr., sem fjallar um þetta umdeilda atriði, verði ekki aftur til þess að setja allt frv. til haka. Það hlýtur að koma til kasta Alþ. að skera úr um það, hvort við viljum samþ. þessu till. eða ekki, og síðan gætu og ættu svo hinar greinar frv., sem ég bygg að verði ekki umdeildar, alla vega ekki á borð við öryggisbeltin, að geta fengið afgreiðslu enda þótt 1. gr. um öryggisbeltin félli út.

Í sambandi við frv. í fyrra kom fram áskorun hóps manna sem ég tel fyllilega mark á takandi og vel það, og ætla ég mér að lesa upp þessa áskorun sem er undirskrifuð, eins og ég sagði, af fjölda merkra manna, þ. á m. réttarlækni ríkisins, af landlækni, af borgarlækni og öðrum læknum, einnig af lögreglustjóranum í Reykjavík, af prófessorum, kennurum, ritstjórum, félagsmálafulltrúum, og meðal kennaranna eru einnig ökukennarar, það vil ég taka fram. En áskorunin hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Vér undirritaðir skorum á hið háa Alþ. samþ. á yfirstandandi þingi lög um skyldunotkun bílbelta. Bilbelti hafa þegar sannað gildi sitt sem mikilsverð tæki til að draga úr afleiðingum umferðarslysa. Má leiða rök að því, að þau geta bjargað um það bil helmingi ökumanna og farþega í framsætum frá dauða og um það bil 3/4 hlutum alvarlegra slasaðra í umferðarslysum. Sannað hefur verið að með fræðslustarfi og áróðri sé eigi unnt að ná meira en 30% notkun bílbelta, og af þeirri ástæðu hafa fjölmargar þjóðir lögleitt skyldunotkun. Þjóð vor bíður óbætanlegt tjón við hvert mannslíf, er glatast, og hvern einstakling, er slasast í umferðarslysum. Því teljum vér eigi unnt að bíða lengur með að fá almenna notkun bílbelta með lagaboði.“

Þetta er álit þessa hóps manna, og ég hygg að engir fremur en læknar viti hvað þeir eru að tala um þegar umferðarslys eru annars vegar. Ég persónulega skal játa að áður en ég setti mig inn í þetta mál hef ég verið heldur öndverð lögbundinni notkun bílbelta. Mér finnst að þeir, sem mæla á móti þeim, hafi nokkuð fyrir sér. En ég set dæmið einfaldlega upp þannig, að ef bílbeltanotkun gæti orðið til þess að forða einu mannslífi á Íslandi, að ég tali nú ekki um fleiri, frá því að glatast á ári hverju, þá væri þessi skylda, sem á okkur er lögð, réttlætanleg og sjálfsögð. Ég hef ekki getað samþ. rök þeirra manna sem vilja ekki bera okkur hér sí Íslandi saman við önnur Norðurlönd. Ég hygg að ólíkar aðstæður kunni að breyta þar einhverju hvað varðar prósentutölu í notkun bilbelta og hversu mörgum er bjargað, en ekki það mikið að orð sé á gerandi og að við hljótum ekki að taka mark á þeim rannsóknum og þeim niðurstöðum sem farið hafa fram í nágrannalöndum okkar, þ. á m. Norðurlöndunum sem nú hafa öll með tölu, ég veit raunar ekki um Færeyjar, en öll hin hafa tekið upp lögboðna notkun bílbelta.

Það var bent á í fyrra að vegir okkar hér væru svo slæmir og brattir og aðstæður allar margfalt verri en þar. Það má vel vera. Ég held satt að segja að eftir því sem við flýtum okkur meira að leggja slitlag á vegina okkar, þá aukist hættan á vegunum, einfaldlega vegna þess að hraðinn eykst. Við höfum því miður ekki tiltækar tölur sem niðurstöður af rannsóknum okkar á þessu atriði nema að mjög takmörkuðu leyti. Þar kemur til auðvitað fyrst og fremst umkomuleysi Umferðarráðs sem hefur hingað til verið fjárvana. Get ég ekki stillt mig um í því sambandi að harma að stjórnarfrv., sem lagt var fram á þingi í fyrra um að viðurkennd vátryggingarfélög skuli greiða hálft annað prósent af iðgjaldatekjum sínum vegna lögboðinni ábyrgðartrygginga ökutækja til umferðarslysavarna, var ekki samþykkt. Þetta er eitt af þeim atriðum sem Umferðarráð hefur bent á sem raunhæfan lið í árangursríku starfi, að það hafi eitthvert fjármagn í höndum. Þetta frv., ef fram hefði gengið í fyrra, hefði þýtt um 8 millj. kr. tekjur til Umferðarráðs. Vil ég hér með spyrjast fyrir, — ég sé því miður að það er enginn ráðh. hér nú, það er hæstv. dómsmrh. sem hér átti hlut að máli, — hvort ekki sé ráð að leggja fram þetta frv. á ný.

Ég hef dvalið hér aðeins við 1. gr. af því að hún olli þrætum og andstöðu í fyrra. En ég endurtek: Ég vona að þær þrætur og andstæður verði ekki til þess að stöðva frv. allt nú. Ég vil benda sérstaklega á ákvæði, sem er raunar í 1. gr. einnig, um öryggishjálmana. Þar held ég að allir séu á einu máli, að það sé sjálfsögð varúðarráðstöfun að unglingar hafi öryggishjálm á höfði í akstri bifhjóla.

2. gr. frv., svo ég aðeins stikli á stóru, kveður á um endurnýjan skírteina. Endurnýjun skírteina hefur verið til þessa dags eitt ár. Hér er lagt til að hann verði tvö ár. Það er bent á að ungum ökumönnum er hættara við að lenda í slysum heldur en þeim eldri. Þeir aka ógætilegar og þeir telja sig færa í allan sjó eftir að þeir að einu ári liðnu frá ökuprófi hafa fullnaðarskírteini upp á 10 ár í vasanum. Hér er lagt til að þetta sé lengt í 2 ár.

3. gr. kveður á um próf, nokkurs konar upprifjunarpróf við endurnýjun fullnaðarskírteina. Það er minni háttar próf en sjálft ökuprófið, krossapróf sem á að rifja upp allar helstu umferðarreglurnar og gera ökumanninum þannig hæfari en ella til aksturs.

Í 4. gr. er fjallað um mistaka- og punktakerfið sem sennilega er merkasta ákvæðið sem þetta frv. hefur að geyma. Þetta mistaka- eða punktakerfi er í stuttu máli í því fólgið að það er haldin skrá yfir brot manna. Þau eru vegin og metin eftir því hvað alvarleg þau eru. Punktunum, sem myndast við hvert brot, er safnað saman og þegar náð er ákveðnum punktafjölda er ökumaðurinn beinlínis tekinn fyrir og könnuð hæfni hans og hann látinn ganga undir endurhæfingu og endurmat. Sem viðurlögum við of miklum og óhæfilegum umferðarbrotum er fyrst og fremst beitt ökuleyfissviptingu, og þessi grein rennir stoðum undir þá skoðun að ökuleyfissvipting sé áhrifamesta tækið til þess að bæta umferðarvenjur manna. Þetta kerfi er nú notað í öllum Bandaríkjunum, þar var það fyrst tekið upp, og í ýmsum Evrópulöndum, t. d. í Frakklandi, Þýskalandi, Svíþjóð, Sviss, að nokkru leyti í Englandi og einnig í Sovétríkjunum. Það má benda á að ökuferilsskrá hefur þegar verið haldin hér í Reykjavík og gefið mjög góða raun og haft ýmis jákvæð áhrif í umferðinni. Hér er lagt til að ökuferilsskráin nái yfir allt landið. Enginn vafi er á því, að þetta kerfi, ef framkvæmt yrði, og er raunar raun komin á það í öðrum löndum, er stórkostlega mikið til bóta til þess að auka öryggi í umferðinni og hæfni og ábyrgð ökumanna sjálfra.

Í 5. gr. er fjallað um ökuskóla. Ákvæðið hljóðar einfaldlega um það, að í stað þess að einn og einn maður hokri með sína ökukennslu, þá verði stofnaður allsherjarskóli þar sem þessir menn, sem nú kenna hver um sig, eigi aðgang að og njóti aðstöðu og löggildingu dómsmrh.

Ég vil leggja áherslu á að í frv. felst ekkert sem skerðir réttindi þeirra manna sem nú fást við þetta, þeir einfaldlega starfa með öðrum og skipulegri hætti. Ég vil líka benda á að ökukennarar hafa hingað til hér á landi haft margfalt minni starfsmenntun og starfsþjálfun heldur en viðast hvar annars staðar. Þannig er það t. d. í Noregi, að menn, sem ætla að kenna öðrum að aka, verða sjálfir að sitja heilt ár á skólabekk, áður en þeim er leyfilegt að kenna öðrum akstur.

Hér á landi munu nú á annað þúsund manns kenna akstur. En öll þessi starfsemi er í lausu lofti og þarf greinilega meiri skipulagningar og meiri festu við. Ég held að íslenskir ökukennarar séu á einu máli um að ökuskóli væri til bóta frá því sem nú er.

Í 6. og síðustu gr. er ákvæði, sem kannske er sérstaklega vert að benda á, en það fjallar um viðurlög við brotum á 1. gr., þ. e. a. s. um notkun öryggisbeita og öryggishjálina. Það er ekki gert ráð fyrir í þessu frv. að beitt verði sektum eða refsingum við brotum á þessum lögum. Þar höfum við að fordæmi Norðmenn. Norðmenn komust að þeirri niðurstöðu og raunar gagnmerkur aðili í umferðarmálum, sem nefnist Nordisk Trafiksikkerltedsråd, að refsingum skyldi ekki beitt í þessu tilfelli. Það væri ósanngjarnt að láta þið verða afleiðingu lagasetningar, sem fyrst og fremst er ætluð til að tryggja öryggi vegfarenda í umferðinni, að láta þá bíða fjárhagslegan hnekki við vanrækslu sína, jafnvel þótt tjóni valdi á ökutækinu og mönnum einnig. Á hinum Norðurlöndunum er refsingum beitt. Í þessu frv. höfum við hallast að skoðun norðmanna og ekki viljað taka upp fjársektir eða beinar refsingar við brotum á ákvæðum um notkun öryggisbelta og öryggishjálma. Hins vegar gæti þar að sjálfsögðu komið til beiting ökuleyfissviptingar sem þegar öllu er á botninn hvolft er sennilega hvað sterkasta aðhaldið fyrir menn að gæta gætni, varkárni og tillitssemi í umferðinni.

Ég held, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta frv. Ég ítreka enn að við skulum tala út um bílbeltin. Ég vil benda á það, eins og ég gerði síðast, að ég tel engan vafa á því að þetta er fyrst og fremst spurningin um vana. Sjálf var ég fyrir einu og hálfu ári stödd úti í Svíþjóð, hálfu ári eftir að bílbeltin voru lögleidd. Fólk í Svíþjóð sagði: Við bölvuðum hátt og í hljóði þegar þessu var skellt yfir okkur. Við erum hætt að taka eftir því nú eftir 6 mánuði. Og þannig hygg ég að raunin yrði einnig hjá okkur. En ég vil vona að hv. allshn., sem ég vil leyfa mér að leggja til að frv. verði vísað til, taki nú til höndunum og reyni að koma þessu máli áleiðis þannig að það geti orðið að lögum með vorinu.