03.02.1977
Sameinað þing: 45. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

87. mál, fiskimjölsverksmiðja í Grindavík

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég hef hlustað á þessar umr. með mikilli athygli. Þær hafa verið miklar og mjög nauðsynlegar að mínum dómi. Þó er eitt, sem mér finnst nokkuð athyglisvert, sem var komið hér inn á, og það er einmitt í nánu sambandi við þessa þáltill., hver eigi að vera eigandi að slíkri verksmiðju sé hún reist. Það er um að ræða annars vegar að Síldarverksmiðjur ríkisins byggi slíka verksmiðju eða að heimaaðilar eigi slíka verksmiðju. Ég hygg að það sé nauðsynlegt að menn velti því nokkuð fyrir sér.

Ég er í sjálfu sér ekki mótfallinn ríkisrekstri, á engan hátt, og er hlynntur honum í mörgum tilfellum. Ég hef þó fengið sannfæringu fyrir því, að það er rétt stefna að heimaaðilar eigi verksmiðjur sem þessar. Það eru margar slíkar verksmiðjur á Austurlandi, og það er alveg ljóst að þessar verksmiðjur hafa í mörgum tilfellum verið aflvaki áframhaldandi uppbyggingar. Sem dæmi má nefna Vopnafjörð. Síldarverksmiðjan þar var grundvöllur þess að þar voru keypt skip og síðan togari. Það má nefna fleiri staði, Eskifjörð t. d. og fleiri. Þess vegna held ég að það sé rétt að leggja á það áherslu að það er mjög nauðsynlegt — ekki aðeins með tilliti til þess sem rætt hefur verið um miðstjórnarvald — að slíkar verksmiðjur séu í eign heimaaðila, og að sjálfsögðu er best að slíkt sé félagsleg eign heima fyrir.

Það er nauðsynlegt að byggja upp fiskimjölsverksmiðjurnar, og það er mjög nauðsynlegt að staðið sé skynsamlega að þessari uppbyggingu. Það hefur viljað brenna við í okkar landi að við göngum nokkuð hressilega til verks þegar við tökum okkur eitthvað fyrir hendur, og það er í mörgum tilfellum mjög nauðsynlegt. En stundum hefur komið fyrir að við höfum gert mistök, eins og alltaf vill verða. Og við hljótum að líta til þeirrar reynslu sem við höfum í þessum málum, þegar við nú hyggjum að því að byggja upp fiskimjölsverksmiðjurnar og endurbæta þær. Það, sem við hljótum að taka tillit til fyrst og fremst, er að nýta þá fjárfestingu sem fyrir er í landinu, nýta hana sem best. En einnig hljótum við að hafa í huga að bæta atvinnuástand á þeim stöðum þar sem það er slæmt og liggja vel við loðnumiðum, spærlingsmiðum og kolmunnamiðum.

Vegna þess að hér hafa ýmsir staðir verið nefndir kemst ég ekki hjá því að minnast á einn stað þar sem hafnarskilyrði eru að vísu slæm. Það er Borgarfjörður eystri. Þar var byggð á árunum verksmiðja, ein af þessum 1200 mála verksmiðjum sem mun láta nærri að bræði um 150 tonn á sólarhring, og komst lítt í notkun. Það hefur verið selt úr þessari verksmiðju ýmislegt, eins og öðrum verksmiðjum sem voru lagðar niður, en ýmislegt er þó eftir og væri mikil lyftistöng fyrir þennan stað ef hægt væri að taka þessa verksmiðju í notkun. Mér er ljóst að þar eru erfiðleikar vegna hafnaraðstöðu. En þótt slíkir erfiðleikar séu fyrir hendi, þá er einnig ljóst að úr slíku má bæta að einhverju leyti með allmiklu þróarrými. Það er nú svo, að þegar veiði fer fram, þá kemur fyrir að blíðskaparveður er og þess vegna er hægt að koma inn á ýmsa staði allmiklu magni þótt hafnarskilyrði séu ekki eins og best verður á kosið.

Ég vil að lokum segja það, að síldin var uppistaðan og bjargvættur ýmissa staða á Norður- og Austurlandi og mönnum brá í brún þegar þessi fiskur hvarf. Það hefur tekið langan tíma að græða þau sár sem komu þegar Síldin hvarf. En ég hygg að það sé ljóst, að loðnan og áframhaldandi veiði á slíkum fiskum hafi gert gífurlegt gagn. Og það er full ástæða til að halda áfram á þeirri braut og hyggja vel að þessum verksmiðjum.