26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

241. mál, framkvæmd skattalaga

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Það er rétt hjá hæstv. fjmrh., að það getur hver sem er leitað réttar síns eða á að geta leitað réttar síns a.m.k., skulum við hafa það. En ef það ætti að ganga eins og gerst hefur á Vestfjörðum, þá hefðu dómsvöld, vil ég segja, ærinn starfa fyrir höndum, ofan á allt það sem fyrir liggur í þeirra höndum, í sambandi við þessi mál. En ég skal ekki tala frekar um það.

Ég ítreka það, að ég dreg mjög í efa að nokkrar samræmdar reglur séu til í þessu máli. Ég tel mig raunar vita það, að eitt skattumdæmi á landinu hefur sjálft sett sér þessar reglur og fer eftir þeim, hefur engar reglur til að fara eftir frá ríkisskattstjóra.

Ég ætla að lokum aðeins að taka það fram, að ég vil eindregið hvetja alla hv. þm. til þess að lesa ályktun Búnaðarsambands strandamanna sem fjallar um þessi mál. Og það skal vera mitt síðasta verk hér í ræðustól að afhenda hæstv. fjmrh. þessa ályktun til aflestrar, þannig að hann komist að raun um að hér er ekki allt með felldu þegar svona ályktun er send frá aðilum eins og þarna eiga hlut að máli.