15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2085 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

253. mál, sparnaður í rekstri Ríkisútvarpsins

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil nú leitast við að svara fyrirspurnum hv. þm.

Hv. þm. spyr í fyrsta lagi: „Hvert er aðalefni till. fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar um sparnað í rekstri Ríkisútvarpsins, sem nú liggja fyrir?“ Mér virðist þessi líður fsp. koma örlitið á skakk, að vísu ekki nema mjög lítið. Mér er nefnilega ekki kunnugt um að það liggi fyrir sérstakar sparnaðartillögur frá fjárlaga- og hagsýslustofnuninni sem slíkri. Hins vegar starfaði milliþn., eins og hv. fyrirspyrjandi vék að, og fjallaði um rekstur Ríkisútvarpsins, en hagsýslustjóri átti þar sæti og var raunar formaður n. Menntmrn. og fjmrn. skipuðu þessa n. sameiginlega, en nefndarskipunin kom í kjölfar aukinnar víðleitni fjárlaga- og hagsýslustofnunar til að efla samstarf á milli rn., fagráðuneyta og fjmrn„ og forstöðumanna hinna ýmsu stofna ríkisins, efla samstarf þeirra um ítarlega athugun á skipulagi og rekstri viðkomandi stofnana. Nál. var þar að auki út gefið á vegum fjmrn. svo að það skakkar nú ekki miklu um form fyrirspurnarinnar.

Þessi n. skilaði mjög ítarlegu nál. í stórri og mikilli bók í maí 1975 og hafði þá starfað í rösklega tvö ár. Það er náttúrlega allt of langt mál að skýra frá till. n. í einstökum atriðum hér og skilgreina hvað fyrirhugað er að gera í hverju einstöku atriði. Till. liggja auðvitað fyrir, og hv. þm. geta gluggað í nál. sjálft. En ég vil víkja að tveimur meginbreytingum sem í þessum till. felast.

Önnur meginbreytingin er sú að gerbreyta innheimtu afnotagjalda, hætta skráningu tækja og jafna afnotagjöldunum niður á alla greiðendur tekjuskatts, og ég mun aðeins víkja að þessu atriði í lok máls míns.

Hitt meginatriðið er nokkuð veigamikil skipulagsbreyting á yfirstjórn eða eins og segir í nál.: „að fá fjármáladeild í hendur eiginleg verkefni á sviði fjármálastjórnar á grundvelli fastmótaðrar áætlanagerðar og reglubundinna upplýsinga úr vel skipulögðu bókhaldi“. Það hefur þegar þokast nokkuð í áttina að þessu leyti og kemur það fram í því sem ég segi hér á eftir.

Að öðru leyti legg ég ekki í að rekja þessar till. í einstökum atriðum í tengslum við fyrri lið fsp.

En í öðru lagi spyr hv. þm.: „Hvað hyggst rn. gera til þess að framkvæma meginatriði þessara sparnaðartillagna“. Í svari við þessum lið fsp. koma hins vegar fram nokkur þau atriði, sem felast í till. milliþn., og ég vil þá nefna nokkur þessi atriði úr till. n. sem þegar hafa verið tekin til skoðunar og eftirbreytni að öllu eða að verulegu leyti. Ég vil geta þess, að þá styðst ég við bréf til menntmrn. frá útvarpsstjóra og hagsýslustjóra frá 8. mars s. l., þar sem að beiðni rn. er greint frá því hvað gerst hefur að þessu leyti.

Ég ætla fyrst að nefna nokkur almenn atriði: 1) Að útvarpsstjóri hafi endanlegt ákvörðunarvald þegar hann telur að dagskrárgerð leiði til kostnaðar sem fari út fyrir ramma fjárhagsáætlunar. 2) Starfssviði deildarverkfræðings tæknideildar Sjónvarps verði breytt í almenna umsjón tæknilegra mála Ríkisútvarpsins og samskipti við Póst og síma vegna dreifikerfisins. 3) Nokkrar skipulagsbreytingar á fjármáladeild og rekstrarskrifstofu Hljóðvarps sérstaklega. 4) Settar fastar reglur um meðferð beiðna frá dagskrárdeildum til bókunarskrifstofu og bókunarmanni fengið tiltekið ákvörðunarvald. 5) Að framkvæmdastjórar Hljóðvarps, Sjónvarps og fjármáladeildar annist öll starfsmannamál. Fjármáladeild annist samskipti við rn. vegna þessara mála.

Til greina hefur komið að ráða sérstakan starfsmannastjóra, ef það sýnist við nánari athugun en þegar hefur farið fram munu geta leitt af sér aukna hagkvæmni.

Þá skal ég nefna örfá atriði sem varða sjónvarpið sérstaklega. Þá nefni ég fyrst að haldið sé þeirri venju að setja reglur um hámarksverð á aðkeypt efni, að ekki verði að sinni komið upp öðru stúdíói, eins og raunar hafði komið til tals, að sérstakir forstöðumenn verði settir yfir kvikmyndadeild og upptöku- og útsendingardeild, jafnframt því sem verkfræðingur fái nýtt starfssvið.

Varðandi hljóðvarpið sérstaklega vil ég nefna þetta: Að haldið verði áfram að ráða dagskrárgerðarmenn tímabundið og gerðir verði þá fyrirframsamningar um sérstök verkefni, og að leiklistardeild sjái um allan leiklistarflutning í hljóðvarpi og þar verði komið á nokkru hagstæðara skipulagi en áður hafði verið.

Ég skal svo að lokum nefna nokkur atriði sem varða stofnunina í heild og hafa verið til meðferðar og til framkvæmda. Þá nefni ég fyrst aukið samstarf með fréttastofum Sjónvarps og Hljóðvarps, t. d. þegar senda þarf fréttamenn úr landi. Sérstök athugun á yfirvinnugreiðslum og bifreiðakostnaði stofnunarinnar. Athugun um hagræðingu við styttingu vakta og endurskipulagningu þeirra á grundvelli sérstakrar könnunar sem fram hefur farið á því efni. Og í síðasta lagi, að hætt sé að greiða ráðh., stjórnmálamönnum og opinberum starfsmönnum fyrir að koma fram í sjónvarpi og útvarpi nema við alveg sérstakar aðstæður.

Eins og sjá má af þessari upptalningu, sem ekki er tæmandi, — þetta eru aðeins dæmi sem hér hafa verið nefnd, — hefur verið unnið við framkvæmd mjög margra atriða sem auðvitað vega misjafnlega þungt í sparnaðarátt, en eiga þó að stuðla að auknum sparnaði og hagræðingu.

Ég vil að lokum rifja upp till. n. um innheimtu afnotagjalda, en þær voru á þessa leið: Afnotagjöld hljóðvarps og sjónvarps verði lögð niður. Upp verði tekið eitt þjónustugjald útvarps, þjónustugjaldið verði ákveðið árlega í fjárlögum, lagt á gjaldendur tekjuskatts og eignarskatts af skattstjórum og innheimt með opinberum gjöldum af innheimtumönnum ríkisins. Ríkissjóður ábyrgist skil þjónustugjaldsins til Ríkisútvarpsins með tíu því sem næst jöfnum greiðslum á ári, Innheimtudeild Ríkisútvarpsins yrði þá lögð niður.

Það hefur ekki verið ráðist í að framkvæma þennan annan veigamesta þátt nál. Eru ýmsar ástæður sem valda því að ekki hefur verið ráðist í að framkvæma þessar till. og ég get aðeins vikið að fáum atriðum af þeim sem þar koma til greina. Sumpart er þar um að ræða mína persónulegu skoðun, en fleiri eru sama sinnis. Ég tel óeðlilegt að þeir einir greiði fyrir útvarpsnot sem gjalda tekjuskatt ár hvert. Mér finnst það of þröng skilgreining á því. Tekjuskatturinn er nokkuð óstöðugur, og því tel ég að hann sé óheppilegur grundvöllur til að byggja á ákvörðun útvarpsgjaldanna. Væri hins vegar farið í nefskatt á miklu breiðari grundvelli en þarna er stungið upp á, þá tapast hins vegar sú hagræðing, sem stefnt er að í till., að nota við innheimtuna gjaldseðlana sem nú eru í gangi vegna tekjuskatts og útsvars.

Herra forseti. Ég er alveg að ljúka svari mínu. Ég vil enn nefna að í till. n. er gert ráð fyrir að hætta skráningu tækja, en nú þykir það nauðsynlegt, og talað er um að leggja hærra afnotagjald á litasjónvarpstæki en svarthvít tæki, en slíkir hættir gera nauðsynlegt að skráningu sé haldið áfram. Það er ýmislegt fleira sem mælir raunverulega með því að skráningu tækja sé haldið áfram að mínum dómi a. m. k. T. d. gæti komið til greina að ætla útvarpinu sérstakan tekjustofn af útvarpi til tiltekinna framkvæmdaliða. En ekki meira um þetta að sinni.

Ég vil að lokum aðeins geta þess, að þessi sparnaðar- og hagræðingarmál hafa verið rædd ítrekað milli Ríkisútvarpsins og rn. og hafa allmörg bréf farið á milli varðandi þetta efni. Verður að sjálfsögðu haldið áfram á þeirri braut að leita leiða til aukinnar hagkvæmni og sparnaðar í rekstri Ríkisútvarpsins, um leið og ég vona að nú verði unnt að hefjast handa um ýmsar þær framkvæmdir sem setið hafa á hakanum síðustu misserin, en alveg óhjákvæmilegt er að sinna ef unnt á að vera að halda í horfi með rekstur þessarar þýðingarmiklu þjónustustofnunar.